11.12.1967
Sameinað þing: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

1. mál, fjárlög 1968

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég vil, eins og raunar margur þm. hefur áður gert í þessum umr., láta í ljós nokkra óánægju mína með það, í hvert horf sækir um afgreiðslu fjárlaga. Það er sífellt að verða með þeim hætti, að þm. hafa minni og minni möguleika til þess að koma sjónarmiðum sínum og sinna héraða á framfæri í þinginu við afgreiðslu þeirra. Stöðugt stefnir meira í þá átt, að þegar fjárlögin sjálf eru lögð fyrir Alþingi, er það meira eins og að leggja þau undir stimpil, sem síðan er af ríkisstj. þrýst á, og þá er allt lögformlegt. Þessi þróun er ákaflega óæskileg. Það er rétt, að með því að hafa alla liði mjög sundurliðaða í fjárlögum, eins og t.d. var um eitt skeið, að fjárveitingar til hvers vegarspotta í landinu, hverrar brúar, var allt sundurliðað o.s.frv., þá var kannske í fullmörg horn að líta um það, hvað mönnum fannst hæfilega ákveðin upphæð í hvaðeina. En það má margt á milli vera til þess, sem nú er orðið, að ýmsir slíkir stórir liðir eru beinlínis teknir út úr fjárlagafrv. í sundurliðun, og til þess, að ekki sé sýnd sundurliðun á hlutum eins og stofnkostnaði skóla, hafnargerðum, sjóvarnargörðum o.s.frv., fyrr en við síðustu umræðu fjárlaganna, ef það verður þá gert. Með þeim hætti eiga þm. í rauninni lítils annars kost en að skoða þetta, skoða fjárlögin sem gerðan hlut, en geta fáum athugasemdum og hugleiðingum komið fram við þau. Engu að síður, þó að þessu sé svona varið, hef ég leyft mér að flytja á þskj. 129 nokkrar brtt. og vil ekki láta dragast úr hömlu að sýna þær hér við þessa 2. umræðu fjárlaganna, til þess að fjárveitingaryfirvöldin, fjvn. og viðkomandi rn. geti hugleitt það, hvort þær muni vera á nokkrum rökum reistar eða ekki, og því vil ég fara um þær fáeinum orðum.

Í fyrsta lagi hef ég lagt til, að til iðnskóla almennt verði veitt 2 millj. kr. hærri upphæð en fram kemur á þeim plöggum, sem fram hafa verið lögð, að til standi. Ég verð að játa, að ég hef ekki fengið sundurliðun á þessari upphæð, 5 millj. 338 þús. kr., en ég hygg þó, að inni í henni sé ekki framlag til iðnskólans í Vestmannaeyjum, en svo er málum þar háttað, að ríkið hefur ákveðið að festa kaup á húsnæði af Vestmannaeyjabæ. Iðnskólinn hefur starfað þar að undanförnu, og bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum tjáir mér það, að hann telji, að kaupin séu ráðin, en leitað hafi verið eftir því, að fyrsta afborgun af verði hússins yrði greidd á þessu yfirstandandi ári, en til þess var engin fjárveiting, þrátt fyrir meðmæli iðnfræðsluráðs og annarra slíkra yfirvalda, í fjárlagafrv. þessa yfirstandandi árs. Nú hefur eftir því verið leitað, að ríkið greiddi þarna sinn hlut í umsömdum kaupum, en ég get ekki séð, að í þessu frv. sé gert ráð fyrir, að þetta verði framkvæmt enn á hinu næsta ári. Mér þætti vænt um, ef þetta væri minn misskilningur og mun ég þá að sjálfsögðu taka till. aftur, og mun raunar taka hana aftur hvort eð er til 3. umr., en vænti þess, að viðkomandi fjárveitingaryfirvöld yfirvegi þetta mál, hvort hér sé ekki um mistök að ræða, og hvort þau mistök beri þá ekki að leiðrétta.

Í öðru lagi hef ég flutt hér till. um svolitla hækkun á styrk til myndlistarskólans í Vestmannaeyjum. Sá skóli hefur getið sér hinn bezta orðstír á undanförnum árum. Hann hefur starfað af miklum þrótti og látið nemendur sína vinna nokkuð jöfnum höndum að málaralist, höggmyndagerð og ljósmyndagerð með nýstárlegum hætti, og má rekja til áhrifa skólans sýningu þá, sem hér vakti almenna athygli í höfuðborg landsins nú fyrir skömmu, og haldin var í nýjum húsakynnum menntaskólans. Sýningin bar nafnið „Kontrast“ og hlaut, held ég, að ég megi fullyrða, einróma lof allra þeirra, sem um hana skrifuðu í dagblöð, og þeir voru hreint ekki svo fáir. Ég vil einnig halda því fram, að þegar slíkur skóli skarar fram úr, nær upp almennum áhuga í tiltölulega litlum bæ, þar sem tómstundaiðja er fremur fábreytt, sé ekki nema eðlilegt og sanngjarnt, að ríkið taki eftir því og veiti aðstoð og uppörvun, jafnvel þó að ríkið sjái sér ekki fært á öllum tímum að hækka framlög til allra slíkra skóla í landinu.

