18.12.1967
Neðri deild: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

77. mál, ráðstafanir á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það er ástæðulaust fyrir mig að lengja mjög þingfundatíma hv. d. í sambandi við afgreiðslu þessa frv., vegna þess að frsm. 1. og 2. minni hl. hv. sjútvn. hafa á undan mér talað og flutt yfirgripsmiklar ræður og skýrt þær brtt., sem ég er einn flm. að, og skal ég ekki reyna að betrumbæta það, sem þeir hafa sagt, eða koma fram með nýjar skýringar eða upplýsingar, sem ekki var að finna í þeirra ræðum. Til þess finn ég mig algerlega vanmáttugan. En það eru nokkur atriði, tvö eða þrjú, sem mig langar til þess að víkja örfáum orðum að í sambandi við afgreiðslu málsins nú.

Fyrsta atriðið, sem ég vildi víkja örfáum orðum að, er það, að við, sem stöndum að nál. 1. minni hl., lýsum því yfir í niðurlagi nál., að við leggjum til, að 3. gr. frv. um verðjöfnunarsjóð verði niður felld. Út af þessu vil ég aðeins lýsa því yfir, að ég er persónulega fylgjandi hugmyndinni um verðjöfnunarsjóð, þó að ég telji, að í því frv., sem hér er verið að afgreiða, sé óeðlilegt, að þessi ákvæði séu. Ég tel, að eðlilegra væri, að frv. um verðjöfnunarsjóð yrði undirbúið og lagt fram á hv. Alþ. með þeim skýringum, sem nauðsynlegar eru. Þá tel ég líka, að óeðlilegt sé að afla tekna til verðjöfnunarsjóðs með því að taka hluta af gengishagnaði sjávarútvegsins á yfirstandandi ári, en eins og fram hefur komið í umr. og margendurtekið hefur verið, er yfirstandandi ár eitt það versta, sem yfir þjóðina hefur komið um marga áratugi og því lítill grundvöllur til sérstakrar skattlagningar á sjávarútveginn í ár til verðjöfnunarsjóðs. Þetta vil ég, að komi fram.

Annað atriði, sem ég vildi vekja athygli hv. þdm. á með örfáum orðum, er framferði hæstv. sjútvmrh. hér í hv. Nd. í sambandi við frv.- flutning þennan. Þegar frv. var lagt fram til 1. umr. hér, fylgdi hann því úr hlaði með örfáum orðum. Hér er þó um mjög stórt mál að ræða, og oft hafa ráðh. og hv. þm. varið nokkrum mínútum og stundum lengri tíma til þess að skýra jafnmikilvægt mál og hér er um fjallað. Hæstv. ráðh. lét sig þó ekki muna um það að leggja frv. hér fram, án þess að skýra það, svo að nokkru næmi. Hann hefur kannske hugsað sem svo, að þær skýringar, sem hann gaf hv. Ed. um frv., mundu nægja okkur hér í hv. Nd. En í því sambandi vil ég aðeins benda á, að undanfarandi daga hefur verið mjög mikið annríki í hv. Nd. við afgreiðslu ýmissa annarra mála, þannig að þdm. hafa verið bundnir löngum stundum við afgreiðslu þeirra.

Í þeim ræðum, sem haldnar hafa verið hér af hálfu 1. og 2. minni hl. sjútvn. þessarar d., hafa verið leidd skýr rök að því, að það væri mjög óeðlileg og ranglát skipting, sem frv. gerir ráð fyrir á gengishagnaðinum, annars vegar til fisköflunarinnar, þ.e.a.s. til bátanna og fiskvinnslustöðvanna, hins vegar til ýmissa sjóða, og meðal þeirra er ríkissjóðurinn, eins og frv. var upphaflega útbúið. Það hefur verið sýnt hér fram á með skýrum rökum, að meiri hluti þess fjármagns, sem hér á að gera upptækt af gengishagnaði, mundi ganga til ýmissa sjóða, en ekki koma sjávarútveginum beint til góða, hvorki til þess að létta undir með rekstri bátanna né fiskvinnslustöðvanna. Hæstv. ráðh. vék ekki einu orði að þessari mjög svo þungu ádeilu um jafnveigamikið atriði og hér er um að ræða. Ég tel, að þetta sé mjög ámælisvert að hálfu hæstv. ráðh. gagnvart þd. og hún eigi raunar kröfurétt á því, að hann gefi þær upplýsingar um þetta frv., sem hér er óskað eftir að fá, og skýri ýmis atriði þess, sem eru að margra dómi ákaflega óljós, og hvernig þau eigi að framkvæma.

Þriðja atriðið, sem ég vil víkja örfáum orðum að í tilefni af þeirri ræðu, sem hæstv. ráðh. hélt hér áðan, er það, að hann minnti á, hvað fiskveiðasjóður hefur verið öflugur undanfarandi ár og taldi, að það væri forsenda þeirrar miklu velmegunar, sem hér hefði ríkt undanfarið, vegna þess að fiskveiðasjóður hefði lánað til þeirra miklu bátakaupa, sem væru undirstaða þess mikla afla, sem á land hefði verið lagður. En ef menn líta á ástandið í stórum dráttum í sjávarútveginum í dag, hlýtur það að blasa við augum allra, að þar eru meginerfiðleikarnir hjá bátaflotanum, þeir eru hjá togaraflotanum, þeir eru hjá fiskvinnslustöðvunum. Þetta hefur m.a. leitt til þess, að ýmsir af skuldunautum fiskveiðasjóðsins hafa ekki getað staðið í skilum með greiðslu vaxta og afborgana af stofnlánum frá sjóðnum. Þetta hefur skapað fiskveiðasjóðnum mikla erfiðleika, því er ekki að neita. En erfiðleikarnir hjá fiskveiðasjóðnum eru þó ekkert sambærilegir við það, sem þeir í dag eru hjá bátaflotanum og mörgum greinum fiskvinnslunnar. Ég held því, að það, sem brýnast er nú í sambandi við ráðstöfunina á rúmlega 400 millj. kr. gengishagnaði, sem á að gera upptækan og ráðstafa á annan hátt, sé það að létta undir í þessari atvinnugrein, þar sem erfiðleikarnir eru mestir og láta stærri hluta af gengishagnaðinum ganga til bátaflotans til fisköflunarinnar og til fiskvinnslufyrirtækjanna. Og að því miðar sá tillöguflutningur, sem við þrír þm. í stjórnarandstöðunni stöndum að.

Ég vildi því að endingu aðeins spyrja hæstv. ráðh., af því að ég sé, að hann er hér kominn í d., hvort hann gæti ekki hugsað sér að beita sér fyrir því, að sá hluti gengishagnaðarins, sem ganga á til bátanna og fiskvinnslustöðvanna, verði verulega aukinn frá því, sem gert er ráð fyrir eins og frv. er nú úr garði gert, og ef hann ekki vill beita sér fyrir því, þá vildi ég gjarnan fá og auglýsa eftir þeim rökstuðningi, sem hann hefur fram að færa hér í hv. d. fyrir því, að sú skipting, sem frv. gerir ráð fyrir að gengishagnaðurinn skiptist eftir á milli stofnlánasjóðanna annars vegar og fisköflunarinnar og fiskvinnslunnar hins vegar, sé eðlilegur og réttlátur. Ég hygg, að ýmsir vildu gjarnan heyra rök hæstv. ráðh. fyrir því.