19.12.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

1. mál, fjárlög 1968

Frsm. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Við 2. umr. fjárlagafrv. gerði ég grein fyrir því af hálfu minni hl. fjvn., hvaða stefnu minni hl. markaði við fjárlagaafgreiðsluna að þessu sinni. Till. þær, sem ég tala fyrir og fluttar eru af minni hl. fjvn. við 3. umr. frv., eru miðaðar við þá stefnuyfirlýsingu, sem þá var gefin.

Í fyrsta lagi er miðað við það, að framkvæmdamáttur fjárfestingarfjárins á fjárl. verði svipaður og gert var ráð fyrir á árinu 1967. Í öðru lagi að draga úr skaðvænlegum áhrifum gengisbreytingarinnar, eins og áður hefur verið gerð grein fyrir. Í sambandi við þá heildarmynd, sem nú liggur fyrir af fjárlagafrv. við afgreiðslu þess, kemur í ljós, að hæstv. ríkisstj. fylgir nákvæmlega sömu stefnu og gert hefur verið við afgreiðslu fjárl. undanfarandi ár. Hún reynir að draga í ríkissjóð eins mikið af tekjum og hugsanlegt er og miðar fjárlagaafgreiðsluna við það, að verulegur greiðsluafgangur verði hjá ríkissjóði. Til sönnunar þessu vil ég benda á það, að í staðinn fyrir að fella alveg niður margföldun á fasteignum og láta sveitarfélögunum eftir þann tekjustofn, eins og vikið var að hér við 2. umræðu fjárlagafrv., hefur hæstv. ríkisstj. kosið að halda til ríkissjóðs 30 millj. af þessum hugsanlega tekjustofni. Enn fremur er verið að lögleiða hér á hv. Alþingi frv. um að heimila hæstv. ríkisstj. að leggja söluskatt á póst og síma. Að vísu hefur það komið fram í þeim umr., sem fram hafa farið hér á hv. Alþ. um þetta frv., að nokkur fyrirvari sé á því að nota þessa heimild og þá fyrst og fremst sá, að ef póst- og símamálastjórnin telji nauðsyn bera til að hækka tekjuáætlun pósts og síma með því að hækka afnotagjöldin, eigi að nota þessa lagaheimild eins og nokkurs konar refsiákvæði. Nú má það vel vera, að hæstv. ríkisstj. noti ekki þessa heimild. Þó er það svo, að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir þessum tekjustofni, og segir það nokkuð um það, að hverju er stefnt.

Eins og augljóst er á fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, og fram kom í ræðu hv. 2. þm. Vesturl., formanns fjvn., hefur hæstv. ríkisstj. látið gera nýja áætlun um tekjur ríkissjóðs á árinu 1968, sem miðuð er við þá gengisbreytingu, sem gerð var í nóvemberlok. Í frásögn forstöðumanns Efnahagsstofnunarinnar, er mætti á fundi fjvn., er tekjuáætlunin, sem nú er gerð, miðuð við þá þjóðhagsáætlun, sem stofnunin hefur gert. Formaður Efnahagsstofnunarinnar gerði þá grein fyrir þessari þjóðhagsáætlun, að gert væri ráð fyrir því, að magn af innfluttum vörum til landsins yrði um 41/2% minna heldur en á árinu 1967 og neyzluvörumagnið yrði um 8% minna heldur en þá var gert ráð fyrir. Að öðru leyti taldi hann, að miðað væri við það, að framleiðsla sjávarútvegsins mundi aukast um 10–12%, iðnaðarins um 3%, landbúnaðarins um 2%, opinber þjónusta um 21/2% og verzlun um 11/2%. Byggingariðnaðurinn mundi hins vegar standa í stað og einkaneyzlan mundi minnka um 3%: Vöxtur þjóðartekna taldi forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar, að yrði um 21/2–3%. Við þessa áætlun er sú tekjuöflun miðuð, sem hér liggur fyrir, og þá tollalækkun, sem ríkisstj. hefur ákveðið að gera samkv. frásögn meiri hl. fjvn.

