11.12.1967
Sameinað þing: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

1. mál, fjárlög 1968

Frsm. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Í aths. þeim, sem ég mun gera við fjárlagafrv. 1968 við 2. umr. þess, mun ég leggja áherzlu á þessi atriði: Í fyrsta lagi það, að eins og fjárlagafrv. er nú við 2. umr., er mjög erfitt að fást við afgreiðslu þess, þar sem ekki liggur fyrir tekjuáætlun eða stórir útgjaldaliðir eins og skólar og hafnir ásamt öðru. Í öðru lagi mun ég gera grein fyrir þeirri stefnu, sem við í minni hl. fjvn. munum fylgja við fjárlagaafgreiðsluna, þ.e. að fjárveitingar á fjárl. 1968 verði ekki minni að framkvæmdamætti heldur en þær voru á fjárl. 1967. Enn fremur að dregið verði úr skaðvænlegum áhrifum gengisbreytingarinnar, eins og unnt er, með auknum tryggingum og lækkunum á aðflutningsgjöldum. Í þriðja lagi munum við lýsa afstöðu okkar til fjárlagaafgreiðslu á s.l. ári og undanfarandi ára og minna á, að við lögðum áherzlu á það við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1967, að það væri óframkvæmanlegt að gera það tvennt samtímis að koma á verðstöðvun í landinu og hækka fjárlög um 1 milljarð, eins og þá var gert. Ég mun síðar ræða um, hvers vænta má um ástand í atvinnurekstri Íslendinga. Við munum og ræða um útþenslu ríkiskerfisins og eyðslu hjá ríkissjóði, enn fremur um þá formbreytingu, sem gerð hefur verið á fjárlagaafgreiðslunni og afgreiðslu fjvn. á þeim till., sem formaðurinn hefur lýst.

En áður en lengra er haldið, vil ég byrja á því að þakka formanni og öðrum nm. í fjvn. fyrir samstarfið í n. og get fyrir hönd okkar í minni hl. tekið undir það, að við höfum engu ofríki verið beittir, þó að skoðanir hafi verið skiptar. Sömuleiðis vil ég fyrir hönd okkar þakka hagsýslustjóra fyrir samstarfið í n., en hann hefur unnið með okkur við fjárlagafrv. frá fyrsta fundi og hefur verið fús að gefa leiðbeiningar og upplýsingar, sem fram á hefur verið farið við hann, hvort sem það hefur verið af meiri eða minni hl. n. og þakka ég það.

Eins og hv. alþm. er ljóst er þetta fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir nú, í allt öðrum búningi og allt öðru formi heldur en fjárlagafrv. undanfarandi ára. Gerð þessa fjárlagafrv. er byggð á nýjum l. um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Að okkar dómi, minni hl., er þetta form, sem fjárlagafrv. er nú fært í, að mörgu leyti heppilegt og mun síðar meir gefa gleggri mynd af ríkisrekstrinum heldur en áður hefur verið. Það hefur verið svo á undanfarandi árum og hefur verið mjög gagnrýnt af okkur í minni hl. fjvn., að varla hefur komið svo nýr lagabálkur hér á hv. Alþ., að ekki hafi honum fylgt tekjustofn til þess að annast það, sem l. var ætlað að framkvæma. Þetta hefur leitt til þess, að fjárveitingar hafa að meira og minna leyti verið framkvæmdar utan fjárlaga og í fjárlögum hefur þess vegna ekki verið nein heildarmynd af útgjöldum ríkisins eða tekjustofnum þeim, sem ríkissjóður hefur. Þegar þessi breyt. hefur verið gerð og inn á fjárlagafrv. er tekið megnið af þeim tekjustofnum, sem þannig hefur verið stofnað til, eru þeir samtals 1 milljarður 222 millj. kr. Það er nokkru hærri upphæð heldur en fjárlög voru fyrir nokkrum árum og ekki lengra aftur en svo, að árið 1959 náðu þau ekki þessari fjárhæð.

Það er líka ýmislegt, sem orkar tvímælis í sambandi við þessa uppbyggingu á tekjustofnum ríkisins og afgreiðslu Alþ, á því fé, sem það hefur með l. ákveðið að taka af þegnunum. T.d. vil ég geta þess, að í yfirliti því, sem er hér á bls. 137 í fjárlagafrv., kemur í ljós, að Húsnæðismálastofnunin fær hluta af eignarskatti, 40 millj. kr., hún fær launaskattinn, 107 millj. kr., hún fær hluta af eignarskatti og tekjuskatti og byggingarsjóðsgjald af innflutningi, sem eru 161/2 millj. kr. Þegar það er athugað, að hér er um að ræða tekjustofna, sem ríkið hefur, eins og tekjuskatt og eignarskatt, virðist vera miklu eðlilegra, að ríkissjóður hefði þessa tekjustofna óráðstafaða í l., en þeim væri hins vegar ráðstafað á fjárl. til þessarar starfsemi sem og annarrar, þar sem nauðsyn væri talin. Það er óeðlilegt að vera með í löggjöf, að þessi hluti af þessum skatti skuli ganga til þessa verks. Eðlilegast er, að Alþ. ráðstafi því á hverjum tíma, hvernig nota á þær tekjur, sem innheimtar eru af þegnunum. Eins og ég gat hér áðan, hefur það mjög færzt í vöxt að taka hina og þessa skatta í sambandi við löggjöf. T.d. er hér ríkisábyrgðasjóðsgjald, það er orðið 9 millj., en það er skattur, sem var lagður á fyrir nokkrum árum sem þjónustugjald til þeirra, sem ríkisábyrgðar njóta. Þannig mætti lengi telja og benda á t.d. ýmsa skatta, sem styrktarfélögum hafa verið ætlaðir, þar sem hvorki hefur verið neitt eftirlit með því, hvernig féð hefur verið notað eða neitt samræmi í því, hvort þessi eða hin styrktarstarfsemin á að njóta hærri fjárhæðar, en með þeirri ákvörðun, sem tekin hefur verið um tappagjald og sælgætisgjald og fleiri slíka tekjustofna, hefur starfsemi styrktarfélaga mjög verið mismunað.

