11.12.1967
Sameinað þing: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

1. mál, fjárlög 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 6. þm. Reykv. Hann minntist á tvö atriði. Annars vegar framlag til sjúkrahúsa í Reykjavík og hins vegar byggingu safnahúss.

Varðandi framlag til sjúkrahúsa í Reykjavík vil ég ekki láta hjá líða að láta koma fram þá skoðun mína, að ríkið hafi ekkert vanefnt í þeim sökum. Það er rétt, að Reykjavíkurborg hefur lagt á sig mikið til þess að þoka borgarsjúkrahúsinu áleiðis og unnið fyrir miklar fjárhæðir á skömmum tíma. Það liggur hins vegar jafnljóst fyrir og er raunar viðurkennt, að fyrir því er engin skylda, að ríkissjóður greiði jafnóðum framlag sitt til þessa sjúkrahúss. En það getur undir engum kringumstæðum verið og er ekki hægt að viðurkenna það, að sveitarfélög geti eftir því, sem þeim hentar, framkvæmt og haft áhrif á fjárveitingar ríkissjóðs, þannig að ríkið hafi í rauninni ekki endanlegt úrskurðarvald um það sjálft, hvernig það hagar sínum fjárráðstöfunum á hverju ári. Hitt er annað mál, að ríkið hefur gert sér fulla grein fyrir vanda Reykvíkinga, og þar af leiðandi hefur ríkisstj. átt hlut að því að aðstoða þá við að leysa þann vanda, sem skapazt hefur við útvegun fjármagns til þessarar miklu framkvæmdar. Svo sem hv. þm. er kunnugt, er í sjúkrahúslögum ákveðið, að ríkinu sé skylt að greiða sinn hluta á vissu árabili. Það er að vísu nokkuð vandasamt að segja um það með borgarsjúkrahúsið í Reykjavík, hvernig á að telja það árabil. En ég mundi skv. mínum skilningi á því telja, að það ætti að miðast við það ár, sem framkvæmdir hófust aftur að ráði við þetta hús, og síðustu árin hefur aðalkostnaðurinn til fallið. Sú fjárveiting, sem lagt er til að taka upp nú í fjárlög, og sem er mjög veruleg hækkun frá því, sem var á s.l. ári, er í samræmi við samkomulag, sem gert hefur verið við borgarstjórn um greiðslur ríkissjóðs til sjúkrahússins, og teljum við, að sá vandi sé því að sinni leystur.

Varðandi seinna atriðið spurði hv. þm. að því, hvernig ætti að vinna að framgangi þessa máls, og ég tel mér skylt að svara því að mínu leyti, þar sem mjög hófsamlega og sanngjarnlega var spurt, þó ég hins vegar sé þess ekki umkominn að ræða málið efnislega, vegna þess að það er fyrst og fremst hæstv. menntmrh., sem verður að taka ákvörðun um það, hvernig hann í einstökum afriðum vill að því vinna. Það atriði, að skortur fjárveitinga sé því til hindrunar, að hægt sé að ráðast í þessar framkvæmdir, er að vissu leyti rétt og hlýtur ætíð að vera svo, því eins og hv. þm. sagði: „Ef fé er ekki veitt, er ekki hægt að framkvæma.“ Hitt er annað mál, að ég efast um, að það hafi verið tekin formleg ákvörðun um það, hvernig heppilegast væri að vinna að þessu máli, og það þarf að vera ljóst með þetta hús sem önnur, hvaða hlutverki það á að gegna. Það hefur til skamms tíma ekki verið ákveðið mál, hvort sameina ætti þessi söfn, og það eru ýmis vandamál, sem virðast vera þar á ferðinni. En efnislega skal ég ekki ræða það nánar, það er, eins og ég segi, ekki mitt mál, en skal víkja mér að hinni hliðinni, hvernig eða hvort rétt væri að taka upp fjárveitingar í þessu sambandi. Ég efast ekkert um, að það sé rétt, sem hv. þm. segir, að það er mikill skilningur á þessu vandamáli hjá öllum. Hins vegar er erfitt að sinna mörgu því, sem menn hafa skilning á, að sé vandamál. Það er bæði í sjúkrahúsum og á mörgum öðrum sviðum, sem við vissulega stöndum andspænis miklum vandamálum, og sem stafar af því, að við erum lítið þjóðfélag og getum ekki allt gert. Nú að undanförnu hefur bygging handritahúss verið aðalverkefnið á sviði bókamála, ef svo má segja, og er nú verið að ljúka því verki, og ég tel víst, að á þessu sviði verði safnahúsið næsta viðfangsefnið. Með byggingar sem þessar hygg ég, að það sé nokkurn veginn föst venja, að viðkomandi ráðh., sem eiga að sjá um þessi mál, geri upp hug sinn um það, hvernig þeir vilji að þeim vinna og að hverju þeir vilja stefna í sambandi við slíkar byggingar, enda er erfitt fyrir aðra að gera það, og sjá um framkvæmdahliðina. En ég mundi segja, að það, sem gæti komið til álita í þessu efni, væri að taka upp einhverja fjárveitingu til undirbúnings þessu verki. Það þarf auðvitað að undirbúa teikningar og eitt og annað, og ef málið er komið á það stig, — sem ég vil ekki svara um, það er menntmrh. mál, — að það sé endanlega hægt að gera upp sinn hug um það, hvaða hlutverki þessi bygging nákvæmlega á að gegna, og í annan stað sé það talið svo brýnt, að það þurfi að hefjast sem skjótast handa um þetta, mundi ég telja, miðað við venjuleg vinnubrögð í þessum efnum, að réttast væri að taka þá upp einhverja byrjunarfjárveitingu, til þess að hægt sé að gera sér grein fyrir því, hvað þetta fyrirtæki kostar, og á grundvelli þeirrar rannsóknar verði svo unnið að því að gera eitthvert plan um, á hve löngum tíma eigi að byggja húsið og hvernig eigi að afla fjár til þess.

Ég skal fúslega koma þessum hugleiðingum á framfæri við hæstv. menntmrh., þannig að málið verði athugað, hvort rétt sé að vinna að því á þennan hátt, en ég vil aðeins láta það koma fram hér, til þess að það valdi ekki misskilningi um það, að sérstaklega hafi verið gengið framhjá einhverjum ákveðnum hugðarefnum, að það var meginstefnan, þegar þetta fjárlagafrv. í haust var samið, vegna þeirra, efnahagsörðugleika, sem við áttum við að stríða, að taka ekki upp fjárveitingar til neinna nýrra framkvæmda. Og það er meginlínan, sem er í frv., þó að fram kæmu óskir úr ýmsum áttum um fjárveitingar til ýmissa nauðsynjamála. Þetta er meginorsökin til þess, að frv. er byggt upp eins og það er og ekki gert þar upp á milli hinna einstöku viðfangsefna, sem bíða og eru áreiðanlega mjög brýn. En sem sagt, ég skal koma þessu á framfæri við hæstv. menntmrh., og í annan stað hygg ég, að ef ætti að vinna að málinu, væri eðlilegast að taka þá upp einhverja fjárveitingu til þess að undirbúa hana.