Við höfum í till. okkar gert nokkra breytingu á tekjuáætluninni, þ.e. á aðflutningsgjöldunum, og miðum við þá áætlun okkar við þá reynslu, sem af þessu er á yfirstandandi ári, og þá reynslu, sem við höfum af áætlun hæstv. ríkisstj. um tekjustofna ríkisins, sem hafa á undanförnum árum verið oft mjög langt frá lagi, þó að mest hafi það verið á árinu 1966, þegar tekjur ríkissjóðs fóru nærri 900 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. Nú þann 1. nóv. 1967 er innflutningurinn orðinn um 5 milljarðar eða 70 millj. kr. meiri heldur en hann var á sama tíma í fyrra. Þá er búið að draga frá þessum innflutningi þær tölur, sem fyrir liggja um innflutning á skipum, flugvélum og vörum til Straumsvíkur og Búrfellsvirkjunar. Miðað við þessa áætlun er gert ráð fyrir því í áætlun Efnahagsstofnunarinnar, að heildarinnflutningurinn á árinu 1968 verði 7.3 milljarðar kr. eða innan við milljarð meiri heldur en líkur eru til, að hann verði á þessu ári. Þá hefur tollprósentan verið lækkuð verulega frá því, sem hún reyndist vera á þessu ári, en þá var hún 31%, en samkv. útreikningum nú mundi tollprósentan vera um 25%, þ.e. meðaltollprósentan miðað við innflutningsáætlun þá, sem hér liggur fyrir. Eins og ég áður tók fram, teljum við, að hér sé ekki um raunhæfa áætlun að ræða, heldur sé áfram byggt á þeirri stefnu hæstv. ríkisstjórnar að hafa verulegan greiðsluafgang, sem hún geti ráðstafað að eigin vild, eins og verið hefur undanfarandi ár. Það hefur sýnt sig, að þó að greiðsluafgangur hafi verið hjá hæstv. ríkisstj., hefur hann ekki safnazt fyrir, heldur hefur ríkisstj. notað hann til þess að lengja lífdaga sína með alls konar ráðstöfunum, sem enga hagnýta þýðingu hafa haft fyrir efnahagskerfi þjóðarinnar.

Þá vil ég vekja athygli á því í sambandi við tekjuáætlunina, að þrátt fyrir það, að aðflutningsgjöldin hafi verulega verið lækkuð, er gert ráð fyrir því, að söluskatturinn, sá tekjustofn haldi sér, eins og gert var ráð fyrir í áætlun Efnahagsstofnunarinnar. Þær till., sem við gerum hér til útgjalda í sambandi við fjárlagafrv., eru byggðar á því, sem við lýstum sem okkar stefnu hér við 2. umr., eins og ég hef áður vikið að, að fjárveitingar til fjárfestingar á árinu 1968 héldu framkvæmdamætti sínum miðað við fjárlög 1967. Þeir liðir, sem við höfum hér tekið til meðferðar, eru í fyrsta lagi skólarnir. Þar leggjum við til, að á árinu 1968 verði lögð til hliðar 25 millj. kr. fjárveiting, sem notuð verði í skólabyggingar, þegar framkvæmd þeirra hefst eftir nýju l. Eins og kunnugt er, hefur nú við þessa fjárlagaafgreiðslu ekki verið farið eftir nýju skólakostnaðarlöggjöfinni, heldur er frestað framkvæmdum hennar í sambandi við byggingu skóla á árinu 1968. Eins og ég tók fram við 2. umr. fjárlagafrv., kom það fram í umr. hér á s.l. vori um þessa löggjöf, að gert var ráð fyrir því, að þessum lið skólakostnaðarl. yrði frestað, vegna þess að undirbúningur að þeirri framkvæmd, eða tími til undirbúnings væri ekki nægur. Hins vegar var alveg gert ráð fyrir því, að reksturinn yrði greiddur eftir nýju l. ekki síðar en í byrjun næsta árs. Ég verð því að segja það, að ég mun ekki gera sérstaka aths. við það, þó að þessi löggjöf komi ekki til framkvæmda í sambandi við stofnkostnað skólanna, vegna þess að undirbúningi er þar ekki lokið, svo sem gert er ráð fyrir í l. Hins vegar er það ljóst, að til þess að mæta löggjöfinni þarf aukið fé frá því, sem nú er, og þess vegna leggjum við til, að lagðar séu til hliðar 25 millj. kr. vegna framkvæmda í barna- og unglingaskólum á árinu 1969. Okkur er það ljóst, að hér er um lága fjárhæð að ræða miðað við þörfina. Þó er þetta um 25% af þeirri fjárhæð, sem til þessara bygginga gengur á árinu 1968, og kæmi því að liði, ef þessi till. yrði samþ. Okkur er það líka ljóst, að með því að leggja þessar 25 millj. kr. til hliðar, væri hægt að lána hluta af þeim til framkvæmda á árinu 1968, sem yrði svo endurgreitt með fjárveitingum 1969, og kæmi það því skólunum vel að liði. Við leggjum því mikla áherzlu á það, að þessi till., ásamt annarri till. í sambandi við skólamálin og fleiri framkvæmdaliði, sem ég geri grein fyrir síðar, verði samþ., til þess að það mætti auðvelda framkvæmd skólakostnaðarlaganna á næsta ári og hægt verði að gera þá stórt átak í því að koma í framkvæmd þeim mörgu nauðsynlegu skólabyggingum, sem nú bíða eftir að fá framkvæmdafé.

