19.12.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

1. mál, fjárlög 1968

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur á milli umr. tekið til athugunar og afgreiðslu þá málaflokka og erindi, sem n. hafði ekki að fullu lokið við athugun á, þegar 2. umr. málsins fór fram. Eins og ég tók þá fram, var m.a. ólokið endurskoðun á öllum tekjubálki frv., en í þeim efnum styðst meiri hl. n. við útreikninga Efnahagsstofnunar ríkisins. Áður en fjvn. tók endanlega ákvörðun um tekjustofna fjárlagafrv. fékk hún á sinn fund Jónas Haralz, forstöðumann Efnahagsstofnunarinnar, og lét hann nm. í té margvíslegar upplýsingar um þá tekjuáætlun, sem stofnunin hefur gert fyrir árið 1968. Þessi endurskoðaða tekjuáætlun er gerð með hliðsjón af þeirri heildarþjóðhagsáætlun, sem gerð hefur verið fyrir árið 1968 og sem nú hefur einnig verið endurskoðuð eftir gengisbreytinguna. Að öðru leyti eru einstakir tekjuliðir áætlaðir eftir þeim lögum, sem nú eru í gildi, og þeim lagafrv., sem ríkisstjórnin hefur lagt fram á Alþingi og sem hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs. Hins vegar er þess að geta, að í þeim áætlunum um tekjur ríkissjóðs á árinu 1968, sem n. bárust, er ekki tekið tillit til þeirrar tekjurýrnunar, sem ríkissjóður verður fyrir vegna þeirra tollalækkana, sem nú er ákveðið, að komi til framkvæmda þegar í byrjun næsta árs. Þessari umræddu tollalækkun er m.a. ætlað að draga úr þeim áhrifum, sem af gengislækkuninni leiðir í sambandi við allt verðlag í landinu. Það, sem hér um ræðir, áætlar meiri hl. fjvn., að geti numið allt að 250 millj. kr., sem þá verður varið til tollalækkana eftir nánari ákvörðun Alþ., þegar þar að kemur. Um tekjuáætlunina segir Efnahagsstofnunin að öðru leyti m.a.:

„Gengið er út frá óbreyttum skattstigum tekjuskatts. Reiknað er með 6% lækkun álagðs tekjuskatts. Varðandi eignarskattinn er tekið tillit til þeirrar breytingar, sem verður á margföldun fasteignaskatts til eignarskatts, þ.e. að nú er um níföldun að ræða í stað tólfföldunar, sem áður var ákveðið.“

Af þessu leiðir, að tekjur af eignarskatti einstaklinga og félaga lækka frá því, sem nú er í frv., um 33 millj. kr. Við áætlun á tekjum af aðflutningsgjöldum er við það miðað, sem ég hef áður sagt varðandi fyrirhugaða tollalækkun, en lagt er til grundvallar, að heildarvöruinnflutningurinn, án skipa og flugvéla og án vöruinnflutnings til Búrfells- og Straumsvíkurframkvæmdanna, muni nema um 7300 millj. kr. á árinu, og að meðaltollur verði þá áætlaður um 28,5%. Á yfirstandandi ári er reiknað með, að samsvarandi innflutningur muni verða um 6100 millj. kr. og að meðaltollurinn muni þá reynast um 31%. Með þessu er því gert ráð fyrir raunverulegum samdrætti í innflutningi, miðað við yfirstandandi ár, sem nemur um 4,5% í magni. Hins vegar verður að gera ráð fyrir því, að verulegur hluti af þeim samdrætti, sem verður í innflutningnum, séu hátollavörur. Áætlað er, að álagður söluskattur hækki um 18%, miðað við yfirstandandi ár. Þar við bætast 44 millj. kr. vegna söluskatts Pósts og síma og af ríkisútvarpinu. En þar frá dragast aftur á móti 25 millj. kr., vegna þess að skipatryggingar verða nú undanþegnar söluskatti. Samtals er áætlað, að söluskatturinn muni nema um 1476 millj. kr. og þá reiknað með 98% innheimtu, að viðbættum 26 millj. kr. frá fyrra ári. Um söluskattinn er að öðru leyti það að segja, að með hliðsjón af þeim greiðsluafgangi, sem nú er í fjárlagafrv., er um upphæð að ræða, sem er, eins og ég hef áður tekið fram, 44 millj. kr.

