19.10.1967
Sameinað þing: 5. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

1. mál, fjárlög 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Áður en ég geri grein fyrir fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1968, mun ég í stórum dráttum skýra afkomu ríkissjóðs á árinu 1966 og horfur á yfirstandandi ári. Nokkru áður en Alþingi lauk störfum s.l. vor, birti ég þinginu greinargerð um afkomu ríkissjóðs á árinu 1966, en tók þá fram, að þar væri um bráðabirgðatölur að ræða í ýmsum efnum og gætu því niðurstöður breytzt nokkuð við endanlegt uppgjör. Þótt þær breytingar séu ekki veigamiklar, þykir mér engu að síður rétt að nefna hér hinar helztu niðurstöðutölur, en mun þó fara skjótt yfir sögu og um einstök atriði vísa til ríkisreikningsins, sem lagður hefur verið á borð hv. þm.

Tekjur á rekstrarreikningi ríkissjóðs árið 1966 urðu 4677,8 millj. kr. og fóru því 883,4 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. Munar þar mestu um aðflutningsgjöld og söluskatt. Aðflutningsgjöld fóru 394,5 millj. kr. fram úr áætlun og söluskattur 200,5 millj. Stafar það af auknum innflutningi og aukinni viðskiptaveltu. Gjald af bifreiðum og bifhjólum fór 65 millj. kr. fram úr áætlun, enda óx innflutningur bifreiða stórlega frá næsta ári á undan.

Þá fóru tekjur af ríkisstofnunum 146,2 millj. kr. fram úr áætlun, og veldur því m.a. stóraukin sala Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins. Enginn vafi er á því, að smygl á áfengi hefur minnkað, þótt neyzla innanlands hafi vaxið nokkuð. Tekjuafgangur varð einnig 49,4 millj. kr. á pósti og síma.

Loks fór tekju- og eignaskattur 64,6 millj. fram úr áætlun, stimpilgjöld 11,1 millj. kr. og vaxtatekjur 14 millj. kr. fram úr áætlun, bæði vegna hagstæðs vaxtajafnaðar við Seðlabankann og innheimtra dráttarvaxta.

Aðrar tekjur ríkissjóðs urðu nálægt áætlun, en aukatekjur þó aðeins 54,7 millj. kr. í stað 70 millj., sem áætlað var. Með I. frá 22. des. 1965 um aukatekjur ríkissjóðs var gert ráð fyrir allverulegri hækkun þeirra, en þann tekjuauka var þó mjög erfitt að áætla, þar sem um svo margvísleg gjöld er að ræða, enda reyndist áætlunin óraunhæf.

Gjöldin á rekstrarreikningi ríkissjóðs árið 1966 urðu 3899,2 millj. kr. og fóru 291 millj. fram úr áætlun. Helztu skýringar þessara umframgjalda eru launahækkanir, auknar niðurgreiðslur, auknar útflutningsbætur og útgjöld vegna sérstakra laga. Launahækkanir eru taldar hafa numið alls um 175 millj. frá því, sem áætlað var á einstaka fjárlagaliðum. Er þar bæði um að ræða afleiðingar kjaradóms frá ársbyrjun 1966, þar sem kveðið var á um 7% hækkun grunnlauna opinherra starfsmanna, ýmsar launatilfærslur, sem síðan hafa verið gerðar og afleiðingar vísitölubreytingar. Auk þess er að reikna með launahækkunum til ýmissa, sem ekki taka laun skv. launakerfi ríkisins. Á 19. gr. voru 107 millj. kr. áætlaðar til að mæta þessu, þannig að raunveruleg umframgreiðsla er 68 millj. kr. Þá hefur framlag til eftirlauna og tillag til lífeyrissjóða hækkað um tæplega 8 millj. kr. frá fjárl. Útgjöld til félagsmála hafa hækkað um 22 millj. kr., einkum vegna beinna afleiðinga launahækkana.

Niðurgreiðslur á vöruverði fóru 54 millj. kr. fram úr áætlun fjárl., enda voru niðurgreiðslur auknar verulega s.l. haust í sambandi við verðstöðvunina. Mestur hluti niðurgreiðslunnar eða 37,6 millj. kr. eru þó niðurgreiðslur vegna ársins 1965, sem inntar voru af hendi á árinu 1966 og ekki taldar í ríkisreikningi þessa árs. Niðurgreiðslur að upphæð 62 millj. kr. rúmar vegna ársins 1966, sem fóru fram eftir s.l. áramót, eru hins vegar taldar með gjöldum ríkissjóðs árið 1966 og tekið tillit til þess í yfirliti um greiðslujöfnuð þess árs.

Uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir fóru 34 millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga, sem stafaði af meiri hækkun búvöruverðs og meiri framleiðslu en gert hafði verið ráð fyrir við samningu fjárlaga ársins.

Útgjöld skv. heimildarlögum og sérstökum lögum urðu rúmlega 90 millj. kr. umfram áætlun fjárlaga. Er þar fyrst og fremst um að ræða útgjöld vegna sérstakrar löggjafar um aðstoð til sjávarútvegsins, rúmar 70 millj. kr., og 20 millj. kr., sem inntar voru af höndum til framleiðnisjóðs landbúnaðarins skv. sérstökum l., sem sett voru rétt fyrir árslok 1966. En gert var ráð fyrir að verja samtals 30 millj. kr. til þess sjóðs af greiðsluafgangi ársins 1966. Alls nema umframgreiðslur vegna þeirra liða, sem nú hafa verið taldir, um 276 millj. kr. af áðurnefndri 291 millj. kr. umframgreiðslu.

Þegar gjaldahlið rekstrarreiknings er skoðuð, ber að hafa í huga, að launahækkunum, sem í fjárl. eru áætlaðar í 19. gr., hefur verið skipt niður á viðeigandi gjaldagrein í reikningi. Sama á við um launaskatt. Skýrir það í mörgum tilvikum að verulegu leyti mun fjárlagatölu og reikningstölu, einkum á þeim gjaldagreinum, þar sem laun eru hlutfallslega mjög stór liður.

Kostnaður við Alþingi fór 6,7 millj. kr. fram úr áætlun. Vafalaust er hér aðallega um launahækkanir að ræða, en rekstursreikningur hefur ekki borizt frá skrifstofu Alþingis og því ekki hægt að vita nákvæmlega um orsakir umframgreiðslunnar, en fjmrn. hefur ekki bein afskipti af fjárreiðum Alþingis, heldur eru þær undir yfirstjórn forseta þingsins. Kostnaður við stjórnarráðið fór 13,2 millj. kr. fram úr áætlun og kostnaður við utanríkismál 4,8 millj. kr. Er hér fyrst og fremst um launagreiðslur að ræða.

Kostnaður við dómsmál fór 30 millj. kr. fram úr áætlun, sem aðallega stafar af launahækkunum, og kostnaður vegna innheimtu tolla og skatta 18,5 millj. kr. fram úr áætlun, sem bæði stafar af launahækkunum og vanáætlun, einkum kostnaður við ríkisskattanefnd og skattstofu.

Heilbrigðismál fóru 25,5 millj. kr. fram úr áætlun, sem annars vegar stafar af sérstökum launahækkunum og enn fremur urðu tekjur Landsspítalans 4,7 millj. kr. undir áætlun.

Umframgreiðslur til samgangna á sjó urðu 11,4 millj. kr. Er þar fyrst og fremst um að ræða Skipaútgerð ríkisins. Fór kostnaður við hana verulega fram úr áætlun, en þess ber þó að gæta, að halli sá, sem ríkissjóður greiðir Skipaútgerðinni, reyndist 5,8 millj. kr. lægri en árið áður.

Kennslumál fóru 48,2 millj. kr. fram úr áætlun og eru launahækkanir aðalskýring þeirrar umframgreiðslu. Sama er að segja um umframgreiðslu til flugmála 4,3 millj. kr., til vegaþjónustu 1,6 millj. kr., til opinberra safna 4,2 millj. kr. og til kirkjumála 3,1 millj. kr.

Framlög til landbúnaðarmála fóru 11 millj. kr. fram úr áætlun. Munar þar mestu um gjöld skv. jarðræktarlögum, 5,8 millj. kr., sem eru lögbundin og mjög erfitt að áætla fyrirfram. Sjávarútvegsmál fóru 18,9 millj. kr. fram úr áætlun, og er þar aðallega um að ræða framlag til fiskveiðasjóðs, 12,1 millj. kr., og til aflatryggingasjóðs, 4,9 millj. kr. umfram áætlun, en hvor tveggja þessara framlaga eru lögbundin. Iðnaðarmál fóru 2 millj. kr. fram úr áætlun og raforkumál 4,5 millj. kr.

Framlög til félagsmála fóru 22,1 millj. kr. fram úr áætlun og er meginhluti þeirrar umframgreiðslu framlag til almannatrygginga, 18 millj. kr., sem er bein afleiðing launahækkana. Óviss útgjöld fóru aðeins 1,4 millj. kr. fram úr áætlun og er fátítt, að ekki sé um verulega umframgreiðslu að ræða á þessum fjárlagalið. Raunverulega urðu þó gjöld þessi undir áætlun vegna þess, að með er talinn kostnaður vegna skiptimyntar, 2,3 millj, kr.. sem stafar af óvenjulega miklum innkaupum skiptimyntar á árinu, en hagnaður hins vegar jafnan nokkur af sölu skiptimyntarinnar.

Eignabreytingar skv. 20. gr. þarfnast yfirleitt ekki skýringa. Öll tekin lán hafa verið endurlánuð, nema hluti af spariskírteinaláni 1966, þar var 12.1 millj. kr. óráðstafað í árslok. Veitt lán urðu alls rúmlega 68 millj. kr., þar af rúmlega 27 millj. vegna aðflutningsgjalda, sem hafa verið lánuð Rafmagnsveitum ríkisins og Landsvirkjun, 12 millj. endurlánað af spariskírteinaláni 1965 og tæplega 9 millj. kr., sem hafa verið lánaðar til Borgartúns 7.

Greiðsluafgangur ríkissjóðs á árinu 1966 varð 431,1 millj. kr. alls, en þó raunar 451,1 millj., því að þær 20 millj. kr., sem ráðstafað var af greiðsluafgangi til framleiðnisjóðs landbúnaðarins fyrir árslok 1966 og heimilað var að greiða af greiðsluafgangi ársins, hafa verið bókfærðar sem umframútgjöld ríkissjóðs á árinu. Sjóðs- og bankainnistæður jukust á árinu um 411 millj. kr. og fyrirframgreiðslur vegna fjárl. 1967 urðu 94,2 millj. kr. hærri en fyrirframgreiðslur voru vegna fjárlaga 1966. Geymt innheimtufé ríkissjóðs hefur lækkað um 23,4 millj. kr., en geymdar fjárveitingar frá fjárl. 1966 og eldri fjárl. hafa hækkað um 157,2 millj. kr., þar eð reikningum var nú lokað fyrr. Árið 1962 varð greiðsluafgangur hjá ríkissjóði 161,7 millj. kr. og var á næsta ári ráðstafað 100 millj. kr. af þeim afgangi í sérstakan jöfnunarsjóð í Seðlabankanum og 39,8 millj. kr. til að greiða upp lán í Seðlabanka Íslands vegna smíði 10 togara og vegna skuldaskilasjóðs útvegsmanna. Árið 1963 var greiðsluafgangur 124,5 millj. kr., en þar af var á næsta ári ráðstafað 44,8 millj. kr. til hafnargerða, sjúkrahúsa og atvinnubótasjóðs. Árið 1964 var hins vegar greiðsluhalli, er nam 257,8 millj. kr. Loks varð 90,7 millj. kr. greiðsluhalli árið 1965, en þess ber þó að gæta, að sá jöfnuður er ekki fyllilega sambærilegur við jöfnuð hinna áranna vegna þess, að það ár var gerð sú breyting, að sjóði var lokað strax í árslok, en áður hafði honum venjulega verið haldið opnum nokkra mánuði fram á næsta ár.

Greiðsluafgangur ríkissjóðs 1966 er því hinn langhæsti, sem verið hefur. Vegna óhagstæðrar greiðsluþróunar ríkissjóðs síðustu tvö árin áður, var brýn nauðsyn að jafna yfirdráttarskuldir Seðlabankans og var það meginsjónarmið haft í huga við ráðstöfum greiðsluafgangsins. Hefði vitanlega verið æskilegast að ráðstafa engu af þessum greiðsluafgangi, eða a.m.k. ekki meira en svo, að hægt hefði verið að jafna stöðuna við Seðlabankann án þess að skerða þær 100 millj. kr., sem lagðar höfðu verið í jöfnunarsjóð af greiðsluafgangi ársins 1962. Þetta reyndist þó ekki auðið, fyrst og fremst vegna hinna miklu erfiðleika sjávarútvegsins, sem nauðsynlegt var vegna verðstöðvunarstefnunnar að afla fjár til að mæta án skattahækkana. Var hin góða afkoma ríkissjóðs 1966 þannig forsenda þess, að hægt var að koma á verðstöðvun án kjaraskerðingar, þrátt fyrir stóraukna aðstoð til sjávarútvegsins vegna hins alvarlega verðfalls útflutningsafurða. Var þannig 140 millj. kr. af greiðsluafgangi varið sem stofnfé til verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og 53 millj. kr. var ráðstafað til vegagerða, bygginga við menntaskóla og Landsspítala í sambandi við öflun fjár vegna framkvæmdaáætlunar ríkisins fyrir árið 1967. Enn fremur var 20 millj. kr. varið til þess að hraða greiðslu ríkisstyrks til togaraútgerðarinnar og 30 millj. lagðar til framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

Ljóst varð þegar við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1967, að hagur ríkissjóðs mundi breytast mjög til hins verra á því ári og djarft teflt um afkomu ríkissjóðs. Annars vegar var gert ráð fyrir, að hinn mikli innflutningur, sem var á árinu 1966,

héldi áfram, þrátt fyrir fyrirsjáanlega mikla lækkun á útflutningstekjum, og hins vegar tók ríkissjóður á sig miklar kvaðir vegna verðstöðvunarinnar og viðbótaraðstoðar við sjávarútveginn, með sérstakri löggjöf um það efni í byrjun ársins. Í fjárl. yfirstandandi árs eru 200 millj. kr. áætlaðar til þess að mæta niðurgreiðslum beinlínis vegna verðstöðvunarinnar. Líkur eru til, að þau útgjöld hefðu farið 100 millj. kr. fram úr áætlun, ef verðstöðvunaraðgerðirnar hefðu orðið óbreyttar til ársloka, vegna nýrra niðurgreiðslna, sem ríkisstj. hefur neyðzt til að grípa til í því skyni að koma í veg fyrir hækkun vísitölunnar. Hafa þar komið til ýmsar hækkanir, sem ófyrirséðar voru, þegar fjárl. ársins voru afgreidd, og þó raunar þá vitað, að niðurgreiðslur væru vanáætlaðar um nokkra milljónatugi, en jafnframt reiknað með, að tekjuskattur væri varlega áætlaður í fjárl.

Áætlað er, að þær uppbætur á fiskverð, sem ákveðnar voru með I. nr. 4 1967 um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, kosti ríkissjóð 105 millj. kr. á þessu ári. En þeim útgjöldum átti að mæta með niðurskurði framlaga til fjárfestingar í fjárl. svo og lækkun á tekjum jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og lækkun á áætluðu framlagi til ríkisábyrgðasjóðs. Sýnt þykir, að ekki takist að ná að öllu leyti áætluðum niðurskurði framlaga til opinberra framkvæmda, þannig að um 15 millj. kr. vanti til þess að mæta þessum útgjöldum.

Við undirbúning fjárlaga yfirstandandi árs var meira vandað til rekstraráætlana opinberra stofnana en áður hefur verið auðið að gera og leitazt við að áætla útgjaldaþörfina raunhæft, þótt hvarvetna væri lögð áherzla á að spyrna fótum gegn óeðlilegri þenslu. Ef ekkert óvænt kemur fyrir, á því að vera hægt að forðast umframgreiðslur á flestum útgjaldaliðum fjárl., og strax í ársbyrjun voru öllum ríkisstofnunum send ströng fyrirmæli um að halda útgjöldum sínum innan ramma fjárl. Er ekki enn vitað um nein sérstök vandræði af þessum sökum og standa því enn vonir til, að umframgreiðslur verði engar að ráði, að undanteknum niðurgreiðslum og framlögum til sjávarútvegsins. Rekstrarútgjöld ríkissjóðs fyrstu 7 mán. ársins hafa að vísu verið greidd nokkuð örar í ár, hlutfallslega, en var árið 1966, eða sem nemur um 8% af heildarútgjöldunum. Er hér veigamest hinar auknu niðurgreiðslur á vöruverði og hraðari greiðsla útflutningsuppbóta á landbúnaðarafurðir en var 1966, og enn fremur er þess að gæta, að ráðstafanir á greiðsluafgangi ársins 1966 færast sem útgjöld hjá ríkissjóði á yfirstandandi ári.