Þá höfum við lagt til að hækka fjárveitingu til raforkuframkvæmda í sveitum um 10 millj. kr. Eins og kunnugt er, var þessi fjárveiting lækkuð um 10% á s.l. ári, og gert er ráð fyrir, að sá niðurskurður haldist einnig á árinu 1968, og það þýðir 5 millj. kr. lækkun frá því, sem gert var ráð fyrir í fjárveitingu 1967, og nokkuð meira að framkvæmdamætti miðað við þær breytingar, sem orðið hafa á gengi ísl. krónu, og aukinn kostnað síðan fjárl. fyrir 1967 voru afgreidd. Hér er því um að ræða fjárhæð, sem er lítið eitt hærri að framkvæmdamætti heldur en fjárveitingin 1967 var, og þó e.t.v. ekki, þegar dæmið er fullkomlega gert upp. Það er líka öllum kunnugt, að hér er um verkefni að ræða, sem er nauðsynlegt að fara að leysa að fullu, og gerum við till. um sérstakan framkvæmdarhátt á lausn þessara mála í annarri till. á sama þskj. 189. Þá leggjum við til að hækka fjárveitingu til jarðhitasjóðs um 5 millj. kr., og þrátt fyrir þessa till. okkar er um lægri fjárhæð til þessa sjóðs að ræða heldur en var á yfirstandandi fjárl. Hér er einnig um brýn verkefni að ræða, sem sjóðurinn getur ekki sinnt vegna fjármagnsskorts og leggjum við til, að úr því verði bætt.

Þá er á 4. lið í till. okkar gert ráð fyrir því að veita til húsnæðismálanna 50 millj. kr. Það hafa oft á hv. Alþ. farið fram umr. um húsnæðismálin og hvernig hæstv. ríkisstj. og fyrri ríkisstj. hafa að þeim staðið. Út í þær deilur ætla ég ekki að fara að sinni, en vil minna á það í sambandi við framkvæmd síðari ára, að á valdadögum núv. valdhafa hafa verið á þjóðina lagðir nýir skattar til tekna fyrir byggingarsjóð ríkisins og man ég þar eftir tveimur, sem er launaskatturinn og hækkun á eignarskatti, og nema þessar tekjur um 150 millj. kr. Þess vegna væri ástæða til að ætla, að nú væri betur að þeim málum staðið heldur en áður hefur verið.

Nú mun það fjarri því, að svo sé, og hefur mjög gengið á hinn verri veg einmitt á þessu ári og útlitið í fjáröflunarmálum fyrir þá, sem í byggingum standa nú, er hreint ekki bjart. Okkur er það ljóst, að hér er um að ræða lítið brot af því fjármagni, sem þarf til að leysa úr lánaþörf húsbyggjenda. Við gerum ráð fyrir því, að þessar 50 millj. kr. gangi í byggingarsjóð ríkisins og verði lánaðar til einstaklinga, sem í byggingum standa, en þær gangi ekki til framkvæmdaáætlunarinnar, sem hefur gengið mjög inn á lánamöguleika húsnæðismálastjórnar.

Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fyrir hendi, var það svo um umsóknir þær, sem fyrir lágu hinn 15. marz 1967, að af þeim hafa 600 hlotið afgreiðslu með fyrirheiti um, að útborgun fari fram eftir 1. maí 1968, eða meira en ári eftir að þær komu fram, þessar umsóknir. En til viðbótar þessum umsóknum eru 800 umsóknir, sem engin fyrirheit hafa fengið um afgreiðslu á sínum beiðnum, og hvað hefur borizt til húsnæðismálastjórnarinnar eftir 15. marz 1967, er mér ókunnugt um. Upplýsingar um það hef ég ekki getað fengið. En af þessu er ljóst, að hér er mikil þörf úrlausnar og af þessu er ljóst, að sennilega hefur aldrei horft verr um að leysa þessi mál heldur en einmitt nú. Þess vegna treystum við því, að hv. alþm. ljái þessu máli lið og hæstv. ríkisstj. taki betur á heldur en hér er lagt til, til þess að leysa þetta mál á sæmilegan hátt. Það er ljóst þeim, sem til þekkja, að þau lánin, sem að beztum notum hafa komið fyrir hinu almenna borgara á síðari árum, eru lán, sem byggingarsjóður verkamanna hefur veitt. Við leggjum til, að fjárveiting til þess sjóðs verði hækkuð um 5 millj. kr., svo að hægt sé að örva að litlu leyti þá starfsemi, þá nauðsynlegu starfsemi, sem þar fer fram. Okkur er það einnig ljóst í þessu tilfelli, að lítið er að gert, en eins og ég gat um í upphafi, eru till. okkar miðaðar við þá heildarstefnu, sem mörkuð var við 2. umr. um, að fjárfestingarframkvæmdirnar væru svipaðar að framkvæmdamætti og gert var ráð fyrir við fjárlagaafgreiðslu 1967. Þess vegna höfum við verið svo mjög hófsamir um tillögugerð, enda mun hún ekki vera nema um 2% af heildarútgjöldum fjárlaga. Þá höfum við í sambandi við þessar till. okkar lagt til, að félagsleg samtök í landinu, sem notið hafa lítils háttar ríkisstyrks, haldi í að einhverju leyti við hækkun fjárl. Með ört hækkandi fjárl. ár frá ári hefur fjárhæða þeirra, sem þessi félagssamtök hafa notið, gætt lítið, bæði á fjárl. ríkisins og einnig í framkvæmdum eða starfsemi þessara félagasamtaka. Okkur er það ljóst, að það er mikil hætta á ferðum, ef ríkisvaldið sinnir ekki frjálsum félagssamtökum fólksins í landinu, og léttir ekki undir starfsemi þessa fólks með lítils háttar fjárveitingu. Á þessa tillögugerð okkar ber að líta sem þakklætisvott vegna þessarar starfsemi, og það ber að líta á þetta sem viðurkenningarvott ríkisvaldsins til starfseminnar og örvun um að halda henni áfram. Einn af þeim liðum, sem við flokkum undir þetta er starfsemi elliheimilanna í landinu. Þessi starfsemi hefur farið mjög í vöxt á síðari árum og fer vaxandi vegna þeirra breytinga, sem orðið hafa í þjóðlífinu og oft hafa verið ræddar hér, að þjóðin nær nú hærri aldri heldur en áður hefur verið og einnig það, að háttur heimilanna hefur breytzt á þann veg, að ekki er eins auðvelt fyrir fullorðna fólkið og það sækir ekki í það eins og áður var að dvelja þar í ellinni. Af þessum ástæðum hefur starfsemi elliheimilanna farið vaxandi. Fjárhagslegur stuðningur ríkissjóðs við þessi heimili hefur farið ört minnkandi með hækkandi fjárl. og minnkandi gildi krónunnar. Við höfum því gert till. um, að þessi starfsemi verði styrkt lítils háttar í hlutfalli við breytt verðlag frá því að síðast var breytt fjárveitingum til hennar. Sama er að segja um starfsemi eins og sumardvalarheimilanna og starfsemi mæðrastyrksnefndanna, sem hefur verið frjáls félagsstarfsemi fólksins, þar sem unnið hefur verið mikið og gott verk. Enn fremur höfum við lagt til að hækka nokkuð byggingarstyrk til dagheimilanna, sem eru óðum að færast í vöxt í þéttbýlinu, m.a. vegna þess að húsfreyjurnar eru nú farnar að starfa meira utan heimilis en áður hefur verið og þörf fyrir vinnu konunnar til tekjuöflunar, ef hægt er að koma því við, hefur líka færzt í vöxt miðað við núverandi launastiga og þörf fyrir tekjur.

