16.12.1967
Efri deild: 37. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það, sem felst í þessu frv., er í meginefnum tvö atriði. Annars vegar er það ákvæði í 1. gr. frv., að frádráttur sá, 3 þús. kr. á mánuði, sem veittur hefur hingað til verið fiskimönnum, skuli einnig vera veittur öðrum sjómönnum eða skipverjum á íslenzkum skipum, ef þeir hafa verið skráðir á skipin minnst 6 mánuði af skattárinu. Það þykir eðlilegt, miðað við eðli þeirrar atvinnu, sem hér er um að ræða, að einnig farmenn fái notið þessa frádráttar. Þeir eru stóran hluta ársins fjarri sínum heimilum og það getur ekki talizt skapa fordæmi fyrir aðra, þó að þetta ákvæði verði einnig látið ná til farmanna.

Í annan stað er svo ákvæði 2. og 3. gr. frv., sem er um margföldun á núgildandi fasteignamati, þannig að við ákvörðun eignarskatts verði fasteignamatið nú nífaldað í kaupstöðum og kauptúnum, en margfaldað með 4,5 í sveitum. Eins og menn muna, var í frv. um efnahagsmál, sem hefur legið fyrir þessu þingi, lagt til, að fasteignamatið yrði í þessu skyni tólffaldað. Það þykir rétt að falla frá því og nífalda fasteignamatið aðeins, en gert er ráð fyrir því, eins og tekið er fram í grg. þessa frv., að sveitarfélögum verði einnig heimilað að nífalda fasteignamatið til ákvörðunar eignarútsvars, og verður þá einnig gert ráð fyrir því að breyta útsvarsstigum, þannig að þeir verði þeir sömu og skattstigarnir eru, en eins og gildir í dag, eru eignarútsvarsstigar miklum mun hærri heldur en eignarskattsstigar og í fleiri þrepum.

Það er gert ráð fyrir því, eins og ég sagði, að fasteignamat jarða í sveitum verði aðeins margfaldað með helmingi þessarar upphæðar. Eins og hv. þdm. mun kunnugt, er fasteignamatsgrundvöllurinn mjög mismunandi eftir því, hvort um er að ræða fasteignir í þéttbýli eða strjálbýli. Það er mikið álitamál, hvort það er nákvæmlega rétt eins og það er í dag og er raunar vitað, að svo er ekki, enda er fasteignamatið, sem nú fer fram, við það miðað að fullreyna og sannreyna það, hvað sé eðlilegt í þessu efni. Hins vegar liggur það ljóst fyrir, að það verður ekki á þessu stigi fundinn annar grundvöllur fyrir þessu heldur en þessi einfalda margfeldisregla. Það er hins vegar gert ráð fyrir því, að fasteignamatið verði tilbúið á næsta ári, þannig að þetta ætti ekki að þurfa að gilda nema í eitt ár. Þar er í þeim l. svo fyrir mælt, að endurskoða verði öll þau gjöld, sem fasteignamat miðast við, og kemur þetta þá vitanlega samkv. því ákvæði einnig til endurskoðunar þá.

Í 3. gr. l. er lagt til, sem er eðlilegt í samræmi við þessa hækkun matsins, að skattfrjáls eign, skattfrjáls fasteign eða verðmæti í skattfrjálsri fasteign hækki einnig í sama hlutfalli, þ.e.a.s. verði 200 þús. kr. í staðinn fyrir 100 þús. kr. nú. Það hafa heyrzt ýmsar raddir um það, að óeðlilegt væri að halda þessu máli til streitu og menn eru ekki sammála um þetta margfeldi fasteignamatsins, þar sem sumir halda því fram, eins og maður heyrir gjarnan nú á dögum, að ríkissjóður hafi nægilega peninga, þannig að ekki sé þörf á því að leggja út í nýja skatta. Þetta má kannske til sanns vegar færa, en það fer þó nokkuð eftir því, hvað menn hugsa sér þá að nota slíkt fé. En því hefur verið margoft yfirlýst, að það fé, sem ríkissjóði áskotnast nú umfram það, sem áætlað hefur verið, og umfram það, sem nauðsyn krefur í sambandi við fjárlagaafgreiðslu til ríkisrekstrarins sjálfs, verði notað til þess að mæta afleiðingum gengisbreytingarinnar, og eru þá fyrst og fremst hafðar í huga tollabreytingar í því sambandi.

Það er ljóst mál, að gengisbreyting hefur alltaf þau áhrif, að fasteignir halda sínu verði, ef ekki hækka í verði, a.m.k. gera þær það, þegar tímar líða og raunar strax og það er því ekkert óeðlilegt við það, þó að einhver skattur sé einmitt lagður á eigendur fasteigna í sambandi við slíkar aðgerðir. Og það verður að telja æskilegt miðað við allar aðstæður að halda einmitt áfram þessari skattheimtu, til þess að geta þá notað það fé aftur til þess að mæta afleiðingum gengisbreytingarinnar í sambandi við tollalækkanir eða aðrar ráðstefanir, sem þar koma til greina.

Þetta er ástæðan fyrir því í stuttu máli, að það þykir eðlilegt, að þessi ákvörðun um hækkun fasteignamatsins verði lögfest, enda þótt strangt tekið megi segja, að ríkissjóður þyrfti ekki fjárins með, ef hann ætlaði ekki að nota það með þessum hætti til þess að létta á almenningi á annan hátt.

Um sveitarfélögin er það að segja, sem nánar verður gerð grein fyrir, þegar frv. verður lagt fyrir Alþ., sem væntanlega verður nú upp úr helginni, en ekki er nauðsynlegt að afgreiða það fyrir áramót, að auðvitað er veruleg aukning á útgjöldum þeirra á næsta ári fyrirsjáanleg, og Samb. ísl. sveitarfélaga hefur einnig þótt eðlilegt að fara þessa leið til að mæta þeim vanda að einhverju leyti í stað þess að hækka almennt útsvarsálögur á laun eða tekjur og miðast þá við svipaðar röksemdir eins og ég tilgreindi, að lægju fyrir þessu máli af hálfu ríkisins.

Í 4. gr. frv. er um atriði að ræða, sem eru formlegs eðlis fyrst og fremst. Það hafa risið sums staðar vandamál í sambandi við umboðsmenn, skattstjóra. Það er gert ráð fyrir því í núgildandi lögum, að hreppstjórar séu það. Sums staðar er ekki hægt að koma þessu við og þykir því eðlilegt, að oddvitar verði það, þar sem hreppstjórar ekki geta verið það af einhverjum ástæðum. Það liggur í augum uppi, að það er mjög mikið hagsmunamál sveitarfélaganna sem slíkra, að skattaframtöl séu í góðu lagi, því að á þeim er byggð einnig útsvarsheimta sveitarfélaganna, þannig að það er ekki óeðlilegt að tengja þetta saman.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, á þessu stigi málsins að hafa um þetta fleiri orð. En það er nauðsynlegt að afgreiða þetta mál, áður en þinghlé verður fyrir jólin, og vildi ég því leyfa mér að beina því til hv. n., sem fær þetta til meðferðar, að hún leitist við að ljúka störfum það snemma, að hægt verði að ljúka afgreiðslu málsins fyrir jólahlé. Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.