Fyrir gengislækkun var gert ráð fyrir því, að Póstur og sími væri, auk þess að greiða söluskatt, einnig fær um að greiða 20 millj. kr. í arð í ríkissjóð. Við 2. umr. var sá liður felldur niður. Söluskattsupphæðin er hins vegar inni í fjárlagafrv. eins og það er nú, en gert er ráð fyrir, að söluskatturinn verði einnig gefinn eftir, ef það verður talið nauðsynlegt og nægjanlegt til þess, að ekki þurfi til þess að koma að hækka gjaldskrá stofnunarinnar. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á liðnum „leyfisgjald af bifreiðum“. Með óbreyttu leyfisgjaldi var talið; að um mjög mikinn samdrátt í bifreiðainnflutningnum hefði orðið að ræða. Nú hefur komið til lækkun á leyfisgjaldinu og talið, að það hafi örvandi áhrif á bifreiðainnflutninginn, þannig að gera megi ráð fyrir, að bifreiðainnflutningurinn verði svipaður og áður er áætlað. Leyfisgjald af bifreiðum er nú svipuð upphæð í krónutölu á bifreið og var fyrir gengislækkun og leyfisgjaldslækkun. Það er því lagt til, að þessi liður haldist óbreyttur.

Um liðina leyfisgjald II, umboðsþóknun og gengismunur, er það að segja, að talið er eðlilegt, að þeir hækki um sem nemur 25% vegna gengislækkunarinnar. Aðrir tekjuliðir fjárlagafrv. eru með smávægilegum breytingum, sem ég tel ekki ástæðu til að rekja nánar. Samkv. þeim brtt., sem meiri hl. fjvn. hefur leyft sér að flytja við tekjubálk fjárlagafrv. við þessa umr., hækkar tekjubálkurinn þannig, að tekjur verða á rekstrarreikningi 6241 millj. 757 þús. kr., en gjöldin verða 6140 millj. 513 þús. kr. Tekjur umfram gjöld verða þannig 101 millj. 244 þús. Á lánahreyfingum eru lánahreyfingar út 50 millj. 459 þús. og lánahreyfingar inn 3 millj. 525 þús. Mismunur verður þá 46 millj. 934 þús. Greiðslujöfnuðurinn á rekstrarreikningi, tekjur umfram gjöld, verða þá 101 millj. 244 þús. á lánahreyfingum, gjöld umfram tekjur 46 millj. 934 þús. eða greiðsluafgangur um 54 millj. 310 þús. kr. Þar er innifalið, eins og ég hef áður skýrt frá, 44 millj. vegna söluskatts Pósts og síma.