Horfur eru á, að verulegur samdráttur verði í þjóðartekjum á þessu ári og er það mikil breyting frá hinni óvenjulegu árlegu hækkun þeirra síðustu árin. Vetrarvertíðin var hin versta um áratugi, og síldveiðarnar hafa þar til síðustu vikurnar brugðizt mjög alvarlega. Til viðbótar er svo hið mikla verðfall allra helztu sjávarafurða, sem ekki hefur minnkað, svo sem menn vonuðu, heldur í veigamiklum atriðum enn aukizt verulega. Afli togara hefur að vísu verið góður, en það nægir skammt til að jafna metin. Er áætlað, að útflutningsverðmæti vetrarvertíðarafla sé 500 millj. minna en á s.l. ári og horfur um síldarafla enn mjög óvissar. Þann 1. okt. var verðmæti útflutningsins um 1 þús. millj. kr. minna en árið 1966 á sama tíma, og horfur eru á, að verðmæti sjávarafurðaframleiðslu og útflutnings verði 20%–25% minni en 1966. Slík óheillaþróun hlýtur að hafa mjög alvarleg áhrif á allan þjóðarbúskapinn. En vegna útstreymis úr ríkissjóði í formi niðurgreiðslna og vegna notkunar gjaldeyrisvarasjóðsins, er afleiðinganna enn ekki tekið að gæta nema að litlu leyti í minnkandi innflutningi og viðskiptaveltu. Verður það fyrst á næsta ári, sem áhrifa þessarar þróunar fer að gæta að ráði, ef ekki úr rætist með aflabrögð eða verðlag.

Tekjuáætlun ríkissjóðs var tekin til rækilegrar endurskoðunar bæði í júlí og ágúst í sambandi við undirbúning fjárlaga. Er enn þá talið, að tekjuáætlun fjárlaga muni að mestu leyti standast, þó tilfærslur séu milli einstakra liða. Þannig mun t.d. tekju- og eignarskattur ekki verða hærri en áætlun fjárlaga, svo sem vonazt hafði verið til, heldur sennilega um 50 millj. kr. lægri. Hafa miklar breytingar orðið í tekjuhlutföllum milli einstakra skattumdæma frá árinu áður. Aðflutningsgjöld eru áætluð lítið eitt hærri í þessum fjárlögum, en söluskattur aftur á móti áætlaður lægri um svipaða upphæð. Horfur eru á, að leyfisgjöld fari nokkuð fram úr áætlun, og hagnaður Áfengis- og tóbaksverzlunar e.t.v. um 40 millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga, miðað við óbreytt verð. Varð mikil söluaukning á áfengi og tóbaki fyrstu mánuði ársins, en úr henni hefur dregið mjög hina síðari mánuði.

Innheimta ríkistekna fyrstu 9 mánuði ársins gekk nokkru betur en á sama tíma s.l. ár. Hafði í septemberlok verið innheimt 65.3% ríkistekna, en 62% á sama tíma í fyrra. Hefur af hálfu ráðuneytisins verið lögð rík áherzla á að bæta innheimtu ríkistekna, en verulega hefur á það skort, að innheimta væri í lagi hjá ýmsum innheimtumönnum ríkissjóðs utan Reykjavíkur. Hefur ríkisendurskoðuninni verið falið að fylgjast með innheimtunni og sérstök áminningarbréf send öllum innheimtumönnum ríkissjóðs. Hefur sérstök áherzla verið lögð á að koma innheimtu söluskatts í viðunandi horf og jafnframt að afhenda ekki vörur án tollgreiðslu. Hefur töluvert þokazt í rétta átt í þessum efnum, en þó er enn of víða pottur brotinn, og mun öllum tiltækum ráðum verða beitt til þess að koma innheimtunni í viðunandi horf.

Þann 1. okt. nam yfirdráttarskuld ríkissjóðs á aðalviðskiptareikningi í Seðlabankanum 431,4 millj. kr., og hafði viðskiptastaðan versnað um 182,9 millj. kr. frá 1. okt. 1966. Er hér um mjög alvarlega þróun að ræða, sem búast verður við í tæka tíð. Með þeim ráðstöfunum til tekjuöflunar og til að létta útgjöldum af ríkissjóði, sem ríkisstj. hefur gert eða leggur til að gerðar verði, má vænta þess, að ekki verði um neinn verulegan greiðsluhalla að ræða á yfirstandandi ári, en ella má gera ráð fyrir 100–200 millj. kr. greiðsluhalla.

Fjárlagafrv. fyrir árið 1968 ber það með sér, sem raunar flestir munu hafa búizt við, að kjaraskerðing verður nú ekki lengur umflúin. Varasjóðurinn frá 1966 er þrotinn, svo ekki er lengur auðið að halda vísitölu niðri með niðurgreiðslum, og tekjuhorfur ríkissjóðs á næsta ári eru óvissari en oftast áður. Að vísu er vonazt til, að ekki þurfi að grípa til innflutningshafta á næstunni, og ekki virðist óeðlileg bjartsýni að vænta þess, að verðlag og aflabrögð verði eitthvað betri á næsta ári. Hins vegar hefur tekjurýrnun vafalaust orðið veruleg á þessu ári hjá ýmsum stéttum, og má því gera ráð fyrir, að eitthvað dragi úr kaupgetu. Loks hlýtur sú kjaraskerðing, sem nú verður ekki lengur umflúin, að draga eitthvað úr viðskiptaveltu. Þótt kjaraskerðingin verði nú að ákvarðast í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, þá á ríkisreksturinn sem slíkur engan þátt í kjaraskerðingunni, heldur er hún eðlileg afleiðing hinnar miklu rýrnunar þjóðartekna, sem verðfall og aflabrestur hafa leitt af sér. Þegar fjárlagadæmið var gert upp, kom í ljós, að skorta mundi um 750 millj. kr. til þess að ná endum saman, en það samsvarar u.þ.b. 4% af þjóðartekjum. Var þó í því dæmi ekki gert ráð fyrir nema um 90 millj. kr. lækkun ríkistekna frá þessu ári, og áætlanir ríkisrekstrarins skornar svo róttækt niður, að þar var ekki gert ráð fyrir nema um rúmlega 80 millj. kr. hækkun, eða um 1.8%.

Það, sem vó langþyngst í þessu dæmi, voru niðurgreiðslur á vöruverði, en þær mundu á næsta ári hafa kostað ríkissjóð 930 millj. kr., ef halda hefði átt áfram öllum þeim niðurgreiðslum, sem upp hafa verið teknar í sambandi við verðstöðvunina, og er þá ekki neitt áætlað fyrir frekari verðhækkunum, sem reynslan hefur sýnt. að alltaf eru óumflýjanlegar, þótt reynt sé að halda öllu í skorðum. Af þessari miklu fjárhæð nema niðurgreiðslur vegna verðstöðvunarinnar rúmum 400 millj. kr. En næstþyngsti bagginn voru framlögin til sjávarútvegsins, sem á þessu stigi málsins sýnist augljóst, að ekki verður unnt að skerða á næsta ári, heldur miklu fremur vafasamt, að þar náist saman endar, þrátt fyrir sömu aðstoð ríkisins. Það mál verður þó að skoðast allt miklu nánar og því eðlilegt við undirbúning fjárlaga að miða við sömu aðstoð og veitt hefur verið á þessu ári. Með sérstökum lögum voru veittar í ár 140 millj. kr. til verðjöfnunarsjóðs hraðfrystiiðnaðarins og 100 millj. kr. til uppbóta á fiskverð umfram þær 80 millj., sem veittar eru í fjárlögum. Framlagið til verðjöfnunarsjóðsins var greitt af greiðsluafgangi ríkissjóðs 1966 og er því sú tekjulind ekki lengur fyrir hendi. Fiskverðsuppbótunum var að vísu mætt með niðurskurði á fjárfestingarútgjöldum ríkissjóðs, lækkun á framlagi til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og lækkun á framlagi til ríkisábyrgðasjóðs. Þótt almennt sé að vísu haldið áfram 10% niðurskurði á fjárfestingarframlögum ríkissjóðs, þá er þó um óumflýjanlega beina hækkun að ræða á einstökum fjárfestingarliðum. Ekki þykir fært að skerða aftur framlagið til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, og horfur eru á mjög versnandi hag ríkisábyrgðasjóðs vegna aukinna vanskila, þannig að óumflýjanlegt er talið að hækka framlag til hans á næsta ári um 40 millj. frá raunverulegu framlagi í ár. Verði áfram greitt úr verðtryggingasjóði eftir sömu reglum og nú er fylgt, þá á að nægja að áætla framlag til hans á næsta ári 100 millj. kr. En hér eru þá samtals um 200 millj. kr. til sjávarútvegsins, sem verður að afla fjár til á næsta ári.

Vegna verðstöðvunarinnar hefur Tryggingastofnun ríkisins verið bannað að hækka iðgjöld almannatrygginga á þessu ári, og hefur það haft í för með sér um 50 millj. kr. tekjumissi fyrir Tryggingastofnunina. Áætlar stofnunin því að þurfa um 115 millj. kr. til þess að jafna þann halla á næsta ári. Þá var heldur ekki látin koma til framkvæmda fyrirhuguð hækkun daggjalda á sjúkrahúsum, heldur var sú hækkun greidd niður.

Fram hjá þessum óskemmtilegu tölum verður ekki komizt með nokkru móti og því aðeins um það að ræða að meta það, hvernig þessum miklu útgjöldum verði mætt með sem minnstri kjaraskerðingu. Er það meginatriðið, sem haft hefur verið að leiðarljósi við lausn dæmisins. Verðstöðvunin hefur tvímælalaust á margan hátt haft heillavænleg áhrif, ekki sízt á þann hátt að venja fólk í meginefnum við stöðugt verðlag og þar með meiri trú á raungildi peninga heldur en verið hefur oftast undanfarna áratugi. Það er því hin brýnasta nauðsyn, að í meginefnum verði ekki horfið frá þeirri stefnu, enda byggist lausn fjárlagadæmisins á því, að hvorki komi til almennra kauphækkana né almennra hækkana á vöruverði.

Gengislækkunar má ekki grípa til nema sem algjörs neyðarúrræðis, enda hefði hún fleytt af stað nýrri verðbólguöldu og á engan hátt verið hentug lausn á þeim vanda, sem nú er við að glíma, því að gengislækkun hefur varanleg áhrif. Nú er annars vegar við að glíma aflabrest, sem ekki er ástæða til að halda að verði varanlegur, og hins vegar við mjög skyndilegt verðfall og óstöðugt verðlag útflutningsframleiðslunnar, þannig að ógerlegt er að átta sig á, við hvaða verðlag ætti að miða gengisskráningu. Hækkun söluskatts hefur þá annmarka, að hún leiðir til almennrar verðhækkunar og mjög hætt við, að í kjölfar þeirrar hækkunar verði reynt að fá fram hækkanir af öðrum ástæðum. Hvorug þessara leiða er því æskileg í dag miðað við þá stefnu að halda verðstöðvuninni áfram í meginatriðum.

Að þessum leiðum slepptum var því ekki um annað að ræða en annars vegar að draga úr niðurgreiðslum á vöruverði, sem eru meginorsök útgjaldaauka ríkissjóðs, og hins vegar að grípa til skattahækkana á takmörkuðum sviðum, sem ekki hafa almenn áhrif á verð vöru og þjónustu. Niðurgreiðsla á vöruverði í sambandi við verðstöðvunina var aðferð til þess að fresta kjaraskerðingu, sem þegar var orðin, í trausti þess, að útflutningsframleiðslan yrði þess umkomin að taka á sig þá vísitöluhækkun að verðstöðvunartímabilinu liðnu. Eðlileg afleiðing þess, að hagur útflutningsframleiðslunnar hefur ekki batnað, er því sú, að þessar niðurgreiðslur, sem ná til fárra vörutegunda, verði nú felldar niður og neytendur þessara vara verði að taka þær á sig í hækkuðu vöruverði. Er hér um að ræða rúmar 400 millj. kr., sem nú er lagt til að fella niður, enda hafa raunar bæði bændasamtök og launþegar lýst því yfir, að það væri til lengdar mjög vafasöm stefna að fela raunverulegt verðlag með niðurgreiðslum. Engu að síður verða enn gildandi niðurgreiðslur, er nema 519 millj. kr., á næsta ári. Með þessari einu ráðstöfun er hægt að leysa helming fjárlagadæmisins.

Þá er fyrirhugað að leyfa hækkun daggjalda á sjúkrahúsum, svo sem ráðgert var í fyrra, og enn fremur að heimila Tryggingastofnun ríkisins eðlilega hækkun iðgjalda almannatrygginga, því að ógerlegt er að synja tryggingunum um þá tekjuöflun ár eftir ár. Gert er ráð fyrir að leggja söluskatt á þjónustu pósts, síma, hljóðvarps og sjónvarps, og áætlað, að sú ráðstöfun gefi um 40 millj. kr. tekjur. Afkoma landssímans er mjög góð og talið auðið að gera ráð fyrir, að hann geti skilað 20 millj. kr. í ríkissjóð sem hagnaði á næsta ári. Ætlunin er að endurskoða gildandi reglur um undanþágu varðandi leyfisgjöld af bifreiðum með það í huga að skerða þær nokkuð og takmarka, enda eru þær undanþágur á ýmsan hátt varasamar. Almenn verðhækkun á áfengi og tóbaki var síðast framkvæmd haustið 1965. Hefur því verð á þessum vörum að mestu verið óbreytt í tvö ár. En nú hefur verðið verið hækkað um 13%, sem er þó töluvert minna en kaupgjald hefur hækkað raunverulega á þessu tímabili. Af eðlilegum ástæðum varð að framkvæma þessa verðhækkun og lækkun niðurgreiðslna áður en fjárlagafrumvarpið var lagt fram, ella hefði mátt gera ráð fyrir óeðlilegri birgðasöfnun þeirra aðila, sem bezt efni hafa á að birgja sig upp af slíkum vörum.

Þá er ætlunin, að fasteignamat við ákvörðun eignarskatts verði á næsta ári tólffaldað í stað þess að það er nú sexfaldað, þannig að núgildandi mat er raunverulega tvöfaldað. Nýja fasteignamatið er það langt á veg komið, að sýnt þykir, að hið endanlega fasteignamat verði ekki undir þessari margföldun. Þar sem gert er ráð fyrir, að hið nýja mat taki gildi á árinu 1969, er þessi ákvörðun nú miðuð við eitt ár. Skattfrjáls lágmarksupphæð fasteigna er einnig tvöfölduð. Áætlað er, að tekjuauki af þessari ráðstöfun verði um 60 millj. kr. á næsta ári.

Loks er gert ráð fyrir, að á verði lagður á næsta ári sérstakur farseðlaskattur, er verði 3000 kr. á hvern farseðil. Hugmyndin um þennan skatt kom fram á árinu 1965 í sambandi við jöfnun greiðsluhalla ríkissjóðs þá, en mætti miklum andbyr af ýmsum ástæðum. Hér er líka um skattgjald að ræða, sem almennt er óeðlilegt og óæskilegt, en getur verið jafnsjálfsagt við þær aðstæður, sem við stöndum nú andspænis. Það er hverjum manni augljóst, að ferðagjaldeyrir er nú seldur undir sannvirði, þar sem verulegir styrkir eru nú greiddir til öflunar gjaldeyrisins. Það er því ógerlegt að afhenda þennan gjaldeyri undir kostnaðarverði til eyðslu erlendis, þar sem verðlag er mun hagstæðara en hér og til kaupa á vörum, sem fluttar eru inn ótollaðar. Er áætlað, að skattur þessi gefi yfir 60 millj. kr. á næsta ári.

Ég tel ekki ástæðu til þess að eyða lengri tíma ræðu minnar til þess að gera grein fyrir þessum ráðstöfunum til að jafna greiðsluhalla á fjárlögum, þar eð sérstakt frumvarp um löggildingu flestra þessara aðgerða er til meðferðar hér í Alþ., og í sambandi við það frumvarp munu verða rædd hin einstöku atriði efnahagsþróunarinnar og grundvallarstefna ríkisstj. í þeim efnum, auk þess sem hæstv. forsrh. hefur í stefnuyfirlýsingu sinni í byrjun þings gert grein fyrir meginatriðum þessa máls.

Gert er ráð fyrir, að aðgerðir þessar leiði til 7,2% hækkunar á framfærsluvísitölu skv. núgildandi grundvelli, eða 4,1% hækkunar skv. nýja grundvellinum, sem gefur mun réttari mynd af framfærslukostnaðinum. Verður almenningur að taka á sig þá byrði án hækkunar kaupgjaldsvísitölu.