Þá vil ég geta þess, að eins og fram kemur í nál. okkar og fram kom í ræðu hv. 2. þm. Vesturl., form. fjvn., þá var annað form haft á afgreiðslu fjvn. á till. þeim, sem n. stendur að, heldur en verið hefur á undanfarandi þingum. Ástæðan til þess, að svo var að þessu sinni er sú, að við afgreiðslu fjárlaga nú varð að gera breyt. á öllu fjárlagafrv. vegna þeirrar gengisbreytingar, sem gerð var á skráðu gengi íslenzkrar krónu seint í síðasta mánuði. Það var því ekki talið eðlilegt, að við í minni hl., sem ekki stóðum að þeirri gengisbreytingu eða þeirri stjórnarathöfn eða á annan hátt höfðum áhrif á framkvæmdir í sambandi við þá ákvörðun, stæðum að flutningi till., sem leiddi af þessari framkvæmd. Hins vegar gerði hagsýslustjóri okkur grein fyrir því, hvernig þessar breyt. væru framkvæmdar í rn. og Hagsýslustofnuninni og er þess getið hér í nál. okkar, að umreikningurinn er á þann veg, að launaliðir allir eru hækkaðir um 3,39%, viðhaldsliðir um 10%, vextir af lánum og afborganir eins og gengisbreytingin hafði áhrif, á dollarasvæðið 32,6%, dönsk lán 22,1%, sterlingssvæðið 14,3% og verðtryggð innlend lán 13,4%. Önnur rekstrargjöld eru hækkuð um 20%, en allir fjárfestingarliðir eru hins vegar látnir óbreyttir. Hins vegar má segja um þá liði, sem n. hefur flutt og meiri hl. flytur og gerð er grein fyrir, að fjallað hafi verið um af hálfu n., þeim flestum munum við í minni hl. fylgja og stóðum að í fjvn. Þó vil ég í sambandi við þá afgreiðslu gera nokkrar aths. við þá meðferð, sem rekstur skólanna í landinu sætir.

Eins hv. þm., sem sátu hér s.l. vor, rekur minni til, voru afgreidd héðan frá Alþ. ný lög um skólakostnað. Þetta lagafrv. var lagt fram hér á hv. Alþ, á síðustu dögum þingsins, en hins vegar var lagt á það mjög mikið kapp, að það næði afgreiðslu, til þess að hægt væri að fara að framkvæma það. Þegar l. voru afgreidd, var gildistöku þeirra lýst þannig í síðustu gr. þeirra, að þau tækju gildi nú þegar, en kæmu þó ekki að öllu leyti til framkvæmda fyrr en 1. sept. 1968. En nú bregður svo við, að síðan l. voru afgreidd hefur lítið farið fyrir málinu að öðru leyti en því, að það var notað af stjórnarliðum í ræðum þeirra á framboðsfundum s.l. vor. Þegar fjárlagafrv. kom svo til meðferðar á hv. Alþ., var það ljóst, að á engan hátt hafði verið tekið tillit til þessara nýju l. Það hefur verið nokkur umr. um þetta í fjvn., hvort svo skyldi með farið sem horfði, að ekkert tillit yrði tekið til nýju skólalaganna í sambandi við fjárlaga afgreiðsluna, og nú hefur meiri hl. hv. fjvn. tekið það svo, að það er gert ráð fyrir, að aukin fjárveiting vegna nýju l. verði frá 1. sept. 1968. Það þýðir, að gildistaka l. byrjar á þeim degi, er síðast átti að gilda um gildistöku þeirra. Nú er ekki um stóra fjárhæð að ræða. Eftir því, sem upplýst hefur verið í fjvn. af fjármálaeftirlitsmanni skóla, mundi aukinn kostnaður vegna þessara breytinga vera um 15 millj. kr. umfram það, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.

Nú munu sumir hv. alþm. spyrja, hvort nokkur ástæða sé til þess að líta á það, að þessi lög taki gildi eða þessi lög komi til framkvæmda eða hver hafi hag af því. Því var haldið fram í umr. hér á hv. Alþ., að það mundi verða tiltölulega lítil breyt. á milli ríkis og sveitarfélaga eftir gildistöku l. frá því, sem áður hefur verið. En þær upplýsingar komu frá fræðslumálastjóra í hv. fjvn., að menntmrn. hafi á s.l. hausti lagt það fyrir sveitarfélögin í landinu og skólanefndir að miða ráðningu kennara og starfrækslu skólanna við nýju skólakostnaðarl. Ég hygg, að Samband ísl. sveitarfélaga sé farið að hafa afskipti af þessu máli eða a.m.k. ætli sér að hafa afskipti af þessu máli vegna þessara ákvæða. Það er því mjög óeðlilegt, að slík fyrirskipun skuli koma frá hv. menntmrn. um, að það skuli við ráðningu og starfrækslu skólanna í vetur miða við nýju l., en þegar kemur svo til fjárveitinga í sambandi við þau, þá á ekki að taka tillit til þeirra. Þetta tel ég mjög fráleit vinnubrögð og verð að endurtaka það, sem ég sagði hér á s.l. vori, að það væri ekki þörf á því að hraða því máli svo í gegnum þingið, sem þá var gert, og hefði í sjálfu sér betur farið, ef þá hefði ekki verið sá hraði, sem viðhafður var við afgreiðsluna, þá hefði gefizt betri tími til þess að skoða málið í heild og e.t.v. hefði verið hægt að komast fram hjá sumum agnúum, sem nú munu reynast á löggjöfinni. En fyrst frv. var afgreitt sem lög frá Alþ. s.l. vor og það er talið taka gildi þá þegar, þá getur ekki verið hægt að komast hjá því að taka tillit til l. um skólakostnað nú við afgreiðslu þessara fjárlaga.

Eins og ég gat um hér í upphafi máls míns, færist fjárlagaafgreiðslan meira og meira í það, að aðalafgreiðsla fjárl. verður við 3. umr. Það hefur sótt í það horfið á síðustu árum, að aðalumr. um fjárlög hefur ekki orðið 2. umr. eins og áður var, heldur 3. umr., því að fyrr hefur ekki legið fyrir heildarmynd af fjárl. heldur en við þá umr. Og nú keyrir þetta raunverulega um þverbak, þar sem ekki er enn þá vitað, hvaða raunverulegar tekjur á að miða við við fjárlagaafgreiðsluna. Það er öllum ljóst, að tekjuáætlun fjárlagafrv. og fjárl. og ríkissjóðs hlýtur að breytast mikið á næsta ári við gengisbreytinguna. Hversu mikil sú breyting verður, fer eftir því, hvernig farið verður með þætti eins og aðflutningsgjöldin, hve þau verða mikið lækkuð, hvort söluskatturinn verður lækkaður, hvort leyfisgjöld af bifreiðum verða lækkuð og hvort innflutningurinn í heild verður álíka mikill, meiri eða minni heldur en ef gengisbreytingin hefði ekki verið gerð. Nú er um suma þætti þessa máls eins og um innflutninginn, að það verður að ráða nokkuð af líkum, eins og varð að gera í sambandi við fjárlagafrv., þegar það var lagt hér fram. Hins vegar hlýtur hæstv. ríkisstj. að vera búin að gera sér nokkra grein fyrir að

