12.12.1967
Sameinað þing: 21. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

1. mál, fjárlög 1968

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í þingsköpum Alþingis er ákvæði, sem mælir svo fyrir, að menn megi ekki greiða atkv. með fjárveitingum handa sjálfum sér. Nú við þessa atkvgr. hafa nokkrir menn, sem hér eiga sæti og sem hafa notið hlunninda hjá áfengisverzluninni, greitt atkv. gegn minni till. og þar með má segja með fríðindum handa sjálfum sér. Mér þykir líklegt, að hæstv. forseti hafi ekki munað eftir þessu ákvæði þingskapanna, þegar hann kvað upp úrskurð um till. að lokinni atkvgr., og þess vegna vil ég fara fram á það við hann, að hann telji saman mótatkv. þessara hlunnindamanna og dragi þau frá heildartölu mótatkv. og sjái þá, hver útkoman verður. Þetta skilst mér, að hljóti að vera í samræmi við ákvæði þingskapa, og eftir þeim ber að fara. Gæti þá farið svo, að till. teldist samþ. að réttum lögum.