28.11.1967
Sameinað þing: 16. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (2776)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti, góðir hlustendur. Öðru hverju komast á kreik sögur af fljúgandi diskum, sem til jarðarinnar séu komnir frá öðrum hnöttum með hinar furðulegustu kynjaverur innanborðs. Af ræðunni, sem við nú heyrðum, mætti ætla, að þvílíkur furðufugl hefði brugðið sér í líki há. þm., Eysteins Jónssonar, því að tal hans einkenndist af algerum ókunnugleika á aðstæðum hér og þá einnig þeim nýju viðhorfum, sem skapazt hafa á síðustu misserum.

Þessi nýju viðhorf tóku að myndast á árinu 1966. Það var að vísu mikið aflaár í heild, útflutningstekjur meiri en nokkru sinni fyrr. Þó voru þorskveiðar þá erfiðar, afli mun minni en áður og verðlag á hraðfrystum fiski fór mjög lækkandi, þegar á árið leið. Síldveiðin var svipuð og 1965, en mikil verðlækkun á síldarafurðum, þegar á árið leið, og þó sveiflur mjög í verði. Af þessum sökum voru verðstöðvunarlög sett seint á árinu 1966. Vegna reynslu síðustu ára um hagfellda þróun á verði afurða landsmanna, höfðu menn þá von um, að einungis væri um tímabundna, skammvinna örðugleika að ræða. Þegar fram á árið 1967 kom og þó áður en útséð var um, hversu vetrarvertíð reyndist örðug, þegar gæftir voru svo lélegar að leita þarf til ársins 1914 til annars eins, þá sáu menn, að verðfallið mundi alvarlegra og varanlegra en þeir höfðu í upphafi vonað. Með þetta í huga tók ég í almennum stjórnmálaumr. hér á Alþ. hinn 11. apríl s.l. svo til orða, með leyfi hæstv. forseta:

„Á meðan við erum svo háðir sveiflum vegna afla og verðlags, sem raun ber vitni, er ógerlegt að segja fyrir um það, hverjum úrræðum þurfi að beita á hverri stundu, en frelsið mun lengst af reynast bezta leiðarstjarnan. Jafnframt ber að keppa eftir að draga úr ávissu og sveiflum, og verður það ekki sízt gert með því að skjóta fleiri stoðum undir efnahaginn, hagnýta allar auðlindir landsins“

Nokkrum dögum síðar var haldinn landsfundur sjálfstæðismanna, og var í stjórnmálayfirlýsingu hans hinn 23. apríl s.l. meðal annars sagt:

„Hið mikla verðfall á ýmsum helztu útflutningsafurðum sjávarútvegsins hefur þó leitt til verðlækkunar hráefnisins og þar með rýrt afkomu sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Ríkisvaldið hefur leitazt við að draga úr afleiðingum verðfallsins með auknum framlögum úr ríkissjóði til sjávarútvegsins á þessu ári, þótt slíkar aðgerðir geti að sjálfsögðu ekki vegið á móti svo gífurlegu verðfalli afurða veigamikilla greina sjávarútvegsins, eins og nú hefur orðið raunin á. Jafnhliða hefur með ákvörðunum um verðstöðvun verið gerð nauðsynleg ráðstöfun til að hindra hækkun rekstrarkostnaðar útflutningsatvinnuveganna. Áður fyrr hefðu jafnstórfelldir erfiðleikar atvinnuveganna samstundis valdið viðskiptahöftum, nýjum álögum og kjaraskerðingu almennings En vegna trausts fjárhags ríkissjóðs og gjaldeyrisvarasjóðsins, hefur til þessa verið hægt að ráða við þessa miklu erfiðleika án þess að skerða viðskiptafrelsi eða kjör almennings.“

Þessi var yfirlýsing sjálfstæðismanna hinn 23. apríl s.l.

Með þessum orðum mínum og yfirlýsingu landsfundarins er berum orðum gerð aðvörun um, að ef stórfelldir örðugleikar atvinnulífsins haldist, kunni að verða að skerða viðskiptafrelsi eða kjör almennings og ógerlegt sé að segja fyrir um það, hverjum úrræðum þurfi að beita á hverri stundu. Það er þess vegna síður en svo rétt, að við sjálfstæðis­ menn höfum fyrir kosningar gert lítið úr aðsteðjandi örðugleikum. Við lögðum þvert á móti áherzlu á. að mikil óvissa væri fram undan. Því miður reyndust þessar aðvaranir ekki að ófyrirsynju, og gat þó enginn í apríl séð fyrir þau áföll, sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir á þessu ári. Vegna aflabrests, verðfalls markaðslokana og söluerfiðleika telja fróðustu menn nú. að útflutningsverðmæti okkar muni á þessu ári vera 1/4—1/3 minna en það var á árinu 1966, og eru þó ekki þar með öll kurl komin til grafar, því að bæði vetrarvertíð og síldveiðar hafa sökum umhleypinga og fjarlægra miða orðið mun óhagstæðari fyrir sjómenn og útvegsmenn en minna aflaverðmæti einu nemur.