Þá höfum við í till. okkar fylgt því, sem áður hefur verið hér á undanförnum þingum í sambandi við fjárveitingu ríkissjóðs til vegamála. Ég hef að vísu endurtekið það hér á þingum áður og verð að gera það einu sinni enn þá, að það fyrirheit eða það samkomulag, sem gert var við afgreiðslu vegalaganna haustið 1963, hefur því miður ekki verið haldið, en það var þess efnis, að 47 millj. kr. skyldi vera minnsta framlag, sem á fjárl. ríkisins yrði veitt til vegamála. Nú er mér það ljóst, að þetta mál er á margan hátt orðið leiðindamál, og ég tel það miður farið, að hæstv. samgmrh. skyldi í raun og veru vera þröngvað til þess, að ég tel, að láta af þessu samkomulagi. Ég skal ekki þreyta hv. alþm. með langri umr. um þennan þátt í till. okkar, en vil nú leggja það til og treysta á það, að hæstv. ríkisstj. komi þessu leiðindamáli út úr heiminum með því, að á næsta fjárlagafrv. verði þessi fjárveiting tekin upp aftur. Það er algerlega misráðið að framkvæma samkomulag, eins og hér hefur verið gert. Það er engum til sóma og öllum til leiðinda, og þess vegna eigum við ekki að vera að bítast hér á hv. Alþ. um ekki stærri fjárhæð en þetta, og þess vegna treysti ég því, að hæstv. ríkisstj., hæstv. samgmrh. og hæstv. fjmrh., sjái það við næstu afgreiðslu, að hér þarf bara að leiðrétta hlut og taka þessar 47 millj. kr. inn á fjárlög aftur. Við höfum allir bezt af því, að þannig verði að málum staðið og vegur hv. Alþ. vex við það og ég undirstrika það, að ég treysti því, að enn þá einu sinni þurfi ekki að minna á þetta atriði.

