18.03.1968
Neðri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í D-deild Alþingistíðinda. (3006)

134. mál, nefnd til að rannsaka ýmis atriði herstöðvamálsins

Jónas Árnason:

Herra forseti. 1. flm. þessarar till., Ragnar Arnalds, sem átti sæti hér á Alþ. sem varamaður, þegar hann lagði till. fram. hefur nú vikið af þingi aftur, og það kemur því í minn hlut sem 2. flm, að tala fyrir till.

Till. er á þá leið, að Nd. Alþ. skipi 5 manna n. í samræmi við 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka nokkur atriði varðandi dvöl Bandaríkjahers á Íslandi. Þessi stjórnarskrárgrein, sú 39., er svo hljóðandi með leyfi hæstv. forseta:

„Hvor þd. getur skipað n. innandeildarþm. til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða. Þd. getur veitt n. þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.“

Í till. er gert ráð fyrir, að n. öðlist þennan rétt til að heimta slíkar skýrslur. N. þessi mundi sem sé fá aðstöðu til mjög ýtarlegrar rannsóknar á þeim málum, sem henni yrðu falin samkv. till., og mundi enda ekki af veita, því að hér er um stórmál að ræða, hvert öðru viðtækara, en margt hins vegar á huldu um þau og sumt býsna skuggalegt, svo að ekki sé meira sagt.

1. flm. hefur látið fylgja till. sundurliðaða grg., þar sem sérstaklega er fjallað um hvert atriði þeirrar rannsóknar, sem að er stefnt með till. Þessi atriði eru 5. Að því er varðar 2., 3. og 4. atriði ætti ekki að vera þörf á löngum rökstuðningi umfram það, sem fram kemur í grg., enda hafa flest þau mál, sem þar er að vikið, margsinnis verið til umr., bæði hér á hv. Alþ, og annars staðar á opinberum vettvangi á undanförnum árum.

Fyrsta atriðið, það sem snertir hættuna af flugi bandarískra flugvéla með kjarnorkusprengjur um íslenzka lofthelgi, var til umr. hér á Alþ. ekki alls fyrir löngu í sambandi við atburð, sem þá hafði orðið í Thule á Grænlandi, þar sem bandarísk flugvél hafði farizt með þeim afleiðingum, að fjórar vetnissprengjur liggja þar nú týndar einhvers staðar í ísnum eða á sjávarbotni. Hættan á geislun af þessum völdum hefur valdið því, að Grænlendingum þeim, sem búa á þessum slóðum, hefur með öllu verið bannað að stunda þann veiðiskap, sem lífsafkoma þeirra hefur þó öll byggzt á, og þessi atburður olli mikilli ólgu í Danmörku, enda var hann sönnun þess, að Bandaríkjamenn höfðu virt að vettugi samkomulag, sem þeir höfðu gert við dönsk stjórnvöld varðandi slíkt flug, að slíkar flugvélar héldu sig fjarri þessum slóðum.

Og það var einnig mjög eðlilegt, að menn drægju það í efa hér uppi á Íslandi í ljósi þessara staðreynda, að hægt væri að treysta yfirlýsingum bandarískra ráðamanna um það, að slíkar flugvélar flygju ekki um íslenzka lofthelgi eða lentu á íslenzku landi. Við umr. hér á Alþ. lýsti hæstv. utanrrh. að vísu yfir því, að honum væri ekki kunnugt um, að slíkt hefði nokkurn tíma gerzt, en hann hafði enga aðstöðu til þess að taka af öll tvímæli um þetta, enda hefur aldrei verið um að ræða neitt eftirlit af Íslands hálfu varðandi þetta flug. Bandarískar flugvélar knúnar kjarnorkuvopnum gátu hvað eftir annað verið búnas að leggja hér um leið sína. Hættan, sem stafar af slíku flugi, gat árum saman verið búin að vofa yfir okkur án vitundar íslenzkra stjórnarvalda. Og staðreyndirnar hefðu þá fyrst við okkur blasað, ef slys hefði orðið svipað því, sem varð í Thule á Grænlandi, t.d. þannig, að kjarnorkusprengjur hefðu fallið hér á Selvogsbanka eða í Faxaflóanum, næsta nágrenni Keflavíkurflugvallar, þar sem eru auðugustu fiskimið okkar. Afleiðingar af hugsanlegri sprengingu af þessum völdum, þær treysti ég mér ekki til að útlista. En geislunin ein af ósprungnum sprengjum hefði getað orðið til þess, að á þessu svæði mundi ekkert hafa veiðzt annað en eitraður fiskur um ófyrirsjáanlega framtíð.