flutningsgjöldum og öðrum slíkum tekjustofnum nú, þegar fjárlagafrv. er komið til 2. umr. Hins vegar er ekki auðvelt fyrir okkur í stjórnarandstöðu að gera okkur grein fyrir þessari heildarmynd, þegar ekki liggur meira fyrir eða ekkert liggur fyrir um þessa þætti frá því, sem var, er fjárlagafrv. var lagt fyrir. Þess vegna er það svo, að tillögugerð, sem minni hl. hefur hugsað sér að gera út frá því, sem ég lýsti hér áðan um stefnu okkar í sambandi við afgreiðslu fjárl., verður að bíða tekjuáætlunarinnar og einnig verður að bíða þess, að séð verði, hvernig hv. meiri hl. fjvn. og hæstv. ríkisstj. ætlar að taka á stórum útgjaldaflokkum eins og skólum, höfnum o.fl. Það hefur að vísu komið fyrir áður, að skólarnir hafa verið látnir bíða til 3. umr. eins og nú er gert. Hins vegar hefur það verið svo í fjárlagafrv. undanfarinna ára, að það hefur verið nokkur fjárhæð, sem ætluð hefur verið til skipta á milli nýrra skólabygginga. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1968 er enginn eyrir til framkvæmda í nýjum skólabyggingum. Þar er aðeins miðað við þær skólabyggingar, sem eru í framkvæmd, og þá fylgt 5 ára ákvæðinu um greiðslu kostnaðar miðað við upphaflega áætlun við þær byggingar, sem framkvæmd er hafin á, þriggja ára ákvæðinu hjá þeim skólabyggingum, sem eru búnar að fá fjárveitingu í 5 ár og bráðabirgðafjárveitingu til þeirra skóla, sem teknir hafa verið á fjárlög, en ekki hafa fengið samþykki til að hefja framkvæmdir.

Nú er það svo, eins og ég gerði grein fyrir við 1. umr. fjárl. á s.l. hausti, að það er langur listi af skólum, sem bíða þess, að hægt verði að hefja framkvæmdir við þá og munu það vera yfir 40 barna- og gagnfræðaskólar samanlagt, sem Alþingi hefur samþykkt einhverju fjárveitingu til, en ekki er farið að hefja framkvæmdir við enn þá. Enn fremur munu við afgreiðslu fjárl. nú liggja fyrir beiðnir um nokkra skóla, sennilega 10–20 nýja skóla, sem enga afgreiðslu hafa fengið. Þegar þetta er haft í huga, skýtur það nokkuð skökku við, sem haldið hefur verið fram hér á hv. Alþ., m.a. af hæstv. menntmrh., að hægt væri að fullnægja kennsluskyldu í landinu með þeim skólum, sem fyrir eru. Það er okkur hins vegar ljóst, sem þessum málum eru kunnugir gegnum störf fjvn. og heiman úr héraði, að það er víðs vegar um landið, sem ekki er hægt að framkvæma það, að börn og unglingar njóti skyldunámsins heima við barnaskólana, eins og reglugerðarákvæði eru um, vegna húsnæðisskorts. Þess vegna hlýtur hér að vera á ferðinni sem fyrr mikið vandamál, sem verður í raun og veru erfiðara með hverju árinu, sem liður, því að það eru fleiri og fleiri skólabyggingar, sem Alþ. hefur samþ. fjárveitingu til, sem bíða eftir því að mega hefja framkvæmdir. Og það eru fleiri fjárhæðir og það eru stærri fjárhæðir heldur en nokkru sinni fyrr, sem þarf að leysa í sambandi við framkvæmd í skólamálum, ef vel á að vera. Þess vegna er mér það ljóst, að Alþ. kemst ekki hjá því að veita auknar fjárhæðir til skólabygginga umfram það, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Spurningin er aðeins sú, hve mikil eða há sú fjárveiting kann að vera. Og við skulum ekki vera að blekkja okkur með því að halda hér ræður um það, að þessir hlutir séu í lagi alls staðar í landinu. Þeir eru það ekki, þeir eru erfiðir viðfangs og við gerum þá bezt, ef við reynum að taka á þeim eins og þeir liggja fyrir, en ekki vera með neinar vangaveltur um óraunhæfa hluti.

Þá vil ég minna á það, að rétt fyrir þingslit í vor voru afgreidd ný hafnalög. Þessi hafnalög gerðu ráð fyrir aukinni aðstoð frá hendi ríkisins til hafnarframkvæmda í landinu. Það kom fram við umr. um þau, að þörfin er brýn, og það hefur komið fram við umr. um fjárlög, sennilega eins lengi og fjárlög hafa verið afgreidd hér á hv. Alþingi. En þrátt fyrir það, þó að mikið hafi verið gert í hafnarframkvæmdum í landinu, er mikið þar ógert, og nútímatækni og nútímastærð á flotanum krefst meiri og stærri hafna. Nú er það svo með þessi nýju hafnalög, að mjög lítið tillit er tekið til þeirra í sambandi við fjárlagafrv. það, sem hér er til afgreiðslu. Það eru tæpar 5 millj. kr., sem fjárveiting til hafnabótasjóðs er hærri heldur en verið hefur, en að öðru leyti er ekki hærri fjárveiting til hafnarframkvæmdanna í þessu fjárlagafrv. en í fyrra árs fjárl. Þess vegna er hér einnig um stórmál að ræða, og skuldir ríkissjóðs við þær hafnarframkvæmdir, sem þegar er búið að gera eða er verið að ljúka á þessu ári, munu vera um 70 millj. kr., eftir því, sem vitamálastjóri upplýsti í fjvn. Það er því mjög greinilegt, að það verkefni, sem bíður 3. umr., er líka stórt verkefni. Þá er, eins og fram kom í ræðu hv. 2. þm. Vesturl., formanns fjvn., alveg óséð enn þá, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að taka á fjárveitingum til trygginga. Sama er að segja um eftirlaun, sem áður voru á 18. gr. fjárl. Um þessa málaflokka hefur ekkert verið fjallað enn þá í fjvn.