Ég hef einnig flutt hér till. um það, að tekinn verði nýr liður inn í fjárlög, fjárveiting til orlofsheimilis BSRB, 600 þús. kr. Það hefur færzt í vöxt á undanförnum árum, að ýmiss konar félagasamtök hafi reynt að gera félögum sínum kleift að dvelja stund úr sumri utan skarkala borgarlífsins og þéttbýlissvæðanna, og er það í alla staði þjóðholl starfsemi og horfir til aukinnar menningar í landinu. Ríkið hefur af nokkurri framsýni og myndarskap stutt þessa viðleitni. T.d. mun ríkið hafa lagt ASÍ til land undir hina myndarlegu sumarbústaði, sem það hefur nú þegar reist í Ölfusinu, „Ölfusborgir,“ og til stuðnings við það fyrirtæki eru ætlaðar á fjárlögum núna 1.8 millj. kr. og er það lofsvert í alla staði. Ríkið hefur sömuleiðis lagt BSRB til land undir sumarbústaðahverfi, gaf því það á merku afmæli, sem bandalagið átti á s.l. vetri. Ég teldi ekki óeðlilegt, að einnig væri tekinn inn á fjárlög byggingarstyrkur fyrir slíka sumarbústaði. Þótt ég geti ekki fullyrt, að félagatalan í BSRB sé nákvæmlega þriðjungur af félagatölu ASÍ, mun það ekki láta alls fjarri, og þess vegna þykir mér ekki fráleitt að fara fram á það, að bandalaginu verði lagðar til 600 þús. kr., þ.e.a.s. þriðjungsupphæð á móts við ASÍ til orlofsheimila.

Þá hef ég gert eina litla till. um það, að byggingarstyrkur til barnaheimilis í Kumbaravogi, austan við Stokkseyri, verði hafður 100 þús. kr., en meiri hl. fjvn. hefur lagt til, að sá styrkur verði 50 þús. kr. Ég hygg, að 50 þús. kr. byggingarstyrkur væri óbreytt upphæð frá því, sem hann var s.l. ár, en þarfirnar eru miklar á frekari byggingum þar, það er mér kunnugt um, og allir vita það, að verðlagið hefur þokazt í þá áttina, að þó styrkurinn yrði 100 þús. kr. í ár, efa ég, að hægt væri að koma meiru í verk þar en á s.l. ári. Barnaheimili þetta hefur hlotið almannalof, að því er ég bezt veit, og mér þykir eðlilegt að þoka þessum styrk, sem hér um ræðir, lítillega upp.

Þá hef ég gert till. um það, að framlag til sjómannaskólans í Vestmannaeyjum verði hækkað um 200 þús. kr., úr 400 þús. upp í 600 þús. Hér er á ferðinni í Alþ. frv. þess efnis, að ríkið taki að sér rekstur þessa skóla eins og sjómannaskólans í Reykjavík, en hann er núna rekinn að verulegu leyti á kostnað Vestmannaeyjabæjar með styrk frá ríkinu. Það er fram tekið í umr. hér og kemur enda fram á þskj., að talið er, að í fjárlagafrv. hafi verið umreiknaðir ýmsir kostnaðarliðir, bæði launaliðir, viðhaldskostnaður mannvirkja og rekstrarkostnaður eftir sérstökum reglum, en það er ekki gert ráð fyrir því, að styrkur ríkisins til reksturs þessa skóla í Vestmannaeyjum þokist til um eina krónu frá því, sem ákveðið var í frv., þegar það var lagt fram, enda þótt gengisfellingin hafi orðið síðan og allir þessir umreikningar sem ég gat um, og raunar máske fleiri hafi átt sér stað. Ég tel því einsýnt, að þennan styrk beri að hækka, enda þótt enn kunni að dragast undan, að ríkið reki þennan skóla, eins og því auðvitað ber á sama hátt eins og sjómannaskólann í Reykjavík.

Að lokum hef ég gert eina till. um það, að bætt verið inn á heimildagr. heimild fyrir ríkisstj. til þess að láta 15% af heildarsölu Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins í Vestmannaeyjum árin 1967–1976, að þeim árum báðum meðtöldum, renna til stofnkostnaðar Vatnsveitu Vestmannaeyja. Ég hef reyndar flutt ásamt hv. 4. þm. Sunnl. þáltill. svipaðs efnis. Hún er nú búin að liggja hér frammi í Alþ. á annan mánuð. Hún hefur að vísu sést hér tvívegis á dagskrá, en hún hefur ekki verið tekin fyrir til þessa. Hins vegar er hér um þess háttar mál að ræða, að ég held, að óhjákvæmilegt sé, að ríkið taki aflstöðu til þess, hvern stuðning það vill veita Vestmanneyingum við þetta stóra fyrirtæki, sem hér um ræðir.