Nú hefur það að vísu verið fullyrt af blaðamönnum, og aðspurðir hafa talsmenn í Pentagon a.m.k. ekki borið það til baka, opinber staðfesting hefur að vísu engin á þessu fengizt enn, en sennilega mun það rétt vera, sem blaðamenn segja, að McNamara hafi látið það verða eitt sitt síðasta verk, þegar hann lét af embætti hermálaráðherra nú á dögunum, að fyrirskipa, að slíku flugi með kjarnorkusprengjur yrði hætt. En hitt er líka staðreynd, að herforingjar þeir, sem mestu ráða í Pentagon, munu illa una þessari ákvörðun McNamara. Þeir hafa lengi verið á öndverðum meiði við hann í þessum efnum og viljað halda áfram þessu flugi, þó að McNamara teldi það orðið næsta þýðingarlítið. Og í þessu sambandi mættu menn einnig hafa það hugfast, að þegar kjarnorkusprengja féll á Spán, var þessu flugi með kjarnorkusprengjur hætt um nokkurn tíma á eftir, en fljótlega var það tekið upp aftur. Og maður sá, Clark Clifford, sem nú hefur tekið við embætti hermálaráðh. í Bandaríkjunum, er að allra dómi miklu meiri hernaðarsinni en jafnvel fyrirrennari hans, sem svo sannarlega gat sér þó ekki neitt sérstakt orð fyrir friðsemd eða hógværð í embættisrekstri sínum, og hver getur fullyrt, að þessi nýi hermálaráðh. framfylgi öllum ákvörðunum fyrirrennara síns? Sannleikurinn er sá, að í þessum efnum getum við Íslendingar engum treyst nema sjálfum okkur, svo að það er eftir sem áður full ástæða til þess að tryggja það, eins og gert er ráð fyrir í 1. lið þessarar till., að flugvélar með kjarnorkusprengjur fljúgi ekki um íslenzka lofthelgi eða lendi á íslenzku landi, tryggja þetta með öruggu eftirliti íslenzkra aðila. Og í ljósi þeirra staðreynda, sem við blasa eftir atburðinn í Thule á Grænlandi, hlýtur það jafnframt að vera sjálfsagt réttlætismál okkar og metnaðarmál að kanna það, hvort Bandaríkjamenn hafi brotið á okkur samninga eins og á Dönum, að því er varðar flug með kjarnorkusprengjur, og ef slíkt sannast, láta þá svara til saka fyrir það.

Um 2., 3. og 4. atriði till. tel ég, eins og fyrr segir, ekki ástæðu til að fjölyrða, enda hefur á undanförnum árum oft og rækilega verið um þau mál fjallað, sem þar er að vikið, bæði hér á hinu háa Alþ., í blöðum og annars staðar á opinberum vettvangi. Þeirri 5 manna n., sem till. gerir ráð fyrir, er samkv. 2. lið till. ætlað að rannsaka, með leyfi hæstv. forseta: „hvernig á því standi, að ekki hafi verið staðið við fyrri loforð um takmörkum hermannasjónvarpsins við herstöðina eina, hvers vegna sú tilhögun var ekki ákveðin þegar í upphafi og hver voru tildrög þess, að Guðmundur Í. Guðmundsson fyrrum utanrrh. sagði Alþ. ósatt, þegar sjónvarpsstöðin var stækkuð og málið var rætt á Alþ. 28. marz 1962.“

Í grg. er vitnað til þessara umr., sem hér urðu á Alþ. 28. marz 1962, — þær urðu út af till., sem fram kom um takmörkum á sendikrafti sjónvarpsstöðvarinnar þar suður frá, eða réttara sagt um það að afturkalla þá heimild til stækkunar stöðvarinnar, sem utanrrh. hafði þá þegar veitt. Og við þessar umr. komst þáv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, m.a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú minnsta stöð, sem talið er að hægt sé að fá í staðinn fyrir þessa stöð, er sú stöð, sem þegar hefur verið leyfð. Það er algjörlega rangt, sem flm. þessarar till. eru að reyna að halda hér fram, að hin nýja stöð muni ná svo og svo miklu lengra út en núverandi stöð hefur gert.“

