06.12.1967
Sameinað þing: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í D-deild Alþingistíðinda. (3093)

43. mál, sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er vægast sagt mjög ómaklega mælt í minn garð, þegar mér er kennt um það, að ekki er risin upp heildarbókhlaða fyrir Landsbókasafn og Háskólabókasafn, því kennt um, að mín forusta í þessu máli hafi brugðizt, vegna þess að ég hafi verið menntmrh. undanfarin 10 ár. Það á þá að vera alveg augljóst mál, ekki hvað sízt, þegar hv. þm. lét sér sæma að telja mig bera ábyrgð á því, að ekki hefur verið útdeilt lóð undir slíka bókasafnsbyggingu hér í Reykjavík. Það hélt ég þó að hann ætti að vita að það er Reykjavíkurborg, sem úthlutar lóðum í Reykjavík, en ekki ríkisstj. En fyrst sanngirnin er ekki meiri í fyrstu setningunni, sem hann sagði í ræðu sinni, er kannske ekki við því að búast, að framhaldið sé með öðrum hætti.

Ályktunin frá 1957 var stefnuyfirlýsing af hálfu Alþ., gerð af sameinuðu Alþ., eins og ótalmargar aðrar ályktanir, sem að sjálfsögðu hafa ekkert lagagildi og eru ekki einu sinni bindandi fyrir Alþ. sjálft, eins og greinilega kemur fram í því, að Alþ. hefur engar fjárveitingar veitt, eins og ég sagði, til byggingar slíks húss og ekki einu sinni til undirbúnings þess.

Hv. þm. gat þess, að ég hefði verið ráðh. í þremur ríkisstj. á þessu tímabili, og það er rétt. Við vorum sameiginlegir stuðningsmenn fyrstu ríkisstj., sem hann þarna átti við, þeirrar ríkisstj., sem sat að völdum, þegar Alþ. markaði stefnu sína. Maður skyldi þá kannske hafa haldið, að við því hefði mátt búast, að sú ríkisstj. tæki það mál upp. Í þeirri ríkisstj., eins og þeim, sem síðan hafa setið, hefur það ávallt verið rætt öðru hverju, hvaða opinberar byggingar skyldu hafa forgang af þeim opinberu byggingum, sem allir eru sammála um, að þurfi að reisa. Ég vil í þessu sambandi nefna fjórar byggingar, sem alltaf hafa verið nefndar, í hvert skipti sem þau mál ber á góma. Og það er stjórnarráðshús, það er alþingishús, það er bókhlaða og það er listasafn. Mér er engin launung á því, að gefnu þessa tilefni, að ég hef ekki aðeins talið það embættisskyldu mína, heldur einnig hefur verið það persónulega ljúft að telja bæði bókhlöðu og listasafn eiga að hafa þarna stöðu framarlega, mjög framarlega í röðinni, og jafnvel á undan a.m.k. annarri byggingunni, sem þarna er um að ræða. En í þeirri stjórn, sem við hv. þm. vorum sameiginlegir stuðningsmenn að, fékk þetta engan stuðning. Um þá skoðun var ég einn í þeirri ríkisstj. Hins vegar hefur það ekki farið svo í þeirri, sem nú situr, að ég hafi verið algerlega einn um þá skoðun. En það hefur orðið ofan á, að bygging einnar þessarar byggingar er þegar afráðin, þ.e.a.s. stjórnarráðsins, þó að fjárveitingar til þess hafi verið af svo skornum skammti, að ókleift hefur verið talið að hefja þá byggingu. Enn er engin ákvörðun tekin um byggingu alþingishúss, og mér finnst það satt að segja vera vafasöm sanngirni að deila á mig og núv. ríkisstj. fyrir það, að ekki skuli þegar hafa verið hafizt handa um byggingu bókhlöðu, þegar byggingarmál stjórnarráðs, alþingishúss og listasafns eru ekki lengra komin, ekki einu sinni undirbúningur þeirra. Ég þarf a.m.k. ekki að fyrirverða mig fyrir forustuleysi í þessu máli varðandi bókhlöðuna, meðan byggingarmálum hinna bygginganna er ekki lengra komið en raun ber vitni um.