Nú erum við Íslendingar engan veginn óvanir miklum sveiflum í afkomu atvinnuvega okkar, en hvarvetna mundi þykja vá fyrir dyrum, ef slíkt bæri að í svo stórum stíl sem orðið hefur hér, jafnvel þótt í miklu öflugra þjóðfélagi væri en okkar. Engu að síður telzt svo mikil sveifla til minnkunar útflutningsverðmæta, sem nú hefur orðið, meðal fádæma í sögu þjóðarinnar, frá því að atvinnuvegir komust í nútímahorf.

Fram hjá afleiðingum þessa geigvænlega hnekkis komumst við ekki með nokkru móti, hversu illa sem þær koma við okkur. Í því skyni gagnar allra sízt uppvakning gamalla deilna, sem þjóðin er þegar fyrir löngu og margoft búin að kveða upp sinn dóm um. Að sjálfsögðu áttum við einnig við ýmsa örðugleika að etja á uppgangsárunum fyrir 1966. En styrkveitingar þá til einstakra atvinnugreina sanna ekki ótraustan efnahag, heldur voru nauðsynlegar til að jafna á milli vegna þess, hversu misjafnan arð atvinnugreinarnar gáfu, og þá einkum síldveiðar mun meiri en nokkur önnur. Og auðvitað er það rétt, að ef verðlag innanlands hefði haldizt óbreytt samtímis því, sem verðlag útflutningsins stórhækkaði, stæðum við nú ólíkt betur að vígi. En tal um þetta er nú gersamlega út í hött. Orsakir verðhækkana er hægt að rekja lið fyrir lið, ef menn fást til að sinna staðreyndum, gagnstætt því, sem hv. þm. Eysteinn Jónsson gerir. Afurðaverð er nú mjög svipað og á árinu 1964, en síðan þá og til 1. okt. 1967 hafa kauptaxtar verkafólks og iðnaðarmanna að heildarmeðaltali hækkað um 45% og kaupmáttur tímakaups hækkað um 17%. Ef kaupgjaldið lækkaði nú sem þessari hækkun nemur, mundi afkoma atvinnuveganna vissulega vera betri en nokkru sinni fyrr. Engum kemur þvílík skerðing lífskjara til hugar. Aðalatriðið er, að tekjum útflutningsatvinnuveganna hefur jafnóðum með margvíslegu móti verið dreift út um allt þjóðfélagið til hvers einstaks þjóðfélagsþegns í bættum lífskjörum. Einmitt þess vegna verður nú ekki komizt hjá nokkurri lífskjaraskerðingu.

Það er rétt, að í framtíðinni mundi það draga úr slíkum sveiflum eða afleiðingum þeirra. ef við værum í Fríverzlunarbandalaginu eða næðum viðhlítandi samningum við Efnahagsbandalagið, þó að við getum ekki orðið fullkomnir aðilar þess, Eins er það okkur höfuðnauðsyn að nýta allar auðlindir landsins til að skjóta fleiri stoðum undir efnahag og atvinnu landsmanna til aukins jafnvægis og stöðugleika. En þótt ótrúlegt sé, standa um þetta harðar deilur, eins og heyra mátti af ummælum hv. þm. Eysteins Jónssonar. Hv. stjórnarandstæðingar berjast hatrammlega á móti öllum þessum ráðstöfunum eða reyna að gera þær tortryggilegar, og hefur okkur þó nú þegar orðið ómetanleg stoð af atvinnunni og tekjunum, sem fengizt hafa við virkjun Búrfells og byggingu álbræðslu. Með þessum aðgerðum er vísað á veginn til að hindra jafnmiklar sveiflur í framtíðinni, en enn komumst við ekki hjá að taka afleiðingum af okkar einhæfa atvinnulífi, og þess vegna er ekki unnt að skjóta sér undan ráðstöfunum til að koma í veg fyrir, að minnkun útflutningsverðmæta um allt að 1/3 leiði til öngþveitis og varanlegra örðugleika Þó að viðbrigðin séu mikil, er íslenzkt þjóðfélag nú, sem betur fer, svo efnum búið, að það getur tekið á sig þessi áföll, ef rétt er við brugðizt, og þó að menn þurfi nokkuð að þrengja að sér í bili, geta allir búið við rýmri kjör en almenningur naut fram á miðjan þennan áratug.