Þetta voru orð Guðmundar Í. Guðmundssonar, og nú blasir það við allra augum, að hér var um hinar herfilegustu blekkingar að ræða. Og með þessum blekkingum var virðingu Alþ. misboðið á hinn herfilegasta hátt. Og það hlýtur a.m.k. að vera lágmarkskrafa Alþ. í þessu sambandi, að rannsakað sé, í hvaða tilgangi eða hvernig á því stóð, að þessar blekkingar voru viðhafðar hér. „Hvers vegna“, eins og 1. flm. segir í grg., með leyfi hæstv. forseta, „var hermannasjónvarpið ekki takmarkað við herstöðina eina þegar frá upphafi, t.d. með því að dreifa sjónvarpsefninu um símakerfi?“ sem þá hefði þegar verið hægt að nota eins og fram hefur komið við umr. síðan hér á Alþ. „Í hvaða tilgangi lögðu Bandaríkjamenn í mikinn kostnað, m.a. stækkun stöðvarinnar og uppsetningu sérstakra loftneta, sem virtust hafa það aðalmarkmið, að sem flestir Íslendingar sæju útsendingar hermannasjónvarpsins?“ Og loks: „Hvers vegna hefur gengið svo treglega að takmarka útsendingar stöðvarinnar, þrátt fyrir þau loforð, sem gefin voru fyrir 17 mánuðum?“

Í þriðja lið till. er gert ráð fyrir því, að rannsóknarnefndin kanni, hvaða áhrif dvöl Bandaríkjahers í landinu hefur einkum haft á íslenzkt þjóðlíf, t.d. „verði vandlega rannsökuð hin mikla fjármálaspilling, sem lengi hefur þrifizt í skjóli hersetunnar, og reynt að kanna, hvaða áhrif hersetan hefur haft á uppeldi, hugsunarhátt og tungutak íslenzkrar æsku í nágrenni herstöðvanna.“

Um þetta atriði, hina miklu fjármálaspillingu og ómenningu, sem fylgt hefur herstöðvunum, mætti tala hér langt mál, en ég læt það hjá líða að sinni. En það er sannarlega kominn tími til, að fram fari ýtarleg rannsókn á þessum málum, og þá ekki síður því, sem gert er ráð fyrir í fjórða lið till., „hvort herstöðvarnar geta talizt veita þjóðinni nokkra vörn á ófriðartímum og hvort þær eru ekki líklegri til að kalla háskann yfir þjóðina, ef til styrjaldar dregur.“

Þær röksemdir, sem fram voru bornar til réttlætingar hersetunni á sínum tíma, svo haldlausar sem þær voru þá, eru að sjálfsögðu orðnar vitahaldlausar núna, með gjörbreyttri hernaðartækni og hernaðarviðhorfum, og rannsókn á þessum síðast nefndu tveimur atriðum, sem og raunar öllum atriðum þessarar till., ætti að vera þeim mun sjálfsagðari núna sem fyrir stendur endurskoðun á herverndarsamningnum svonefnda, sbr. yfirlýsingu hæstv. forsrh. við upphaf þings í haust. Já, vel á minnzt: Það væri kannske ekki úr vegi að beina til hæstv. ríkisstj. fyrirspurn í þessu sambandi. Hvað er að frétta af endurskoðun herverndarsamningsins svonefnda? Er hún þegar hafin, og ef svo er, hvernig er henni þá hagað og hvenær má vænta niðuratöðu af henni? Það líður nú óðum á þingtímann, og ég býst við að hv. alþm. muni æskja þess að hafa einhverjar spurnir af þessu, a.m.k. áður en þessu þingi verður slitið.

Víkjum þá að fimmta og síðasta atriði till., þar sem gert er ráð fyrir því, að rannsakað verði, „hvaða upplýsinga unnt er að afla um þær áætlanir, sem vitað er, að NATO hefur gert um hugsanlega íhlutun bandalagsins um innanríkismál þátttökulandanna, þegar þær aðstæður skapast, að þess sé talin þörf, og hvort þessar áætlanir snerta Ísland.“

1. flm. kemst svo að orði í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Lengi hefur verið vitað, að Bandaríkjastjórn reynir að hlutast til um innanríkismál annarra þjóða, með víðtækum fjárstuðningi við samtök, sem hún telur sér hliðhold. Má í því sambandi minna á mútufé, sem viðurkennt er, að bandaríska leyniþjónustan, CIA, hefur annast dreifingu á. Slík peningamiðlun er þó aðeins óbein íhlutun um innanríkismál annarra þjóða. Í seinni tíð hafa komið fram upplýsingar frá mörgum NATO-ríkjum um áætlanir, sem yfirherstjórn NATO mun hafa gert um hugsanlega beina íhlutun Bandaríkjahers í innanlandsmál himna ýmsu bandalagsríkja, þegar svo stendur á, að annað dugir ekki til að tryggja völd NATO-sinnaðra stjórnarvalda í viðkomandi landi.“