Hitt er svo einnig mikill misskilningur hjá hv. þm., að ekkert hafi gerzt í málefnum safnanna. Landsbókasafns og Háskólabókasafns, á undanförnum árum, þótt ekki hafi því verið komið í verk að byggja yfir þau hús, ekki einu sinni hefja undirbúning að byggingu heildarhúss yfir þau. Það hefur sannarlega mikið gerzt í málefnum þessara safna. Húsnæði Landsbókasafnsins var á sínum tíma stóraukið á þann hátt, að Náttúrugripasafnið flutti burtu úr Landsbókasafnsbyggingunni, vegna þess að því var fengið nýtt og mjög glæsilegt húsnæði á öðrum stað í bænum. Við þetta jókst bókasafnshúsnæði Landsbókasafnsbyggingarinnar mjög verulega og það húsnæði var innréttað með svo myndarlegum hætti, vildi ég segja, að þar er um að ræða einn bezta og fullkomnasta lestrarsal, sem um er að ræða á Norðurlöndum, að því er kunnugir menn í bókasafnsmálum þar tjá mér.

Þar fékk Handritastofnunin sitt byrjunaraðsetur, og er allur aðbúnaður þar mun fullkomnari en jafnvel í hinni nýju byggingu Handritastofnunarinnar í Kaupmanahöfn, sem margir munu eflaust hafa séð líka og geta haft til samanburðar. Auk þess hefur sú veigamikla breyting verið gerð á skipulagsmálum bókageymslu og skjalageymslu bæði Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns, að tekin hefur verið upp notkun nýrra og algerlega nýtízkulegra stálskápa fyrir bókageymslu, sem gerir það að verkum, að það húsrými, sem fyrir er, nýtíst margfalt betur en þær gamaldags hillur, sem áður voru í notkun. Með þessu móti má í raun og veru segja að Landsbókasafnshúsin hafi verið stækkað mjög verulega. Ég vil ekki nefna að óathuguðu máli hlutfallstölu í þessu efni, en hún er há. Þessi nýja bóka- og skjalageymslutækni beinlínis stækkar húsin svo mjög, að þá, sem ekki eru því kunnugir, rekur í rogastanz, þegar þeir heyra staðreyndirnar um það og kynnast því fyrirkomulagi, því nýtízkufyrirkomulagi, sem nú er hægt að nota og er notað nú bæði í Landsbókasafni og Þjóðskjalasafni. Og eins og ég gat um áðan, flytur nú Handritastofnunin á næsta hausti burt úr Landsbókasafninu í sína nýju byggingu, í Árnagarð. Þar verður um að ræða mjög vönduð bókasöfn, bæði í þeirri byggingu eða þeim hluta byggingarinnar, sem Handritastofnunin fær til afnota, og einnig í þeim hlutanum, sem Háskólinn reisir sjálfur. Þar með kemur bókasafnshúsnæði borgarinnar eða landsins til með að aukast mjög verulega þegar á næsta hausti.

Enn fremur má svo geta þess, að fjárveitingar til bókakaupa hjá stofnununum báðum hafa verið auknar mjög verulega á undanförnum árum.

Að síðustu vildi ég svo líka leiðrétta það, að bókaverðir safnanna hafi bent mér á leiðir til bráðabirgðaúrlausnar í þessu, þ.e.a.s. að flytja nokkurn hluta af bókum, sem ekki hreyfast mikið, út í bæ. Þetta er alger misskilningur. Þessi hugmynd hefur komið fram í viðræðum okkar ráðuneytismanna við forstöðumenn bókasafnanna ekki síður frá okkur sjálfum en frá þeim. Við höfum lagt okkur fram um að benda á sem hagkvæmast húsnæði til slíkra þarfa og það hefur ekki staðið á fjárveitingu frá ríkisins hálfu eða vilja þess til þess að hagnýta þennan útveg, ef hann teldist vera hagkvæmur. Ég þekki sjálfur mörg dæmi þess úr erlendum söfnum, að einmitt þessi tilhögun sé notuð. Allir safnverðir hér kannast við þau dæmi úr öðrum söfnum, að þessi útvegur sé notaður. Það, sem hér er um að ræða er fyrst og fremst framkvæmdaatriði, ekki það, að ekki sé völ á góðu húsnæði í sjálfu sér, og ekki það, að ríkisvaldið sé ekki reiðubúið til þess að leysa þann vanda safnanna, sem ég játa að er fyrir hendi á þennan máta, heldur er hér fyrst og fremst um að ræða ýmiss konar framkvæmdaatriði í sambandi við flutning og gæzlu og eftirlit, sem ég er fullviss um, að hægt er að leysa hér engu síður en annars staðar á Norðurlöndum og annars staðar í Vestur-Evrópu og Ameríku, þar sem ég hef sjálfur séð, að slíkt skipulag starfar og er hagnýtt með mjög góðum árangri.