Er hér ekki um meiri kjaraskerðingu að ræða en svo, að kaupmáttur tímakaups verkamanna á árinu 1968 verður ekki lægri en á fyrri hluta árs 1966, áður en verðfall útflutningsframleiðslunnar hófst. Er því tvímælalaust um minni kjaraskerðingu að ræða en gera hefði mátt ráð fyrir miðað við allar aðstæður og horfur.

Fjárlagafrv. fyrir árið 1968 er í nýjum búningi, sem er svo gerbreyttur frá fyrri gerð fjárlaga, að naumast stendur steinn yfir steini frá hinu eldra skipulagi, svo hv. þm. mun vafalaust þykja erfitt um vik að fá samanburð við fyrri fjárlög. Þessi róttæka skipulagsbreyting fjárlaga stafar ekki af því, að fjmrn. hafi löngun til að villa um fyrir þingmönnum, heldur er hér um að ræða hið fyrsta fjárlagafrv., sem samið er samkv. lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, sem sett voru á árinu 1966. Sennilega hafa þm. naumast gert sér fulla grein fyrir þessari róttæku breyt. um gerð fjárlaga, sem verið var að ákveða, en ég hygg þó, að við nánari athugun megi allir sannfærast um það, að þessi breyt. sé stórlega til batnaðar og mönnum reynist með tímanum auðveldara en áður að gera sér grein fyrir ríkisbúskapnum, bæði í heild og í einstökum atriðum hans. Með hinni nýju gerð fjárlaga er í senn dregin upp miklu gleggri mynd en áður af ríkisbúskapnum, og jafnframt er þessi breyt. óumflýjanleg til samræmingar nútíma skýrslugerðaraðferðum og til að gera kleift að nota skýrsluvélar í stærri stíl við gerð fjárlaga og í þágu ríkisbókhalds.

Til þess að gera mönnum auðveldara að átta sig á breytingunni, þá er miklu nákvæmari greinargerð með fjárlagafrv. nú en áður hefur tíðkazt, og ýmiss konar töflur og fylgiskjöl til að auðvelda samanburð við núgildandi fjárlög. Hefur sérstök áherzla verið á það lögð að auðvelda mönnum þann samanburð með því að draga saman í sérstöku yfirliti sambærilega liði hins nýja frv. og núgildandi fjárlaga, þótt sá samanburður geti vitanlega aldrei verið tæmandi, svo sem nánar er skýrt í greinargerðinni. Breytingar eru svo nákvæmlega raktar í greinargerð frv., að ég mun hér aðeins stikla á þeim helztu, enda tæki allt of langan tíma að rekja breytingarnar í einstökum atriðum. Meginefnisbreyting frv. er í því fólgin, að nú eru teknir í fjárlög allir skattar, sem á liðnum árum hafa verið á lagðir til margvíslegra sérþarfa, og mun áreiðanlega mörgum þykja fróðlegt að sjá, hversu athafnasamt þingið hefur verið í þeim efnum og jafnframt gera sér grein fyrir, hversu óvarlega oft hefur verið farið á þessu sviði og ótal sérgjöld á lögð án nokkurs samræmds heildarmats á þeim þörfum, sem sérskattarnir annars vegar og fjárveitingar ríkissjóðs hins vegar eiga að fullnægja.

Er mjög lærdómsríkt að draga upp þessa mynd og gefur áreiðanlega tilefni til margvíslegrar umþenkingar. Þessi sérstöku gjöld eru 46 að tölu og fela í sér 1222 millj. kr. skattheimtu á þjóðfélagsborgarana, eða samsvara u.þ.b. 1/5 hluta af tekjum ríkissjóðs.

Hefur ótrúleg hugvitssemi verið sýnd við að finna út alls konar gjaldstofna. Fyrirferðarmestu gjöldin eru almannatryggingagjöld, sem renna til Tryggingast. ríkisins, 248 millj., lífeyristryggingagjald atvinnurekenda, sem einnig rennur til Tryggingast. ríkisins, 124 millj., innflutningsgjald af benzíni, sem rennur til vegasjóðs, 252 millj., launaskattur, sem rennur til byggingasjóðs ríkisins, 107 millj., bifreiðaskattur, sem rennur til vegasjóðs, 74 millj., iðgjald til atvinnuleysistryggingasjóðs, 42 millj., slysatryggingaiðgjöld atvinnurekenda, áhættuiðgjöld af trillubátum og áhættuiðgjöld af búvélum, sem renna til Tryggingast. ríkisins, 43 millj., aðflutningsgjald af sjónvarpstækjum, sem rennur til ríkisútvarpsins til uppbyggingar sjónvarps, 20 millj., gúmmígjald, sem rennur til vegasjóðs, 14 millj., flöskugjald, sem rennur til styrktarsjóðs vangefinna, 18 millj., og annar hluti flöskugjalds, sem rennur til Hjartaverndar, 6 millj., bifreiðaskattur vegna hægri umferðar, 16 millj., og vegagjald, sem rennur til vegasjóðs, 15 millj., verðjöfnunargjald, sem rennur til Rafmagnsveitna ríkisins, 22 millj., aukagjald er lagt á selda vindlinga, sem nemur 13 millj. og rennur til hvorki fleiri né færri en fjögurra aðila, Landgræðslusjóðs, Krabbameinsfélags Íslands, Íþróttasambands Íslands og Slysavarnafélags Íslands.

Allir renna sérskattar þessir til nytsamlegra mála, en það þarf ekki mikla athugun til að gera sér grein fyrir því, að ákvörðun gjaldanna hefur oft verið tilviljanakennd og ekkert eðlilegt hlutfall milli upphæðar gjalds og þeirra þjóðfélagsþarfa, sem það á að standa undir. Er sérstaklega eftirtektarvert að bera saman hin ýmsu sérgjöld og þær fjárveitingar, sem sambærilegir aðilar verða að láta sér nægja í fjárlögum hverju sinni. Það er hin brýnasta nauðsyn að taka allt þetta kerfi til heildarendurskoðunar, gera heildarúttekt og samanburð á verkefnum, sem sérskattarnir og ríkisfjárveitingar eiga að leysa, og verður það eitt verkefni Fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar í samráði við ýmis ráðuneyti að taka þessa skattheimtu alla til heildarathugunar, enda getur staðgreiðslukerfi skatta gert ýmsar breytingar sérskatta nauðsynlegar.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að svokölluð eyrnamerking tekjustofna til tiltekinna þarfa sé í meginefnum röng stefna, þótt hún hafi oftlega verið valin vegna þess, að fjárveitingar hafa ekki verið fáanlegar eftir venjulegum leiðum, og minna umróti talið valda að leggja á sérgjöld til tiltekinna þarfa heldur en að hækka almennt skatta til ríkisins til að mæta þessum þörfum. Vitanlega er líka eðlilegt, að sérgjöld séu á lögð til vissra þarfa, þar sem gjöldin og verkefnin eru nátengd, svo sem iðgjöld vegna trygginga, eða sem endurgjald tiltekinnar þjónustu. Hafa þó áhrif þeirra gjalda eigi ætíð verið könnuð sem skyldi, svo sem námsbókagjald, sem hefur meiri áhrif til hækkunar á vísitölu en nemur öllum tekjum af gjaldinu. Er það gjald nú í sérstakri athugun.

Oft er talað um óheyrilegan kostnað við skattheimtu ríkisins, en þegar þess er gætt, að einhverjar greinar skattkerfisins annast bæði álagningu og innheimtu þessara sérskatta, verður mönnum e.t.v. ljóst, hversu stórbrotið þetta verkefni er og umfangsmikið. Í fjárlagafrv. er öll þessi háa upphæð sérskatta færð ríkissjóði til tekna sem aðrar tekjur ríkissjóðs, og veldur þetta að sjálfsögðu stórkostlegri hækkun á fjárlagafrv. umfram venjulegar hækkanir. Síðan eru gjöldin færð sem fjárveiting til þeirra stofnana, sem þau, lögum samkvæmt, eiga að renna til, þannig að jöfnuður næst tekna og gjalda megin.

Hingað til hefur það verið næsta tilviljanakennt, hvaða ríkisstofnanir væru teknar í fjárlög, en nú eru allar ríkisstofnanir teknar í fjárlögin, að undanteknum ríkisbönkunum, stofnlánasjóðum atvinnuveganna og svo nokkrum ríkisfyrirtækjum, sem ekki hefur tekizt að fá áætlanir frá, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli til hlutaðeigandi ráðuneyta og fyrirtækja. Gefst Alþ. með þessum hætti heildaryfirsýn yfir rekstur ríkisins, sem það hefur ekki átt kost á í eldri gerð fjárlaga. Allri greinaskiptingu og niðurröðun efnis er raskað frá núverandi mynd fjárlaga. Frv. skiptist í tvo hluta, A og B. Í A-hlutanum er gerð grein fyrir fjárreiðum ríkissjóðs og ríkisstofnana, og svarar sá hluti til allra eldri fjárlaganna, að undanskilinni 3. gr. þeirra og nokkrum stofnunum í öðrum greinum, svo sem flugmálastjórn og ríkisspítölunum. Í B-hlutanum er hins vegar yfirlit um rekstur ríkisfyrirtækja og sjóða í ríkiseign. Að því leyti, sem þessi hluti frv. er sambærilegur við núgildandi fjárlög, svarar hann til 3. gr. þeirra. Öllum útgjöldum er nú skipt niður á viðkomandi rn. og leitazt við að sýna á einum stað heildarkostnað við hvert rn. og og málefni þess. 20. gr. núgildandi fjárlaga, þar sem nú er að finna fjárveitingar til fjárfestingar, er nú algjörlega felld niður og fjárfestingarútgjöldum er skipt niður á viðkomandi stofnanir. Sömuleiðis er vaxtagjöldum skipt niður á þær stofnanir, sem lánanna njóta, og afborganir af þessum lánum eru færðar neðan við yfirlit um rekstrargjöld og rekstrartekjur hverrar stofnunar. Fæst með þessu heildaryfirsýn yfir útgjöld hverrar stofnunar í stað þess, að vextir og afborganir lána hafa verið færðar ósundurliðað.

Þá er það mikilvægur þáttur nýskipunar í gerð fjárlaga, að ætlunin er að hafa tvenns konar sundurliðun útgjalda hjá hinum einstöku stofnunum, annars vegar eftir viðfangsefnum og hins vegar eftir tegundum útgjalda. Mun þetta gefa ljósari mynd af starfsemi stofnananna, ef vel tekst til, en hér er um flókið og erfitt viðfangsefni að ræða, sem reynt verður að útfæra almennt við undirbúning næstu fjárl. Í sumum tilfellum er þessi nýja skipting þegar tekin upp varðandi einstakar stofnanir, en í gildandi fjárl. eru báðar þessar tegundir sundurliðunar til, þó að jafnaði blandað saman, svo að hvorugt verður að fullu gagni. Þá er í frv. tekið upp talnakerfi, sem miðast við, að það geti fallið að notkun rafeindatækni við gerð fjárl. og síðan við færslu og uppgjör ríkisreiknings.

Að baki þessari skipulagsbreytingu á gerð fjárlaganna liggur geysileg vinna, og hefði verkið mátt teljast óleysanlegt, ef ekki hefði verið gerð sú skipulagsbreyting á fjmrn., að setja þar upp sérstaka Fjárlaga- og hagsýslustofnun undir yfirstjórn hagsýslustjóra ríkisins og jafnframt til komið mikilvæg aðstoð Efnahagsstofnunarinnar. Nákvæm og vel undirbúin gerð fjárl. er veigamikill þáttur í því viðfangsefni að hafa jafnan nægilega trausta yfirsýn yfir þjóðarbúskapinn og þróun hans og eru allar hagsýslu- og sparnaðaraðgerðir fánýtar, ef ekki er byggt upp fullkomið upplýsingakerfi til stöðugs eftirlits með þróun ríkiskerfisins og viðfangsefnum þess. Ég hika ekki við að fullyrða, að með tilkomu Efnahagsstofnunarinnar og Fjárlaga- og hagsýslustofnunar fjmrn. hafi verið stigin veigamikil spor fram á við, sem í vaxandi mæli gerir okkur fært að taka viðfangsefnin nægilega föstum tökum og hagnýta hið takmarkaða fjármagn með betri árangri en áður. Mun ég síðar víkja nánar að því mikilvæga viðfangsefni og starfi Fjárlaga-og hagsýslustofnunarinnar að öðru leyti, en ég tel mér skylt á þessum stað að flytja ráðuneytisstjóra fjmrn. og hagsýslustjóra og starfsliði þeirra, sem á undanförnum víkum og mánuðum hafa oft lagt nótt við dag til þess að leysa hin flóknu og erfiðu viðfangsefni í samræmi við þá tímaáætlun, sem ég hef sett, beztu þakkir fyrir hið mikla starf, og jafnframt forstjóra Efnahagsstofnunarinnar og sérfræðingum hans fyrir ómetanlega aðstoð við könnun ýmissa flókinna viðfangsefna. Jafnframt vil ég taka það fram, að rn. öll hafa sýnt mikinn samstarfsvilja að laga sig eftir hinum breyttu aðferðum við gerð fjárlagafrv. Loks þakka ég bankastjóra Seðlabankans og sérfræðingum bankans svo og hagstofustjóra fyrir mikilvæga aðstoð og starfsliði Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar.

Peningaþróunin í ár hefur verið með þeim hætti, að mikið skortir á, að tekizt hafi að afla þess fjár, sem áætlað var vegna framkvæmdaáætlunar ársins, bæði til stofnsjóða atvinnuveganna og til hinna einstöku ríkisframkvæmda, sem fjármagna átti með lánsfé. Fjáröflun til stofnlánasjóðanna er á vegum framkvæmdasjóðs ríkisins, og geri ég það viðfangsefni ekki hér að umtalsefni, en fjár til ríkisframkvæmda átti að meginhluta að afla með sölu spariskírteina, en að öðru leyti með PL-480 láni, endurgreiðslum af enska láninu, sem tekið var 1963, og loks af greiðsluafgangi 1966.

Vegna hins mikla álags á bankakerfið hefur verið farið varlega í útgáfu spariskírteina og aðeins boðnar til sölu 50 millj. kr. af 125 millj., sem átti að afla eftir þeirri leið. Enn vantar því 75 millj. kr., sem ákveðið hefur verið að bjóða nú út, að nokkru leyti í nýju formi, en vitanlega er með öllu óvíst, hvort hægt er að selja öll þessi skuldabréf.

Hefur af þessum sökum safnazt allveruleg yfirdráttarskuld í Seðlabankanum vegna framkvæmdaáætlunarinnar. Ríkisframkvæmdir þær, sem fjár hefur verið aflað til síðustu árin innan ramma framkvæmdaáætlunarinnar, eru að verulegu leyti samkynja þeim framkvæmdum, sem fjármagnaðar eru árlega með fjárveitingum í fjárlögum, enda þurfa lánin til þessara framkvæmda yfirleitt að lokum að greiðast úr ríkissjóði. Hefur þessum lántökuaðferðum verið beitt, vegna þess að ekki hefur verið talið auðið að leggja fram fé til þessara framkvæmda beint úr ríkissjóði með þeim hraða, sem framkvæmdaþörfin hefur krafizt. Eðlilegt er að afla með lántökum fjár til stórframkvæmda, sem þurfa að vinnast á skömmum tíma og ekki eru varanlegt viðfangsefni, en aftur á móti er varhugavert að fjármagna um of með lánum þær ríkisframkvæmdir, sem segja má, að séu stöðugt viðfangsefni, svo sem skólabyggingar, sjúkrahús og framkvæmdir við flugvallagerð og hafnargerð, nema um sérstök verkefni sé að ræða. Var því á þessu ári 13 millj. kr. varið til sjúkrahúsa og 13 millj. kr. til skólabygginga innan framkvæmdaáætlunarinnar af greiðsluafgangi ríkissjóðs 1966, og enn fremur 27 millj. kr. til vegagerðar, fyrst og fremst vegna sérstakra áfalla vegakerfisins 1966. Er á yfirstandandi ári gert ráð fyrir að afla til margvíslegra ríkisframkvæmda, innan ramma framkvæmdaáætlunarinnar, samtals 309 millj. kr. Vegna fyrirsjáanlegra erfiðleika við slíka fjáröflun á næsta ári, þótti óumflýjanlegt nú í sambandi við undirbúning fjárlaga að gera einnig bráðabirgðaáætlun um ríkisframkvæmdir innan ramma framkvæmdaáætlunar á næsta ári, og gera sér grein fyrir, hvað væri hugsanlegt að afla mikils fjár að óbreyttum aðstæðum til þessara framkvæmda. Er ljóst, að annaðhvort verður að draga mjög verulega úr þessum ríkisframkvæmdum eða þá að verja í auknum mæli fé beint úr ríkissjóði til þeirra, því að ekki þykir auðið að gera ráð fyrir nema 125 millj. kr. fjáröflun til framkvæmdanna innan ramma framkvæmdaáætlunarinnar á næsta ári. Er augljóst, að ekki er hægt að koma við jafnmikilli skuldabréfasölu á næsta ári og í ár, og þær 53 millj. kr. af greiðsluafgangi, sem varið var til framkvæmdaáætlunarinnar í ár, verða auðvitað heldur ekki til staðar á næsta ári. Það er hins vegar verulegum takmörkunum háð, hvað hægt er að draga úr þessum framkvæmdum. Miklar fjárhæðir, einkum á sviði vegamála, eru óumflýjanlegar til þess að standa straum af eldri skuldbindingum í sambandi við Keflavíkurveg og fleiri lántökur, og í ýmsum tilfellum er um byggingar og mannvirki að ræða, sem eru í smíðum og samningar hafa verið gerðir um við ákveðna verktaka.