Í grg. víkur 1. flm. síðan að þeirri áætlun, sem NATO hafði reiðubúna fyrir Grikkland. Á henni byggðu grísku herforingjarnir byltingu sína, og komu á algjöru einræði í landinu. Þróun þeirra mála var að vísu ekki nákvæmlega sú, sem til var ætlazt af Bandaríkjanna hálfu, en tilgangurinn var einn og hinn sami, að koma í veg fyrir stórsigur vinstri manna, sem fyrirsjáanlegur var í næstu þingkosningum, og hugsanlega úrsögn Grikklands úr NATO.

Í grg. er minnzt á leyniþjónustuna, CIA, og sannarlega ekki að ástæðulausu; það má telja víst, að hún hefur ásamt herforingjum, grískum og bandarískum, skipulagt á bak við tjöldin þá atburði, sem urðu í Grikklandi, þegar hin fasistíska herforingjastjórn tók völdin. En þessi leyniþjónusta hefur víðar komið við sögu. Ég hef leyft mér að taka með mér þessa bók, sem nefnist „The Invisible Government“ — „Stjórnin ósýnilega“, eða „Hin ósýnilega ríkisstjórn“. Hún er eftir tvo bandaríska blaðamenn; David Wise og Thomas Ross. Menn þessir eru þekktir í heimalandi sínu og víðar, hafa starfað við bandarísk stórblöð og getið sér gott orð fyrir störf sín, hlotið margs kyns viðurkenningu. Þeir eru rómaðir fyrir hæfileika, heiðarleika og óþreytandi vilja til að leita sannleikans í hverju máli. Í bók þessari, sem vakið hefur mikla athygli, er rakinn ferill bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, síðan henni var komið á fót í forsetatíð Trumans 1947, ferill hennar og undirróðursstarfsemi víða um lönd, eins og t.d. í SuðurAmeríku, þar sem CIA hefur stutt fasistískar herforingjaklíkur til að hrifsa völd og brjóta á bak aftur lýðræðisöfl í hverju landinu á fætur öðru; í Arabaríkjum og víðar, þar sem þessi leyniþjónusta hefur tryggt olíuhagsmuni bandarískra auðhringa með því að skipuleggja vopnaðar uppreisnir gegn löglega kjörnum ríkisstj. og koma til vanda að nýju gerspilltum yfirstéttum; já, og í Asíu, eins og t.d. Indónesíu, þar sem leyniþjónustan hrinti af stað innanlandsátökum og síðan borgarastyrjöld, sem endaði með slíku manndrápsæði, að heilu fljótin runnu til sjávar blóði lituð. Og þá er þarna í bókinni að sjálfsögðu einnig rakinn ferill CIA í Víetnam, hvernig leyniþjónusta þessi hefur magnað stig af stigi átökin, unz nú er þannig komið, að ýmsir mætir menn heimskunnir, eins og t.d. franski rithöfundurinn Jean Paul Sartre og brezki heimspekingurinn Russel lávarður, saka Bandaríkjamenn um að stefna þarna að þjóðarmorði.

Bækur eins og þessi hér, samdar af hinum ágætustu Bandaríkjamönnum, sem margir hverjir hafa stofnað í hættu persónulegu öryggi sínu í viðleitni sinni til að koma vitinu fyrir þjóð sína og stjórnarvöld hennar, þær eru margar til slíkar bækur, og ég þori að fullyrða það, að margt mundi vera með öðrum brag, að því er varðar opinbera afstöðu Íslendinga til utanríkisstefnu Bandaríkjanna, margt mundi vera þar með öðrum brag, ef hv. alþm., þeir, sem eiga að ráða þessari afstöðu, hefðu gert sér meira far um en raun virðist á vera að kynna sér slíkar bækur og meta málin í ljósi þeirra sannana, sem þær leggja fram.