Ég mun þá næst víkja að þeim brtt. meiri hl. n., sem eru við 4. gr. frv., og kemur þar fyrst till. um að lækka rekstrargjöld aðalskrifstofu rn. um 250 þús. kr., en hækka jafnframt önnur rekstrargjöld fræðslumálaskrifstofunnar um sömu upphæð. Er þetta vegna kostnaðar við eyðublöð, bókband, auglýsingar o.fl., sem nú er sameiginlegur, en ákveðið hefur verið, að verði framvegis aðskilinn. Þá er lagt til að hækka launalið Háskóla Íslands um 173 þús. kr. vegna kennslu í landafræði og jarðfræði. Að undanförnu hefur kennslu þessari verið haldið uppi af 5 kennurum. Þykir óhjákvæmilegt að ráða fastan forstöðumann fyrir þessari kennslu, og tekur hann laun í 22, launaflokki. Reiknað er með, að forstöðumaðurinn verði ráðinn frá 1. apríl n.k. og er þessi upphæð miðuð við, að svo verði. Þá er lagt til, að veittar verði 125 þús. kr. vegna viðgerðarkostnaðar við embættisbústað forstöðumanns tilraunastöðvar háskólans að Keldum. Hefur þetta hús staðið autt á undanförnum árum, en með því að nú hefur verið ráðinn nýr forstöðumaður að stofnuninni, verður ekki komizt hjá að gera nauðsynlegar umbætur á húsinu og veita umrædda fjárveitingu. Vegna Tækniskólans er lagt til að taka inn fjárveitingu vegna greiðslu á vöxtum og afborgunum lána, sem tekin voru á s.l. ári, þegar nýtt húsnæði var keypt fyrir skólann. Er hér um að ræða 254 þús. kr. vegna greiðslu á vöxtum og 287 þús. kr. vegna afborgana. Þá er lagt til, að inn verði tekinn nýr liður vegna húsmæðraskóla í kaupstöðum, 300 þús. kr., en það er vegna undirbúningsframkvæmda við Húsmæðraskólann á Ísafirði. Vegna nýbyggingar iðnskóla er till. um að hækka liðinn „gjaldfærður stofnkostnaður“ um 202 þús. kr. Jafnframt hefur n. skipt fjárveitingunni á milli framkvæmda, svo sem fram kemur á sérstöku þskj. Þar af er ein fjárveiting að upphæð 500 þús. kr. vegna nýs iðnskóla í Vestmannaeyjum. Þá er lagt til að hækka liðinn til iðnfræðsluráðs um 50 þús. kr., en það er vegna kostnaðar við iðnfræðslunefndirnar.

Næst koma till. um skiptingu á fjárveitingum vegna gjaldfærðs stofnkostnaðar héraðsskólanna. Er hér um óbreytta fjárveitingu að ræða og vísast til þess, sem fram kemur í yfirliti um skiptinguna. Lagt er til að hækka liðinn „framlag til bygginga gagnfræðaskóla“ um 2 millj. 740 þús. Um skiptingu á heildarfjárveitingunni vísast einnig til þess, sem fram kemur á sérstöku yfirliti. Að þessu sinni er varið 3.2 millj. kr. til undirbúningsframkvæmda fyrir 8 ný skólahús, og vísast einnig til sérstaks yfirlits þar um varðandi skiptingu á milli framkvæmda.

Þá eru till. um framlög til byggingar barnaskóla, íbúða fyrir skólastjóra og til gagnfræðaskóla í 6 kaupstöðum. Er hér lagt til að hækka fjárveitingu um 11 millj. 391 þús. kr., og verður heildarupphæðin þá 100 millj. 752 þús. kr. Til nýrra íþróttahúsa og nýrra barnaskólahúsa, sem ekki eru byrjaðar framkvæmdir á áður, eru að þessu sinni till. um fjárveitingu að upphæð samtals 4 millj. 607 þús. Sumar af þessum framkvæmdum eru nú með litlar upphæðir, en það er vegna þess, að áður hefur verið veitt fé til þeirra og eru fjárveitingar geymdar þar til framkvæmdir hefjast. Í sumum tilfellum er hér um það að ræða, að undirbúningi er ekki að fullu lokið, en í sumum tilfellum er það vegna þess, að viðkomandi sveitarfélag befur ekki tryggt sinn hlut til framkvæmdanna.

Þá eru brtt. frá meiri hl. fjvn., þar sem lagt er til, að fjárveiting til menntaskóla á Ísafirði hækki um 1150 þús., til menntaskóla á Austurlandi hækki um sömu upphæð, til Kennaraskólans, fjárveiting til undirbúnings íþróttahússbyggingar, 1 millj. kr. og til Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni er hækkun um 1200 þús. kr. Til samanburðar við fjárveitingar til skólabygginga á yfirstandandi ári og það, sem í fjárlagafrv. fyrir árið 1968 er lagt til, að verði samkv. þessum till. meiri hl. fjvn., er þess að geta, að þegar tillit er tekið til 10% niðurskurðar á fjárveitingum á yfirstandandi ári, eru fjárveitingar samtals til barnaskóla, gagnfræðaskóla og héraðsskóla 106 millj. 410 þús., til húsmæðraskóla 5 millj. 739 þús. og til iðnskóla 4 millj. 680 þús. En til annarra skóla eru fjárveitingar 35 millj. 244 þús. kr. eða samtals 152 millj. 73 þús. kr.