Með engu móti fær staðizt, þegar sagt er,

að verið sé að svíkja júní–samkomulagið 1964 með tillögugerð okkar á frv. um efnahagsaðgerðir og nú með lagasetningunni um verðlagsuppbót og vísitölu. Júní–samkomulagið var einungis gert til eins árs og auk þess háð skilyrðum um meiri takmarkanir á grunnkaupshækkun en raun varð á. Og þegar verðtryggingarfrv. var lagt fyrir Alb. í okt. 1964, sagði ég orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

.,Á sínum tíma var það skýrt fram tekið. að skuldbinding um gildi þessara I. gilti að sjálfsögðu ekki lengur en þeir samningar eða samkomu lag, sem frv. byggist á. Það þótti hins vegar ekki ástæða til þess að hafa neinn slíkan gildistíma ákveðinn í frv. sjálfu. Það verður að fara eftir aðstæðum, viðhorfum á hverjum tíma, hvað í þessum efnum er ákveðið.“

Og síðar segi ég orðrétt:

„Vísitalan veitir launþegum að vissu leyti tryggingu, það er óumdeilanlegt, en hins vegar hefur hún hættur í sér fólgnar varðandi of öran verðbólguvöxt, sem einnig kemur niður á launþegum eins og öðrum landsmönnum. Það er þess vegna hvorki hægt að segja, að verðtrygging eða vísitala skuli undir öllum kringumstæðum vera lögboðin né heldur, að algert bann við þessu skuli að staðaldri vera í I. Það verður að fara eftir ástandi og horfum í efnahagsmálum hverju sinni, hvað tiltækilegt þykir í þessum efnum.“

Þetta sagði ég í okt. 1964 í þessum sama ræðustól. Allir, sem að gerð júní-samkomulagsins stóðu, vita, að þessi orð mín í okt. 1964 eru sannleikanum samkvæm, enda var á sínum tíma engin aths. gerð við þau, þegar þau voru sögð í áheyrn helztu samningamanna af hálfu ASÍ. Till. okkar um verðtryggingu nú og vísitölu eru einmitt í fullu samræmi við það, sem ég sagði á þessum tíma og um var samið 1964.

Ríkisstjórnin hefur í öllum aðgerðum sínum og till. lagt á það höfuðáherzlu að vernda gengi íslenzku krónunnar. Þar hefur á stundum verið við ramman reip að draga. Sterk öfl hafa leynt og ljóst stefnt að því að knýja fram gengislækkun, og þá hafa stundum þeir höggvið, er hlífa skyldu. Hv. þm. Ólafur Jóhannesson, sem þá hafði til skamms tíma verið bankaráðsmaður í Seðlabankanum, sagði t.d. í almennum stjórnmálaumr. á Alþ. hinn 11. maí 1965, orðrétt:

„Nú óttast margir og ekki að ástæðulausu, að ríkisstj. muni grípa til þriðju gengisfellingarinnar á komandi hausti. Vegna þess, sem á undan er gengið, duga því miður ekki yfirlýsingar hæstv. forsrh. til að eyða þeim grunsemdum.“

Þetta sagði Ólafur Jóhannesson þá, fyrrv. seðlabankaráðsmaður, og sízt voru þau ummæli hans löguð til þess að styrkja traust á krónunni. Þetta sagði hann einmitt á því ári, þegar þorskvinnslan og þó einkum hraðfrystiiðnaðurinn, sem síðustu misseri hefur átt við mesta örðugleika að etja, þegar þessi sami iðnaður hlaut þann mesta gróða, sem hann nokkurn tíma hefur hlotið í allri sinni sögu, og þegar síldarvinnslan var þó enn arðhærari.

Sumir menn hafa aldrei séð annað ráð, hvernig sem á stendur, en gengisfellingu. Af því tilefni sagði ég hinn 12. des. í fyrra til svars við fsp, hv. þm. Hannibals Valdimarssonar:

„Núverandi ríkisstj. kemur ekki til hugar að fella gengið. Það er að vísu rétt, að þannig getur staðið á í þjóðfélagi, að það sé nauðsynlegt að fella gengi, eins og dæmin sýna bæði hér og annars staðar. Það væri auðvitað alveg fásinna, ef ég ætlaði að segja, að aldrei kæmi til mála að fella gengi á Íslandi.“

Síðar sagði ég í sömu ræðu:

„Hitt segi ég, og við það skal ég standa, að ég skal aldrei vera með gengislækkun framar, nema því aðeins, að ráðstafanir verði gerðar til þess, að þeir, sem ætla sér að knýja fram gengislækkun til þess að græða á henni sjálfir, fái að borga sinn brúsa fyllilega.“

Þetta voru orð mín 12. des. í fyrra. Það er óhagganleg sannfæring mín, að ekki megi láta undan ásókn braskara, hvort heldur í stjórnmálum eða fjármálum, um gengislækkanir og verður að hindra, að þeir hagnist á sinni óhugnanlegu iðju.