En slíkar sannanir er reyndar viðar að finna en í bókum. Hið frjálslynda brezka tímarit New Statesman berst hingað að staðaldri í húsið. Það liggur hér frammi í lestrarsal. Og þar má í nýjasta heftinu lesa grein, sem fjallar um rannsókn, sem gerð hefur verið að frumkvæði William Fulbrights, formanns utanrmn. öldungadeildarinnar bandarísku, á þeim atburðum, sem urðu í Tonkinflóa í ágústbyrjun 1964, þegar bandaríska herstjórnin hélt því fram, að njósnaskipið Maddox, sem hét nú raunar tundurspillir á máli herstjórnarinnar, hefði þar orðið fyrir árás af hálfu strandgæzlubáta frá Norður-Víetnam, tilefnislausri árás á alþjóðlegri siglingaleið. Johnson forseti notaði þetta sem átyllu til að hefja loftárásir á Norður-Víetnam og stórauka bandarískt herlið í Víetnam, og þar með var hafin sú ógnarlega þróun mála þar austur frá, sem öllum er kunn. Fulbright beitti sér fyrir því á sínum tíma, að bandaríska þingið veitti forsetanum heimild til þessara aðgerða. En nú hefur hann sannfærzt um það eftir rækilega rannsókn, að Bandaríkjamenn einir báru ábyrgð á þessum atburðum, að þeir fólu ekki í sér neina siðferðilega eða lagalega forsendu til þeirra aðgerða sem Johnson fyrirskipaði. Og á því leikur enginn vafl, að bandaríska leyniþjónustan, CIA, var þarna að verki á bak við tjöldin í samvinnu við herstjórnina í Pentagon og herforingja í Saigon. Og að sjálfsögðu sýnir William Fulbright þann manndóm og þá einurð að viðurkenna, að hann hafi verið blekktur, og hann biður þjóð sína opinberlega afsökunar á þeim þætti, sem hann átti í þessu hörmulega máli.

En hvers vegna er ég að segja frá öllu þessu hér, myrkraverkum bandarísku leyniþjónustunnar? Það er vegna þess, að á hinu víðáttumikla starfssvæði hennar liggur einnig þetta afskekkta eyland okkar hérna norður við heimsskautsbaug, Ísland. Og ég minni á William Fulbright og afstöðu hans í þessu sambandi, vegna þess að mér sýnist, að af fordæmi hans mættu þeir, sem stjórna þessu landi, margt gott læra.

Mér kemur í hug atvik, sem átti sér stað hérna vestur í Hagaskóla einn ágústmorgun núna á s.l. sumri á ráðstefnu norrænna æskulýðsfulltrúa. Fulltrúar íslenzku stjórnmálaflokkanna voru þarna mættir til þess að svara fsp. varðandi utanríkismál. Hæstv. forsrh. var fulltrúi síns flokks . Hann var spurður álits á stríðinu í Víetnam, hvort hann teldi ekki tíma til kominn, að íslenzk stjórnarvöld styddu þá viðleitni samtaka ýmissa ríkisstj. og heimskunnra einstaklinga að stöðva þetta stríð. Hæstv. forsrh. brosti sínu góðlátlega brosi og sagðist draga í efa, að við Íslendingar, þessar 200 þús. sálir, værum þess umkomnir að bjarga málunum þar eystra, leysa þann vanda, sem við væri þar að etja. Og á undirtektum viðstaddra mátti heyra, að þeim fannst mörgum, að við Íslendingar ættum býsna skemmtilegan forsrh. Gott, ef ég heyrði ekki hvíslað einhvers staðar fyrir aftan mig: „Sa, hvor manden er dog slagfærdig“. Hæstv. forsrh. bætti því við til skýringar á persónulegri afstöðu sinni, að hann hefði ekki haft tækifæri til þess að kynna sér málin nógu rækilega þar eystra, til þess að mynda sér ákveðnar skoðanir um þetta stríð.

Þetta þótti mér skrýtið að heyra. Mér þótti það skrýtið, vegna þess að sá, sem þetta sagði, hafði árið 1949 talið sig vita svo mikið um heimsástandið, — ekki bara ástandið í einu tilteknu landi, heldur ástandið í heiminum yfirleitt, — að hann staðhæfði, að við Íslendingar ættum bókstaflega engra kosta völ nema, leggja fyrir róða hlutleysi okkar og ganga í hernaðarbandalag. Nú talaði hann allt í einu eins og allt það, sem árum saman hefur verið rætt og ritað um stríðið í Víetnam, hefði farið fram hjá honum. Hvernig gat staðið á þessu? Þó að hæstv. ráðh. væri nú að vísu orðinn 18 árum eldri heldur en þá, þegar hann lét sig ekki muna um það að túlka ástand heimsmálanna allra og draga ályktanir af því, þá dró ég í efa, að það væri nægileg skýring á þessu. Og núna, eftir að ég er aftur setztur inn á þing og hef fengið það rækilega staðfest æ ofan í æ, að andleg tilþrif hæstv. ráðh. eru síður en svo orðin minni en þau voru forðum tíð, og er þá býsna mikið sagt, þá hef ég auðvitað sannfærzt um, að þessi skýring er alveg fráleit.