Þessi vatnsveita var fyrir gengisfellingu áætluð af Efnahagsstofnuninni upp á 103 millj. kr. Það lætur nærri, að það sé kostnaður, sem nemur um 20 þús. á hvert mannsbarn í Vestmannaeyjum, og það er kostnaðarsamara fyrirtæki af vatnsveitu að vera heldur en nokkur dæmi eru til um nokkurs staðar annars staðar á landinu, nema ef telja ætti, að Austur-Landeyingar hafa fengið álmu úr þessari vatnsveitu, þar sem hún liggur nálægt sveit þeirra, og komið rennandi vatni frá vatnsveitu þessari inn á alla bæi í sinni sveit, og mun það nema eitthvað álíka upphæð á hvern íbúa. Þess má geta, að svipaðar vatnsveituframkvæmdir fyrir höfuðborg landsins mundu nema líklega eitthvað um 1604 millj. kr., og þá ætla ég, að jafnvel höfuðborgarbúar fari að skilja, ef þeir hugleiða þá upphæð, að hér er um að ræða stærri fjárhagslega skuldbindingu en hugsanlegt er, að eitt lítið byggðarlag geti borið, ef ekki verður komið til móts við það af ríkisins hálfu með einhverjum og öflugri hætti m gert hefur verið ráð fyrir í fjárl. til þessa. Þar er að vísu gert ráð fyrir því, að ríkið geti styrkt vatnsveitur, — ég man að vísu ekki alveg upphæðina, sem nú er gert ráð fyrir, að til þess arna megi renna, í fjárlagafrv. fyrir árið 1968, en hún mun vera 6 eða 7 eða máske 8 millj. og hreint ekki meira. En þetta eru þarfir fyrir allt landið, sem á að sinna með þessum hætti, svo augljóst er, að annað tveggja hlýtur að ske, að Vatnsveita Vestmannaeyja kemst ekki í gagnið á næstu árum eða ríkið kemur með sérstökum hætti til móts við þarfir Vestmanneyinga, og það ætla ég, að því væri mestur sómi að að gera með dálítið myndarlegum hætti.

Nú skil ég ofur vel, að það er nokkur vandi á höndum að snara út á fjárl. ýkjastórum upphæðum, sem yrðu þá að koma inn á gjaldabálk fjárl. Þess vegna tel ég eðlilegt, að viss hundraðshluti af heildarsölu áfengisverzlunarinnar í Vestmannaeyjum fengi að renna til þessara framkvæmda. Á s.l. ári, í marzmánuði, opnaði Áfengisverzlun ríkisins nýja útsölu í Vestmannaeyjum. Hún mun ekki hafa verið talin með sérstaklega í þeim áætlunum, sem gerðar voru við fjárlagaundirbúning fyrir árið 1967. Ég hygg þess vegna með mikilli sölu þeirrar verzlunar, að það ætti ekki að skerða fjárlagatekjur þær, sem ríkissjóði voru ætlaðar af áfengisverzlun ríkisins, þótt till. sú, sem hér er gerð, yrði framkvæmd. Og hvað nemur hún þá miklu fé? Um það er auðvitað ekki hægt að segja með neinni vissu, því að mikið er í óvissu um það, hver umsetning þessarar verzlunar verður. Það mun þó ekki vera fjarri öllu lagi að láta sér detta það í hug, að sala verzlunarinnar geti numið fram undir 30 millj. kr. á ári. Það væru því 41/2 millj., sem til vatnsveituframkvæmdanna gætu runnið eftir þessari leið, og á 10 árum mundi sú upphæð þá nema 45 millj. kr., en það er eftir hinni gömlu áætlun, sem gerð er á því gengi, sem hér gilti fyrir síðustu gengisbreytingu, svo sem rétt rösklega 40% af stofnkostnaði þessarar miklu veitu, auk þess sem ég teldi það einkar vel viðeigandi og reyndar fráleitt annað, þegar áfengsverzlunin er sett upp í vatnslausum bæ, að hún taki einhvern þátt í þeim kostnaði, sem til þarf, að í bænum geti einnig verið ferskt vatn.

Þessar till., sem ég hef hér gert, eru ekki fleiri en þessar. En auðvitað bíð ég eins og fleiri hv. alþm. eftir því að sjá, hvernig fjvn. kemur til með að leggja till. sínar fyrir Alþ. til 3. umr., og mun láta frekari tillögugerð um fjárl. bíða síðari tíma.