Ég hef æ ofan í æ mælt gegn ótímabærri gengislækkun. Allt annað mál er, eins og ég hef ætíð gert fyrirvara um, að stundum getur staðið svo á að gengislækkun sé óumflýjanleg. Í framsöguræðu minni um efnahagsaðgerðirnar í haust sagði ég t.d. orðrétt:

„Ég hef lýst yfir því oft áður, að vitanlega væri það fásinna af nokkurri ríkisstj. að lýsa yfir því, að gengislækkun kæmi aldrei til greina.“

Þetta sagði ég þá. Hins vegar taldi ég, að gengislækkun bæri að forðast, eins og aðstæður voru þá. En þær aðstæður gerbreyttust, þegar Bretar ákváðu gengislækkun pundsins, og er út af fyrir sig enginn ágreiningur um það. Eins er óþarfi að deila um, að lækkun krónunnar nú stafar af fleiri ástæðum en lækkun pundsins. Úr því að til gengislækkunar varð að grípa á annað borð, var einsætt að ráða á þann hátt fram úr þeim vandræðum, sem tekjuhrapið á útflutningsvörum hefur skapað. Þá var einnig eðlilegt að skapa atvinnuvegunum svo mikið svigrúm, að þeir m.a. gætu staðið undir kauphækkun vegna verðhækkananna nú að undaförnu. Með þessu eykst verðbólguhætta raunar, en úr henni er jafnframt dregið með því, að sjálfvirk vísitöluhækkun kaups verður ekki lengur lögboðin, að minnsta kosti á meðan áhrif gengislækkunarinnar eru að koma fram. Enginn hefur gerzt talsmaður þess að lögbinda grunnkaup, og þá er eðlilegast, að allt kaupgjald sé háð frjálsum samningum aðila. Úrslitum ræður, að unnt er að hefja nýtt tímabil án stórátaka með þeim hug ábyrgra aðila. sem gefur von um, að þessi tilraun takist. Og er þó nú þegar ljóst, að til eru þeir, sem leggja ofurkapp á, að illa fari. Á Alb. má nú heyra daginn út og daginn inn stöðugar ögranir frá hv. framsóknarþm. og línukommúnistum til verkalýðsins um að slaka hvergi á kröfum.

Eins og ég segi, er atvinnuvegunum nú skapað aukið svigrúm og mun rýmra en ef till. ríkisstj. í frv. um efnahagsaðgerðir hefðu ekki reynzt óframkvæmanlegar, vegna okkur óviðráðanlegrar atburðarásar. Þetta er gert með tilflutningi tekna frá öðrum þjóðfélagsaðilum til atvinnuveganna. Á fyrsta stigi er gengislækkun því öllum almenningi óhagstæð­ ari en hinar upphaflegu till. ríkisstj. En hætta á samdrætti og atvinnuleysi verður minni, og sannarlega eigum við öll afkomu okkar og lífskjör undir blómlegum atvinnuvegum. Hættan á margvíslegum verðhækkunum er hins vegar miklu meiri, og strangt verðlagseftirlit er óhjákvæmilegt, jafnframt því sem treysta verður þjóðhollustu allra um að gæta nú hófs um kröfugerð. Í því skyni að eyða tortryggni um verðlagsákvarðanir hefur ríkisstj. beitt sér fyrir nýrri skipan verðlagsnefndar, og var sú upphaflega till. upphaflega flutt af fulltrúum Alþýðusambandsins. Viðurkennt er, að leita þarf allra skynsamlegra ráða til að létta byrðum af þeim, sem lakast eru staddir. Auðvitað hlýtur undirbúningur slíkrar tillögugerðar að taka nokkurn tíma og er þá þess að gæta, að gengisbreytingu ber nú allt öðruvísi að en oftast áður, þegar þær hafa verið undirbúnar mánuðum saman. Nú hafa einungis örfáir dagar verið til stefnu. Gengislækkunin má ekki verða til þess, að skotið sé á frest ýmsum endurbótum, sem nauðsynlegar eru í atvinnuvegum okkar, svo sem nýskipan hraðfrystiiðnaðarins og nýtingu fiskveiðilandhelginnar í samræmi við till. vísindamanna.

Þótt gengislækkun hafi nú reynzt óhjákvæmileg, mun það því miður sannast, sem ríkisstj. hefur ætíð talið, að því fer fjarri, að hún leysi allan vanda, samfara því, sem hún tvímælalaust vekur upp ýmis ný vandamál. Úr þeim vandamálum verður jafnóðum að ráða, eftir því sem efni standa til, og reynir þá mest á sáttfýsi og samstarfsvilja.