Samkv. till. meiri hl. fjvn. er hins vegar gert ráð fyrir framlögum til stofnkostnaðar skóla sem hér segir: Barnaskólar, gagnfræðaskólar og héraðsskólar samtals 128 millj. 568 þús. Til húsmæðraskóla 6 millj. 155 þús., til iðnskóla 5 millj. 540 þús. og aðrir skólar 46 millj. 982 þús. kr. eða samtals 187 millj. 245 þús. kr. Hér er því lagt til að hækka fjárveitingar til nýbyggingar skóla frá því, sem er á yfirstandandi ári, um upphæð, sem nemur 35 millj. 152 þús. kr. Varðandi ríkisútgáfu námsbóka er lagt til, að tekjuliður útgáfunnar lækki um 1 millj. 312 þús. kr. Við nánari athugun var fallizt á, að stofnuninni hefðu verið ofáætlaðar tekjur sem þessu nam. Samkv. l. greiðir ríkissjóður 1/3 af þessum kostnaði og ríkisútgáfan 2/3 hluta. Það eru tekjur af námsbókagjaldi. Til þess að útgáfa námsbóka verði tryggð á næsta ári er talið nauðsynlegt, að námsbókagjald hækki um 121/2%, og er þessi upphæð miðuð við það.

Þá kemur næst till. um að hækka framlag til norræns samstarfs um 100 þús. kr. Fyrir eru í fjárlagafrv. 600 þús., en þar sem hér er að verulegu leyti um erlendan kostnað að ræða, er talið óhjákvæmilegt að hækka fjárveitinguna sem hér er lagt til. Þá er lagt til, að inn komi nýr liður vegna Norræna hússins að upphæð 500 þús. kr. Er það til framkvæmda á bifreiðastæði við húsið. Gert er ráð fyrir, að húsið verði tekið í notkun á komandi sumri og verður þá óhjákvæmilegt, að umrætt bifreiðastæði verði fyrir hendi. Lagt er til að hækka framlag til Þjóðminjasafns um 200 þús. kr. Er það við liðinn 092 til sveitarfélaga. Upphæðinni er ætlað að verja til aukins byggingarstyrks fyrir byggðasöfn. Þá kemur nýr liður, byggingarsjóður safnahúss. En þar er lagt til, að tekin verði upp fjárveiting að upph. 1 millj. 500 þús. kr. Svo sem kunnugt er, var fyrir nokkrum árum samþ. þáltill. um að sameina Landsbókasafnið og bókasafn Háskólans í einni bókhlöðubyggingu. Enn sem komið er hefur ekkert orðið úr framkvæmdum, þar sem fjárveitingar hafa ekki verið fyrir hendi. Með þessari fjárveitingu skapast möguleikar til þess að vinna að nauðsynlegum undirbúningi og koma málinu á einhvern rekspöl, hvort sem um sameiningu safnanna verður að ræða eða ekki. Í sambandi við þetta mál hefur n. borizt erindi frá Bandalagi háskólamanna og ályktun, sem fulltrúaráð bandalagsins gerði á fundi sínum þann 10. maí s.l. Er þar lýst yfir stuðningi við áskorun um, að byggð verði ný bókhlaða fyrir vísindalegt þjóðbókasafn.

Þá er næst till. um 100 þús. kr. fjárveitingu til að taka heimildarkvikmyndir um merka Íslendinga. Þá er lagt til að hækka liðinn við listamenn um 135 þús. kr., en það samsvarar 3,39% hækkun til jafns við vísitöluhækkun, sem átti sé stað 1. des. s.l.

