31.01.1968
Sameinað þing: 32. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (2861)

71. mál, lækkun tolla á efnum og vélum til iðnaðarins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru örfá orð í sambandi við þessa þáltill., sem ég vildi láta koma fram. Ég er í fyrsta lagi sammála hv. 1. flm., að þessi till. sé efnislega ekki óþörf, vegna þess að fram kunni að koma breyt. á tollalögum frá ríkisstj., sem eru í beinum tengslum við gengisbreytinguna. Í sambandi við hinar fyrirhuguðu tollabreytingar, sem ég skal ekki fara inn á og síðar koma ef til vill til umr hér í þinginu, var því lýst yfir af hálfu fjmrh. fyrir hönd ríkisstj., að svo miklu leyti sem ríkissjóður hefði tekjur afgangs vegna gengisbreytingarinnar,— m.ö.o. að það væri hægt að falla frá uppbótum eða styrkjum, hvort heldur sem menn vilja nú kalla það til sjávarútvegsins vegna hennar, — mundi ríkisstj. verja þeim fyrst og fremst til þess að hafa áhrif á verðlagið innanlands í þá átt að draga úr kjaraskerðingu almennings með lækkun tolla á ýmiskonar almennri neyzluvöru í landinu. Þá kom einnig fram af hálfu iðnmrh. fyrir hönd ríkisstj., að gæta yrði þess í sambandi við þessar ráðagerðir, að iðnaðurinn kæmi ekki til með að standa verr að vígi en hann stóð eða hefði staðið fyrir tollabreytingar af þessu tagi. Í endurskoðun á tollskránni í sambandi við gengisbreytinguna voru þessi sjónarmið höfð í huga þ.e. áhrifin á verðlagið sem tollabreytingin gæti haft gagnvart almenningi, geta ríkissjóðs og aðstaða iðnaðarins. En það eru, eins og fram kemur í grg. þessarar till. og ræðu hv. 1. flm., ýmis sératriði, sem snerta iðnaðinn af öðrum ástæðum í sambandi við tollalöggjöfina og það verður mönnum að vísu ljósara nú en þeim hefur oft verið áður, þegar menn sjá svo berlega hversu valtur eða ótraustur okkar aðalatvinnuvegur, sjávarútvegurinn, er. Við höfum að vísu oft áður séð léleg aflabrögð og verðfall á sjávarafurðum, en einmitt vegna þess sjáum við hversu mikla þýðingu hefur almenn efling iðnaðar í landinu sem höfuðatvinnugreinar, til þess m.a. að taka á móti þeirri miklu áætluðu fólksfjölgun, sem gert er ráð fyrir hjá okkur Íslendingum á komandi áratugum, því að jafnframt þessu hefur verið réttilega bent á, að hvað sem líði nú aflabrögðum frá ári til árs og við skulum segja árferði, gæftum og öðru slíku, væri uppi viss ótti, sem ef til vill og vonandi er ekki eins ástæðumikill og sumir hafa haldið um að við værum alvarlega farnir að ganga á okkar fiskistofna. Þess vegna væri lítið um það að ræða að bæta hag okkar af útgerðinni í framtíðinni bara með meiri aflabrögðum, heldur þyrfti til að koma meiri hagnýting aflans í landinu en áður. Án þess að ég vilji nokkrar deilur um þetta mál hefja, er nú eins og fyrri daginn ýmsum óeðlilegum stjórnarráðstöfunum eins og lánsfjárhöftum og hóflausum innflutningi erlendra iðnaðarvara kennt hér um. Hafi þetta leitt til þess, að iðnaðurinn hafi átt erfitt uppdráttar að undanförnu. Það hafa aldrei verið gerð önnur eins átök til þess að efla fjárfestingalánaaðstöðu iðnaðarins og á undanförnum árum, og er óþarft að víkja frekar að því, hins vegar er mér ljóst, að hann hefur átt erfiða rekstrarlánaaðstöðu eins og reyndar aðrar atvinnugreinar, og í sambandi við lækkun tolla, sem menn hafa oft talað um

að undanförnu er það mikill misskilningur, að þær tollalækkanir, sem átt hafa sér stað fram til þessa, eða tollabreytingar, hafi á undanförnum árum verið iðnaðinum nokkuð í óhag. Ég hef reyndar áður að því vikið að ég held, að það sé nokkuð í járnum ýmiss konar hagræði fyrir iðnaðinn í tollum og annað óhagræði. Hitt er svo annað mál. og um það verður ekki deilt, að hann hefur staðið í miklu meiri samkeppni við innfluttan iðnvarning, en það er á flestum ef ekki öllum sviðum við mjög hátt tollverndaðan innflutning og oft og tíðum vörur, sem kannske er greiddur af 80–120% tollur eða eitthvað því um líkt.

