26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (3098)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herraforseti. Á þskj. 130 hef ég ásamt tveim öðrum hv. þm. leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. félmrh. um lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins og nokkur fleiri atriði því skyld. Síðan þessi fsp. var lögð fram fyrir um það bil 6 vikum síðan, hefur verið birt skýrsla húsnæðismálastjórnar um lánveitingar úr sjóðnum árið 1967. Þar kemur fram, að á því ári voru samtals veitt 2519 lán að fjárhæð samtals 391 millj. kr., enn fremur að veitt voru lánsloforð til útborgunar eftir 1. maí 1968, eins og það er orðað í bréfum, samtals að fjárhæð 93 millj. kr. og að lagt var í framkvæmdirnar í Breiðholti sem lán, að mér skilst, 86 millj. kr. af ráðstöfunartekjum byggingarsjóðs. Þrátt fyrir þessar upplýsingar, sem eins og ég segi, eru fram komnar eftir að fsp. var lögð fram, er þó miklum meiri hluta þeirra efnisatriða. sem fsp. fjallar um, enn þá ósvarað, og vonast ég til, að hæstv. félmrh. svari þeim hér á eftir, en ég mun gera grein fyri:r þessum spurningum í örstuttu máli, enda leyfir tíminn ekki annað.

Um 1. lið vil ég geta þess, að þann 15. marz s.l. lágu fyrir um 1300 umsóknir. Þá fengu 500—600 manns lán, en um 800 enga úrlausn. Síðan hefur vitanlega aragrúi umsókna borizt, og síðast þegar ég heyrði nefndar tölur um það, var talað um 1200 viðbótarumsóknir, og þá ættu óafgreiddar umsóknir að vera um 2000, en þetta var nú fyrir jólin, og enn hafa vafalaust bætzt við umsóknir. Af þessu er þó greinilegt, að stórfé vantar í byggingarsjóð til þess að hægt sé að fullnægja lánaþörfinni. Sé aðeins miðað við 2000 óafgreiddar umsóknir og hámarkslán 380 þús., telst mér til, að það eitt séu 760 millj. kr., og líklega vantar þó allmiklu meira.

Um 2. spurningu vil ég aðeins segja þetta:

Hún fjallar um það, hvenær þeir fái lánin, sem sóttu um fyrir 15. marz. Eins og áður segir, hefur nokkur hluti þessara manna fengið loforð eftir 1. maí 1968, þ.e. fyrir 93 millj. kr. En hvað um hina, sem ekkert loforð fengu, og í öðru lagi, hvað um þá, sem sótt hafa síðan? Það er auðvitað slæmt að þurfa að bíða eftir láni úr veðlánakerfinu í langan tíma en þó er enn þá verra að vita ekki einu sinni, hvað biðin verður löng, og vonast ég þess vegna til þess, að hæstv. ráðh. svari þessu.

Þriðja spurningin og fleiri spurningar, sem á eftir koma fjalla um framkvæmdirnar í Breiðholti. Samkv. samningunum við verkalýðsfélögin var ákveðið að byggja 1250 íbúðir, og 80% kostnaðar átti að lána til 33 ára, en 20% áttu að greiðast í fjórum áföngum, eins og allir hv. alþm. auðvitað þekkja. Ekkert nýtt fjármagn er enn þá komið frá ríkinu til þessara framkvæmda. eins og allir töldu þó víst, að yrði að koma heldur hefur þessum framkvæmdum að mestu verið velt yfir á byggingarsjóð. Hér er um að ræða fjármagn, vafalaust eitthvað á 3. hundrað millj. kr. aðeins í I. áfanga, og þegar er búið að borga 86 millj. af því fé, sem að öðrum kosti hefði gengið til venjulegra íbúðarlána. Þess vegna sýnist vera óhjákvæmilegt, að hæstv. ríkisstj. útvegi nýtt fjármagn til þessara framkvæmda.

Þá er spurt um það, hvað áætlað kostnaðarverð þessara íbúða verði nú. Þessi framkvæmdatilhögun var ákveðin fyrst og fremst til þess að knýja fram lækkun byggingarkostnaðar og bæta þannig fyrir áratuga langar vanefndir á öðru aðalverkefni húsnæðismálastjórnar, sem er markað í III. kafla l. Og óneitanlega ættu skilyrði að vera fyrir hendi til þess að byggja, þessar íbúðir ódýrar. Það eru margar ástæður, sem hníga að því, að þarna gæti verið um verulegan sparnað að ræða og sýnist, að hér ætti að vera hægt að halda betur á heldur en þegar íbúðir eru byggðar ein og ein eða í hæsta lagi nokkrar saman í stigahúsi af fjárvana einstaklingum eða byggingarsamtökum, eins og algengast er. En í umr., sem urðu hér fyrr í vetur um þessi mál, kom fram talsverður fyrirvari hjá hæstv. ráðh, um verð þessara íbúða. og hann talaði eitthvað á þá leið, að það mætti ekki gera sér of háar vonir um þessa frumraun og fleira í þeim dúr, sem óneitanlega studdi þær grunsemdir, sem margir ala um það, að framkvæmdirnar hafi ekki tekizt eins vel og skyldi. Ég hygg, að það sé bezt fyrir alla aðila, að staðreyndir þessara mála séu dregnar fram í dagsljósið, og vonandi eru þær ekki eins slæmar og helzt betri en þessar grunsemdir gætu bent til.

Fimmta spurningin fjallar um það, hve mikið fjármagn hafi komið í byggingarframkvæmdirnar. Þegar er búið að upplýsa hvað hefur verið lánað úr byggingarsjóði, en eftir er að fá að vita hvað komið hefur frá öðrum aðilum. Þá er enn fremur gott að fá að heyra um það, hvernig menn hafa hugsað sér að fjármagna síðari hluta framkvæmdanna í Breiðholti, en hér er aðeins um fyrsta áfanga að ræða eins og áður segir. Enn fremur er mikill áhugi fyrir því utan Reykjavíkur að frétta af því, hvort fyrirhugaðar eru svipaðar framkvæmdir annars staðar en hér, og er raunar mikil þörf fyrir slíkar framkvæmdir annars staðar en í Reykjavík, eins og kunnugt er. Síðasta spurningin fjallar svo um vísitöluálagið á vexti og afborganir húsnæðislána hvað fyrirhugað sé í þeim efnum.

Ég vil ekki, herra forseti, níðast lengur á þolinmæði forseta og læt þessum inngangsorðum lokið.