Þá er till. um fjárveitingu að upphæð 500 þús. kr. til byggingar sýningarskála á Miklatúni eftir ákvörðun menntmrn. Sem kunnugt er, er sýningarskálinn við alþingishúsið nú ónothæfur og hafa forsetar þingsins rætt um það við forsvarsmenn myndlistarmanna, að skálinn verði sem fyrst fjarlægður. Er þess vænzt, að þessi fjárveiting muni greiða nokkuð fyrir því, að svo megi verða.

Til náttúruverndarráðs er till. um hækkun, sem nemur 168 þús. kr., og verður þá heildarfjárveiting til náttúruverndarráðs á næsta ári 500 þús. kr. Við liðinn 09, ýmis félög, er lagt til, að inn verði teknir tveir liðir. Er annar liðurinn vegna barnaheimilisins á Lyngási, kennaralaun, 179 þús., og til minnisvarða um Stefán skáld Ólafsson 25 þús. kr. Við sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York er lagt til að hækka fjárveitingu um 60 þús. kr. Er hér um leiðréttingu á launum eins starfsmanns að ræða.

Þá kemur nýr liður vegna kostnaðar við heimssýninguna í Montreal, 275 þús. kr. Er það vegna eftirstöðva, sem talið er, að nemi nokkru hærri upphæð en hér um ræðir. Reikningar liggja hins vegar ekki fyrir að fullu og er talið, að þessi upphæð nægi að þessu sinni. Lagt er til að hækka fjárveitingu til viðhalds húsmæðraskóla utan kaupstaða samtals um 370 þús. kr. En fyrir gjaldfærðum stofnkostnaði skólanna hef ég áður gert grein. Að öðru leyti vísa ég til sundurliðunar milli framkvæmda, sem eru á sérstöku yfirliti.

Þar er einnig till. um fjárveitingu til undirbúnings nýbyggingar við húsmæðraskólann að Laugum í Þingeyjarsýslu að upphæð 200 þús. kr. Einnig til undirbúningsframkvæmda vegna nýbyggingar við húsmæðraskólann á Löngumýri í Skagafirði og við Staðarfellsskólann í Dalasýslu, 90 þús. kr. til hvors skóla. Lagt er til, að fjárveiting til Landgræðslunnar vegna gjaldfærðs stofnkostnaðar hækki um 1 millj. kr. Er það vegna þess, að stór hluti kostnaðarins er erlendur, svo sem kaup á áburði og fræi. Þá hefur n. skipt fjárveitingum til sjóvarnargarða og vísast þar til sundurliðunar um framkvæmdir, sem er á sérstöku yfirliti. Hér er um óbreytta upphæð að ræða. Við liðinn „fyrirhleðslur“ er lagt til, að fjárveitingar hækki um 265 þús. kr. Um sundurliðun vísast til sérstaks yfirlits á þskj., en við nánari athugun varð það álit n., að ekki væri unnt að komast hjá því að gera þær breytingar, sem hér er lagt til varðandi framlög til fyrirhleðslna.

Þá kemur næst till. um 15 þús. kr. hækkun á liðnum „ýmis félög“ á sviði landbúnaðar. Lagt er til, að fjárveitingin gangi til Norræna búvísindafélagsins. Þá er lagt til að hækka liðinn „byggingarsjóður síldarleitarskips“ um 5 millj. 142 þús. kr. Er hér um leiðréttingu að ræða, sem ekki hefur áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að kostnaður við verðlagsráð sjávarútvegsins greiðist af fiskimálasjóði. Samkv. l. skal kostnaðurinn greiddur úr ríkissjóði og hefur svo verið. Hér er því um leiðréttingu að ræða. Þá kemur næst till. um framlag til Fiskveiðasjóðs Íslands, að það verði 30 millj. kr. í stað 50 millj. í frv. eða 20 millj. kr. lækkun. Þá er lagt til að verja 250 þús. kr. til kvikmyndatöku vegna kynningar á sjóvinnustörfum í sjónvarpi.