Ég ætla ekki að gera framkvæmdaáætlunina í einstökum atriðum að umtalsefni. Fyrir henni mun verða gerð grein síðar. En þrátt fyrir hina brýnu nauðsyn þess að halda niðri útgjöldum ríkissjóðs á næsta ári, verður ekki hjá því komizt að taka í fjárlög allverulegar fjárhæðir, sem áður hefur verið aflað með lántökum innan ramma framkvæmdaáætlunarinnar. Er jafnframt ákveðið að draga mjög verulega úr þessum framkvæmdum, miðað við yfirstandandi ár, og leysa aðeins hin brýnustu verkefni, sem ógerlegt er að skjóta á frest. Nema þessar framkvæmdir alls 29 millj. kr., þar af 15 millj. kr. vegna kísilvegarins, 2,6 millj. vegna kennaraskólans, 3,4 millj. vegna ríkissjúkrahúsa og 8 millj. vegna menntaskóla. Er hér í öllum tilfellum um samningsbundin verkefni að ræða, sem engin tök eru á að skjóta á frest. Er að öðru leyti talið auðið að leysa framkvæmdaþörfina með því fjármagni, sem hugsanlegt sýnist að afla með lánum á næsta ári og verður þá áreiðanlega á ýmsum sviðum naumt skorið.

Ég hef talið nauðsynlegt að víkja að þessum atriðum, áður en ég geri frv. sjálft að umtalsefni, en ég mun nú gera grein fyrir þeim meginsjónarmiðum, sem fylgt var við samningu frv., og helztu breytingum á einstökum fjárlagaliðum. Þar sem ljóst var við samningu frv., að óumflýjanlegt yrði að láta þjóðina taka á sig nokkra kjaraskerðingu um sinn, hlaut það að verða sanngirniskrafa á hendur ríkisvaldinu, að dregið yrði með öllum hugsanlegum ráðum úr ríkisútgjöldum á næsta ári. Vegna margvíslegra lögboðinna útgjalda og óhjákvæmilegra aukinna þjónustuútgjalda á ýmsum sviðum, m.a. vegna fjölgunar þjóðarinnar, svo sem á sviði skólamála, þá var við ramman reip að draga í þessu efni. Að auki komu svo til ýmis óhjákvæmileg fjárfestingarútgjöld, sem nú varð að taka í fjárlög. Í frv. er reiknað með óbreyttum launum frá fjárlögum yfirstandandi árs, að viðbættum launahækkunum, er leiddu af úrskurði kjaradóms, er nema ekki verulegum fjárhæðum, og óbreyttum öllum öðrum helztu kostnaðarliðum.

Þeirri grundvallarreglu hefur verið fylgt að hafna öllum beiðnum ríkisstofnana um fjárveitingar vegna nýrrar starfsemi og synjað jafnframt um hækkun styrkveitinga á öllum sviðum. Sé einhvers staðar breytt frá þessu grundvallarsjónarmiði, þá er það af óhjákvæmilegum ástæðum og á sínar sérstöku skýringar, en það er í sárafáum tilfellum. Þetta leiðir að sjálfsögðu af sér, að skotið er á frest ýmsum mikilvægum viðfangsefnum, en um það tjóar ekki að fást, þegar við svo sérstakt fjárhagsvandamál er að stríða og vona ég, að allir aðilar skilji nauðsyn þessa aðhalds. Því miður hafa ekki allar ríkisstofnanir skilið rétt þá viðleitni að meta sem raunhæfast útgjaldaþörf ríkisstofnana við samning síðustu fjárlaga og sýnilega talið það bera vott um lausari tök og að óhætt væri að ganga á lagið með auknar kröfur, en hér er um mikinn misskilning að ræða. Raunhæft og rétt mat útgjaldaþarfarinnar var einmitt forsenda þess, að hægt væri að taka fjárreiður stofnana föstum tökum og synja þeim um öll útgjöld umfram áætlun fjárlaga. Gera þessi vinnubrögð auðveldara nú að sporna gegn útgjaldahækkunum stofnana.

Vegna hins breytta skipulags fjárlaga hækka niðurstöður frv. geysimikið, miðað við fjárlög yfirstandandi árs, eða samtals um 1435 millj. kr., en frá þeirri tölu dragast 1244 millj., sem ekki höfðu áhrif á tölur fjárlaga 1967. Útgjöld frv. sambærileg við fjárlög 1967 nema 4877 millj., og er því heildarútgjaldahækkun frá fjárlögum yfirstandandi árs 191 millj. kr. Þegar þess er gætt, að í tölu þessari er meðtalin 29 millj. kr. fjárveiting vegna framkvæmda, er voru í framkvæmdaáætlun yfirstandandi árs, og einnig 25 millj. kr. áætluð hækkun á framlagi til ríkisábyrgðasjóðs og 50 millj. vegna hækkana á eldri niðurgreiðslum og vöruverði, þá er nettóhækkun hinna almennu rekstrarliða ríkisins á næsta ári aðeins um 80 millj. eða um 1,8% hækkun frá fjárlögum yfirstandandi árs. Vafalaust á þessi upphæð eitthvað eftir að hækka í meðförum þingsins, en ekki er ástæða til að ætla, að sú hækkun verði nokkur að ráði. 200 millj. kr. ný fjárlagaútgjöld til aðstoðar við sjávarútveginn jafnast út við 200 millj. kr. lækkun niðurgreiðslna og hafa því engin áhrif á þetta dæmi.

Í þessum tölum, sem ég hef nefnt, á ég við nettóhækkun allra útgjalda ríkisins, hækkunarliðirnir einir saman nema töluvert hærri upphæð en lækkanir hafa orðið á öðrum liðum. Mun ég nú víkja að einstökum liðum ríkisútgjalda, sem máli skipta.

Sú grundvallarbreyting er gerð á fjárveiting til stjórnarráðsins, að heildarkostnaði við stjórnarráðið er nú deilt niður á einstök rn., en til þessa hefur ekki verið hægt að átta sig á því, hver væru raunveruleg heildarútgjöld hverrar stjórnardeildar fyrir sig. Tel ég hér vera um mjög jákvæða skipulagsbreytingu að ræða. Hér eftir kemur greinilega í ljós, hverju eytt er á vegum hvers rn. í ferðalög, risnu, beinan rekstur rn., nefndarkostnað og annan kostnað, en til þessa hefur hvert rn. í meginatriðum sjálft verið látið gera sína kostnaðaráætlun. Samanburð við gildandi fjárlög er erfitt að gera, en hann verður þó raunhæfastur með því að bæta öllum óvissum útgjöldum á 19. gr. við kostnað ráðuneytanna. Kemur þá í ljós, að heildarútgjöld við stjórnarráðið lækka um 3 millj. kr. frá núgildandi fjárlögum, því þótt 10 millj. kr. séu nú veittar á vegum fjmrn. til að mæta óvissum útgjöldum, þá hefur óvissum útgjöldum, miðað við reynslu s.l. árs, raunverulega öllum verið skipt niður á einstök rn. Þykir þó óvarlegt að áætla ekki enn smávægilega fjárhæð til þess að mæta óvæntum útgjöldum. Það er oftast afleiðing af ýmsum samþykktum Alþ., að skipa verður nefndir til athugunar margvíslegra mála, óhjákvæmilegt er að senda fulltrúa á margvíslegar ráðstefnur, sem máli skipta fyrir þjóðina,.og halda verður uppi sæmandi risnu, en hæglega geta öll þessi útgjöld orðið óhófleg, og því er nauðsynlegt að spyrna stöðugt við fótum og veltur í því efni mest á aðhaldi hvers rn. að sínum stofnunum og sér sjálfu. Tel ég höfuðnauðsyn, að þessum kostnaði verði haldið í algeru lágmarki á næsta ári og því mikla bót að því, að hvert rn. verður nú ábyrgt fyrir aðgerðum sínum í þessu efni, en getur ekki ávísað á sameiginlegan kostnaðarlið.

Kostnaður við forsetaembætti og Alþingi lækkar samtals um 1,5 millj., annars vegar vegna lækkunar á framlagi til bókhlöðu á Bessastöðum og hins vegar vegna nokkurrar lækkunar á reksturskostnaði Alþingis, en nokkur óvenjuleg útgjöld voru hjá Alþingi á yfirstandandi ári. Útgjöld á vegum fors.- og menntmrn. eru að meginhluta til á vegum menntamála. Áætlað er að verja 10 millj. kr. til kaupa og endurbóta á Viðeyjarstofu, sem er talin á vegum forsrn. Þau kaup eru gerð samkv. ákvörðun Alþingis. Mat hefur farið fram á eigninni, en ríkisstj. taldi það mat fjarri öllu raunsæi og krafðist því yfirmats, sem ekki er enn lokið. En óvarlegt þykir að leggja ekki til hliðar umrædda fjárhæð, enda augljóst, að mikill viðgerðarkostn. hlýtur að verða á Viðeyjarstofu. Samkv. nýsettum l. um skólakostnað er ákveðið, að vera skuli sérstök byggingadeild við menntmrn. Leiðir það til töluverðrar útgjaldaaukningar á næsta ári, sem þó má gera ráð fyrir, að geti skilað sér aftur í betra eftirliti. Þá er og nokkur aukning óhjákvæmileg á fjárveitingu vegna skólarannsókna þeirra, er komið var á stað á s.l. ári. Samtals er hér um 1,4 millj. kr. útgjaldaaukningu að ræða.

Að venju eru fræðslumálin langþyngsti útgjaldaaukinn. Hækka fjárveitingar til þeirra um 52,3 millj. kr. Eru þá með talin byggingarframlög ríkisskólanna, sem áður voru á 20. gr. fjárlaga. Kostnaður við barnafræðslu og gagnfræðamenntun hækkar samtals um 28,8 millj. vegna eðlilegrar nemendafjölgunar og aukins viðhalds og breytts skólahalds, þ. á m. lengingar skólatíma á ýmsum stöðum. Hér er þó um töluvert óvissa kostnaðaráætlun að ræða vegna hinnar nýju löggjafar um skólakostnað, sem sett var á síðasta þingi og sem því miður í ýmsum tilfellum er harla óljós og ónákvæm. Er nú unnið að setningu reglugerða, sem ákveða nákvæmlega framkvæmd löggjafarinnar, en gengið var út frá því við undirbúning þeirrar löggjafar, að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna reksturs skólanna ykist ekki að neinu ráði, enda þótt einstökum kostnaðarhlutföllum væri breytt. Kennaralaun eru nú að öllu leyti greidd úr ríkissjóði, sem hefur þau áhrif, að greiðsla launanna verður örari úr ríkissjóði, því að hlutur sveitarsjóða var áður greiddur úr ríkissjóði eftir á. Nemur þessi breyting allverulegri fjárhæð, sem kemur fram í útgjaldaauka á næsta ári. Því miður virðist þessi skipulagsbreyting hafa valdið því, að mjög auknar kröfur eru nú uppi um fjölgun kennara víðs vegar og því nauðsynlegt að setja með reglugerð sterkar hömlur. Kemur hér í ljós eins og á fleiri sviðum, að kröfurnar virðast aukast allverulega, þegar kostnaðarhlutdeildinni er létt af sveitarsjóðunum og ríkissjóði ætlað að borga brúsann að fullu. Þótt einhver mistök kunni að hafa orðið við setningu skólakostnaðarlaganna og brýn nauðsyn sé að finna viðhlítandi lausn á héraðsskólamálunum, sem enn eru óleyst, þá eru ákvæði hinnar nýju skólakostnaðarlöggjafar um ákvörðun byggingarkostnaðar skólanna tvímælalaust til mikilla bóta jafnhliða hinu aukna byggingaeftirliti. Er í framhaldi af þessum aðgerðum nauðsynlegt að athuga, hvort ekki sé rétt og nauðsynlegt að sameina fjármálaeftirlitið og byggingaeftirlitið.

Framlag til Háskóla Íslands hækkar um 3,1 millj. vegna kennarafjölgunar í samræmi við kennaraáætlun og aukna stundakennslu. Hefur reynzt óumflýjanlegt að synja nú mörgum óskum háskólans um fjárveitingar, en undanfarin ár hefur óskum skólans um fjárveitingar að verulegu leyti verið sinnt. Þótt háskólinn sé alls góðs maklegur og gegni hinu þýðingarmesta hlutverki í þjóðfélaginu, þarf þó að gæta fyllstu hagsýni í rekstri hans eins og annarra ríkisstofnana í okkar litla þjóðfélagi. Er ekki að efa góðan vilja forráðamanna háskólans í þessu efni, en mikilvægt er að taka til athugunar, hvort ekki sé hægt að hagnýta betur starfskrafta háskólans og jafnframt reyna að finna úrræði til að sporna gegn hinum miklu nemendaafföllum í háskólanum. Hafa fróðlegar athuganir verið gerðar í því máli á vegum háskólans. Er vissulega bæði dýrt og ástæðulaust að halda uppi kennslu, lengri eða skemmri tíma, fyrir mikinn fjölda nemenda, sem aldrei lýkur háskólaprófi.

Framlög til menntaskólanna hækka um 11,9 millj. kr., þar af 7,3 millj. vegna byggingarframlaga, en auk þess verður mikil nemendafjölgun í skólunum við Hamrahlíð og að Laugarvatni haustið 1967. Er nú unnið að byggingu við menntaskólana í Hamrahlíð, á Akureyri og að Laugarvatni, sem nauðsynlegt er að ljúka, en einnig eru veittar nokkrar fjárveitingar til fyrirhugaðra menntaskóla á Austurlandi og á Vestfjörðum. Aðsókn að Kennaraskólanum fer stöðugt vaxandi og er gert ráð fyrir, að í haust verði teknar inn 6 nýjar bekkjardeildir. Er kostnaðarauki af þessum sökum um 4,4 millj. Þá hefur verið gerður samningur við Reykjavíkurborg um byggingu æfingaskóla við Kennaraskólann og eru byggingarframlög til skólans nokkuð hækkuð af þeim sökum.

Framlög til styrktar ísl. námsmönnum hækka um 5,5 millj. kr. Er þar meðtalin sérstök 1860 þús. kr. fjárveiting til þess að mæta aukakostnaði námsmanna erlendis vegna fyrirhugaðs farseðlaskatts. Er talið ósanngjarnt, að skattur þessi lendi á námsmönnum, sem verða að stunda nám erlendis, en talið auðveldara að komast hjá misnotkun með því að veita sérstaka fjárveitingu á þennan hátt, heldur en að hafa almennt undanþáguákvæði í l. um farseðlaskatt. Þá er tekin upp sérstök fjárveiting, er svarar launum eins kennara, er hafi það sérstaka hlutverk að afla upplýsinga og vera til leiðbeiningar stúdentum varðandi nám erlendis. Hefur komið í ljós, að oft verða vandræði, vegna skorts á fullnægjandi upplýsingum um námsaðstöðu á hinum ýmsu stöðum erlendis og ætti með þessari ráðstöfun að vera hægt að koma í veg fyrir dýrkeypt mistök.

Auðið er að lækka byggingarframlög til Raunvísindastofnunar háskólans og Handritastofnunar Íslands um samtals 4 millj. kr. Fjárveitingar til safna, lista og annarrar menningarstarfsemi lækka um 800 þús. kr. Vegur þar þyngst til lækkunar framlag til Norræna hússins í Reykjavík, 1,5 millj. kr. Aftur á móti hækkar framlag til tónlistarskóla, sem er lögbundið, um 1 millj.