Við fjárlagaafgreiðslu undanfarandi ára hefur það jafnan verið svo, að nokkuð mikill hluti umr. hefur farið í umr. um svokallaða framkvæmda- og fjárfestingarliði. Það hefur almennt verið vilji þm. að sækja á um það, að fjárveitingar til fjárfestinga og framkvæmda um landið allt dragist ekki mjög aftur úr hækkun fjárl. eða tilkostnaði. Nú hefur hins vegar sótt mjög í það á síðustu árum, að hluti fjárl. til framkvæmda í landinu og fjárfestingar hefur mjög minnkað. Hann mun hafa verið um 26% af fjárl. 1958, en við fjárlagaafgreiðslu 1967 var hann um 13% og nú sýnist mér, eftir horfum á því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., að þessir fjárfestingarliðir séu 8–9%. Það tvennt hefur gerzt síðan fjárlög voru síðast afgreidd, að hæstv. ríkisstj. varð sér eftir áramótin 1967 úti um heimild til þess að lækka fjárfestingarliði um 10%. Auk þess hefur gengið verið fellt, svo sem kunnugt er, og við þessar breytingar sýnist þörf á því að hækka fjárveitingu til fjárfestingarliða um 20% frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, til þess að framkvæmdamáttur þessa fjár verði sá sami og hann var við fjárlagaafgreiðsluna 1967. Og við það bætist að sjálfsögðu sú breyting, sem gerð hefur verið á l. eins og skóla- og hafnal., þ.e.a.s. ef þau lög verða þá látin koma til framkvæmda. Það virðist á engan hátt óeðlilegt eða fram á of mikið farið, þó að gert sé ráð fyrir því, að framkvæmdamáttur þessa fjár verði ekki minni en hann var s.l. ár. Nú er það vitanlegt, að þær framkvæmdir, sem við höfum unnið að á síðustu árum í höfnum, í skólum, í vegum og rafmagni, hafa að meira eða minna leyti verið fjármagnaðar með lánsfé. Það hefur alltaf sótt í það meira ár frá ári að gera þessar framkvæmdir fyrir lánsfé. Nú er það um þá hluti að segja, að það getur verið eðlilegt og skynsamlegt að framkvæma víssa hluti fyrir lánsfé, ekki sízt, ef verið er að ljúka verkum eins og t.d. nú er með dreifingu rafmagns um landið, og það þarf tiltölulega lítið átak til þess að ljúka því verki og væri eðlilegt að taka lán til þess að hraða framkvæmdinni, svo að þeir fáu, sem eftir þessu bíða, þyrftu ekki að bíða óeðlilegu lengi, vegna þess að hér er ekki um neitt stórmál að ræða. Hins vegar er það svo, að þegar fjárlög hækka ár frá ári eins og nú er, þegar eindæma góðæri hefur verið í landinu eins og verið hefur síðustu árin, er það ekki eðlilegt, að fjárfestingarframkvæmdir séu aðallega gerðar fyrir lánsfé, og það er ekki eðlilegt, að þegar fjárlög eru farin að vera á 7. milljarð, sé nokkrum hundruðum milljóna varið til uppbyggingar fyrir framtíðina. Okkur er það ljóst, að það, sem áunnizt hefur í okkar tíð, þeirra, sem nú eru starfandi í landinu, er m.a. það, að við höfum byggt á framkvæmdum þeirra, sem á undan okkur voru, og við getum ekki hagnýtt okkur ýmis af þeim gæðum, sem nútíminn hefur upp á að bjóða, nema við leggjum nokkurt fé til að undirbyggja framtíðina. Það er mjög alvarlegt, ef svo ætti að fara við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1968, að hvorki væri tekið tillit til þess niðurskurðar, sem gerður var, eftir að fjárlög fyrir árið 1967 voru afgreidd, eða þess kostnaðar, sem leiðir af gengisbreytingunni, við fjárfestingarframkvæmdir. Eins og nú horfir er þetta hvort tveggja lagt til hliðar, en ég treysti því enn þá, að frá því verði horfið við lokaafgreiðslu fjárlagafrv. Hins vegar er hvorki okkur í minni hl. fjvn. né öðrum fært að gera till. til breytinga í sambandi við þessa fjárfestingarliði fyrr en betri og skýrari mynd liggur fyrir af fjárlagaafgreiðslunni heldur en hér er nú. En ég vara alvarlega við þeirri stefnu, sem hér er á ferðinni, er á að afgreiða fjárlög, sem verða á 7. milljarð, en sama og engu fé varið til framtíðarinnar.

Í öðru lagi höfum við lýst þeirri stefnu okkar, að við vildum vinna að því í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, að dregið verði eins og auðið er úr skaðvænlegum áhrifum gengisbreytingarinnar. Það þarf ekki að eyða orðum að því, hver hin skaðvænlegu áhrif af gengisbreytingu eru, en þau eru fyrst og fremst aukin dýrtíð og verðbólga í landinu fyrir utan brask, sem getur átt sér stað við gengisbreytingu. Og því verður að treysta, að það sýni sig nú í sambandi við þær framkvæmdir, sem gerðar verða sem afleiðing af gengisbreytingunni, að hæstv. ríkisstj. fylgi eftir þeim ummælum hæstv. forsrh., sem hann viðhafði hér í fyrrahaust, að þeir skyldu verða að borga gengisbreytinguna, sem stefndu að henni og óskuðu eftir henni með tilliti til þess, að þeir gætu hagnazt. Til þess að draga úr skaðvænlegum áhrifum gengisbreytingarinnar kemur það fyrst til, að aðflutningsgjöldin, sem ríkissjóður fær af þeim vörum, sem til landsins flytjast, verði lækkuð. Það er alveg óeðlilegt og getur heldur ekki verið hugsun hæstv. ríkisstj. að hafa aðflutningsgjöldin óbreytt frá því, sem þau nú eru. Þó að vörur séu nú tollafgreiddar með þeim hætti, þá hlýtur að verða stefnt að því og þá fyrr en seinna að draga úr þessum aðflutningsgjöldum. Við viljum líka leggja áherzlu á það í sambandi við þá breyt., sem verður gerð á aðflutningsgjöldunum, að innlendir atvinnuvegir, eins og innl. iðnaður, njóti stuðnings ríkisvaldsins við afgreiðslu á þeim málum, en ekki hið gagnstæða, eins og verið hefur hin síðari árin. Og það er ljóst, að ef áhrif gengisbreytingarinnar verða ekki í þá átt, að iðnaðurinn í landinu eflist á nýjan leik, þá er a.m.k. ískyggilegt útlit um framtíð hans og atvinnu í landinu.

Einnig hlýtur það að verða tekið mjög til athugunar í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, á hvern hátt hægt er að nota tryggingarnar til aðstoðar við það fólk, sem mestrar aðstoðar þarf við í samb. við þá hækkun, sem sú ákvörðun hæstv. ríkisstj. að hætta við niðurgreiðslur að verulegu leyti og gengisbreytingin hefur á verðlag nauðsynjavara. Það getur ekki verið ætlun hæstv. ríkisstj., að sú ein breyt. verði gerð hjá Tryggingastofnun ríkisins að hækka ellilífeyri og aðrar bætur sem nemur vísitöluuppbót þeirri, sem kom núna 1. des., heldur hlýtur að vera ætlunin að nota tryggingarnar til þess að jafna um fyrir fólkið í landinu vegna þessara breytinga. Í því sambandi sýnist mér mjög þurfa að taka það til athugunar, að eftir því sem börn á framfæri foreldra væru fleiri, verði greiðsla til foreldris með þeim hærri og nokkur mismunur þurfi að koma í sambandi við tryggingarnar, ef þær eiga að ná þeim tilgangi, að hægt sé að nota þær til þess að draga úr skaðvænlegum áhrifum gengisbreytingarinnar. Það má vel vera, að hæstv. ríkisstj, hverfi aftur inn á það svið að auka niðurgreiðslur og draga þannig úr dýrtíðinni í landinu og kemur það mjög til álita, en ég vil leggja áherzlu á það, að einmitt þáttur trygginganna til aðstoðar við hinar stóru fjölskyldur í landinu verði hagnýttur og athugaður sem bezt.

