06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í D-deild Alþingistíðinda. (3197)

144. mál, vegabætur og rannsókn á brúarstæði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það verður að teljast gott, þegar héraðsstjórnir eða sýslunefndir gera samþykktir um það að rannsaka mál og gera athuganir á þeim, áður en gerð er áskorun um það, að hafizt verði handa um framkvæmdir, því að það er áreiðanlega rétt að fara þannig að frekar en að flana út í framkvæmdir, sem ekki hafa verið rannsakaðar og verða þess vegna miklu dýrari en eðlilegt hefði verið og kannske ekki þjóðhagslega hagkvæmar.

Í sambandi við fyrstu fsp., hvort ráðgerðar hafi verið umbætur á þjóðveginum við Skeiðhól í Hvalfirði, er rétt að taka þetta fram:

Undanfarin ár hefur verið unnið að endurbótum á Vesturlandsvegi í Hvalfirði, eftir því sem fé hefur verið veitt á fjárl. og síðar vegáætlun. Fjárveitingar hafa þó ekki verið það ríflegar, að hægt væri að endurbyggja veginn í heild, og hefur því verið fylgt þeirri meginreglu að taka fyrir hverju sinni þá vegarkafla, sem mestar torfærur hafa verið. Þannig var byggður nýr vegarkafli hjá Þyril árið 1964 og nú síðast á s.l. ári vegarkafli hjá Hvítanesi. Í vegáætlun yfirstandandi árs eru veittar 1.9 millj. kr. til lagningar kaflans úr Hvammsvík frá Skeiðhól að Hvítanesi. Þessi vegarkafli er 2.4 km að lengd og er tvímælalaust mesta torfæran nú á veginum fyrir Hvalfjörð. Kostnaður við lagningu þessa vegarkafla mun verða 5—6 millj. kr., og mun þá fjárveiting á vegáætlun í ár aðeins hrökkva fyrir 1/3 hluta hans. Ráðgert er, að byrjað verði á endurbyggingu vegarkaflans við Hvammsvík og haldið áfram norður, eftir því sem fjárveiting hrekkur til, en fullar úrbætur fást þó ekki fyrr en verkinu er lokið, þar sem vegurinn verður fluttur mun nær sjónum en nú er.

2. spurning: Liggja fyrir upplýsingar um mælingar vegna hugsanlegrar brúargerðar yfir Hvítá við Seleyri í Borgarfjarðarsýslu? Á s.l. sumri voru gerðar fyrstu frummælingar á Seleyri og við Borgarneskauptún til þess að kanna líklegustu veglínu að firðinum beggja vegna með hugsanlega brúargerð fyrir augum, en fjörðurinn er þarna 1.7 km á breidd. Hér er þó aðeins um fyrstu frumathugun að ræða, og engar mælingar eða rannsóknir hafa verið gerðar í sjálfum firðinum.

3. spurning: Hvenær má vænta þess, að undirbúningsrannsóknum á slíkri brúargerð verði lokið? Engar áætlanir liggja fyrir um þetta atriði. Hins vegar er ljóst af umferðartalningu síðustu ára, að leggja þarf Vesturlandsveg sem hraðbraut vestur fyrir Borgarfjörð og einnig Borgarnesbraut samkv. ákvæðum 12. gr. vegalaganna. Ef leggja á hraðbraut þessa leið, þar sem núverandi vegur liggur, mun þurfa að endurbyggja hann svo til frá grunni og þar með brýrnar á Andakílsá, Hvítá hjá Ferjukoti og Ferjukotssíki. Með lagningu Vesturlandsvegar yfir Borgarfjörð hjá Seleyri styttist leiðin milli Reykjavíkur og Borgarness um 20 km og til Snæfellsness um 23 km og til Vestfjarða og Norður- og Austurlands um 6 km. Þá yrði leiðin um Seleyri, Borgarnes og Heydal til Búðardals nær jafnlöng og núverandi leið um Hvítárbrú og Bröttubrekku. Af þessum sökum er ljóst, að fyllsta ástæða er til þess að bera saman rækilega í stofnkostnaði endurbyggingu núverandi vegar fyrir Borgarfjörð og lagningu nýs vegar yfir Borgarfjörð milli Seleyrar og Borgarness. Í slíkum samanburði verður einnig að taka tillit til hagnaðar umferðarinnar af því að aka mun styttri leið. Rannsókn á leiðinni Seleyri-Borgarnes mun þó verða bæði tímafrek og kostnaðarsöm. Kanna þarf burðarþol botnsins í firðinum með hliðsjón af hárri vegfyllingu og brúargerð, þéttleika hans fyrir mismunandi vatnsþrýstingi innan og utan við veg. Eitt erfiðasta vandamálið verður þó að rannsaka, hvaða áhrif vegur og brú yfir Borgarfjörð getur haft á flóðahættu á láglendinu við Borgarfjörð í miklum vatnavöxtum og samsvarandi stórstreymi í suðvestanátt og lágum loftþrýstingi. Til þess að fá úr því skorið þarf m.a. að kortleggja mikið landssvæði við botn fjarðarins, svo að nokkuð sé talið. Til samanburðar þarf svo að gera áætlun um endurbyggingu núverandi vegar sem hraðbrautar. Rannsóknir þessar hljóta að taka nokkuð langan tíma og kosta mikið fé. Telja verður æskilegt, að þeim verði lokið að fullu á næstu árum.