Það er ekki af þessum ástæðum, vegna vafasamra stjórnarráðstafana, sem nú er talað um sameiningu iðnfyrirtækja í vissum greinum, eins og segir í grg., heldur er það eitt af þeim atriðum, sem menn hafa viljað athuga á undanförnum árum, til þess hreinlega að styrkja aðstöðu iðnaðarins og þá fyrst og fremst með auknu hagræði. Menn hafa talið að stærri einingar í rekstrinum væru þessari atvinnugrein hagkvæmari en hinar mörgu smáu einingar, sem við yfir höfuð búum þar við í einu eða öðru formi, annað hvort beinlínis í samruna eða sameiningu að einhverju marki, t. d. með sameiginlegum innkaupum til iðnaðarins, sameiginlegri sölu, þó að ekki væri um beinan samruna að ræða eða samsteypu á fyrirtækjum. Ég hygg, að það hafi verið árið 1966, að Félag ísl. iðnrekenda óskaði eftir því, að ríkisstj. hlutaðist til um athugun á þessu máli, og helzt með því að kveðja til erlenda sérfræðinga sem hefðu nokkra reynslu og var þá helzt bent til Norðmanna, sem hefðu nokkra reynslu að þessu leyti. Ríkisstj. ákvað eftir þessa beiðni, sem fram var borin af Félagi ísl. iðnrekenda, að fá hingað norskan sérfræðing til þess að inna að könnun þessa máls. Hann gerði það í samráði við iðnmrn. í samráði við Iðnaðarmálastofnun Íslands og skilaði síðan grg. um málið sem að sjálfsögðu hefur verið kynnt iðnrekendum og öðrum aðilum á sviði iðnaðarins, og síðan hafa verið uppi tilraunir og tilhneiging til þess að reyna að styrkja aðstöðu vissra iðngreina eða iðnfyrirtækja með eins konar samruna eða sameiningu. Þetta er út af fyrir sig kannske ekkert lausnarorð á þessu sviði, en í vissum tilfellum gæti það orðið til hagræðis. Því er auðvitað ekki að neita að þetta hefur kannske að nokkru leyti leitt til þess, að erfiðleikar, sem hvert einstakt fyrirtæki hefur átt við að búa hafa orðið til þess að laða menn frekar saman, en það var auðvitað alveg ljóst frá öndverðu, að hér á landi mundu menn kannske að eðlisfari vera nokkuð tregir til slíkrar stefnubreytingar, að stuðla að samruna og samvinnu fyrirtækja og ýmiss konar ljón mundu verða þar á veginum. En mín skoðun var sú, að það væri alveg tómt mál um þetta að tala bæði almennt í sambandi við athugun málsims og í einstökum tilfellum, ef frumkvæðið kæmi ekki frá iðnrekendum sjálfum, En það hefur verið að þessu stuðlað, og eins og kunnugt er, var tekin upp á fjárlög núna bæði fjárveiting til aðlögunar á sviði iðnaðarins og iðnþróunarráðs. Hvort tveggja hefur verið við það miðað að geta aðstoðað þau einstök fyrirtæki á iðnaðarsviðinu sem vildu sameina sig eða bæta aðstöðu sína með slíkum hætti, með því að veita þeim aðstoð, tæknilega og efnahagslega fyrirgreiðslu eða athugun á þessum málum í aðalatriðum í þeirri veru, að mikið af því fé, sem nú er veitt á fjárl. og var áður tekið af öðrum lið eftirstöðvum frá stóriðjunefnd, yrði varið til þess að greiða að hálfu móti eigin framlögum iðnrekenda undirbúningskostnað við slíkar hagræðingarráðstafanir, sem hér gat verið um að ræða.