Þá var það ein af till. fjárlagafrv. þess, sem hér liggur fyrir, að margfalda mat á fasteignum til eignarskatts og ná þannig í ríkissjóð 60 millj. kr. í tekjur. Eins og ég vék að við 1. umr. fjárlaga í haust, þá eru fasteignirnar einmitt sá tekjustofninn, sem sveitarfélögin renna nú hýru auga til, og hefur mjög verið rætt um fasteignaskatt til þess að draga úr útsvarsálagningu og gera sveitarfélögin ekki eins háð þeim tekjustofni, ekki sízt ef að því kæmi, sem stefnt er að, að farið verði að innheimta skatta jafnharðan og tekna er aflað. En ef hæstv. ríkisstj. heldur við að að margfalda fasteignir til skatts til ríkisins, svo þar verði um tólfföldun að ræða, þá er mjög gengið inn á svið sveitarfélaganna og raunverulega verið að vinna gegn því, að þau geti hagnýtt sér þennan tekjustofn. Nú er það ljóst öllum þeim, sem til þekkja, að þær breytingar, sem orðið hafa, bæði gengisbreytingin og eins verðstöðvunarlögin, hafa komið mjög illa við sveitarfélögin. Það var á misskilningi byggt að halda, að sveitarfélögin hefðu ekki þörf fyrir hærri tekjur á árinu 1967 heldur en 1966 vegna verðstöðvunarinnar, því að það yrðu engar hækkanir á þeirra reksturskostnaði, en þá gleymdust hæstv. ríkisstj. allar þær verðhækkanir, sem urðu á árinu 1966 og komu að fullu fram árið 1967. Þess vegna er það svo, að ýmsir útgjaldaliðir, svo sem hækkun til trygginganna, sem ekki var gert ráð fyrir í áætlun allflestra sveitarfélaga á árinu 1967, komu þó til framkvæmda, og verður að ætla tekjur vegna þeirra breytinga á næsta ári, auk þess sem veruleg hækkun verður til trygginganna á því ári svo og til sjúkrahúsa og sjúkrasamlaga vegna þeirra breytinga, sem verða á daggjöldum á sjúkrahúsum. Fleiri liði mætti nefna. Það er líka ljóst, að mjög hæpið er að áætla, að hægt verði að ná sömu útsvörum með sömu álagningarreglu og í fyrra vegna þeirra breytinga, sem orðið hafa á tekjum manna á þessu ári. Þess vegna er það hin mesta nauðsyn, að ríkissjóður fari ekki að ganga inn á fasteignaskattana og gefi sveitarfélögunum þar olnbogarými til tekna, og væri á þann hátt eitthvað hægt að draga úr útsvörum. Ég vil benda á, að það væri eðlilegt, að við þá breytingu, sem gerð væri á heimild sveitarfélaga til innheimtu fasteignaskatta, fengju þau rýmri heimild til þess að leggja fasteignaskatta á þær stofnanir og þau fyrirtæki, sem hvorki greiða útsvör eða aðstöðugjöld í sveitarsjóði. Það eru nokkur fyrirtæki í þessu landi, sem njóta þess, en eiga verulegar fasteignir, og það er eðlilegt, að sveitarfélögin fái aðgang að þessum félögum í gegnum fasteignirnar. Það er ekki enn þá séð fyrir endann á afgreiðslu þessa fasteignamatsmáls hjá hæstv. ríkisstj. eða meiri hl. fjvn., en minni hl. mun treysta því og freista þess að fá breytingar á því, þegar til framkvæmda kemur í nefndinni.

Eins og að hefur verið vikið og fjárlagafrv. greinir mjög skilvíslega, þá varð mikil breyting á því á s.l. hausti og m.a. farið inn á þá braut að lækka framlag ríkissjóðs til niðurgreiðslna á vöruverði um rúmar 400 millj. kr. Þegar fjárhag ríkissjóðs var þannig komið, að sjáanlegt var að dómi hæstv. ríkisstj., að ekki var auðgert að ná endunum saman, og talið var, að hefði þurft 750–800 millj. kr. til að ná saman endum fjárlaganna með sömu útgjöldum og voru á s.l. ári, hefði ekki verið óeðlilegt, að ríkisstj. hefði gripið til þess ráðs að fara að lesa upp gömul fyrirheit um sparnað og samdrátt í ríkisrekstrinum, í staðinn fyrir það að lækka fjárveitingar til niðurgreiðslna. Þegar núverandi valdhafar settust á rökstóla fyrir átta árum, þá voru ekki nein vandkvæði að spara, það þurfti aðeins tíma til að athuga fjármál ríkisins og ríkiskerfið, til þess að hægt væri að koma sparnaði við. Og til þess að sýna nú fram á, að hér er ekki verið að fara með neitt ábyrgðarlaust fleipur, eða vitna í þá, sem ekki höfðu vald til þess að koma í framkvæmd því, sem þeir stefndu að, þá vil ég lesa hér upp úr fyrsta nál., sem meiri hl. fjvn., stuðningsmenu núv. stjórnarflokka, sömdu við afgreiðslu fjárlaga 1960, en þá lýstu þeir þeim erfiðleikum sínum, að tími hefði ekki unnizt til að undirbúa sparnaðinn og gerðu grein fyrir því á þennan hátt, með leyfi hæstv. forseta, í þessu nál., sem var þá á þskj. 179:

„Það er álit meiri hl, n., að við undirbúning næstu fjárlaga verði að framkvæma slíka heildarathugun ríkisútgjalda og gera allar tiltækar ráðstafanir til sparnaðar. Till. um það efni verða ekki fram bornar án rækilegrar athugunar og undirbúnings, sem fjvn. er ekki unnt að framkvæma á fáum vikum. Því miður hafa flestar sparnaðarráðstafanir á undanförnum árum ekki borið árangur, og er því mikilvægt, að málið verði nú tekið föstum tökum og raunhæfar sparnaðarráðstafanir gerðar. Tekur meiri hl. n. undir ummæli fjmrh. í framsöguræðu hans fyrir fjárlagafrv. og væntir þess fastlega, að næsta fjárlagafrv. beri þess merki, að verulegur árangur hafi orðið af viðleitni fjmrh. í þessu efni.“

Þetta var á vetrinum 1960, sem þessi yfirlýsing var gefin, og hún var ekki undirskrifuð af ómerkari mönnum en hæstv. núv. fjmrh. sem formanni fjvn. Það var lögð rík áherzla á það, að hér væri ekki verið að flana að hlutunum, það væru gerðar raunhæfar sparnaðartill. að athuguðu máli. Nú skyldi maður ætla, að tími hefði unnizt til að athuga sparnaðarleiðirnar og í framhaldi af þessu vil ég minna á, að þegar næsta nál. þessa sama meiri hl. kom til fjárlagaafgreiðslu 1961, þá sagði svo í því nál., með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hl. n. gerir ekki neinar ákveðnar till. um niðurskurð útgjalda ríkissjóðs umfram þær lækkanir, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, enda hefur reynsla ætíð sýnt, að niðurskurður útgjalda er óraunhæfur, nema samtímis séu gerðar nauðsynlegar skipulagsbreytingar og slíkum skipulagsbreytingum verður sjaldan komið við án rækilegrar athugunar og undirbúnings. Meiri hl. n. telur því rétt að benda á nokkur atriði, sem ætti nú þegar að hraða athugun á, þannig að niðurstöður gætu legið fyrir við undirbúning næstu fjárlaga. Er hér auðvitað ekki um neina tæmandi upptalningu að ræða. En meiri hl. beinir þeim tilmælum til ríkisstj., að hún m.a. láti rannsaka, hvort ekki sé hægt að gera eftirtaldar ráðstafanir til að draga úr ríkisútgjöldum.“

