06.12.1967
Sameinað þing: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í D-deild Alþingistíðinda. (3079)

34. mál, skólarannsóknir

Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Undanfarið ár hafa átt sér stað mjög mikil skrif og miklar umr. um fræðslumál okkar. Af eðlilegum ástæðum hafa umr. þessar og skrif einkum varðað löggjöf þá, er um fræðslumálin gildir, svo og framkvæmd hennar með tilliti til þeirra mjög svo breyttu þjóðfélagsaðstæðna, sem orðið hafa síðan löggjöf þessi var samin. Fjölmargir aðilar, sem af skólamálum hafa afskipti, hafa látið til sín heyra, yfirmenn fræðslumála ríkis og bæja, sveitarstjórnarmenn, skólastjórar og kennarar, svo og fjölmargir þjóðkunnir menn, sem sérstakan áhuga hafa á fræðslumálum þjóðarinnar og hafa komið við sögu þeirra undanfarin ár.

Ég held, að það sé ekki orðum aukið, þegar ég segi, að flestar þær raddir, sem heyrzt hafa hafi komið fram með töluverða gagnrýni á ástand og þróun þessara mála að undanförnu. Gagnrýni þessi er að sjálfsögðu ærið misjöfn og mjög margvisleg, en flestir þættir þessara mála hafa með einum eða öðrum hætti hlotið gagnrýni. Hér er um eðlilegan hlut að ræða í lýðfrjálsu landi, auk þess sem nær aldarfjórðungur er liðinn síðan samning meginhluta núverandi fræðslulöggjafar fór fram, en það mun hafa verið dr. Einar Arnórsson í tíð utanþingsstjórnarinnar 1942-1944, sem skipaði n. þá, sem samdi frv. að núverandi fræðslulöggjöf.

Eins og ég gat um áðan, hafa á þessum aldarfjórðungi átt sér stað mjög miklar þjóðfélagsbreytingar, — þjóðfélagsbreytingar, sem í vaxandi mæli gera kröfur til aukinnar menntunar og fjölbreyttrar menntunar. Slíkar kröfur hljóta að kalla á sérstaka athugun á skólakerfinu í heild, á kennsluaðferðum, á kennsluefni, á menntun kennara og á byggingarnýjungum skólahúsa. Því er þó engan veginn þannig farið, að mér sé ekki kunnugt um, að sitthvað hafi átt sér stað í athugun á skólamálum að undanförnu. Mér er kunnugt um, að á vegum menntmrn. hafa átt sér stað skólarannsóknir. Fræðslumálaskrifstofan hefur beitt sér fyrir ýmsu. Fræðsluskrifstofa Reykjavíkur hefur látið gera mjög ýtarlegar rannsóknir á þessum málum. Skólastjórar og kennarar gera ýmsar tilraunir. Og til eru þau samtök, sem sýnt hafa lofsverðan áhuga á þessum málum og tekið skólarannsóknir til sérstakrar meðferðar, og á ég þar við rannsóknarstofnun á vegum Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem sett hefur verið á stofn og gert um þessi mál mjög ýtarlegar athuganir og ályktanir.

Þessi mál heyra að sjálfsögðu undir menntmrn., sem fer með yfirstjórn þessara mála og á að jafnaði að fylgjast með, hvað gerist í þessum málum, og láta gera athuganir í sambandi við fræðslumálin og gera till. um nýbreytni og nýjungar, sem talið er rétt, að teknar verði upp.

Ég hafði hugsað mér fyrir þingbyrjun að flytja hér till. til þál. um heildarendurskoðun á fræðslukerfinu, en í ræðu hæstv. forsrh. í upphafi þingsins kom fram, að ríkisstj. hefði ákveðið að láta þá endurskoðun fram fara. Ég taldi hins vegar rétt, að hv. alþm. yrðu upplýstir um það, hvað gerzt hefði í þessum málum, og þess vegna leyfði ég mér að flytja fsp. þá á þskj. 34, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Að hverju hafa skólarannsóknir menntmrn. aðallega beinzt fram til þessa?

2. Telur ríkisstj., að með núverandi starfskröftum við skólarannsóknir verði hægt að framkvæma fyrirhugaða endurskoðun á fræðslulöggjöfinni innan hæfilegs tíma?“