28.11.1967
Sameinað þing: 16. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (2782)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Stjórnarandstaðan hefur borið fram vantraust á ríkisstjórnina og vill koma henni frá völdum. Ekki gera stjórnarandstæðingar sér grein fyrir því, hvað við á að taka, ef núv. ríkisstj. legði niður völdin. Það er talað um að breyta þurfi um stefnu í þjóðmálunum án þess að nokkur jákvæð stefna komi fram hjá stjórnarandstöðunni. Hin leiðin er ekki lengur nefnd og jákvæða Ieiðin, sem talað var um á s.l. vori, því síður. Það er þó ljóst, að það, sem helzt má greina í málflutningi framsóknarmanna og Alþb.manna, er, að þeir gera tilraunir til að þyrla upp blekkingum og loforðum til handa öllum stéttum, sem fyrirsjáanlegt er, að ekki verður staðið við. Kom þetta sérstaklega, fram í ræðum Eysteins Jónssonar og Ingvars Gíslasonar hér áðan.

Íslendingar eru fámenn þjóð í stóru Iandi. lífskjörin hafa um aldaraðir verið erfið og atvinnuvegirnir fram á síðari áratugi verið frumstæðir og mjög getulitlir. Einangrun, harðindi og fátækt hafa lengi haldið þjóðinni í heljargreipum. Tímarnir hafa breytzt, með því að tæknin hefur verið tekin í þjónustu landsmanna. Tæknin hefur aukið afköstin og framleiðsluverðmætin. Lífskjörin hafa batnað og fjármagn myndazt í landinu, sem notað hefur verið í auknum mæli til framkvæmda og uppbyggingar. Þrátt fyrir margvíslega möguleika, sem landið hefur, er augljóst, að fámenn þjóð verður að gæta þess að haga framkvæmdum og efnahagsmálum í samræmi við staðhætti og fjárhagslega getu. Stjórnmálin hér á landi hafa frá því, að landsmenn fóru að ráða málum sínum sjálfir, snúizt um það, á hvern hátt lífskjör almennings yrðu helzt bætt og hvernig bezt mætti ná árangri í framfaramálum þjóðarinnar. Þótt oft hafi orðið mistök, eins og skiljanlegt er, verður að viðurkenna, að margt hefur vel tekizt og að framfarirnar hér á landi hafa orðið ótrúlega miklar á þeim áratugum, sem Íslending­ ar hafa farið með sín eigin mál. Við erum stolt af því að búa við lýðræði og þingræði, og til þess er ætlazt að meiri hlutinn megi ráða. Kosið er til Alþ. ekki sjaldnar en á 4 ára fresti, og ríkisstj. koma og fara. Allar ríkisstj. munu fá sinn dóm í stjórnmálasögu þjóðarinnar. Sú ríkisstj., sem nú situr, mun ekki verða undanskilin.

Núv. ríkisstj. var mynduð til þess að reisa við efnahag landsins, eftir að vinstri stjórnin á árunum 1956—58 hafði vegna rangrar stjórnarstefnu komið efnahag landsins í rúst. Þjóðin hafði glatað traustinu út á við og hafði ekki gjaldeyri fyrir brýnustu lífsnauðsynjum. Sú saga er kunn og verður því ekki rakin hér. Það skal þó vakin athygli á því, að á árunum 1957 og 1958 var ekki aflatregða, það var miklu frekar uppgripaafli á þeim árum. Það var ekki verðfall á heimsmarkaðnum á íslenzkum afurðum, en það var úrræðalaus stjórn, sem stýrði eftir rangri stefnu, og þess vegna misheppnaðist flest af því, sem þessi ógæfusama ríkisstj. reyndi að framkvæma. Það var seint á árinu 1959, sem núverandi stjórnarflokkar tóku höndum saman og mynduðu ríkisstj. til þess að bjarga atvinnuvegunum og vinna að viðreisn þjóðarinnar. Gengislækkunin, sem var lögfest í ársbyrjun 1960, var ekki vegna verðlækkunar og aflabrests, hún var ekki gerð vegna þess, að sterlingspundið eða önnur mynt í mikilvægu viðskiptalandi Íslendinga hefði verið felld. Gengisfellingin 1960 var lögfest vegna þess, að vinstri stjórnin hafði gengið þannig frá málunum, að krónan var fallin, þó að það hafi ekki fengizt viðurkennt af þáverandi valdhöfum, sem höfðu búið til 20 misjöfn gengi á krónunni, en þá fékkst hún heldur hvergi skráð í erlendum bönkum. Eftir að krónan hafði verið skráð á réttu gengi 1960, var hafizt handa um uppbyggingu atvinnulífsins. Unnið var að því að tryggja landsmönnum nægilega atvinnu og bæta lífskjörin, eftir því sem unnt reyndist.