Þá kemur fyrsta boðorð: að fækka sendiráðum Íslands erlendis, t.d. að leggja niður tvö sendiráð á Norðurlöndum og jafnvel lækka launagreiðslur til sendiherra og annarra starfsmanna sendiráðanna. Á árinu 1967, þegar fjármálum ríkissjóðs var þannig komið, að það vantaði 7–800 millj. að dómi hæstv. ríkisstj. sjálfrar, og sá hv. formaður fjvn., sem var 1961, var orðinn fjmrh., þá var samt ekki gripið til þess ráðs að skera eða fækka sendiráðum, heldur var bætt við einu sendiráði árið 1967. Öðru hafði verið bætt við á árinu 1966. Er þetta í samræmi við fyrsta boðorðið í sparnaðarreglunum, sem hæstv. meiri hl. fjvn. lagði fyrir ríkisstj. við fjárlagaafgreiðslu 1961? Á kannske að færa þetta undir þá skýringu, sem ritstjóri Alþýðublaðsins gaf á frásögnum ráðh.? Hefði nú ekki komið til álita, einmitt við fjárlagaafgreiðslu nú, þegar svo þurfti að fara fram á við almenning í landinu, að hann herti ólina, eins og það er orðað, að reyna að gera till. um að fækka sendiráðum.

Og annað boðorðið: að draga úr opinberum veizlum. Reglur munu þegar hafa verið settar til þess að takmarka þessi útgjöld, en vert er að athuga, hvort eigi sé hægt að gæta meira hófs í því efni. Kostnaður við gestrisni ríkisstj. hækkar um 50% frá árinu 1965 til 1966. Það er nú ekki hægt að fá mig til að trúa því, að hann lækki á árinu 1967, samkvæmt þeim frásögnum, sem við höfum af gestakomu á því ári. Væri nú ekki athugandi, hvort ekki mætti reyna að koma þessu atriði í framkvæmd í sambandi við fjárlagaundirbúninginn 1968?

Áfram er haldið. Þriðja boðorð: að takmarka svo sem auðið er tölu sendimanna á alþjóðaráðstefnum og fjölda slíkra ferða, svo og tölu fulltrúa í viðskiptasendinefndum. Hvað hefur verið gert í þessu? Hafa ferðalög landa á milli á vegum ráðamanna íslenzku þjóðarinnar nokkurn tíma verið meiri heldur en þau hafa verið nú síðustu árin og á þessu yfirstandandi ári? Hefur verið dregið úr tölu þessara sendimanna eða ferðunum? Ef svo er, þá hefur því verið haldið leyndu fyrir almenningi í landinu, en það er ábyggilega ekki skoðun hins almenna borgara, að svo hafi verið gert í tíð núverandi valdhafa.

Og fjórða atriðið: að fækka löggæzlumönnum á Keflavíkurflugvelli. Lögreglustjórn og kostnaður við lögreglu á Keflavíkurflugvelli og tollgæzlu var 5 millj. kr. í fyrstu fjárlögum viðreisnarstjórnarinnar, árið 1960. Nú er gert ráð fyrir 19 millj. Er þetta vegna þess, að það hefur verið dregið úr kostnaði og löggæzlumönnum hefur verið fækkað á Keflavíkurflugvelli? Að fækka bifreiðum ríkisins og ríkisstofnana og reyna jafnframt að tryggja það, að bifreiðar þessar séu ekki notaðar til einkaþarfa viðkomandi starfsmanna. Hvað hefur verið gert í þessu? Á fjárlögum er alltaf veruleg fjárhæð til bifreiðakaupa á vegum ríkisins, og engum er ljóst, að úr þessu hafi verið dregið. Að athuga skipulag tollgæzlu utan Reykjavíkur, hvort ekki sé hægt að koma þar við hagkvæmari vinnubrögðum og sameina meira tollgæzlu og löggæzlu. Hvað er af tollgæzlu og löggæzlu að segja í þessu landi? Árið 1960, í fyrstu viðreisnarfjárlögunum, var kostnaður við dómsmál og lögreglustjórn 76 millj. kr. Nú er hann 316 millj. kr. Hefur verið dregið úr þessu eða samræmd vinnubrögð? Segir ekki þenslan þarna fullkomlega til sín ár frá ári? Þetta er einn af þeim mörgu liðum fjárlaga, sem hefur þanizt út með ofsahraða, ár frá ári. Þá voru skattamálin eitt af því, sem átti að draga verulega úr. Kostnaður við skattanefndirnar var um 9 millj. kr. á fyrsta fjárlagafrv. viðreisnarstjórnarinnar. Hann er núna 51 millj., eftir hagkvæmnina, eftir skipulagsbreytinguna með sparnaðinn fyrir augum. Og engum datt í hug, að ástæða væri til þess að vita, hvort ekki væri hægt að draga úr kostnaði við álagningu skatta í landinu á sama tíma og farið er fram á það við fólkið í landinu, að það taki á sig álögur upp á 7–800 millj. kr. og lækkaðar eru fjárveitingar til niðurgreiðslna um 400 millj. kr. Það er svo líka staðreynd, að framkvæmdin á skattamálunum er langt frá því að vera á þann veg, sem reiknað var með.

Fleira mætti telja upp úr þessum lista, sem er upp á 23 atriði. Það var m.a. að koma á eftirliti og undirbúningi að framkvæmd skólabygginga og taka að öðru leyti til rækilegrar athugunar, hvort ekki sé auðið að draga úr útgjöldum við fræðslukerfið í heild. Ekki hefur af þessari framkvæmd orðið frekar en ýmsum öðrum. Það er að vísu verið að setja upp eina nýja stofnun í landinu, sem á að annast eftirlit með skólabyggingum, en sparnaðarviðleitnin hefur látið á sér standa í 8 ár. Nei, hér þarf ekki framar vitnanna við, ég þarf ekki að minna á fleiri atriði úr fjárlagaræðu hæstv. fyrrv. fjmrh. um sparnaðarfyrirheitin, sem voru gefin, bæði í hans fyrstu og annarri fjárlagaræðu, en ég vil hins vegar minna á þá útþenslu, sem alltaf á sér stað og fer ört vaxandi í ríkiskerfinu, eins og öllum er kunnugt. Og ég minni á það, að fyrir nokkrum árum var keypt húsnæði, húsið Borgartún 7, fyrir Reykjavík, og þangað voru fluttar margar stofnanir ríkisins, sem eru nú til húsa þar. En hvað hefur orðið um húsnæðið, sem þessar stofnanir voru í ? Eru ekki komnar aðrar stofnanir í húsnæðið að verulegu leyti? Efnahagsstofnunin er flutt inn á Laugaveg 13, en þaðan flutti borgardómarinn í Hallveigarstaði. Skólaeftirlitið er komið í hús Garðars Gíslasonar, þar sem Efnahagsstofnunin áður var. Þannig er um flest það húsnæði, sem ríkið hefur haft á leigu, að ef ein stofnunin hefur þaðan flutt, þá hefur önnur tekið við. Og ég hygg, þó ég geti ekki fullyrt það, að útgjöld ríkisins í leiguhúsnæði séu meiri nú heldur en þau voru, áður en Borgartún 7 var keypt. Það sýnir að nokkru útþensluna, sem átt hefur sér stað í ríkiskerfinu síðustu árin.