Hitt sýnist mér aftur á móti ekki ósennilegt, að hér sé um að ræða eitt þeirra tilfella, þegar menn vita orðið svo mikið, að þeir treysta sér ekki til þess, vegna sérstakra kringumstæðna og persónulegrar aðstöðu sinnar að viðurkenna, að þeir viti neitt.

Styrjöldin í Víetnam og framferði Bandaríkjamanna þar hefur að sjálfsögðu orðið þungt áfall fyrir þá, sem ætíð hafa dásamað Bandaríkin sem öflugasta og einlægasta framvörð og málsvara frelsis og lýðræðis og mannréttinda í heiminum. Sú staðreynd blasir nú við allra augum, að kröfum víetnömsku þjóðarinnar um frelsi og mannréttindi og lýðræði hefur verið svarað með tilraun til þess að drekkja þessu öllu í blóði hennar sjálfrar. Og sá, sem ber höfuðábyrgðina á þessu, er hinn lofsæli framvörður frelsis og lýðræðis og mannréttinda, þ.e.a.s. Bandaríkin.

Ég ætla ekki að þessu sinni að fjölyrða um þær hörmungar, sem íbúar Víetnams hafa orðið að þola af völdum styrjaldarinnar. Á þær hörmungar hefur svo oft og víða verið minnt, að því verður varla trúað, að nokkur hv. alþm. sé svo skyni skroppinn, að hann þurfi þar frekar vitnanna við. Hitt er líklegra, að einhverjir hv. alþm. hafi ekki gert sér grein fyrir því, hversu alvarlegar afleiðingar þetta stríð hefur haft fyrir Bandaríkin sjálf heima fyrir og hlýtur að hafa æ því meir, sem það stendur lengur.

Núna nýlega í bandaríska tímaritinu Newsweek mátti lesa grein eftir Walter Lippmann; Walter Lippmann er sem kunnugt er einn virtasti sérfræðingur Bandaríkjanna um utanríkismál. Hann skrifar þarna um bandaríska utanríkisstefnu og ástandið heima fyrir og kemst m.a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ofan á þau fjárhagsvandræði, sem við (þ.e.a.s. Bandaríkjamenn) eigum við að stríða á alþjóðavettvangi, hafa nú bætzt slæmar horfur í fjármálum okkar heima fyrir. Vegna þess að ógjörningur er að segja fyrir um gang stríðsins (þ.e.a.s. stríðsins í Víetnam), eru fjárlög okkar full af leyndardómum. Það eitt er víst, að með þeim er að fullu og öllu bundinn endi á stríðið gegn fátæktinni og afturkölluð fyrirheitin um hið mikla þjóðfélag“, — eða „The Great Society“, eins og þeir kalla það þar vestra.

Þetta voru orð Walters Lippmanns; og á þeim dögum, sem liðnir eru síðan þau virtust, hafa menn fengið æ rækilegar staðfest, hversu alvarlega horfir nú varðandi efnahag Bandaríkjanna, allt efnahagskerfið þar. Stríðið gegn fátæktinni, sem Johnson boðaði með pomp og prakt, hefur snúizt upp í æ hrottalegra stríð gegn hinum fátæku í Víetnam. Afleiðingarnar af þessu eru öllum kunnar. Óeirðir magnast, — þar er ekki aðeins um kynþáttavandamál að ræða, heldur líka misrétti, sem bitnar á hvítum, — átök milli hinna ríku og hinna fátæku, óeirðirnar magnast, og hatrið logar æ heitar, og byssurnar eru látnar tala á götum bandarískra stórborga. Margir telja., að óeirðirnar undanfarin sumur muni virðast eins og hreinn barnaleikur móts við þær óeirðir, sem gera megi ráð fyrir á sumri komanda.

