15.12.1967
Neðri deild: 42. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég get vel skilið sérstaka ástæðu hv. 4. þm. Reykv. fyrir því að standa hér upp og þakka ákveðnum aðilum í þjóðfélaginu fyrir að gera verkföll, það er ekki annað en við er að búast frá honum. En til þess að gera það. Og eins og ég tók fram áðan, að vil ég benda honum á það, að á undanförnum mánuðum og misserum hafa aðeins þrjú félög úr farmannastétt gert verkföll af þeim tíu, sem hafa bæði lagalegan og samningslegan rétt til þess að gera það. Og eins og ég tók fram áðan, þá veit ég það, að það eru ekki aðeins þeir, sem ekki voru í verkföllum, heldur og hinir, sem vegna sinna samningsaðila neyddust til að fara í verkföll til þess að ná fram bættum kjörum, sem eru þakklátir og fegnir því, að þarna fékkst þó lausn, sem meiri hl. gat unað við og menn gátu verið tiltölulega ánægðir með, eins og mál standa í þjóðfélaginu í dag. Um það, hvernig kjör þessara manna svo eru, skulum við hins vegar ekki ræða hér. Það verður gert á öðrum vígstöðvum, og ég býst við því, að jafnvel þó að hv. 4. þm. Reykv. standi hér upp aftur og reyni að gefa hv. þd. frekari skýringar á því, þá séu jafnvel aðrir hér í þd., sem betra vit hafa á því heldur en hann.