Öllum, sem vilja líta hlutlaust á þróunina síðustu 8 árin, mun vera ljóst, að uppbyggingin hefur á engu tímabili í þjóðarsögunni verið jafnmikil og á þessum tíma. Lífskjörin hafa þrátt fyrir dýrtíðina, sem svo oft er talað um, aldrei verið jafnari eða betri en á þessu tímabili. Allur almenningur hefur getað veitt sér mun meira á þessum árum en nokkru sinni áður. Kaupmáttur launa hefur aukizt á árunum 1960—1967 um 23.4%. Kauphækkunin hefur vitanlega verið miklu meiri og talsverður hluti hennar farið til að mæta verðhækkunum á þeim nauðsynjum, sem ávallt verður að kaupa. Kaupmáttur launanna jókst, vegna þess að framleiðslan hafði aukizt og atvinnuvegirnir létu meira af hendi til launþeganna en það sem nam verðlagshækkununum. Framleiðslan jókst, vegna þess að stjórnarvöldin stuðluðu að því, að atvinnuvegirnir eignuðust afkastamikil tæki og tækju tæknina í þjónustu sína. Á þessum tíma hefur verið kappkostað að auka framleiðni og hagræðingu, til þess að atvinnuvegirnir væru færari um að greiða hærra kaup og veita launþegum betri kjör.

Í sjávarútveginum hefur verið unnið að stækkun fiskiskipaflotans, og í hefur þess vegna verið mögulegt að stunda síldveiðar fjarri heimamiðum, eins og verið hefur á síðustu árum. Árið 1960 var rúmlestatala fiskiskipa 23335 brúttólestir, en 1967 60611 brúttólestir. Aukningin er 37276 rúmlestir brúttó eða 160%. Samtímis þessu hafa verið reist fiskiðjuver og verksmiðjur til þess að nýta aflann. Það er þó ljóst, að mikið verkefni er óunnið í því skyni að hagnýta sjávaraflann betur og gera hann varðmætari á erlendum markaði.

Landbúnaður hefur á undanförnum 8 árum verið í mikilli framför. framleiðslan hefur stóraukizt, þótt bændum hafi fækkað nokkuð. Þannig hefur mjólkurframleiðslan aukizt um 46.8% og kjötframleiðslan um nærri 20%. Byggingar í sveitum hafa aldrei verið meiri en á þessu tímabili. Ræktunin hefur verið 4—6 þús. ha árlega síðan 1960, en var á áratugnum 1950—60 2500 ha að meðaltali. Kjör bænda hafa batnað verulega og aldrei verið nær því en á þessu tímabili að vera í samræmi við kjör annarra stétta. Munu margir bændur hafa brosað, þegar Eysteinn Jónsson talaði hér áðan um það, að landbúnaðurinn væri hornreka hjá ríkisstj. og munu þeir þá hafa minnzt ráðsmennsku Eysteins Jónssonar í landbúnaðarmálum.

Kjör bænda eru mjög misjöfn, eftir því hvar þeir búa. Hagstofan hefur gert skýrslu um meðaltekjur bænda í hverri sýslu 1965 og í þeirri skýrslu kemur tekjumismunurinn greinilega fram. Í þeirri sýslu, sem hefur hæst meðaltal, eru nettótekjur 257 þús. kr., en í þeirri sýslu, þar sem meðaltekjur bænda eru lægstar, aðeins 156 þús. Í mörgum sýslum eru meðaltekjurnar talsvert hærri en tekjur viðmiðunarstéttanna, en í öðrum venjulega lægri, og verður landsmeðaltalið því mjög mörg árin nokkuð undir þeim tekjum, sem viðmiðunarstéttirnar, verkamenn, iðnaðar- og sjómenn, hafa.

Þetta er vitanlega mikið vandamál, sem erfitt er að finna lausn á. Ljóst er, að þetta misræmi verður ekki lagað með því einu að hækka verð á landbúnaðarafurðum. Hætt er við, að búin séu of lítil hjá mörgum bændum og geti ekki gefið viðunandi tekjur, auk þess sem ræktunar- og afkomuskilyrði á mörgum jörðum eru ekki góð. Forustumenn bændasamtakanna hafa gert sér grein fyrir þörfinni á því að taka þessi mál til gaumgæfilegrar athugunar. Talsvert hefur verið gert til þess að reyna að bæta úr misræminu. m.a. með því að veita hærri jarðræktarframlög til þeirra, sem minni ræktun hafa. Þá hefur verið stofnaður jarðakaupa- og framleiðnisjóður landbúnaðarins, sem er ætlað að koma að gagni í þessum efnum. Lánasjóður landbúnaðarins verður ekki fyrir skakkaföllum vegna gengisbreytingarinnar, eins og á dögum Framsóknar. Stofnlánadeildin mun halda áfram að eflast og tryggja áframhaldandi framkvæmdir í landbúnaðinum.