Núna um daginn, þegar Pueblo-deilan, deilan um njósnaskipið Pueblo, kom upp, fyrirskipaði Johnson, að 15 þús. manns úr varaliði Bandaríkjanna skyldu vígbúast, og áttu þeir að sanna. Norður-Kóreumönnum það, að þeir fengju að komast að því fullkeyptu, ef þeir færu að ybbast svo við mesta herveldi heims, að það teldi sér ofboðið. Nú nýlega skrifar Paul Johnson, einn af ritstjórum tímaritsins New Statesman, sem ég minntist á hér áðan og liggur hér frammi á lestrarsal, um þetta og ástandið þar vestra, og hann segir, að svo geti farið, að allt varalið Bandaríkjanna og þ. á m. að sjálfsögðu talin þau 15 þús., sem Johnson ætlaði að nota til þess að lækka rostann í Norður-Kóreumönnum, allt varalið Bandaríkjanna muni á sumri komanda ekki duga til þess að hamla, gegn óeirðum í bandarískum borgum, og yrði þá Bandaríkjastjórn að kalla heim deildir úr þeim herjum, sem hún hefur sent út um hvippinn og hvappinn í nafni síns vestræna lýðræðis og frelsis.

Í fáum orðum sagt, bandaríska þjóðin virðist vera að missa stjórn á sér. Og þegar slíkt ástand hefur skapazt, kann þess að vera skammt að bíða, að stjórnarvöldin taki sér það alræðisvald, sem kynni að stofna öllum mannréttindum í hættu. Og blikurnar eru nú þegar margar á lofti. Arthur Schlesinger, sem var einn nánasti samstarfsmaður Kennedys heitins, hefur sagt, að nú sé að renna upp nýtt skeið McCarthyisma í Bandaríkjunum, hálfu verra en hið fyrra. Og sama segir Arnold Toynbee, brezki sagnfræðingurinn, í viðtali, sem tímaritið Life átti við hann ekki alls fyrir löngu.

Ég fór utan núna í haust og komst þar í kynni við nokkra bandaríska blökkumenn og ræddi við þá, ástand og horfur þar vestra. Og þeir voru vægast sagt ekki bjartsýnir. Og í kynþáttamálunum óttuðust þeir það einna mest, sem ég hafði reyndar heyrt og lesið eftir öðru fólki af kynþætti þeirra, að framferði þeirra leiðtoga blökkumanna, sem hæst hrópa á hefnd, hrópa á blóð hinna hvítu, yrði notað sem tilefni til þess að svipta blökkumenn þeirri vernd, sem þeir hafa þó hingað til notið af hálfu lögreglu og herliðs alríkisstjórnarinnar í Washington, og þar með fengju hvítir kynþáttahatarar lausan tauminn að svala sínum lágu hvötum við að ofsækja blökkumenn, myrða þá og brenna heimili þeirra, og þar með hefði skapazt þarna, a.m.k. í vissunn ríkjum, sama ástand og í Þýzkalandi Hitlers forðum, þegar hann sigaði stormsveitum sínum á Gyðinga, Og það er hætt við, að ekki yrði látið staðar numið við blökkumenn þar vestra frekar en við Gyðinga í Þýzkalandi Hitlers, röðin mundi fljótlega koma að öllu fólki með róttækar skoðanir og öllu frjálslyndu fólki. Á næsta leiti kynni þá að vera fasistísk ógnarstjórn um landið allt.

En hvað kemur þetta okkur við og þeirri till., sem hér liggur fyrir?

Við Íslendingar höfum nú um langt árabil næstum í einu og öllu lotið leiðsögn Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi, og bandarísk áhrif og ítök eru hér meiri en víða annars staðar, a.m.k. í Vestur-Evrópu, og háskinn af þeim að sama skapi alvarlegri sem við erum fámennari öðrum þjóðum, miklu fámennari. Okkur er því meiri nauðsyn en flestum öðrum að vera vel á verði gagnvart háskalegri þróun mála þar vestra. Ég leyfi mér að segja, að eins og allt er hér í pottinn búið með bandarísk ítök og áhrif, kunni mannréttindum á Íslandi að vera ógnað um leið og þeim er ógnað í Bandaríkjunum.

Og af þessum sökum tel ég, að fimmta og síðasta atriði þessarar till. sé einna þýðingarmest þeirra allra, þar sem ráð er fyrir því gert, að rannsóknarnefndin grafist fyrir um þær hættur, sem yfir okkur kunna að vofa vegna leynilegrar starfsemi, starfsemi leyniþjónustunnar CIA og herforingjaklíkunnar í Pentagon, þeirra herforingja, sem nú ráða æ meiru um utanríkisstefnu Bandaríkjanna og móta hana æ meira í anda ofríkis og ribbaldaháttar. Og þeir hafa sýnt, að þeir svífast einskis til að hrinda henni í framkvæmd, ef þeir telja nauðsyn til bera. Við Íslendingar höfum að vísu enn ekki fengið neitt teljandi að kynnast ribbaldahætti þeirra, en það væri hin herfilegasta glópska að treysta því í blindni, að við fáum um alla framtíð að njóta sömu nótalegheitanna og blíða brosins af hálfu þessarar herforingjaklíku, eins og hingað til.