Það er oft vitnað til Japana að þeir hafi nær alveg tryggt iðnaði sínum heimamarkaðinn. Íslendingar hafa nú líka verið anzi drjúgir í því að tryggja Japönum sinn heimamarkað og á ég þar við veiðarfærin sem skiptar skoðanir hafa verið um. Af hálfu stjórnvalda hefur verið reynt að framfylgja þeirri stefnu að undanförnu að stuðla að því, að við byggjum að okkar heimamarkaði, og í samkeppni við erlendan markað með því að láta hvorki upphæð framboðanna ráða úrslitum né heldur lán sem boðin væru með hinum erlendu tilboðum. Og það er auðvitað út frá þeirri grundvallarstefnu, að heimamarkaðurinn er efldur og styrktur, og um það erum við vist alveg sammála flm. þessarar till. og ég og reyndar aðrir hæstv. ráðh. innan ríkisstj., að okkur er þetta mjög mikilsvert. Ég get aðeins nefnt sem dæmi í þessu sambandi, að ríkisstj. stuðlaði að því fyrir sitt leyti, að yfirbyggingar bifreiða í sambandi við hægri aksturinn sem eru mjög miklar í bili, gætu farið fram hér heima, en yrðu ekki keyptar erlendis frá, þó að þar væri gert lánstilboð sem var freistandi frá því sjónarmiði, að hér hefur verið erfitt að kría út lánsfé innanlands á s.l. ári. Hins vegar þykir mér vænt um að geta tekið það fram, að það var metið svo af aðilum, að bæði verð og gæði mundu vera samkeppnisfær af hálfu hinna íslenzku verktaka hér. Og sama sjónarmið var einnig ráðandi, þegar ákveðið var, eins og kunnugt er, að byggja bæði ríkisskipin fyrir norðan. Það munaði nokkru á verðtilboðum, ekki ýkja miklu og að mati ríkisstj. var verðmunurinn talinn vera svo lítill. að það væri þjóðhagslega rétt að byggja þessi skip hér innanlands, enda þótt þessi smávægilegi verðmismunur væri. Ég held, að ég muni það rétt. Ég skal nú ekki alveg fullyrða það að hér hafi í raun og veru verið um 8% verðmismun að ræða en þó var fyrirvari um það að erlendu tilboðin væru föst tilboð okkar íslenzka tilboð hins vegar háð verðbreytingum, þannig að um það er lýkur getur verðmismunurinn náttúrlega orðið meiri. Hins vegar var líka auðvelt að fá lán með hinum erlendu tilboðum, en innlenda skipasmíðastöðin gat ekki boðið fram slíkt lánsfé, og það er þess vegna sem Seðlabankinn vinnur nú að því á vegum eða fyrir hönd ríkisstj. að stuðla að því að aðstoða bæði með lánsfé til skipasmíðanna og lengri eða skemmri lán eftir atvikum í þau tæki og vélar, sem til þessara skipa verða keypt.

Ég skal svo ekki fjölyrða um það sem áður hefur borið á góma. Ríkisstj. hefur af sinni hálfu viljað stuðla eftir mætti að því, að almennt mætti efla skipasmíðarnar hér innanlands og sérstaklega smíði fiskiskipanna og kemur þar margt til álita. Í sambandi við dráttarbrautirnar, sem mundu nú fyrst og fremst stunda viðgerðaþjónustu er um tollfrelsi að ræða, en aftur endurgreiðslu á tollum í sambandi við skipasmíðastöðvarnar, enda þótt mönnum hafi fundizt þetta nokkuð þungt í vöfum.

Fyrir iðnaðinn almennt vil ég líka minna á eitt atriði í l. um tolleftirlit, sem liggur fyrir þinginu núna. Þar er gert ráð fyrir því að veita lán greiðslufrest skulum við kalla það, á tollum, þannig að iðnfyrirtæki og innflutningsfyrirtæki geti með vissum tryggingum tekið út varning og greitt hann eftir lengri eða skemmri tíma, og þar hefur jafnan verið rætt um það að greiðslufresturinn væri lengri, þegar um iðnaðarframleiðslu væri að ræða sem virðist vera sanngjarnt eðli málsins vegna. Við höfum að vísu heyrt það í seinni tíð að stjórnarvöldin hafi ekki sinnt því að skapa verkefni fyrir innlendu skipasmíðastöðvarnar og látið byggja skipin erlendis. Þeim, sem til þekkja, er ljóst, að þetta er á miklum misskilningi byggt, því að það er ekki fyrr en á allra síðustu árum, sem innlendu skipasmíðastöðvarnar hafa verið þess umkomnar að byggja stálfiskiskip fyrir útveginn í landinu, en áður fyrr voru náttúrlega ýmis tréskip byggð hér, og ég neita því ekki, að stundum hafi hér fyrrum kannske verið farið óvarlega í það að kaupa tréskip erlendis, sem við Íslendingar sjálfir vorum þá færir um að smíða. Á árinu 1946, þegar flutt eru inn 46 fiskiskip, eru engar stálskipasmíðar hér í landinu. Árið 1961 eru flutt inn 11 fiskiskip, 1962 10 fiskiskip, 1963 31 fiskiskip, 34 fiskiskip 1964, 10 1965, 11 1966 og 23 komu til landsins 1967. Í þessu sambandi vil ég minna á, að það er í raun og veru ekki fyrr en 1963, sem smíði fiskiskipa er komin í gang hér. Samkv. yfirliti er framleiðslu stálskipa hagað hér þannig í landinu, að 1955 er smíðað eitt skip. Það er Magni hér í Reykjavik, 184 rúml. Eitt skip var smíðað hér 1957, 201 rúml. Það er Albert, varðskipið og björgunarskipið Albert. Síðan fara þeir á árunum eftir 1960 að búa sig undir að hefja skipasmíðar hér, og á því ári eru byggð fjögur stálskip hérlendis. Það voru minni skip, samtals 211 rúm. Eitt skip var smíðað 1964, 202 rúml., eitt skip 1965, 27 rúml., þrjú skip 1966, 723 rúml. og 6 skip á árinu 1967, 1700 rúml. Þetta eru nú ekki í heild nema 3248 rúml., en þó er það svo, að þessar skipasmíðastöðvar, sem hafa verið að byggja sig upp, hafa meiri afkastagetu en þarna kemur fram, og ég hygg, að þær mundu með eðlilegri eftirspurn og eðlilegri lánsfjáröflun geta afkastað svona 6—10 skipum á ári eins og nú er. Sumar þeirra hafa mikla stækkunarmöguleika og ein þessara skipasmíðastöðva hefur ekki getað hafið starfsemi sína enn og á ég þar við skipasmíðastöðina á Ísafirði.