Ég vil líka nefna það sem gott dæmi í sparnaði í ríkisrekstrinum, að rekstur Skipaútgerðar ríkisins hefur gengið erfiðlega og með halla, eins og kunnugt er, en til þess að ráða bót á þessu, var skipunum fækkað og bætt við tveimur stjórnarnefndarmönnum, sem munu taka forstjóralaun. Og launagreiðslur eru orðnar fyrir tvo forstjóra eftir því sem skipunum fækkar. Þetta er eðlileg framkvæmd hæstv. ríkisstj. í sparnaði. Þarf þá nokkurn að undra, þó að fjárlögin þenjist út svo hundruðum millj. nemur, jafnvel svo milljarði nemi á milli ára?

Við munum, minni hl. fjvn., eins og fram kemur í nál. okkar, flytja síðar þáltill. hér á hv. Alþ. um rannsókn á útþenslu ríkisins síðasta áratuginn og till. til úrbóta eftir þá rannsókn og gerum ráð fyrir því, að þetta verði unnið í samstarfi við hagsýslustjóra. Ég vil minna á, að þegar umr. um efnahagsmál voru á dagskrá fyrir nokkrum vikum, þá var upp tekin athugun af hálfu ASÍ og BSRB annars vegar og ríkisstj. hins vegar um útgjaldaliði fjárlaganna. Að sjálfsögðu kom ekki mikið út úr þessu, enda væri fjárhagskerfi ríkisins ekki flókið og umfangsmikið, ef hægt væri að gera róttækar breyt. á því á nokkrum dögum. Hins vegar kom það fram í ræðu hæstv. forsrh. hér á hv. Alþ. í sambandi við þessa athugun, að það væri rétt að halda henni áfram og athuga þetta mál betur. Við treystum því, að það verði vel undir það tekið, að Alþ. kjósi n. til að athuga þetta mál nánar og halda þessari athugun áfram, því ekki getur það verið eðlilegri hlutur, að það sé samstarfsnefnd við einhver og einhver félagssamtök í landinu en að Alþ. fái aðgang að slíkum hlutum eins og rekstri ríkisins.

Það var talað um það, og það var oft reynt hér áður fyrr að koma á sparnaðarnefndum, og þær gáfust vafalaust misjafnlega. Þó munu einhver brögð hafa verið að því, að slíkar n. hefðu áhrif hér áður fyrr. Nú hefur alveg verið horfið frá því ráði, og við munum að sjálfsögðu ekki fara að gera till. um að kalla þessa n. sparnaðarnefnd, en við munum hins vegar gera till. um, að Alþ. kjósi n. til þess að kynna sér þessi mál betur og gerð verði raunhæf tilraun til þess a.m.k. að sporna við útþenslu ríkiskerfisins, sem færist í aukana ár frá ári, langt umfram það, sem eðlilegt er.

Þegar verið var að afgreiða fjárlög fyrir árið 1967, var nýbúið að afgreiða hér á hv. Alþ. frv. um verðstöðvun. Í umr. og í nál. okkar þá sýndum við fram á það, minni hl. fjvn., að það væri óhugsandi að gera það tvennt samtímis, að tala um verðstöðvun í landinu og ætla sér að hækka fjárlögin um 1 milljarð, eins og þá var gert. Við sýndum fram á, að hvort tveggja væri til staðar, að ríkissjóður mundi ekki hafa bolmagn til þess að standa undir þeim niðurgreiðslum, og svo væri , hitt óhugsandi, að það gæti orðið nokkur raunhæf verðstöðvun, ef ríkið tæki svo mikið til sín, sem raun ber vitni um. Við þurfum ekki að deila um þetta lengur. Nú eru hlutirnir orðnir staðreynd, ríkisstj. gafst upp við að halda niðurgreiðslunum úti eins lengi og hún hafði bundið þær í 1. Og nú vitum við það allir, að verðlagið hækkar dag frá degi og ekki nóg með það, að það hækki vegna þeirrar ráðstöfunar, sem gerð var með því að draga úr niðurgreiðslunum, heldur er einnig búið að gera gengisbreytingu, og allt þetta er nú framundan í hækkuðu verðlagi. Það hefur því sýnt sig eins vel og nokkur kostur var á, og ég vil segja því miður vegna þjóðarinnar, að það, sem við vöruðum við hér um þetta leyti í fyrra, hefur nú allt orðið að raunveruleika. Það var farið rangt að í sambandi við verðstöðvunina, þar sem ekki var gerð nein tilraun til þess að hafa raunveruleg áhrif á verðlag í landinu, og ríkið var látið heimta til sín meiri skatta en nokkru sinni fyrr og byggði sína tekjuöflun á því, að útþenslan héldist og spennan í viðskiptalífinu yrði meiri en nokkru sinni fyrr. Þess vegna ætti öllum að vera það ljóst, að þessi aðvörun okkar var ekki neitt óraunhæft, hún var byggð á rökum, og það hefur sannað sig, að hún er rétt. Við vöruðum líka við því að afgreiða fjárlög fyrir árið 1967 án þess að taka tillit til þess ástands, sem væri í atvinnumálum þjóðarinnar þá. Við bentum á, að ástand atvinnuveganna væri slíkt, að ríkisstj, og ríkissjóður kæmist aldrei hjá því að hafa afskipti af þeim málum. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni, er ég minnti á það, að við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1967 hefðum við í minni hl. fjvn. bent á það, að ekki yrði komizt hjá því að gera ráðstafanir vegna atvinnuveganna og átöldum það, að slíkar ráðstefanir skyldu ekki verða gerðar jafnhliða fjárlagaafgreiðslunni fyrir það ár. Hæstv. ríkisstj. sá ekki ástæðu til að sinna þessum aðvörunum okkar, en á því ári, sem síðan er liðið, hefur það sannazt, að aðgerða var þörf.