Ég vitnaði áðan í orð hæstv. forsrh. á ráðstefnu norrænna, æskulýðsfulltrúa hérna vestur í Hagaskóla í ágústmánuði s.l. Ég gerði þetta vegna þess, að sú afstaða, sem hæstv. ráðh. tók þarna, er að mínum dómi táknræn um afstöðu íslenzkra stjórnmálamanna, því miður allt of margra íslenzkra stjórnmálamanna varðandi þróun alþjóðamála, sérstaklega með tilliti til bandarískrar utanríkisstefnu, tregðu þeirra við að horfast í augu við staðreyndir og viðurkenna það, sem þeir hljóta að vita eða ættu a.m.k. að vita. Ég gerði þetta einnig vegna þess, að þarna talaði sá maður, sem að mínum dómi hefur löngum átt manna mestan þátt í því að móta íslenzka utanríkisstefnu núna um nær tveggja áratuga skeið, með allri virðingu fyrir þeim mönnum öðrum, sem hafa á sama tíma skipað embætti utanrrh. Það skiptir því miklu máli, að einmitt þessi maður, hæstv. forsrh., viðurkenni það, sem hann veit. Og til þess að sannfæra menn um, að hann viti ekki nóg, þyrfti hann jafnframt að sannfæra menn um, að honum hái andlegur sljóleiki eða vitsmunaskortur, — og trúi því hver sem vill.

Að lokum vil ég svo leyfa mér að víkja

lítillega að till., sem við höfum flutt 4 þm. í hvorri d., þm. Alþb. og Framsóknar, um viðleitni af Íslands hálfu til þess að stöðva hildarleikinn í Víetnam, þó að till. þessi sé að vísu ekki á dagskrá. Hæstv. utanrrh. hefur lýst yfir stuðningi sínum við þessar till., og sú yfirlýsing hans var að mínum dómi einn af sárafáum gleðilegum atburðum, sem hafa orðið hér á Alþ. í vetur, enda þykist ég mega treysta því, að með henni sé tryggður stuðningur Alþfl. við till. og þar með öruggur meiri hl. til samþykkis henni. Af hálfu Sjálfstfl. hafa viðbrögð hins vegar ekki verið eins jákvæð hingað til. Og nú virðist ýmislegt benda til þess, að afgreiðsla till. þessarar úr viðkomandi nefndum kunni nú að dragast nokkuð. Til slíks þyrfti þó áreiðanlega ekki að koma ef hæstv. forsrh. brygðist við málinu á jafndrengilegan hátt og hæstv. utanrrh. hefur gert. Jákvæður stuðningur hans mundi án efa tryggja þá öflugu samstöðu um till., sem hæstv. utanrrh. hefur réttilega bent á, að mjög sé þýðingarmikil og nauðsynleg.

Ég vil því leyfa mér að beina þeirri ósk til hæstv. forsrh. persónulega, að hann veiti umræddri till. okkar framsóknarmanna og Alþb.-manna þann stuðning, sem til þarf, að þær hljóti það samþykki og þá samstöðu, sem væri Alþ. okkar Íslendinga til sóma. Ég bið hann að gera þetta, ekki aðeins af umhyggju fyrir því fólki, sem byggir landið í Víetnam, heldur einnig því fólki, sem byggir Bandaríki Norður-Ameríku. Hæstv. forsrh. telur sig vera sérstakan vin bandarísku þjóðarinnar. Það tel ég mig líka vera, síðan ég dvaldist allengi í landi hennar á mínum yngri árnum við hið bezta atlæti. Mér sýnist því, að enda þótt hæstv. forsrh. og ég, einn óbreyttur þm. Alþb., eigum ekki í mörgum málum samstöðu, hljótum við þó að eiga fullkomna samstöðu og samleið í þessu, að vilja gera það, sem í okkar valdi stendur, til þess að stöðva það stríð, sem stofnar í bráðan voða friði og öryggi og hamingju bandarísku þjóðarinnar.