Smávægilegar breytingar eru á öðrum liðum. Vegna flutnings aðalbækistöðva Atlantshafsbandalagsins til Brüssel, hefur utanrrn. talið óumflýjanlegt að skipa sérstakan ambassador þar með tilheyrandi starfsaðstöðu. Nokkur sparnaður verður á móti við sendiráðið í París. Sendiráðunautur flyzt þaðan til Brüssel. Óhjákvæmilegt er talið í þessu sambandi að kaupa hús í Brüssel, en í staðinn er lagt til að selja hús, sem ríkið á í París. Þrátt fyrir þessa viðbót er heildarkostnaðarauki við sendiráðin ekki nema 1,6 millj. kr., þar eð til frádráttar kemur lækkun á kostnaði við sendiráðið í París og einnig nokkur lækkun hjá sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Óhjákvæmilegt er, að það kosti þjóðina verulegt fé að halda uppi nauðsynlegum samskiptum við aðrar þjóðir. Hins vegar er hér, sem á öðrum sviðum, vandratað meðalhófið og nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að 200 þús. manna þjóð verður að temja sér aðrar starfsaðferðir á þessu sviði en stórveldi. Tvö ný sendiráð hafa orðið til nú á skömmum tíma og því nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, hvort ekki sé tímabært að endurskipuleggja utanríkisþjónustuna með hliðsjón af breyttum aðstæðum á mörgum sviðum. Virðist ekki fjarstætt að láta sér detta í hug, að auðið sé að leggja niður eitt eða jafnvel fleiri sendiráð. Getur þá jafnframt vaknað sú spurning, hvort ekki væri ástæða til að dreifa sendiráðunum á annan hátt en nú er gert. Að svo miklu leyti sem hér kann að vera um sparnaðarvon að ræða, er það mál fjmrn., og því hefur rn. beint þeim tilmælum til utanrrn., að það taki þetta mál til athugunar.

Framlög til alþjóðastofnana lækka um 2,9 millj. Framlagið vegna heimssýningarinnar, 4 millj., fellur niður, en aftur á móti er nokkur hækkun til annarra stofnana, fyrst og fremst til alþjóðlegu þróunarstofnunarinnar á vegum Alþjóðabankans, 1 millj. kr. Hér er um mjög mikilvæga stofnun að ræða til aðstoðar þróunarlöndunum, og hafði Ísland ekki nema að litlu leyti greitt lofað framlag sitt til hennar. Óskaði Alþjóðabankinn eftir, að framlagið yrði greitt að fullu á næstu árum, og þykir sjálfsagt að verða við þeim óskum bankans.

Vegna aukinnar umferðar um Keflavíkurflugvöll, m.a. með tilkomu þotu Flugfélagsins, var óumflýjanlegt að auka enn tollgæzlu á flugvellinum og verður um 1 millj. kr. kostnaðarauki af þessum sökum.

Framlög til landbúnaðarmála hækka um 13,1 millj. kr. Er meginhluti þeirrar upphæðar eða 10 millj. kr. lögbundið framlag til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, en 1,8 millj. kr. er aukin fjárveiting til embættis yfirdýralæknis vegna búfjársjúkdóms þess, sem upp hefur komið í Eyjafirði, og ráðstafana til að uppræta hann. Þarf raunar enn að hækka þá fjárveitingu vegna ákvörðunar um niðurskurð sauðfjár og hrossa á nokkrum bæjum. Þá er 1 millj. kr. hækkun á framlagi vegna l. um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir. Ljóst er, að miklir erfiðleikar steðja nú að landbúnaðinum vegna lítils heyafla á þessu sumri í ýmsum héruðum. Sérstök n. hefur á vegum landbrn. unnið að athugun þess máls, og eru ekki enn komnar endanlegar till. frá þeirri n. Má gera ráð fyrir, að hlaupa verði undir bagga með bændum í sambandi við þetta mikla vandamál, þó að úr því verði ekki bætt nema að litlu leyti vegna almenns heyskorts í landinu, en það mál verður tekið til afgreiðslu við meðferð fjárlaga í þinginu.

Framlög til sjávarútvegsmála hækka um 213,8 millj. frá fjárlögum yfirstandandi árs. Skiptir hér mestu máli áætlað framlag til uppbóta á fiskverð, 100 millj., og áætlað framlag til verðtryggingar á sjávarafurðum, 100 millj. Er hér raunverulega ekki um hækkun að ræða, en báðar þessar fjárveitingar voru ákveðnar með sérstökum l. á yfirstandandi ári og voru greiddar utan fjárlaga. Í þeim sérlögum er gert ráð fyrir því, að 140 millj. kr. framlag til verðjöfnunarsjóðs sé í eitt skipti fyrir öll sem stofnfé til sjóðsins og framlagið til uppbóta á fiskverð skuli gilda þetta ár. Skal því skýrt tekið fram, að þótt fjárhæðir þessar séu nú teknar í fjárlagafrv., ber ekki að líta á það sem endanlega ákvörðun um ráðstöfun fjárins til þessara þarfa, heldur er gert ráð fyrir, að ákvarðanir um það verði teknar með sérstökum l., svo sem áður hefur verið. Hins vegar er talið óraunhæft að gera ekki ráð fyrir því nú þegar, að þessar greiðslur þurfi að inna af hendi á næsta ári, vegna hinna miklu vandræða sjávarútvegsins. Þótt framlagið til verðjöfnunarsjóðsins sé nú áætlað 100 millj., en var 140 millj. á yfirstandandi ári, ber ekki að líta svo á, að ætlunin sé að breyta þeim reglum, sem gilda um úthlutun úr sjóðnum, heldur er áætlað, að ekki þurfi meira fé á næsta ári til þess að framfylgja greiðslum skv. sömu reglum og nú er fylgt. Ástæða er til að leggja ríka áherzlu á nauðsyn þess, að fundin verði frambúðarskipan á verðjöfnunarmálin, svo sem var gengið út frá, þegar ríkið lagði 140 millj. kr. stofnfé til sjóðsins. Því miður hefur dregizt um of að vinna að samkomulagi um frambúðarlausn og er mikilvægt, að því verki verði hraðað.

Framlög til aflatryggingasjóðs hækka um 2 millj. kr. og til Fiskveiðasjóðs Íslands um 9 millj. kr. Er hér um lögbundin framlög að ræða, sem mikilvægt er, að áætluð séu nægilega hátt, svo ekki komi til umframgreiðslu.

Vegna komu hins nýja fiskleitarskips hækkar framlag til Hafrannsóknastofnunarinnar um 2,4 millj. og til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins um 1 millj. Gert er ráð fyrir að lækka framlag til verðlagsráðs sjávarútvegsins um 1,7 millj., með það í huga, að kostnaður við þá starfsemi greiðist framvegis úr fiskimálasjóði sem áður var, og virðist ástæðulaust að taka þennan kostnað á ríkissjóð.

Fjárveitingar til raforkumála eru áætlaðar hinar sömu og í ár. Nauðsynlegt verður að afla nokkurs lánsfjár til orkusjóðs og einnig verulegs lánsfjár til Rafmagnsveitna ríkisins innan ramma framkvæmdaáætlunar næsta árs. Nauðsynlegt er að gera áætlun um framkvæmdir og rekstur Rafmagnsveitna ríkisins nokkur ár fram í tímann, þar eð ástæða er til að álíta, að fjárhagur þeirra sé enn mjög ótraustur, þrátt fyrir verðjöfnunargjaldið, sem á var lagt þeirra vegna. Mikil ástæða er skiljanlega á það lögð að ljúka sem fyrst rafvæðingu sveitanna. Virðast menn nú vera farnir að gera sér grein fyrir því, að rafmagnsþörf hinna strjálli býla verður ekki leyst frá samveitum í náinni framtíð og hefur því eftirspurn eftir lánum til dísilstöðva vaxið stórlega á þessu ári og í fyrra. Er nauðsynlegt að mæta þeirri lánsfjárþörf. Orkusjóði er nú ætlað að veita lán til dísilstöðva og einnig að standa straum af kostnaði við framhaldsrafvæðingu sveitanna. Þarf að gera áætlun um heildarlausn þessa mikilvæga viðfangsefnis og sýnist vel geta komið til mála, að orkusjóður taki eitthvert lán til að flýta framkvæmdum á næstu árum er endurgreiðzt geti af síðari tekjum sjóðsins, ef svipuð framlög verða veitt orkusjóði til rafvæðingar sveitanna í nokkur ár, eftir að henni raunverulega er lokið. Óskað hefur verið eftir verulegri fjárveitingu til að greiða halla vélasjóðs, en ekki talið fært að sinna því máli fyrr en ákvarðanir hafa verið teknar um framtíð þeirrar starfsemi.

Raunveruleg útgjaldahækkun vegna dómgæzlu og lögreglumála að meðtalinni landhelgisgæzlu er samtals 19,6 millj. kr. Er á þessum liðum um að ræða verulegan árlegan kostnaðarauka, sem erfitt er við að fást, þar eð meginhluti þess kostnaðar er annaðhvort lögbundinn eða leiðir af óhjákvæmilegri aukningu viðfangsefna á þessu sviði. Aðalþungi kostnaðarins nú er þó vegna hægri umferðar, en mjög verulegur kostnaður umfram tekjur verður af þeirri skipulagsbreytingu á næsta ári, en þá á hægri umferð að taka gildi. Þessi útgjöld eiga hins vegar að geta endurgreiðzt ríkissjóði á sínum tíma með sérstökum bifreiðaskatti, sem innheimtur er í þessu skyni, en dreifist á fleiri ár. Löggæzluframlög hækka um 8,4 millj., þar af 4 millj. til löggæzlu sveitarfélaga og 3,4 millj. til borgar- og ríkislögreglunnar í Reykjavík. Ýmis kostnaður við dómsmál hækkar um 2,4 millj. Kostnaður við embætti lögreglustjórans í Reykjavík hækkar um 1,9 millj., sem stafar fyrst og fremst af flutningi í nýtt húsnæði. Ýmis málskostnaður, sem fellur á ríkissjóð, og kostnaður vegna gjafsóknar í ýmsum málum nemur orðið verulegum fjárhæðum og fer hækkandi ár frá ári. Hefur rn. beint þeim tilmælum til dómsmrn., að takmörkuð verði eftir föngum veiting gjafsóknar í málum og enn fremur er nauðsynlegt að leita úrræða til þess að draga úr óhæfilegum kostnaði við alls konar matsgerðir á vegum ríkisins og kostnaði við meðferð mála, sem ríkið er aðili að. Er hér oft um óhæfilegar kröfur að ræða á hendur ríkissjóði og reynt að halda öllum töxtum í hámarki, þegar ríkissjóður er annars vegar. Er í athugun, hvort ekki er beinlínis hagkvæmt fyrir ríkið að ráða sérstakan ríkislögmann, er fari með allan málarekstur á vegum ríkisins og annist önnur lögfræðifeg viðfangsefni, sem áður hefur orðið að kaupa fullu verði utan stjórnardeilda. Gert er ráð fyrir endurskipulagningu landhelgisgæzlunnar með tilkomu hins nýja varðskips, sem kemur á næsta ári. Unnið hefur verið á vegum Hagsýslustofnunarinnar og í samstarfi við dómsmrn. og landhelgisgæzluna mjög eftirtektarverð sérfræðileg álitsgerð um mismunandi valkosti til að leysa viðfangsefni landhelgisgæzlunnar. Hefur sú athugun leitt í ljós, að auðið ætti að vera að spara um 14 millj. kr. við endurskipulagningu gæzlunnar. Þegar fjárlög voru samin, höfðu lokaákvarðanir ekki verið teknar um starfsemi landhelgisgæzlunnar eftir tilkomu hins nýja varðskips, en í bili er gert ráð fyrir sömu fjárveitingu til landhelgisgæzlunnar og í gildandi fjárlögum, og verður þá að leggja hinum minni skipum til þess að sú áætlun fái staðizt. Raunar er fjárveiting til landhelgisgæzlunnar beinlínis lækkuð um 7 millj. kr., en sú lækkun byggist á því, að við í fjmrn. teljum rétt að afhenda landhelgisgæzlunni vitaskipið, en árlegur reksturshalli þess er nú um 7 millj. kr. Er talið, að landhelgisgæzlan geti leyst af hendi hlutverk vitaskipsins á mun hagkvæmari hátt og annaðhvort notað vitaskipið um leið til landhelgisgæzlu eða lagt því og notað eitthvert annað skip sitt í þágu vitanna. Yrði úr þessari breytingu, mundi áætluð fjárveiting til reksturs vitaskipsins renna til landhelgisgæzlunnar. Enn hefur ekki fengizt samkomulag um þessa skipulagsbreytingu, en þar sem fjmrn. telur hér raunverulega auðið að spara um 7 millj. kr., er talið rétt, að málið komi til athugunar í fjvn. Alþ.

Fjárveitingar til heilbrigðismála hækka um 12 millj. kr. Á s.l. ári og í ár var fyrir forgöngu heilbrmrn. aflað mikils lánsfjár vegna byggingar borgarsjúkrahússins í Reykjavík. Í sambandi við þá lánsfjáröflun var óumflýjanlegt að gera um það samkomulag, hvernig fjárveitingu ríkisins til borgarsjúkrahússins á næstu árum yrði hagað. Var við það samkomulag höfð hliðsjón af gildandi lögum um greiðslu kostnaðar vegna byggingar sjúkrahúsa, en afleiðingin er sú, að óumflýjanlegt er að hækka byggingarframlag til sjúkrahúsa um 7,2 millj. vegna þessa samkomulags. Er það veigamesta hækkunin á fjárveitingu til heilbrigðismála. Heildarhækkun framlaga til ríkisspítala nemur 3,8 millj., en þess er jafnframt að gæta, að gert er ráð fyrir, að daggjöld sjúkrahúsanna hækki um 50 kr. á dag. Beðið hefur verið um mikinn fjölda nýs starfsfólks til ríkisspítalanna, en að sinni hefur ekki verið fallizt á annað en það, er leiðir af deildafjölgun. Kostnaður við rekstur sjúkrahúsa vex ört ár frá ári. Auðvitað þarf að tryggja eftir fremsta megni nægan sjúkrahúsakost og fullkomna þjónustu á sjúkrahúsum. En jafnnauðsynlegt er að tryggja sem beztan og ódýrastan rekstur þeirra og finna hagkvæmustu leiðir til þess að leysa heilsugæzluvandamálin, ella verða þessi mál okkur óviðráðanleg. Í fyrsta lagi þarf að leita hagkvæmustu úrræða til þess að leysa sjúkrahúsaþörfina og í öðru lagi að beita allri tiltækri hagræðingu í rekstri þeirra. Skipulag sjúkrahúsa og rekstur mun í dag talin sérgrein og okkur vantar sérmenntaða menn á þessu sviði. Heilbrmrn. er nú að leita erlendrar sérfræðiaðstoðar til athugunar á rekstri ríkisspítalanna og þarf í framhaldi af því að mennta innlendan sérfræðing. Læknasamtökin virðast hafa mikinn áhuga á að stuðla að endurbótum í sjúkrahúsarekstri og er samstarf við þau um málið að sjálfsögðu óhjákvæmilegt, en höfuðatriðið er, að vandamálið, sem fer vaxandi, verði tekið raunsæjum og föstum tökum með sérfræðilegri og hlutlægri athugun, er hægt sé að byggja framtíðarmat fjárveitinga á.

Framlög til kirkjumála eru óbreytt frá núgildandi fjárl., þegar miðað er við hina almennu 10% lækkun á fjárfestingarframlögum.

Almannatryggingar eru langumfangsmesti þáttur ríkiskerfisins, en áætlað er, að heildarframlög til Tryggingastofnunar ríkisins og atvinnuleysistryggingasjóðs á næsta ári verði 1384 millj., og er beint framlag ríkissjóðs af þeirri fjárhæð tæpar 900 millj. kr. Vegna hækkaðra daggjalda hækkar framlag til sjúkratrygginga um 9,7 millj. og vegna fjölgunar hinna tryggðu og tryggðra vinnuvikna, hækkar framlag til almannatrygginga um 18 millj. Til frádráttar kemur, að á yfirstandandi ári var áætlað fyrir skuld frá fyrri árum 51,3 millj., sem ekki þarf að gera ráð fyrir á næsta ári. Aftur á móti hækkar framlag ríkissjóðs til atvinnuleysistryggingasjóðs um 15 millj. vegna aðildar verzlunarfólks að sjóðnum. Heildarbreyting á framlögum til almannatrygginga er því 15,1 millj. kr. lækkun, og er það óvenjulega hagstæð útkoma miðað við hinar miklu hækkanir þessara útgjalda undanfarin ár. Framlög til ríkisframfærslunnar hækka um 7,2 millj. kr. vegna hækkunar daggjalda. Óumflýjanlegt er talið að hækka framlag til byggingarsjóðs verkamanna um 6 millj. kr. vegna bygginga, sem þegar hafa verið ákveðnar þar framlagshæfar.