Í febrúarmánuði tók ríkisstj. til að gera ráðstafanir vegna sjávarútvegsins og voru þá skrapaðar saman 200 millj. kr. rúmlega, sem voru látnar ganga sem styrkir til sjávarútvegsins. Það var þá talið augljóst, að hjá því yrði ekki komizt, og í umr., sem fram fóru um afkomu sjávarútvegsins þá, var það margra álit, að hér væri miklu frekar of lítið að gert heldur en hitt. En á þeim 8 mánuðum, sem liðnir eru síðan hæstv. ríkisstj. hvarf að því ráði að aðstoða sjávarútveginn með fjárframlögum úr ríkissjóði, hefur það sýnt sig, að þessar aðgerðir nægðu ekki, því að nú í s.l. mánuði var gengi íslenzkrar krónu fellt um 24,6% til aðstoðar við atvinnuvegi landsmanna. Og það er ekki nóg með það, að það hafi verið gert, heldur hafa ýmis samtök atvinnurekenda í landinu, svo sem félagsskapur hraðfrystihúsanna, ályktað, að hér væri ekki nóg að gert, heldur þyrfti meira við, ef það ætti að duga hraðfrystiiðnaðinum. Og nú á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, sem frestað var á laugardaginn, var samþ. undir forsæti hv. 10. landsk. þm., Sverris Júlíussonar, og með aðstoð þeirra hv. 2. þm. Vesturl., Jóns Árnasonar, og hv. 4. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar, að ekki skyldi hafin útgerð hér eftir áramótin fyrr en fyrir lægi, að hæfur grundvöllur væri fyrir rekstri útgerðarinnar. Í stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna eru þrír af fjvn.- mönnum hæstv. ríkisstj., sem tóku þátt í þessari afgreiðslu. Það er því augljóst og ekki þarf orðum að því að eyða, að aðvaranir okkar hér við fjárlagaafgreiðslu 1967 og síðar um nauðsyn á því að styðja atvinnuvegina í landinu, hafa ekki verið mæltar út í bláinn og sýnir sig betur en margt annað, ef ekki nægja til þær aðgerðir, sem gerðar voru í febrúar, og gengisfallið nú, til þess að hagur atvinnuveganna sé sæmilega tryggður. Það sýnir líka ástand í atvinnumálum þjóðarinnar og efnahagsmálum, að nú er komið fram í des. og ekki er enn þá opinberlega kunngert verðlag á landbúnaðarafurðum. Það er nærri liðinn 1/3 af verðlagsári landbúnaðarins og samt er ekki farið að selja vörur eftir ákvörðun verðlagsdómsins og hann hefur ekki verið birtur almenningi enn þá. Þá þarf ekki að minna á afkomu iðnaðarins á þessu landi og þessu ári, því að svo miklar umr. hafa farið fram um afkomu þeirrar atvinnugreinar og er ljóst, að nú hinda iðnaðarframleiðendur vonir sínar við það, að gengisbreytingin komi þeim að liði og þá eru þær vonir bundnar við það, að tollskránni verði ekki breytt þeim í óhag, heldur þeim í hag. Hins vegar er reynsla af hæstv. ríkisstj. þar um ekki það góð, að ástæða sé til að vera of bjartsýnn, þó að hinu skuli heldur ekki spáð.

Í ræðu minni hér að framan hef ég drepið lítils háttar á ástandið í atvinnu- og fjármálum þjóðarinnar, og minni á það enn einu sinni, að þannig er ástandið, þrátt fyrir það, að undanfarandi ár hafa verið sérstök veltiár og það svo, að árið 1966 fóru tekjur ríkissjóðs yfir 800 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. Þrátt fyrir það er nú svo komið, að þessum fjárhæðum hefur öllum verið ráðstafað, og ástæðan til þess, að svo er komið fjárhag ríkissjóðs og efnahagsmálum þjóðarinnar, er sú verðbólga, sem hér hefur dafnað og aukizt með ári hverju, sem liðið hefur. Og ég vil undirstrika það, sem ég hef gert hér fyrr við umr. um fjárl., að stefna hæstv. ríkisstj. hefur verið aflgjafinn í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það hefur verið stefna hæstv. ríkisstj. að leggja skatt ofan á skatt, að viðhalda og koma hér á mjög háum vöxtum, að standa fyrir lánsfjárhöftum og sveltu atvinnuveganna um lánsfé, svo að atvinnuvegirnir hafa ekki getað komið við betri skipulagningu eða eðlilegri fjárfestingu til hagkvæmni í atvinnurekstrinum. Það hefur verið stefna hæstv. ríkisstj. að afgreiða fjárlög með þeim hætti, að verulegur greiðsluafgangur væri hverju sinni, til þess að ríkisstj. hefði vald á fjármunum til að hagræða fyrir sig og reyna á þann hátt að treysta setu sína í ráðherrastólunum, og það hefur hæstv. ríkisstj. gert með þessari ráðstöfun í dag og hinni á morgun, og hafa þær ráðstafanir jafnan verið skipulagslausar, eins og hefur sýnt sig, að annan daginn hefur verið ákveðið að draga úr niðurgreiðslum, hinn daginn að auka þær verulega. Einn daginn hefur verið ákveðinn styrkur til atvinnuveganna og fjórða daginn hefur svo gengi krónunnar verið breytt. Og á þessum mánuðum, sem við höfum setið hér á hv. Alþ. nú, hefur hæstv. ríkisstj. lagt fram tvö frv. um aðgerðir í efnahagsmálum. Fyrra frv. var í samræmi við fjárlagafrv. það, sem lagt var hér fram í upphafi þingsins. Það gerði ráð fyrir að mæta því, sem mætt yrði í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, með lækkuðum niðurgreiðslum og auknum sköttum. En í umr., sem fram fóru um það frv., var gengisfellingarleiðin fordæmd og talið, að hún skapaði fleiri vandamál heldur en hún leysti, og vandamálið nú væri þess eðlis, að gengisfelling hentaði þeim ekki. Hins vegar er nú svo komið, á þessum tveggja mánaða tíma, sem hv. Alþ. hefur setið að störfum, að gengisskráningu íslenzku krónunnar hefur verið breytt og hér er verið að afgreiða frv., sem því er samfara, en fyrra frv. um efnahagsaðgerðirnar er ætlað í ruslakörfuna að fara. Þannig er um framkvæmdir hæstv. ríkisstj. í málefnum þjóðarinnar, það fer hvorki fyrir stefnufestu eða framsýni um þær aðgerðir.

Ég skal ekki hafa þessi orð mín fleiri, en vil undirstrika það að lokum, að eins og hefur sýnt sig við þær efnahagsaðgerðir, sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir á undanförnum árum, hefur það farið svo, þrátt fyrir góðærið, að hún hefur orðið að gera nýjar ráðatafanir að stuttum tíma liðnum, vegna þess að stjórnarstefnan hefur kallað á nýjar ráðstafanir og leitt málefni þjóðarinnar í vandræði á stuttum tíma. Eins er ég sannfærður um það, að þrátt fyrir þær aðgerðir, sem nú hafa verið gerðar um það að velta á þjóðina í lækkuðum niðurgreiðslum á 5. hundrað millj. kr. og með stórum fjárhæðum með gengisbreytingunni, verður ekki langt í næstu aðgerðir eða nýja veltu, ef hæstv. ríkisstj. heldur óbreyttri stjórnarstefnu, sem ég hygg, að hún muni gera.