Næst kemur till. um breytingar á rekstrarframlögum til ríkissjúkrahúsanna. Er þar um till. til lækkunar að ræða, sem stafar af því, að ákveðið er, að daggjöld hækki sem svarar 8%. Af því leiðir, að rekstrarhalli sjúkrahúsanna lækkar um 10 millj. 396 þús. kr. Elli- og örorkubætur hafa nú eftir gengislækkunina verið hækkaðar um 10%, en ríkisframfærslan og sjúkratryggingarnar hækka hins vegar um 8%, eins og daggjöldin. Af þessu leiðir, að framlög til ríkisframfærslu hækka um 7,8 millj. og sjúkratryggingarnar um 11,1 millj. og framlög vegna ellilauna og örorkubóta um 31 millj. 500 þús. Þá er lagt til, að inn komi nýr liður að upphæð 150 þús. kr. til undirbúnings viðbótarbyggingu við sjúkrahúsið á Akureyri. Ennfremur er lagt til að hækka liðinn vegna læknisbústaðar í Norður-Egilsstaðahéraði um 75 þús. kr. Þá eru tvær till. um fjárveitingar til heyrnardaufra, 100 þús. kr., sem verður aðstoð við heyrnardaufa eftir ákvörðun heilbrmrn., og 100 þús. kr. hækkun á fjárveitingu til félagsins Heyrnarhjálp. Þá hafði fallið niður fjárveiting í frv. til uppgjafapresta og prestsekkna, að upphæð 200 þús. kr. Er lagt til, að sú fjárveiting verði tekin upp að nýju.

Þá er lagt til, að inn komi nýr liður, vatnsveitur, að upphæð 225 þús. kr. Hér er um styrki til vatnsöflunar að ræða til nokkurra býla, sem búa við sérstaklega erfið skilyrði til vatnsöflunar. Eru þar á meðal þrjú býli í Kelduhverfi, sem ekki hlutu styrk, þegar vatnsveituframkvæmdir voru styrktar þar sérstaklega fyrir nokkrum árum.

Þá er lagt til að taka upp fjárveitingu til Sjálfsbjargar, sem er landssamband fatlaðra, byggingarstyrk að upphæð 1,5 millj. Starfsemi þessi nýtur einnig sérstaks styrks, sem er ákveðið gjald af öllu framleiddu sælgæti í landinu, og er áætlað, að sá tekjuliður nemi á næsta ári um 1,7 millj. kr. Samtökin hafa þegar hafizt handa um byggingu þessa. Næst kemur till. um 1 millj. kr. fjárveitingu, sem er framlag til byggingar orlofsheimilis fyrir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Þá er lagt til, að tekinn verði inn nýr liður að upphæð 800 þús. kr. til byggingar sjómannastofu gegn 2/3 hlutum annars staðar frá. Hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, en samt sem áður er talið nauðsynlegt að skapa jafnhliða einhverja reglu um hlut ríkissjóðs í byggingum, þó að síðar mætti vera, að málið í heild yrði tekið til endurskoðunar og sett um það sérstök löggjöf. Þá kemur næst till. um 50 þús. kr. fjárveitingu til Foreldra- og styrktarfélags heyrnardaufra. Hér er um útgáfustyrk að ræða, en félagið naut fjárveitingar í þessu skyni að sömu upphæð í fjárl. yfirstandandi árs. Erindi barst n. frá Æskulýðssambandi Íslands, þar sem farið er fram á, að samtökin nytu sama styrks og þau höfðu á yfirstandandi ári, en það eru 150 þús. kr. Er hér lagt til, að orðið verði við þessari beiðni. Þá er lagt til, að liðurinn „barnaheimilið á Lyngási“ sé á þessum stað felldur niður. Var hér um kennaralaun að ræða og hefur jafnhá upphæð verið tekin upp undir málefnum menntmrn., eins og ég áðan gat um. Hér er því aðeins um tilfærslu að ræða á þessari upphæð. Þá er lagt til að taka inn nýjan lið í sambandi við byggingsarstyrki dagheimila. Eru það 75 þús. kr. til dagheimilisins í Neskaupstað. Næst koma nokkrar brtt., sem eru í beinu sambandi við afleiðingar af gengisfellingunni og hækkun vísitölu, sem átti sér stað 1. des. s.l. Vísast til þess, sem fram kemur í þskj. þar um.