Kostnaður við embætti ríkisskattstjóra og skattstofur hækkar enn verulega eða um 6,5 millj. Viðfangsefnin hafa að vísu farið vaxandi ár frá ári, en engu að síður er þó hér um svo háan kostnaðarlið að ræða, að rn. hefur tekið til rækilegrar athugunar, hvort ekki er hægt að koma við endurskipulagningu á starfsemi skattstofanna með það fyrir augum að draga úr kostnaðinum. Á þessu sviði er að vísu erfitt að koma við hagkvæmum vinnubrögðum, sökum þess að verkefnið þarf að vinnast á tiltölulega skömmum tíma, en getur ekki dreifzt jafnt á allt árið og verður því alltaf um mikla aukavinnu að ræða. Ekki er heldur skynsamlegt að taka upp veigamikla skipulagsbreytingu með hliðsjón af því, að staðgreiðslukerfið er nú í athugun, og er þess að vænta, að n. sú, sem kjörin var á síðasta Alþ., muni innan ekki langs tíma komast að niðurstöðu um það, hvort hún vill mæla með að innleiða staðgreiðslukerfið. Því miður bendir þó allt til þess, að kerfið verði enn dýrara í framkvæmd en núverandi skattkerfi og því horfir ekki sérlega vel um, að hægt sé að draga að ráði úr kostnaði við skattálagningu og skattaeftirlit. Staðgreiðslukerfisnefndin hefur þegar tekið til starfa og haldið marga fundi og enn fremur hafið viðræður við þá aðila, sem henni var ætlað að hafa samráð við.

Skatteftirlitið hefur þegar skilað mjög jákvæðum árangri, en þó þarf að efla það mjög verulega. Á því sviði er þó við ýmis erfið vandamál að stríða, sem hlutu að gera vart við sig í litlu þjóðfélagi, þar sem hver þekkir annan og skattsvik voru auk þess svo útbreidd meinsemd, eins og þau hafa verið hér á landi. Þrátt fyrir margítrekuð tilmæli mín taldi fyrrv. skattrannsóknarstjóri sér ekki fært að gegna lengur störfum, en hann hefur unnið ómetanlegt brautryðjendastarf við að skipuleggja skattrannsóknirnar, sem eigi hefur áður verið að unnið hér á landi á þann kerfisbundna hátt, sem hann hefur lagt grundvöll að. Það var ekki auðvelt verk að fá mann í stöðu skattrannsóknarstjóra og raunar ógerlegt að fá mann með jafnfjölþættri menntun og fyrrv. skattrannsóknarstjóri hafði. Engu að síður vonast ég til, að hinn nýi skattrannsóknarstjóri, sem er reyndur endurskoðandi, nái fullum tökum á þessu mikilvæga viðfangsefni og mun rn. að sínu leyti stuðla að því eftir föngum, að hann geti gegnt starfi sínu á fullnægjandi hátt. Því miður er ekki auðvelt að fá nægilega vel þjálfað fólk við skattrannsóknir, m.a. vegna þess, að lærðir endurskoðendur eiga kost á miklu betri kjörum annars staðar. Það er því mikilvægt að hagnýta betur starfslið hinna einstöku skattstofa í þágu skattrannsóknanna og er nú í athugun, hvernig það verði gert með sem jákvæðustum árangri. Skattsvikin eru enn ekki horfin, þótt verulega hafi á unnizt og því má í engu spara mannafla eða fé til þess að uppræta þessa meinsemd. Hefur enda nú þegar skilað sér margfaldlega kostnaðurinn við þessa starfsemi.

Þar sem þess orðróms hefur orðið vart, að mannabreytingin í embætti skattrannsóknarstjóra bendi til þess, að ætlunin sé að draga úr skattrannsóknum, vil ég skýrt og ótvírætt lýsa því yfir, að lögð mun verða á það rík áherzla að efla skatteftirlitið eftir föngum í því skyni að uppræta hin óþolandi skattsvik, því að það er með öllu óviðunandi, að sumir þjóðfélagsborgarar og það stundum þeir, sem sízt skyldi, komist undan að greiða lögboðin framlög til sameiginlegra þarfa með þeim afleiðingum, að aðrir verði einnig að greiða þeirra hlut. Það er engum efa bundið, að skattrannsóknir hafa þegar orkað mjög jákvætt á framtöl, en mér þykir rétt að gefa hér stutt yfirlit yfir þau rannsóknarmál, sem deildin hefur haft til meðferðar til 1. sept. s.l.

Rannsóknardeildin hefur nú starfað í 3 ár og hefur á þessum tíma tekið 292 mál til rannsóknar. Lokið er að fullu rannsókn 256 mála, 3 vísað til sakamálsrannsóknar og hefur nú nýlega verið kveðinn upp þungur dómur í einu þessara mála. En 33 málum er enn ekki lokið. Ríkisskattanefnd hefur lokið skattákvörðun í 175 þessara mála og úrskurðað þessum aðilum samtals 27,4 millj. kr. skatthækkun. 160 þessara mála hefur síðan verið vísað til skattsektanefndar. Hafa öll þau mál verið úrskurðuð og nema skattsektir 8,1 millj. Ber að hafa í huga í því sambandi, að mun lægri sektum var beitt varðandi hin eldri mál vegna sérheimildar í skattalögum, en síðar hafa viðurlög verið þyngd. Loks hafa framtalsnefndir úrskurðað 82 þessara gjaldenda útsvarshækkun að heildarupphæð 7,7 millj. Nema því hækkanir skatta og útsvara og skattsektir, er leitt hafa af starfi rannsóknardeildarinnar til þessa, nær 45 millj. kr. og hafa þó ekki enn verið ákvarðaðar gjaldahækkanir vegna allmargra mála, sem þegar eru fullrannsökuð.

Ekki er nema tiltölulega lítil hækkun fjárveitinga til tollheimtu og tolleftirlits, þar eð fjárveiting var veitt í ár til allverulegrar fjölgunar tolleftirlitsmanna. Lögð hefur verið áherzla á að framfylgja eftir megni nýsettum reglum um tollfrjálsan innflutning. Tel ég engum efa bundið, að í því efni stefni í rétta átt. Tollinnheimtan hefur verið hert, og lagt verður nú fyrir Alþ. frv. að nýrri heildarlöggjöf um tollheimtu og tolleftirlit. Er þar um margvísleg nýmæli að ræða, sem nánar verður gerð grein fyrir í sambandi við meðferð þess frv. hér í þinginu.

Þá verður einnig lagt fram á þessu þingi frv. til nýrra bókhaldslaga, en mikil nauðsyn var að endurskoða þau lög til þess að koma bókhaldi fyrirtækja í viðunandi horf, m.a. með hliðsjón af skatteftirliti. Þá fer fram athugun á ýmsum úrræðum til þess að treysta betur skil á söluskatti og í sérstakri athugun hafa verið ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir undanskot tollvörugjalds. Hefur verið undirbúin ný reglugerð um það efni. Það er þjóðfélagsleg nauðsyn og réttlætiskrafa allra þeirra aðila, sem standa í skilum með sín gjöld, að öðrum haldist ekki uppi að skjóta undan gjöldunum.

Með samkomulagi stjórnmálaflokkanna fyrr á þessu ári var ákveðið að veita dagblöðunum nokkra fjárhagsaðstoð. Einn þáttur þeirrar fjárhagsaðstoðar er, að ríkissjóður kaupi tiltekinn eintakafjölda hvers dagblaðs og er áætlað, að kostnaður af þessari ráðstöfun nemi 2 millj. kr. á næsta ári.

Eftir að I. um ríkisábyrgðir og ríkisábyrgðasjóð voru sett, hefur orðið stór breyting til batnaðar á vanskilum ríkisábyrgðalána. Árið 1963 var framlag ríkissjóðs til ríkisábyrgðasjóðs 93,7 millj., árið 1964 87,7 millj. og árið 1965 aðeins 46 millj. Á árinu 1966 voru veittar til ríkisábyrgðasjóðs 50 millj. kr., en sjóðurinn þurfti ekki á að halda nema 35 millj. Námu útborganir úr sjóðnum 1966 169 millj., en innborganir 137 millj. Vegna mun lakari afkomu fyrirtækja, einkum á sviði sjávarútvegsins, hefur innheimta gengið mun erfiðar á yfirstandandi ári og slæmar horfur á næsta ári, ef ekki bregður til batnaðar um afkomu fyrirtækja. Þykir því óumflýjanlegt að gera ráð fyrir 40 millj. kr. aukaframlagi til ríkisábyrgðasjóðs á næsta ári miðað við raunverulegt framlag til sjóðsins á þessu ári.

Tekin hefur verið í fjárlagafrv. 15 millj. kr. fjárveiting til vegagerðar úr Mývatnssveit til Húsavíkur vegna Kísilgúrverksmiðjunnar. Er áætlað, að vegur þessi kosti í heild um 50 millj. kr. og var ákveðið, að ríkið kostaði hann, en ekki vegasjóður, þar sem um sérstæða vegagerð er að ræða, þótt vegurinn verði síðar liður í þjóðvegakerfinu. Fyrri hluti vegarins er lagður á þessu ári, en veginum þarf að ljúka á næsta ári.

Fjárveiting til hafnargerða er hækkuð um 14 millj. og vegur þar þyngst, að lagt er til að hækka um 10 millj. fjárveitingu til greiðslu eftirstöðva ríkishluta af þegar unnum hafnarframkvæmdum. En gert er ráð fyrir, að þær eftirstöðvar nemi næstum 70 millj. kr. í lok þessa árs. Er óviðunandi að láta slíka skuldasöfnun halda áfram, einkum með hliðsjón af því, að með hinum nýju hafnalögum, sem sett voru á síðasta þingi, voru enn auknar byrðar lagðar á ríkissjóð, en jafnhliða felldi þingið úr frv. sérstaka fjáröflun til hafnabótasjóðs í því sambandi. Í fjárlagafrv. er lagt til að veita til hafnabótasjóðs 8 millj. kr. í samræmi við l. um hafnargerðir, en að öðru leyti er ekki gerð till. um að hækka fjárveitingar til nýrra hafnarframkvæmda. Tel ég rétt, að það sé á valdi þingsins að ákveða, hvort hækka eigi fjárveitingu úr ríkissjóði til hafnanna eða afla tekna til hafnabótasjóðs, svo sem gert var ráð fyrir í frv. til hafnalaga. Hvor leiðin sem farin verður, tel ég það skipta höfuðmáli, að framkvæmdir í hafnargerðum ár hvert verði hér eftir við það miðaðar, að fjárveitingar nægi til að greiða hluta ríkissjóðs. Eðlilegast væri að efla hafnabótasjóðinn og láta hann taka á sig að greiða skuldahalann á vissu árabili.

Framlög til flugmála hækka um 9,8 millj., fyrst og fremst vegna afborgana og vaxta af lánum, en síðustu tvö árin hafa framkvæmdir í flugmálum verið mjög miklar og þá að verulegu leyti unnið fyrir lánsfé. Óumflýjanlegt verður að afla einnig verulegs fjár með lánum til framkvæmda í flugmálum á næsta ári innan ramma framkvæmdaáætlunarinnar.

Lagt er til að taka upp nýja fjárveitingu, 1,2 millj. kr. á vegum iðnmrn, til þess að standa straum af kostnaði vegna aðstoðar við endurskipulagningu og sameiningu iðnfyrirtækja. Hér er vandamál, sem knýr á með vaxandi þunga að leysa, og augljóst, að óhjákvæmilegt kann að vera að veita nokkra opinbera aðstoð við slíkar aðgerðir, þar sem oft er um flóknar og kostnaðarsamar ráðstafanir að ræða. Fest hafa verið kaup á hentugu húsnæði fyrir Iðnaðarmálastofnunina í samræmi við heimild Alþ. í fjárl. yfirstandandi árs. Í fjárl. yfirstandandi árs eru 3,5 millj. kr. veittar til stofnkostnaðar vegna tækniskóla. Talið var mjög heppilegt, að Tækniskólinn væri til húsa á sama stað og Iðnaðarmálastofnunin. Stóð til boða önnur hæð í sama húsi og er í fjárlagafrv. leitað heimildar til þeirra kaupa. Hafa þá húsnæðismál þessara tveggja stofnana verið leyst til frambúðar á þann hátt, að ekki á að þurfa að leiða til árlegs útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Bein lækkun verður á árlegu framlagi til niðurgreiðslu á vöruverði um 188,7 millj. frá fjárl. yfirstandandi árs. Er það í samræmi við þær lækkanir á niðurgreiðslum, sem ráðgerðar eru.

Efnahagsstofnunin gerði í lok ágústmánaðar áætlun um tekjur ríkissjóðs af núverandi tekjustofnum á næsta ári. Af skiljanlegum ástæðum er sú áætlun í mörgum efnum óvissari en oft áður og áreiðanlega teflt á hið tæpasta vað. M.a. er í áætluninni gengið út frá því, að síldarafli bregðist ekki að neinu ráði og hömlur verði ekki settar á innflutning aðrar en þær, sem leiða af minnkandi kaupgetu í landinu vegna minnkandi tekna almennings. Varðandi aðflutningsgjöld er aðeins gert ráð fyrir 2% minni almennum vöruinnflutningi en á þessu ári. Ber þá auðvitað þess að gæta, að mjög er líklegt, að mest dragi úr innflutningi hátollavöru og verður því að gera ráð fyrir lækkun meðaltollhlutfallsins. Samkv. endurskoðaðri þjóðhagsáætlun fyrir árið 1967 er reiknað með, að vegna aflabrests og versnandi viðskiptakjara muni raunverulegar þjóðartekjur minnka a.m.k. um 4–5%. Miðað við óbreyttan skattstiga mundi álagður tekjuskattur einstaklinga lækka um 6% lauslega áætlað, og gera má ráð fyrir, að álagður tekjuskattur félaga lækki að sama skapi. Hins vegar er gert ráð fyrir, að innheimta verði nokkru betri á árinu 1968 en 1967, sérstaklega að innheimta eftirstöðva verði meiri. Enn fremur er í athugun samkv. ósk Sambands ísl. sveitarfélaga að setja ný innheimtuákvæði útsvara og skatta, sem ættu að hraða verulega innheimtu tekjuskattsins. Í áætlun um söluskatt er reiknað með 1,4% lækkun hreinnar veltu, en að öðru leyti hækkar söluskattur nokkuð vegna lækkunar niðurgreiðslu á vöruverði og vegna afnáms söluskattsundanþágu á þjónustu pósts, síma, útvarps og sjónvarps. Ætla má, að hækkun verðs á áfengi og tóbaki hafi einhver áhrif til samdráttar í sölu þeirra vara, en engu að síður er þó í fjárlagaáætluninni gert ráð fyrir nokkurri aukningu. Mjög óvarlegt er að gera ráð fyrir, að ekki dragi verulega úr bifreiðainnflutningi á næsta ári miðað við hinn mikla innflutning á síðustu árum. Aðrir tekjustofnar eru áætlaðir svipað og í fjárl. yfirstandandi árs. Heildartekjur á rekstrarreikningi ríkissjóðs á árinu 1968 eru áætlaðar 6195.3 millj., en heildarútgjöld 6120,5 millj. Við gjöldin bætast afborganir lána, 41,1 millj., og verður há greiðsluafgangur 37,6 millj. Munu vafalaust allir hv. þm. gera sér ljóst, að hér er teflt á mjög tæpt vað um greiðsluhallalausan ríkisbúskap á árinu 1968, enda bendir síðasta spá Efnahagsstofnunarinnar fyrir 1968 til lakari efnahagsþróunar en frv. gerir ráð fyrir. Með hliðsjón af því, að óumflýjanlegt er, að nokkur kjaraskerðing verði hjá almenningi, verður þó ekki fram hjá því komizt að leggja í nokkra áhættu varðandi afkomu ríkissjóðs, þannig að ekki verði lagðar þyngri álögur á þjóðina en brýnasta nauðsyn krefst.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gefa yfirlit um afkomu ríkissjóðs 1966, afkomuhorfur 1967 og skýra meginefni fjárlagafrv. fyrir árið 1968. Mun ég að lokum víkja að nokkrum atriðum, sem máli skipta um afkomu ríkissjóðs og ýmsa þætti ríkisbúskaparins.

