15.12.1967
Neðri deild: 42. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, hnekkir ekki því, sem ég var búinn að segja hér áðan, að það var eingöngu að þakka því, að farmenn fóru í verkfall, að þeir fengu fram þá réttarbót, sem felst í 1. gr. þessa frv.

Ég tek alveg undir það með hv. ræðumanni, að ég held, að sjómenn séu ekki mjög gjarnir á það að fara í verkföll og geri það ekki nema tilneyddir og þess vegna eigi ekki að vera neitt að kasta steinum að þeim fyrir það, þó að þeir telji sig tilneydda til þess að gera það öðru hvoru. Þar er um að ræða hina gömlu reglu, að „þeir, sem stríði vilja verjast, verða stundum fyrst að berjast“ og það er sem sagt staðreyndin í þessu máli, að þessi réttarbót, sem felst í 1. gr. frv., hefði ekki fengizt fram, ef sjómenn hefðu ekki verið skeleggir og farið í verkfall. Og ég bygg, að þar sé um fordæmi að ræða, sem ýmsir gætu lært af, m.a. gæti það mjög komið til greina í sambandi við slíkar deilur, ef til kæmi, að launþegar fengju sinn hlut réttan með því að fá einhver skattahlunnindi, hvort sem það er í þessu formi eða öðru. Því að við vitum það nú, að stór hluti af þeim kauphækkunum, sem launastéttirnar fá, fer aftur til hins opinbera, og það gæti verið kjarabót, sem gæti dregið úr því, að menn þyrftu að knýja fram verulegar kauphækkanir, ef menn fengju leiðréttingu á sköttum sínum líkt og sjómenn hafa hér fengið. Þess vegna er hér um mjög merkilegt fordæmi að ræða, sem ég álít, að aðrar launastéttir eigi að taka til rækilegrar athugunar.