Þá er næst brtt. um, að liðurinn „vegagerð 092 til sveitarfélaga“, hækki um 150 þús. kr. Upphæð þessari skal verja til að setja upp öryggisbúnað við gangbrautir á Hafnarfjarðarvegi í Garðahreppi. Þá er lagt til, að liðurinn „vegagerð 094 til einstaklinga, heimila og samtaka“ hækki um 100 þúsund krónur. Hér er um fjárveitingu að ræða, sem er varið til að halda uppi byggð og gistingu í landinu. N. hefur síðan skipt upphæðinni á milli aðila, en Vegagerð ríkisins sér að öðru leyti um úthlutun á fjárveitingunni.

Í till. sínum um framlög til hafnarmannvirkja og lendingarbóta leggur meiri hl. fjvn. til, að framlög verði hækkuð samtals um 18 millj. 305 þús. kr. Áður var samkv. fjárlagafrv. búið að hækka fjárveitingu til framkvæmdanna um 10 millj. 7 þús. kr. frá því, sem er á yfirstandandi ári, og þegar tillit er tekið til þeirrar skerðingar, sem átti sér stað, þ.e. 10% lækkun, er því raunverulega um hækkun á framlagi úr ríkissjóði að ræða frá því, sem er á yfirstandandi ári, um 10 millj. 7 þús. samkv. fjárlagafrv., en í brtt. n. er lagt til að hækka framlagið enn um 18 millj. 305 þús. eða samtals hækkun til hafnarframkvæmda að þessu sinni um 28 millj. 312 þús. kr., sem er hlutfallslega meiri hækkun á einu ári en áður hefur átt sér stað. Eins og undanfarin ár er fjárveitingum skipt milli framkvæmda, en segja má, að þær séu nú í öðru formi en áður hefur átt sér stað. Nú koma fyrst til framkvæmda áhrif nýju hafnarlaganna þannig, að framkvæmdir eru byggðar á raunverulegri framkvæmdaáætlun fyrir árið 1968 og till. um fjárveitingar við það miðaðar, að ríkisframlagið, sem nú er í mörgum tilfellum verulegur meiri hl. framkvæmdafjárins, greiðist að fullu upp á því ári, sem unnið er. Hér er án vafa um eitt mesta hagsmunamál fjölmargra byggðarlaga að ræða, og tryggir, að uppbygging framkvæmdanna verður skipulegri og öruggari, hvað öflun nauðsynlegs fjármagns snertir. Að þessu sinni er í aðalatriðum stuðzt við ábendingar hafnarmálastjóra um þær framkvæmdir, sem ráðizt verður í á næsta ári. En jafnhliða þeim till., sem n. bárust frá hafnarmálaskrifstofunni um framkvæmdir á næsta ári, var n. afhent heildaráætlun um hafnarframkvæmdir á næstu 4 árum þar á eftir. Með till. þessum telur hafnarmálastjóri, að jafnframt séu lögð fyrstu drög að fjögurra ára áætlun um hafnarframkvæmdir í landinu, þ.e. á árunum 1969 –1972. Er þar gengið út frá svipuðum framkvæmdum og verið hafa á undanförnum árum. Framkvæmdaáætlunin er gerð með kostnað ársins 1967 sem grundvöll allra útreikninga. Kemur þar fram, hvers sé að vænta í framkvæmdum næstu ára, án þess þó að framkvæmdum sé enn sem komið er raðað niður á ár. Framkvæmdum á Vestfjörðum, er gert var ráð fyrir að ljúka á 4 árum samkv. svonefndri Vestfjarðaáætlun, telur hafnarmálastjóri að verði að fullu lokið á 5 árum. Um hafnarmálin í heild er það að segja, að þau vinnubrögð, sem hér er lagt til, að eigi sér stað með slíkri heildaráætlun, hljóta að verða til mikilla bóta frá því, sem verið hefur, og auðveldara fyrir alla aðila að gera sér grein fyrir þeim verkefnum, sem úrlausnar bíða. Ég vil því leyfa mér að vona, að þm. séu sammála um, að með þessum breytingum sé stefnt í rétta átt. Um skiptingu fjárveitinga á milli framkvæmda vísast að öðru leyti til sundurliðunar á sérstöku þskj.