Iðnaður er ekki gamall að árum á Íslandi. en hefur eigi að síður mikilvægu hlutverki að gegna og mun í náinni framtíð taka til sín fjölda manna. Iðnaðurinn hefur á ýmsan hátt átt í erfiðri samkeppni við erlendan iðnvarning, en mun komast yfir þá erfiðleika. eftir því sem framleiðnin og tækniþróunin vex í þessari atvinnugrein.

Iðnaðurinn þarf mikla raforku. Virkjun Þjórsár við Búrfell er stórvirkjun, sem gefur Landsmönnum lægra raforkuverð en orðið hefði með því að virkja í litlum áföngum, eins og áður. Skilyrði fyrir stórvirkjun var að tryggja sölu á nægilega stórum hluta orkunnar. Það var gert með því að gera samning við Svisslendinga um orkukaup til álbræðslunnar. Með því að haga framkvæmdum þannig getur raforkuverð til landsmanna orðið allt að 60% lægra en ef Þjórsá hefði verið virkjuð í litlum áföngum. Stjórnarandstæðingar sögðust vilja virkja við Þjórsá, en þeir voru á móti því að virkja á ódýran hátt, þeir voru á móti álbræðslu, þeir voru á móti því að byggja kísilverksmiðju við Mývatn, og þeir voru á móti stórvirkjun. Við Búrfellsvirkjun vinna nú 410 íslenzkir starfsmenn og við Straumsvík 260 og í Kísiliðjunni um 30 eða alls 700 manns við þessar framkvæmdir. Við Kísiliðjuna munu síðar verða allt að 100 starfsmenn. Hætt er við, að erfitt hefði verið að finna atvinnu fyrir alla þessa menn, ef ekki hefði verið ráðizt í allar þessar framkvæmdir.

Það er nauðsyn, og það má segja, að skylt sé að haga málum þannig, að allir, sem geta unnið, geti fengið atvinnu. Á vinnumarkaðnum fjölgar nú árlega um 1500 manns. Þjóðin verður að notfæra sér auðlindir landsins, hafsins, gróðurmoldarinnar, vatnsaflsins og jarðhitans. Það er sjálfsagt að hafa það hugfast, að til þess að ekki komi til atvinnuleysis, verður að vera stöðug uppbygging í atvinnurekstri þjóðarinnar, það þarf stöðugt aukin tæki og nýjar atvinnugreinar, sem geta tekið við þeirri fjölgun, sem á vinnumarkaðinn kemur.

Um það leyti, sem rætt var um samninga um álbræðsluna, var því stundum haldið fram, að hún gæti tekið of margt fólk frá atvinnuvegunum. Þetta er vitanlega reginmisskilningur. Álbræðslan mun ekki nota nema um 500 manns og er því ekki til baga fyrir innlenda atvinnuvegi, en álbræðslan verður þýðingarmikil fyrir þjóðarbúskapinn eigi að síður. Auk þess sem hún gerir verð á raforkunni mun ódýrara en ella hefði orðið, mun þjóðin árlega hafa allmiklar gjaldeyristekjur frá þessu fyrirtæki. Árlegar tekjur af verksmiðjunni munu verða allt að 100 millj. kr. á ári og gjaldeyristekjur vegna verksmiðjunnar allt að 500 millj. kr. á ári. Af tekjum verksmiðjunnar renna árlega tugir millj. í framkvæmdasjóð strjálbýlisins til uppbyggingar víðs vegar um land. Frá álverksmiðjunni fæst mikilvægt hráefni til margs konar iðnaðar, sem mun festa rætur hér á landi.

Aðrar atvinnugreinar, svo sem flug og siglingar, eru nú mjög þýðingarmiklar og veita þúsundum manna atvinnu. Ef rétt er á haldið, ætti að geta orðið mikil aukning ú þessum þáttum atvinnulífsins á næstu árum.

Í vega- og hafnarmálum hafa verið gerð stórátök á undanförnum árum. Framkvæmda­ fé til vega hefur aukizt um 550% á síðustu 8 árum, en vegagerðarkostnaður hefur aukizt á sama tíma um 100%. Eigi að síður þarf hér meira að gera, þar sem uppi eru kröfur um bætta vegi og að varanlegt slitlag verði sett á hraðbrautir.