Líkur eru til, að við stöndum nú á vegamótum varðandi framtíðarskipulag skatta- og tollamála. Er ekki að vænta mikilvægra lagabreytinga í þeim efnum á þessu þingi, þar eð nokkuð á enn í land, að málin skýrist nægilega mikið til þess að átta sig til hlítar á, hver framtíðarstefnan verður. Þingkjörin nefnd vinnur nú að athugun staðgreiðslukerfisins á grundvelli þeirra gagna, sem lögð voru fyrir Alþ. s.l. vetur. Er þar um mikið og flókið vandamál að ræða og þess engin von, að niðurstöður þeirrar nefndar liggi fyrir á næstu mánuðum. Verði niðurstaðan sú að taka upp staðgreiðslukerfi skatta, hlýtur sú ákvörðun að leiða til grundvallarbreytinga á skattkerfi ríkisins og tekjustofnamálum sveitarfélaganna.

Stöðugt þrengir að útflutningsframleiðslu þjóðarinnar á erlendum mörkuðum vegna tollastefnu Efnahagsbandalagsins og Fríverzlunarbandalagsins, og hljótum við á næstunni að verða að taka um það endanlega ákvörðun, hvort við æskjum tengsla við þessi bandalög með einhverjum hætti eða tökum á okkur þá kjaraskerðingu, sem af því leiðir að standa að öllu leyti utan þeirra og taka á sig sívaxandi þunga hinna ytri tollabandalaga. Ríkisstj. hefur eftir föngum leitazt við að gæta íslenzkra hagsmuna fyrst og fremst með þátttöku í Kennedy-viðræðunum innan Alþjóðatollamálastofnunarinnar og enn fremur með beinum viðræðum við einstakar viðskiptaþjóðir sínar innan Efnahagsbandalagsins og Fríverzlunarbandalagsins. Nokkuð hefur áunnizt í þessum viðræðum, en þó er árangurinn fjarri því að vera viðunandi fyrir okkur. Ríkisstj. hefur ákveðið að leggja til við Alþ., að Ísland gerist fullgildur aðili Alþjóðatollamálastofnunarinnar, til þess að tryggja betur aðstöðu landsins. Aðalárangur tollaviðræðnanna til þessa er afnám tolls á fiskblokkum á Bandaríkjamarkaði og helmingslækkun á tolli á síldarlýsi á brezkum markaði. En allir slíkir tollasamningar byggjast á gagnkvæmum fríðindum og yrðum við því á móti að fallast á að lækka tolla á nokkrum vörutegundum á nokkru árabili. Mun frv. um breytingar á tollskránni í þessu skyni verða lagt fyrir yfirstandandi Alþ. og þá nánari grein gerð fyrir þessum tollabreytingum. Er augljóst, að ef við eigum að njóta tollfríðinda á erlendum markaði, verðum við að bjóða tollhlunnindi á móti, þannig að það komi til viðtækrar tollasamvinnu, og þá hljótum við að verða að endurskoða alla okkar tollalöggjöf. Hefur þetta vandamál verið í rækilegri athugun um nokkurt skeið, bæði með hliðsjón af vandamálum íslenzks iðnaðar og afkomu ríkissjóðs, þar eð aðflutningsgjöld eru veigameiri þáttur í tekjum ríkissjóðs hér á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Er því sýnt, að við getum á næstunni þurft að gera grundvallarbreytingu á öllu tollakerfinu. En einmitt af þeim sökum þykir ekki rétt fyrr en málin skýrast betur að lögfesta neinar veigamiklar breytingar á tollskránni.

Í síðustu fjárlagaræðu gerði ég nokkra grein fyrir stóreignaskatti þeim, sem á var lagður með l. frá 1957 og ekki hefur enn verið innheimtur nema að nokkru leyti vegna stórkostlegra málaferla, sem urðu út af skattálagningu þessari. Á síðasta hausti stóðu sakir þannig, að líkur þóttu til, að flest kurl væru þá til grafar komin, enda hafði skatturinn þá, sem upphaflega nam 135 millj. kr., lækkað í 65 millj. vegna endurreiknings á grundvelli þeirra dóma, sem fallið höfðu á tímabilinu. Boðaði ég því, að innheimta skattsins mundi hefjast af krafti á þessu ári. Enn voru að vísu ekki fallnir dómar í allmörgum málum, en þau voru ekki talin hafa veigamikla þýðingu. Hins vegar kom síðar í ljós, að niðurstöður sumra þessara mála voru þýðingarmeiri en gert hafði verið ráð fyrir og hafa leitt til þess, að enn hefur orðið að umreikna skatt um það bil 150 aðila. Er hér að vísu ekki samtals um teljandi fjárhæðir að ræða, en engu að síður var ekki talið auðið að hefja kerfisbundna innheimtu skattsins fyrr en þessum endurreikningi væri lokið. Þótt reynslan hafi sýnt, að hér sé um mjög óeðlilega skattálagningu að ræða, er rn. að sjálfsögðu skylt að innheimta skattinn svo sem lög mæla fyrir, enda hafa allmargir þegar greitt hann að fullu og aðrir skilvíslega greitt árlegar afborganir skuldabréfa. Hefur því nú verið hafinn nauðsynlegur undirbúningur að því að hefja kerfisbundna innheimtu skattsins á næsta ári. Svo sem kunnugt er, rennur skattur þessi ekki í ríkissjóð heldur að 2/3 til byggingarsjóðs ríkisins og 1/3 til veðdeildar Búnaðarbankans. Þar sem 10 ár eru nú liðin frá álagningu skattsins, er hann að sjálfsögðu margfalt léttbærari en hann var, þegar hann var á lagður.

Í síðustu fjárlagaræðu gerði ég grein fyrir nauðsyn þess að endurskoða hin ýmsu lagaákvæði um embættisbústaði og setja nýja heildarlöggjöf um embættisbústaði, þar eð embættiskerfi ríkisins væri nú allt annað en var, þegar ákvæðin um hina ýmsu embættisbústaði voru sett, og reynslan hefur staðfest margvíslegt ósamræmi á þessu sviði. Hefur rannsókn málsins leitt í ljós, að núv. ástand í þessu efni er óviðunandi, og verður lagt fyrir þetta þing frv. um embættisbústaði, sem felur í sér mjög veigamiklar breytingar frá núgildandi lagaákvæðum. Án efa mæta þær till. andróðri úr ýmsum áttum, eins og ætíð verður, ef menn telja sig vera að missa einhver hlunnindi, en ég tel nauðsynlegt, að Alþ. skeri úr um það, hvort það vill una núverandi ástandi eða setja samræmdar reglur í ljósi fenginnar reynslu og breyttra þjóðfélagsaðstæðna.

Með tilkomu þjóðhagsáætlana og framkvæmdaáætlana nú síðustu árin hefur komið í ljós, að mjög mikið skortir á, að menn hafi nægilega yfirsýn yfir þróun ríkiskerfisins til þess að geta tekið á nægilega raunsæjan hátt ákvarðanir um ýmis hin veigamestu atriði í ríkisframkvæmdum og löggjöf. Vék ég sérstaklega að þessu vandamáli í síðustu fjárlagaræðu minni og lýsti því, hversu þekking væri takmörkuð í ýmsum veigamiklum atriðum og víðtækar athuganir og rannsóknir nauðsynlegar fyrst og fremst með það í huga að geta betur hagnýtt það takmarkaða fé, sem þjóðin hefur til ráðstöfunar hverju sinni til að mæta hinum mörgu og brýnu viðfangsefnum. Sumir töldu viðeigandi að túlka þessi ummæli mín svo, að ég játaði að hafa ekkert vit á ríkisrekstrinum. Að vísu hafa spakir menn haldið því fram, að aukin þekking leiddi jafnan til þess, að menn gerðu sér æ meiri grein fyrir því, hvað þeir vissu lítið. Og ekki er líklegt, að hægt sé að stuðla að miklum framförum og umbótum, ef menn þykjast sitja inni með alla veraldarinnar vizku og vilja ekki viðurkenna, hvað að sé. Ég tel mér a.m.k. ekki til minnkunar að játa, að ég sé á ótal sviðum ríkisrekstrarins ýmiss konar annmarka, sem nauðsynlegt er að lagfæra, og sem nýjustu hagstjórnaraðferðir hafa leitt í ljós, að taka þarf á með öðrum hætti en gert hefur verið. Að vísu er mönnum almennt að verða ljósara, að taka þarf mörg vandamál öðrum tökum en gert hefur verið og á starf Efnahagsstofnunarinnar ekki sízt þátt í þeirri hugarfarsbreytingu. Með tilkomu Hagsýslu- og fjárlagastofnunar fjmrn. skapast ný aðstaða til þess að taka veigamikil viðfangsefni á sviði ríkisrekstrarins nýjum tökum. Þótt nauðsynlegt sé að hafa aðhald á öllum sviðum, jafnt í smáu sem stóru, verður þó æ ljósara við athugun viðfangsefnanna, að mestur sparnaður verður fyrst og fremst fólginn í hagkvæmum og vel skipulögðum viðbrögðum, raunsæjum og traustum undirbúningi framkvæmda, rækilegum undirbúningi og íhugun allra hugsanlegra leiða til lausnar hinum einstöku viðfangsefnum og hlutlausu mati og vali úrræða, óháð flokkspólitískum sjónarmiðum eða þröngsýnni hreppapólitík, auk margháttaðra athugana.

Í sambandi við undirbúning síðustu tveggja fjárlagafrv. hefur veigamikill þáttur starfs Hagsýslustofnunarinnar verið yfirumsjón með undirbúningi frv. um opinberar framkvæmdir, sem lagt var fyrir síðasta Alþ. til athugunar nokkru áður en þingi lauk og verður nú aftur lagt fyrir þetta þing. Í sumar gafst kostur á að kynna efni þessa frv. aðalráðunaut Albjóðabankans um framkvæmdaáætlanir og taldi hann hér vera um hið þýðingarmesta mál að ræða, er skipti meginmáli í sambandi við skipulag og undirbúning framkvæmda á vegum ríkisins. Stofnkostnaðarákvæði hinna nýju skólakostnaðarlaga eru byggð á sömu hugsun. Við verðum að staðla skólahús og einnig embættisbústaði og höfum ekki efni á að nota hús þessi sem auglýsingu fyrir arkitekta. Athugun sú, sem sérfræðingur gerði á vegum Hagsýslustofnunarinnar á viðfangsefnum landhelgisgæzlunnar og mismunandi úrræðum til að leysa þau, er eftirtektarvert dæmi um nýtízku vinnubrögð við leit að hinum skynsamlegustu og hagkvæmustu úrræðum til lausnar tilteknum viðfangsefnum. Önnur eftirtektarverð athugun hefur verið gerð á samhengi milli fjölda útskrifaðra hjúkrunarkvenna og fjölda starfandi hjúkrunarkvenna, sem getur verið góður leiðarvísir við ákvörðun um ráðstafanir á því sviði. Gerður hefur verið samanburður á rekstrarkostnaði ríkisspítala og spítala bæjarfélaga og athugun gerð á námskostnaði á hvern nemanda í hinum ýmsu skólum, er leiðir í ljós, að þar er um mjög mikinn mismun að ræða, sem nauðsynlegt er að kryfja til mergjar. Sérstök könnun var gerð á rekstursgrundvelli vitaskips, sem till. um það efni í fjárlagafrv. nú byggjast á. Hafin hefur verið athugun á rekstri vinnuvéla á vegum ríkisstofnana til þess að gera sér grein fyrir því, hvaða stefnu eigi að hafa við ákvörðun um endurnýjun vinnuvélakosts ríkisstofnana og í athugun er, hvort ekki sé hagkvæmara að sameina á einni hendi þau mörgu og margvíslegu verkstæði, sem rekin eru nú af einstökum ríkisstofnunum. Þegar hefur verið ákveðið að takmarka verkstæðisrekstur flugmálastjórnar og leggja niður suma þætti í starfsemi Landssmiðjunnar, en við það fæst húsakostur, sem er brýn þörf á vegna iðnfræðslunnar, og gerir auðið að fresta byggingarframkvæmdum við Iðnskólann í Reykjavík.

Allmörg skip eru gerð út á vegum ríkisins og er útgerð þeirra í höndum ýmissa aðila. Er þar um að ræða strandferðaskip, varðskip, vitaskip, hafrannsóknaskip, fiskileitarskip, síldarflutningaskip og skip í eigu Sementsverksmiðjunnar. Þótt skip þessi sinni mismunandi viðfangsefnum og séu á vegum ýmissa stofnana, er þó sennilegt, að hagkvæmara sé, að einn aðili annist rekstur þeirra og er þetta mál nú í sérstakri athugun.

Settar hafa verið reglur um greiðslu ferðakostnaðar erlendis, sem ég í síðustu fjárlagaræðu sagði, að væru í undirbúningi. Ferðatryggingu ríkisstarfsmanna hefur verið komið í fast horf og gerðar hafa verið tilraunir með útboð á skipatryggingu ríkisins, sem að vísu tókst ekki í þetta sinn að koma í framkvæmd, en er mikilvægur leiðarvísir um framtíðarstefnu í þeim efnum. Vaxandi áherzla hefur verið lögð á að hagnýta útboð við ríkisframkvæmdir og er orðin brýn nauðsyn að setja sérstaka löggjöf um tilboð og útboð á grundvelli fenginnar reynslu. Hefur á vegum viðskmrn. verið unnið að undirbúningi þess máls. Undirbúningur að föstum reglum um notkun bifreiða í þágu ríkisins hefur reynzt umfangsmeiri en gert var ráð fyrir, en till. að þessum reglum eru nú að verða tilbúnar. Í athugun er að reyna að samræma betur greiðslu fyrir nefndarstörf, sem er að vísu erfitt verk, en allt of mikið ósamræmi hefur verið í þessum greiðslum. Mörg önnur einstök atriði hafa verið til athugunar, sem of langt yrði að telja hér, og í sambandi við undirbúning fjárlaga nú hefur fjmrn. beint ýmsum tilmælum til annarra rn. varðandi skipulagsbreytingar og athuganir, er taldar hafa getað horft til aukinnar hagkvæmni og sparnaðar jafnframt því, að lögð hefur verið á það rík áherzla, að allar stofnanir hæfust þegar handa um nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja, að hinar takmörkuðu fjárveitingar nægi.

Hafin hefur verið þjálfun starfsmanna í hagsýslustörfum og í framhaldi af því eru fyrirhuguð námskeið innan ýmissa greina ríkisrekstrarins um umbætur í rekstri og starfsháttum. Í framhaldi af ráðstefnu þeirri, sem haldin var á s.l. ári með forstöðumönnum ríkisstofnana til kynningar á hagsýslustarfseminni, hefur Hagsýslustofnunin haft meira og minna samstarf við þessa forstöðumenn, enda þeir í vaxandi mæli leitað til stofnunarinnar um leiðbeiningar og upplýsingar. Einmitt í þessum anda þarf að starfa og ekki er að efa, að forstöðumenn ríkisstofnana hafa almennt áhuga á því að reka stofnanir sínar með sem hagkvæmustum hætti. Hins vegar þurfa rn. og ríkisstofnanir að hafa opnari augu fyrir nauðsyn þess að kanna til hlítar, hvort ekki sé hagfellt að sameina ríkisstofnanir á ýmsum sviðum eða a.m.k. að taka upp nánara samstarf þeirra í milli um einstaka þætti, þó að húsnæðiskostur sé hér að vísu oft til hindrunar. Samstarf og sameining fyrirtækja í einkarekstrinum er einmitt tímanna tákn nú og því ætti ekki sú sameining einnig að geta verið hagkvæm á ýmsum greinum ríkisrekstrarins? Vakin hefur verið athygli á ýmsum möguleikum á þessu sviði, en því miður með litlum árangri.

Það er að mati ríkisstj. eitt veigamesta atriðið til að tryggja og bæta lífskjörin að leita allra úrræða til að stuðla að hinni fullkomnustu hagkvæmni í rekstri atvinnuveganna. Það verður meginverkefni Fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar á næstunni að kanna allar hugsanlegar skipulagsbreytingar, er gætu stuðlað að sparnaði í ríkisrekstrinum, sem er eigi síður mikilvægt en á sviði atvinnulífsins. Sérsjónarmið eða hagsmunir mega hér ekki vera til hindrunar, því að það er lítilli þjóð sem Íslendingum nægilega þungur baggi að halda uppi fullkomnu ríkiskerfi, þótt þess sé í hvívetna gætt að hafa það kerfi sem einfaldast og hagkvæmast. Verður að vænta skilnings allra aðila á mikilvægi þessa viðfangsefnis. Í þessu sambandi getur Fjárlaga- og hagsýslustofnunin með mjög takmörkuðu starfsliði ekki leyst allan vanda. Heiti ég því bæði á forstöðumenn ríkisstofnana og eigi síður áhugasama ríkisstarfsmenn almennt að leggja Hagsýslustofnuninni lið með því að vekja athygli hennar á því, sem betur mætti fara í ríkisrekstrinum. Mun einnig tekið með þökkum ábendingum úr öðrum áttum, þótt gera megi ráð fyrir, að ríkisstarfsmenn séu öllum hnútum kunnugri í sínum stofnunum. Munu allar slíkar ábendingar teknar til rækilegrar athugunar. Launamáladeild rn. hefur stuðlað að hættu eftirliti með launagreiðslum og unnið að því að taka upp kerfi, er tryggði betri yfirsýn yfir allar launagreiðslur ríkisins. Tilraun hefur verið gerð um nokkurn tíma til að skrá með sérstökum hætti mætingar allra starfsmanna í stofnunum á vegum fjmrn. Er þetta gert í reynsluskyni og mun útfært til annarra ríkisstofnana, ef ástæða þykir til. Reynslan af þessari skráningu hefur verið eftirtektarverð og hefur rn. nýlega sett sérstakar reglur um það, hversu meðhöndla skuli fjarvistir starfsmanna.