Þá er lagt til að taka upp nýjan lið við aðalskrifstofu vita- og hafnarmálaskrifstofunnar, 200 þús. kr., til að afla nýrra tækja til bylgjumælinga, en slík tæki eru mjög nauðsynleg, sérstaklega vegna hafnargerðar við opna strönd eins og t.d. við Dyrhólaey. Þá er framlag til sjómannaskólans í Vestmannaeyjum hækkað um 100 þús. kr.

Í janúarmánuði s.l. skipaði iðnmrh. n. til að rannsaka þenslu og þar af leiðandi grotnun í steinsteypu. Er talið, að hér sé um mjög þýðingarmikið mál að ræða. Samkv. þeim upplýsingum, sem n. hefur fengið um þetta mál, er gert ráð fyrir, að verulegur hluti þeirra rannsókna, sem hér um ræðir, verði framkvæmdur af starfsfólki Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Rannsóknastofnunar iðnaðarins. Hins vegar verður ekki hjá því komizt að leggja í nokkurn kostnað til viðbótar því, sem stofnanir þessar munu geta látið í té, og er því lagt til að veita 300 þús. kr. í þessu skyni. Þá er lagt til að auka niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum um 50 millj. kr., og er það gert til að draga úr áhrifum gengislækkunarinnar.

Ég hef vikið að 5 fyrstu brtt. á þskj. 194, en það er frá meiri hl. n. Í 6. brtt. er lagt til að hækka framlag til bjargráðasjóðs um 1 millj. kr. Er hér um leiðréttingu að ræða, þar sem í ljós hefur komið við nánari athugun, að þar sem áður hafði verið samþ. að veita 31/2 millj. til viðbótar í þessu skyni, er hér um 1 millj. kr. of lága upphæð að ræða. Þá eru till. um skiptingu lögboðinna og ólögboðinna eftirlauna og heiðurslauna. Að þessu sinni eru till. útreiknaðar með vísitöluálagi, en áður hefur verið miðað við grunntölu. Um skiptingu á upphæðinni vísast til þess, sem fram kemur á sérstökum yfirlitum á þskj. nr. 171. Þá er lagt til, að ein heimildargrein verði felld niður, þar sem fram er komið frv. um sama efni hér á Alþ., en hún er þess efnis að selja húseignina nr. 15 við Tómasarhaga. Hins vegar er lagt til, að eftirtaldar heimildir verði veittar: Að endurgreiða aðflutningsgjöld af kvikmyndasýningarvélum fyrir samkomuhús í kauptúnum með innan við 600 íbúa, þó ekki nema einni vélasamstæðu á hverjum stað. Að ábyrgjast allt að 10 milljón króna lán vegna Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins á Keldnaholti. Að taka allt að 2 millj. kr. lán fyrir jarðhitasjóð. Að ábyrgjast allt að 3 millj. kr. til greiðslu á byggingarskuldum kvennaheimilisins Hallveigarstaða gegn þeim tryggingum, sem metnar eru gildar. Að endurgreiða aðflutningsskatt og söluskatt af geislunartæki, sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins fær lánað fyrir milligöngu Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar. Að endurgreiða Andakílsárvirkjun aðflutningsgjöld og söluskatt af efni í háspennulínur.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að skýra þær till., sem meiri hl. fjvn. hefur leyft sér að bera fram við þessa umr., og vænti þess, að þær hljóti afgreiðslu og verði samþ. og fjárlagafrv., þannig breytt, samþ. og afgr. sem lög frá Alþingi.