Á árinu 1964 var gerð áætlun af hálfu stjórnarvalda um byggingu dráttarbrauta og skipasmíðastöðva og síðan hafa þær verið á framkvæmdaáætlun. Það er rétt, að þeim hefur oft reynzt erfitt um vik og þær talið fjáröflunina ekki ná nógu langt. Oft hefur það stafað af því, að þær hafa í raun og veru fengið það sem um var beðið og áætlað en áætlanirnar hafa raskazt og skipin orðið miklu dýrari í smíðum, Við skulum segja, að þetta hafi verið margvíslegir byrjunarörðugleikar við þær algeru frumsmíðar, sem hér hefur verið um að ræða. En þessar skipasmíðastöðvar lofa þó góðu. og það hafa miklir framtaksmenn að þeim staðið og það er eitt, sem vist er, og með það hefur ekki verið farið dult af hálfu stjórnarvalda, að þau vilja leggja mikið kapp á og eru reyndar næstum daglega að stuðla að því nú, að þessar skipasmíðastöðvar fái verkefni, því að vegna erfiðleika útgerðarinnar hefur verið lítil eftirspurn á smíðum innanlands nú s.l. hálfa árið. En það nær ekki aðeins til eftirspurnar innanlands, heldur líka til kaupa á skipum erlendis frá. Ég hef þess vegna fengið upplýsingar um þau fiskiskip, sem voru í smíðum ytra eða erlendis og um var samið á fyrri hluta ársins 1967 að fenginni viðurkenningu Fiskveiðasjóðs. Þetta voru samtals 5 skip, sem er náttúrlega ekki há tala miðað við endurnýjunarþörf, sem sennilega hefði mátt áætla, að væri eðlileg 15—20 skip. Og auk þessara 5 skipa var árið 1967 fengin viðurkenning Fiskveiðasjóðs Íslands á tveim öðrum fiskveiðiskipum, sem komu til landsins á s.l. ári, en segja má, að allur undirbúningur og a.m.k. vilyrði hafi verið gefin um fyrir þann tíma.

Það eru auðvitað veigamiklar tollabreytingar fyrir iðnaðinn, þegar lækkaðir eru tollar á ýmsum efnisvörum til iðnaðar og vélum og tækjum, eins og hér er vikið að af hálfu þeirra sem þessar till. flytja. Tollar af iðnaðarvörum eða vélum til iðnaðarins voru lækkaðir fyrir þremur eða fjórum árum úr 35% niður í 25% og í sumum tilfellum enn þá neðar, niður í 15% og 10%. Hér er auðvitað mjög æskilegt að hafa vakandi auga fyrir möguleikunum á því að geta lækkað þessa tolla enn þá meira eða fellt þá niður, eins og talað er um, eða gert þá a. m.k. „nominala“, eins og er á ýmsum sviðum í sambandi við tolla til sjávarútvegs og landbúnaðar, en þar er við þá erfiðleika að stríða, hversu tollarnir hafa verið veigamikið atriði hjá okkur á undanförnum árum í tekjuöflun til ríkissjóðs. Það mál hefur svo verið rætt almennt og er eins og kunnugt er í athugun á milli stjórnmálaflokkanna, hvernig við getum lækkað okkar tolla yfir höfuð og almennt í sambandi við þátttöku okkar í samvinnu annarra þjóða á sviði tollamála og viðskiptamála. Allt knýr það á um það, að við finnum aðrar tekjuöflunarleiðir í

ríkara mæli en verið hefur, og er mönnum nú að verða ljóst, að það hefur ekki síður þýðingu fyrir iðnaðinn en sjávarútveginn

Ég skal svo ekki, herra forseti, orðlengja neitt um þessa till. að sinni, en vil aðeins í lok máls míns endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að slík athugun, sem hér er farið fram á, er ekki óþörf, þó að lagt sé fram tollafrv. eða brtt. frá ríkisstj., sem takmarkaðar eru við tiltekin og önnur tilvik en hér er um að ræða.