Enn er unnið að endurskoðun l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Er þar við ýmis vandamál að fást, einkum þá samningsaðildina vegna þess klofnings, sem orðið hefur í röðum opinberra starfsmanna, þar sem ýmsir hópar háskólamenntaðra manna telja sig ekki lengur geta unað því, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja annist samninga í þeirra umboði. Hver sem niðurstaðan verður í því efni, er það tvímælalaust óæskileg þróun, ef samningsaðild opinberra starfsmanna verður ekki á einni hendi. Þá er sameiginleg nefnd ríkisins og BSRB að hefja endurskoðun I. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Fyrr á þessu ári felldi kjaradómur úrskurð um nokkra launahækkun til lægstu launaflokka opinherra starfsmanna. Málið kom til kasta kjaradóms sökum þess, að BSRB gerði kröfu um almenna kauphækkun ríkisstarfsmanna með skírskotun til þeirrar 3,5% launahækkunar, sem verkamenn fengu í samningum vorið 1966, en af hálfu ríkisins var á það bent, að þar hefði ekki verið um almennar launahækkanir að ræða og væri því ekki hægt að fallast á hækkun til annarra ríkisstarfsmanna en þeirra, sem gegndu algerlega sambærilegum störfum við þau stéttarfélög, sem þá fengu launahækkun. Var þar um mjög lítinn hóp manna að ræða.

Niðurstaða kjaradóms varð sú, að lægstu launaflokkar ríkisstarfsmanna skyldu fá almenna launahækkun með hliðsjón af launahækkun verkamanna, en þó mismunandi háa, og var almennt um mjög óverulega hækkun að ræða. Talið var óumflýjanlegt vegna ósamræmis að fallast á nokkrar launahækkanir vissra starfshópa hjá Pósti og síma að tilskildum námskeiðum, sem dæmi eru til víðar í starfsmannakerfinu. Almennt hefur samstarfið við stjórn BSRB verið gott, þótt menn hafi ekki alltaf verið á eitt sáttir um launakjörin. Tel ég það mikilvægt, að góður andi ríki í samskiptum ríkisvaldsins og starfsfólks þess, svo að stjórnkerfið geti starfað með eðlilegum hætti. Samkv. samkomulagi við BSRB er nú unnið að heildarendurskoðun á skipun starfsmanna í launaflokka og er ætlunin, að þeirri endurskoðun verði lokið fyrir árslok 1968, en launabreytingar samkv. endurskoðuninni taki gildi frá ársbyrjun 1968. Er höfuðnauðsyn að fá samkomulag um launaflokkunina, því að þótt áfram verði auðvitað meiri og minni ágreiningur um launin sjálf, skiptir það höfuðmáli, að ekki sé stöðugur ágreiningur um skipun manna í launaflokka, því að þá óánægju er langerfiðast að fást við, ekki aðeins fyrir ríkisvaldið, heldur eigi síður fyrir samtök starfsmannanna sjálfra. Núgildandi kjarasamningar ríkisstarfsmanna renna út um næstu áramót. Hefur BSRB fyrir nokkru afhent rn. kröfur sínar og viðræður hafa hafizt milli samninganefndar ríkisins og samninganefndar BSRB. Í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir neinum launahækkunum til ríkisstarfsmanna, enda ekki sjáanlegt með hliðsjón af öllum aðstæðum, að neinn grundvöllur sé til launahækkana, enda alger forsenda þeirra ráðstafana, sem nú er óumflýjanlegt að gera, að ekki verði um neinar almennar kauphækkanir í þjóðfélaginu að ræða á næstunni. Í þessum orðum felst enginn dómur um það, að kjör ríkisstarfsmanna séu yfirleitt viðunandi, enda hefur hvað eftir annað komið í ljós, þrátt fyrir hina mjög miklu lagfæringu á kjörum ríkisstarfsmanna með úrskurði kjaradóms 1963, að erfitt reynist að fá menn í ýmis störf hjá ríkinu, einkum hin ábyrgðarmeiri störf, sem krefjast sérþekkingar eða reynslu, og tveir hópar sérmenntaðra manna, læknar og verkfræðingar, hafa neytt sérstöðu sinnar til þess að knýja fram launakjör, sem eru ekki í samræmi við kjör annars sérmenntaðs fólks. Er hér um vandamál að ræða, sem gefa þarf sérstakan gaum að í sambandi við endurskoðun launaflokkunarinnar og stigin í launakerfinu. Auðvitað er eðlilegt, að sérmenntaðir menn með langt nám að baki fái síðar hærri laun en aðrir í þjóðfélaginu, en almennt hefur verið hér á Íslandi sterkari andstaða gegn mjög miklum launamun en í flestum öðrum löndum. Reynslan hefur þó sýnt, að menn verða væntanlega að einhverju leyti að endurskoða þá afstöðu.

Að þessu sinni er starfsmannaskráin, sem fylgir fjárlagafrv., allfrábrugðin fyrri starfsmannaskrám. Fram til þessa hefur þeirri reglu verið fylgt að birta aðeins fjölda fastráðinna starfsmanna í slíkum skrám, þó þannig, að allar stöður, sem heimilaðar hafa verið, hafa verið teknar með án tillits til þess, hvort viðkomandi starfsmenn hafi raunverulega verið ráðnir. Skrárnar hafa því gefið takmarkaðar upplýsingar um starfsmannahald ríkisins. Úr þessu er reynt að bæta með starfsmannaskrá þeirri, er fylgir fjárlagafrv. nú, en hún tekur til allra starfsmanna hverrar stofnunar, bæði fastráðinna og lausráðinna, sem taka laun í samræmi við kjaradóm eða fylgja launakjörum opinberra starfsmanna. Er miðað við raunverulegan starfsmannafjölda í maí 1967, en ekki með taldar þær stöður, sem ekki var ráðið í á þeim tíma, jafnvel þótt heimild til ráðningar væri fyrir hendi. Auk þess sem starfsmannaskráin nær þannig til fleiri starfsmanna innan hverrar stofnunar en áður, nær hún til vel flestra ríkisstofnana og fyrirtækja, en fram til þessa hefur vantað ýmsar stofnanir í skrána og ekki verið farið eftir neinum föstum reglum í því efni. Ætti skráin að þessu sinni að gefa góða mynd af raunverulegu starfsmannahaldi ríkisins. Sú aukning á starfsmannafjölda, sem fram kemur í samanburði við fyrri starfsmannaskrá, felur því að sjálfsögðu ekki í sér raunverulega aukningu, heldur fyrst og fremst fyllri upplýsingar um starfsmannahald ríkisins. Þá er sú breyting gerð frá fyrri fjárl., að nú eru allar launagreiðslur færðar í einu lagi hjá hverri stofnun í stað þess að sundurgreina laun fastra starfsmanna og lausráðinna. Um 10 ára skeið hefur verið starfrækt nefnd, er bera skal undir allar nýjar mannaráðningar hjá ríkisstofnunum. Þessi nefnd hefur veitt verulegt aðhald um fjölgun fastra starfsmanna, en því miður hefur ekki tekizt að koma í veg fyrir lausráðningar og hinir lausráðnu starfsmenn hafa fengið aðild að lífeyrissjóði og raunar í flestu sömu réttindi og fastráðnir. Eftir tilkomu launamáladeildar fjmrn. hefur þetta vandamál verið tekið til sérstakrar athugunar, því að koma þarf í veg fyrir, að hægt sé að hleypa mönnum þannig inn um bakdyrnar, þegar aðaldyrunum er lokað.

Ég hef áður í fjárlagaræðum og við önnur tækifæri lagt ríka áherzlu á mikilvægi þess, að viðhorf borgaranna til ríkisins og þá ekki sízt ríkissjóðs breyttist til batnaðar. Borgararnir eiga að sjálfsögðu þá sanngirniskröfu á forsjármenn ríkisins hverju sinni, að ekki séu óhóflegar álögur á borgarana lagðar og reynt sé að gæta fyllstu hagsýni við notkun þess fjár, sem ríkisvaldið á hverjum tíma tekur til sín frá þjóðfélagsborgurunum. Hins vegar verður að skapast almennur skilningur á því, að það sé ósæmandi að reyna að skjóta sér undan að greiða eðlileg og tilskilin framlög til sameiginlegra þarfa, hvort sem er á sviði skatta eða tollheimtu, og það er vonlítið að geta gætt hagsýni í notkun ríkisfjár meðan sá hugsunarháttur er ríkjandi, að sjálfsagt sé að hafa alla kröfugerð í hámarki og nokkuð umfram það, ef ríkissjóður á að borga brúsann og lítið eða ekkert sé við það að athuga að snuða ríkið. Það væri stórt skref í áttina til betra þjóðfélags og skynsamlegri úrlausnar margra þjóðfélagsvandamála, ef hægt væri að breyta þessum hugsunarhætti. Það er jafnframt of almenn skoðun, að sjálfsagt sé, að ríkið og ríkissjóður styrki alla skapaða hluti í þjóðfélaginu og nánast þröngsýni fjmrh. að amast við slíkum styrkveitingum, þótt verið sé að reyna að standa vörð um pyngju skattborgaranna. En þegar afla á fjárins til þess að standa undir öllum þeim álögum, sem á ríkissjóð eru lagðar, kemur oftast annað hljóð í strokkinn. Um það eru vitanlega skiptar skoðanir, hversu víðtæk þjónusta ríkisvaldsins og afskipti þess af málefnum borgaranna á að vera. En almennt mun reyndin sú, að því meiri velmegun, sem þjóðir búa við, því meira vaxa kröfurnar um margvíslega þjónustu við borgarana af hálfu þjóðfélagsins, og þótt menn séu almennt í hinum vestræna heimi að verða fráhverfari beinni aðild ríkisvaldsins að atvinnurekstri, hefur skilningurinn orðið almennari á nauðsyn þess, að þjóðfélagið yrði að hafa trausta yfirsýn yfir þróun efnahagsmálanna, halda uppi fjölþættu tryggingakerfi fyrir hina miður settu í þjóðfélaginu, víðtæku og almennu menntunarkerfi og menningarmiðstöðvum og víðtækum vísindarannsóknum í þágu atvinnuveganna, svo sem undirstöðu alhliða framfara í menningarþjóðfélagi nútímans. Auk þess verði þjóðfélagið að koma til aðstoðar atvinnuvegunum og jafna þar á milli, ef óeðlilegt misræmi eða sérstök tímabundin vandamál skapast. Til þessara framkvæmda allra þarf mikið fé og þjóðfélagsborgararnir verða að hafa skilning á því, að þeir verða að vera reiðubúnir að greiða til hins sameiginlega sjóðs þá fjárupphæð, sem þarf til að standa undir þessari víðtæku kröfugerð í þjóðfélaginu. Það er svo skylda löggjafarvaldsins og fjárveitingavaldsins á hverjum tíma að sjá til þess, að álögurnar til sameiginlegra þarfa verði ekki svo háar, að borgurunum sé ekki eðlilegur hluti tekna sinna eftir skilinn til einkaþarfa og til að halda uppi blómlegu atvinnulífi í þjóðfélaginu, sem að sjálfsögðu er undirstaða allrar verðmætasköpunar.

Herra forseti. Þjóðin stendur nú á örlagaríkum tímamótum. Síðustu árin hafa verið mesta framfaraskeið í sögu þjóðarinnar. Verðmætasköpun hefur verið margföld á við það, sem áður var. Árlegar þjóðartekjur hafa vaxið á við það, sem bezt má telja hjá öðrum þjóðum, og kjör almennings hafa batnað ár frá ári.

Nú syrtir í álinn um skeið og saman hafa farið aflabrestur og stórfellt verðfall allra helztu útflutningsafurða þjóðarinnar. Líkur eru til, að útflutningur í ár verði um 1300–1500 millj. kr. minni en s.l. ár. Síðan 1950 hefur það aðeins einu sinni komið fyrir, að verðmæti útflutningsvöru lækkaði milli ára og var þá um mun minni lækkun að ræða en nú. Ýmsir tala að vísu um, að ekki sé hægt að telja þessa þróun óeðlilega, því að verðlag sjávarafurða hafi verið orðið svo hátt, að hess hafi verið engin von, að það verð gæti haldizt. Þetta er að vissu leyti rétt, en minnkar ekki á neinn hátt þann vanda, sem við stöndum andspænis. Segja má að vísu, að ráðdeildarleysi hafi verið að skipta upp að öllu leyti heim tekjuauka, sem varð af hinum miklu verðhækkunum, heldur hefði átt að leggja hann til hliðar til að mæta erfiðleikunum, þegar verðið lækkaði aftur. Auðvitað hefði þetta verið skynsamlegt. En það er auðvelt að vera gáfaður eftir á. Og hver var á þessum uppgangstímum talsmaður þess að draga úr lífskjarabótunum og leggja heldur fé til hliðar? Treystir nokkur sér til að halda því fram, að stjórnvöldum landsins hefði haldizt uppi að beita slíkum búhyggindum eða minnist nokkur þess, að stjórnarandstaðan hafi látið í ljós skoðun sína í þá átt? Eða hvernig hefur verið mætt jafnsjálfsagðri ráðstöfun eins og bindingu sparifjár í því skyni að tryggja gjaldeyrisvarasjóð, sem reynist vera ómetanleg eign nú til að fleyta okkur yfir stundarerfiðleika? Nei, sannleikurinn er sá, að batnandi hagur hefur ekki dregið úr kröfugerð okkar eða glætt sparnaðarhvöt og það var vitanlega geigvænlegt, að á beztu afkomuárum sjávarútvegsins og hraðfrystihúsanna 1965 og 1964, skyldu þessir atvinnuvegir ekki fá risið undir tilkostnaði sínum, heldur verða að fá uppbætur úr ríkissjóði, þó að það væru að vísu ekki háar fjárhæðir. Það var því ekki um neina varasjóði að ræða til þess að standa straum af verðfellinu og aflabrestinum nú. Við stöndum því andspænis þeirri staðreynd, sem þýðir ekkert að neita að horfast í augu við, að sökum þess, að við höfum alltaf viljað samstundis fá allt til skipta, sem þjóðarbúið hefur aflað, verðum við að sætta okkur við minni hlut nú, þegar minnu er að skipta. Vegna stóreflingar atvinnuveganna síðustu árin er þó aðstaða okkar til að mæta slíkum erfiðleikum nú betri en áður hefur verið og því verður kjaraskerðingin raunar mun minni en ætla hefði mátt miðað við hinn mikla samdrátt útflutningstekna.

Ráðstafanir þær, sem ríkisstj. nú leggur til að gera, eru miðaðar við minnstu hugsanlega kjaraskerðingu og mæti stéttasamtök og þjóðin í heild þessum ráðstöfunum af skilningi, er ekki ástæða til að halda, að þjóðin verði fyrir neinum teljandi áföllum, og innan skamms tíma geti þjóðarskútan rétt sig aftur við og siglt með vaxandi hraða fram til aukinnar velmegunar. Hér er því raunar ekki um að ræða nema tiltölulega létta prófraun á það, hvort undanfarandi velmegunartímar hafa dregið úr þreki þjóðarinnar og manndómi til þess að mæta erfiðleikum á viðeigandi hátt, þegar þeir steðja að, því að varla getur nokkur látið sér til hugar koma, að hægt sé að skapa svo varanlegt ástand, að ekki hljóti inn á milli að koma erfið ár. Það væri a.m.k. óheillavænlegt, ef þjóð, sem býr við atvinnulíf eins og við Íslendingar, tileinkaði sér slíkan andvaraleysishugsunarhátt. Við eigum að mæta erfiðleikunum nú af skilningi og raunsæi, en án allrar svartsýni, því að hún er ástæðulaus, ef skynsamlega er á málum haldið.

Ég legg svo til, herra forseti, að 1. umr. málsins verði að loknum þessum útvarpsumr. frestað og frv. vísað til fjvn.