Eins og áður er sagt, hafa undanfarin 8 ár verið tímabil framkvæmda og athafna. 1960—66 hefur verið byggt íbúðarhúsnæði yfir 40 þús. manns, en fólksfjölgunin á þessum árum hefur verið aðeins tæplega 20 þús. Mun aldrei áður hafa verið gert svo stórt átak í húsnæðismálum sem á þessu tímabili. Þessar miklu framkvæmdir voru mögulegar, vegna þess að atvinna var nægileg fyrir alla, sem vildu vinna. Tekjur þjóðarbúsins jukust með bættum atvinnutækjum, kaupmáttur launanna var meiri, vegna þess að stór hluti af arði atvinnuveganna var greiddur til launþeganna. Á miðju ári 1966 dró bliku á loft, þar sem verðfall varð mikið á útflutningsafurðum þjóðarinnar. Þetta verðfall hefur haldizt og aukizt á ýmsum vörum. Við verðfallið hefur það bætzt, að aflinn er miklu minni en hann var árin 1965 og 1966. Má því segja, að aflatregðan og verðfallið komi mjög þungt niður á þjóðarbúskapnum. Er talið, að tekjumissir þjóðarbúsins á yfirstandandi ári verði um 30% miðað við s.l. ár. Af þessum sökum hefur síðustu vikurnar verið rætt um kjaraskerðingu og erfiðleika atvinnuveganna.

Ríkisstj. reynir með ýmsum ráðum að stuðla að því, að kjaraskerðingin verði sem minnst. Þess vegna hafa sérstaklega verið athugaðir möguleikar á að bæta fyrir þeim, sem verst eru settir, með því að hækka tryggingabætur á elli- og örorkulífeyri ásamt bótum til barn­ margra heimila. Þá eru einnig í athugun fleiri hliðarráðstafanir til þess að milda áhrif gengisbreytingarinnar.

Gangi sterlingspundsins var fellt. Allir eru sammála um, að Íslendingar, sem selja mikið á brezkan markað og til þeirra landa, sem hafa gengisskráningu í samræmi við pundið, gátu ekki annað en breytt krónunni, eftir að Bretar höfðu Iækkað gengið. Ríkisstj. taldi eðlilegt að stíga sporið nokkru stærra til þess að skapa útgerðinni þann rekstrargrundvöll, sem gerði henni mögulegt að starfa án styrkja úr ríkissjóði. Til þess að gengisbreytingin nái tilætluðum árangri, þarf að gera það, sem unnt er til þess að halda rekstrarkostnaðinum niðri og vinna gegn því, að verðlag hækki umfram það, sem brýnasta nauðsyn krefur.

Með því gengi, sem nú er í gildi, batnar aðstaða hjá útflutningsatvinnuvegunum í sam­ keppni við erlenda aðila. Atvinna mun örvast í landinu, og atvinnuleysi ætti að vera útilokað. Uppbygging atvinnuveganna getur haldið áfram og lífskjörin farið batnandi á ný. Það er ástæða til að ætla, að þjóðin geri sér fulla grein fyrir því, að afkoma hvers einstaklings og heildarinnar fer eftir því, hvernig atvinnuvegunum vegnar og hvernig viðskiptakjörin eru út á við. Sá skilningur mun nú vera fyrir hendi, að þeir, sem vinna að framleiðslunni. eigi að bera úr býtum eins mikið og gjaldgeta atvinnuveganna leyfir. Það verður einnig að ætla, að reynslan hafi kennt, að til ófarnaðar leiðir, ef lengra er gengið í kröfum á hendur atvinnuvegunum en þeir geta staðið undir.

Ríkisstj. hefur unnið að því að skapa skilning á milli stéttanna, milli atvinnurekenda og launþega. Það er von allra, sem vilja þjóðarheill, að gagnkvæmur skilningur megi verða fyrir hendi í atvinnumálum þjóðarinnar, svo að í framtíðinni verði byggt hér upp traust athafnalíf og örugg atvinna. Þá þarf ekki að efast um, að efnahagur þjóðarinnar verður góður og að lífskjör almennings í landinu muni fara batnandi og verða eins og þau bezt gerast hjá öðrum menningarþjóðum. Þjóðin vill ekki vinstristjórnarforustu til valda, menn. sem ekki virðast hafa neitt lært síðan þeir fóru með völdin. Vantrauststillagan verður því felld til huggunar þeim, sem vilja áframhaldandi framfarir og uppbyggingu í landinu.