13.12.1967
Neðri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

23. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er komið frá hv. Ed. og hlaut þar einróma og ágreiningslaust samþykki. Við frv. voru þó gerðar í d. nokkrar breytingar, þ.e.a.s. bær brtt., sem fram komu á þskj. 115 og fela það helzt í sér, að sett er á fót 5 manna n. til þess, ásamt heilbrmrh., að ákveða daggjöld og gjaldskrár á sjúkrahúsum. Þetta er meginefni þeirra breytinga, sem á þskj. eru og samþ. voru í hv. Ed.

Frv. sjálft felur það í sér, að ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla, sem félmrn. hefur til þessa annazt, verði lögð niður. Þó verði, eins og í frv. segir, fávitar, sem dveljast á hælum og dagvistarheimilum fyrir vangefna, áfram á ríkisframfærslu, sbr. l. nr. 53 frá 22. apríl 1967 um fávitastofnanir. Frv. gerir þó að sjálfsögðu ráð fyrir því, að þeir, sem verið hafa á ríkisframfærslu, njóti framvegis ekki minni aðstoðar af hálfu hins opinbera en þeir hafa gert til þessa. Hér er því nánast um hagræðingaratriði að ræða.

Kostnaður við sjúkrahúss- og hælisvist er nú tryggður af þremur aðilum.

1. Sé um að ræða ellikröm eða alvarlega, langvinna sjúkdóma, tryggir ríkisframfærslan kostnaðinn, þó að undanskilinni sjúkrahúsvist fyrstu 5 vikurnar, sem kostaðar eru aðallega af sjúkrasamlögum, en að litlum hluta af héraðssamlögum, þar sem þau eru, eða að jafnaði síðustu 5 dagana af þessum 5 vikum.

2. Vegna annarra sjúkdóma en þeirra, sem nú var getið, tryggja sjúkrasamlög kaupstaðanna kostnaðinn og sjúkrasamlög, sem eru í héraðssamlögum, greiða þennan kostnað einnig, en þó aðeins í 30 daga vegna hvers samlagsmanns á hverjum 12 mánuðum.

3. Héraðssamlög tryggja kostnað vegna sjúkrahúsvistar, sem varir lengur en 30 daga fyrir hvern samlagsmann á hverjum 12 mánuðum, þó að sjálfsögðu ekki kostnað, sem ríkisframfærslan tryggir samkv. áður sögðu.

Breytingin, sem frv. gerir ráð fyrir, er í stuttu máli sú, að sjúkrasamlög og héraðssamlög, þar sem þau eru, tryggja samlagsmönnum sjúkrahúsvist, sem hefur varað allt að 12 mánuðum undanfarin tvö ár, og að sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins tryggir samlagsmönnum sjúkrasamlaganna víst á sjúkrahúsum, þegar skyldutryggingu sjúkrasamlaga og héraðssamlaga lýkur hverju sinni, svo og vist á hælum og stofnunum, öðrum en sjúkrahúsum, sem nauðsynleg er talin vegna ellikramar eða langvinns sjúkdóms.

Ég tel ekki þörf á því að rekja efni frv. sjálfs öllu frekar, nema sérstakt tilefni gefist til, og brtt. þær, sem hv. Ed. gerði á frv., skýra sig að mestu leyti sjálfar og óþarft að skýra þær öllu frekar, en ég vil leggja áherzlu á það við þá hv. n., sem málið fær til meðferðar, að hún reyni að ljúka afgreiðslu þessa máls hið allra fyrsta, þar sem nauðsynlegt er, að það fái endanlegu afgreiðslu fyrir áramót, en þá er meiningin að yfirtaka Tryggingastofnunar ríkisins fari fram á þessari starfsemi og í trausti þess, að hv. Nd. fallist á þetta frv., hefur þegar verið hafinn undirbúningur að því að gera Tryggingastofnuninni þetta fært, en nauðsynlegt er þó, að endanleg afgreiðsla málsins fáist, áður en þm. fara í jólafri.

Ég óska þess svo, herra forseti, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. heilbr.- og félmn.