Í tillögugerð okkar að þessu sinni höfum við flutt hér tvær heimildartill. Fyrri heimildartill. er þess efnis, að ríkisstj. sé heimilt að taka lán til þess að greiða á næstu þrem árum það, sem ríkið á nú ógreitt og kemur til með að eiga á þessum árum til framkvæmda í skólabyggingum, í sjúkrahúsum og læknisbústöðum, í hafnargerðum, til íþróttasjóðs og félagsheimilasjóðs. Hér er um fjárhæðir að ræða, sem ekki eru verulega stórar, og samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef beztar fengið, þá mun vera hér um að ræða fjárhæðir, sem eru ca. 250–350 millj. kr. Með því að dreifa þessari greiðslu á næstu 3 ár — og meira að segja gæti hæstv. ríkisstj. við lántökuna dreift þessu á lengri tíma með því að endurgreiða lánið á lengri tíma heldur en þessi greiðsla á að fara fram — með þessum hætti væri viðskiptaháttur þessara mála gerður bæði einfaldari og skemmtilegri heldur en verið hefur, auk þess, sem mér er ljóst, að bæjar- og sveitarfélögum, sem hér eiga hlut að máli, væri fullkomin þörf á því, að þessi háttur væri á hafður, þar sem fjármál þessara aðila munu ekki verða of létt á næstu árum. Það er líka, að bæði í sambandi við skólakostnað og hafnargerðir er að koma til framkvæmda nýgerð löggjöf, og sömuleiðis er löggjöf um sjúkrahús og læknisbústaði nokkurra ára. Þess vegna væri það brýn nauðsyn að gera hér hreint fyrir dyrum og afgreiða þennan þátt fjármálanna á þann hátt, sem við leggjum hér til. Hér er ekki frekar en í öðrum till. okkar gengið langt í kröfum til ríkissjóðs, þar sem ríkissjóði er ætlað með lántöku að greiða þetta og þá að dreifa þessari greiðslu á 3 ár. Er þá um að ræða form, sem þekkt er frá afgreiðslu ríkisins á slíkum málum, en með því að gera þetta á þann veg, sem hér er lagt til, er málinu bæði tryggður framgangur og mikið létt fyrir ríkissjóði um afgreiðslu þess. Þá leggjum við til í 2. heimildargr., að á árunum 1968 og 1969 verði lokið við að framkvæma raflýsingu á þeim sveitabæjum, þar sem vegalengdin er 2 km eða minna, en það er það framkvæmdasvið, sem nú er verið að vinna að. Við leggjum til, að lántaka fari fram til þess að tryggja það, að þetta geti átt sér stað á þessum tveimur árum og ríkissjóður annist þá lántöku, en héruðin séu ekki að leggja það til, eins og nú er farið að gera í ríkum mæli. Hér mun vera að ræða um 650–700 sveitabæi frá því, sem það er í dag, og heildarkostnaður við þessar framkvæmdir mun vera lauslega áætlaður um 150 millj. kr. Það þýðir, að lántaka sú, sem ríkissjóður yrði að inna af hendi umfram þær fjárveitingar, sem veittar væru á þessum tveimur árum, væri um 100 millj. kr. Það er enginn vafi á því, að mikla nauðsyn ber til, að nú þegar verði farið að marka ákveðna stefnu um lok á þessari framkvæmd, bæði að hraða lagningu á þessa bæi, sem þegar er ákveðið að leggja á, og enn fremur, að ákvörðun verði um það tekin, hvað línulögnin frá samveitum eigi að ganga langt, miðað við vegalengdir bæja á milli. Og enn fremur í leiðinni að ákveða, á hvern hátt eigi að leysa rafmagnsþörf þeirra sveitabýla, sem þá eru eftir og ekki er talið, að nái til samveitna, eins og venjulega er talað um. Þetta mál, sem hér er á ferðinni, er hvorki erfitt í framkvæmd eða á neinn hátt það stórt, að það væri fráleitt fyrir ríkisstj. að beita sér fyrir því að leysa það á þann hátt, sem við leggjum til. Hins vegar mundi það verða til þess að koma máli, sem mikið áhugamál er þeirra, sem ekki njóta rafmagns, koma því í höfn, og ríkisvaldið mundi létta af sér þeirri ásókn, sem nú er í sambandi við þetta mál. Ég endurtek það, að það er mikill misskilningur að halda, að hér séu einhverjir erfiðleikar á ferðinni, sérstaklega, sem mundi vera ofraun ríkisstj. að leysa á tveimur árum.

Herra forseti. Ég hef nú í ræðu minni hér að framan gert grein fyrir þeim brtt., sem við flytjum hér, minni hl. fjvn., á þskj. 189. Ég hef sýnt fram á það í ræðu minni, að hér er mjög stillt í hóf og innan þess ramma, sem við lögðum við 2. umr. um, að framkvæmdamáttur fjárins yrði svipaður og gert var ráð fyrir við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1967. Ég hef einnig sýnt fram á það, að með þessari afgreiðslu erum við einnig innan þess ramma, að eins verulega verið dregið úr skaðvænlegum áhrifum gengisbreytingarinnar með tollalækkunum, niðurgreiðslum og öðrum ráðstöfunum, eins og við keppum að, að gert verði.

En að lokum vil ég segja það í sambandi við það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir við 3. umr., að það, sem einkennir það, er algerlega óbreytt stefna frá því, sem verið hefur við fjárlagaafgreiðslu undanfarandi ára, stefna, sem gerir það að verkum, að þrátt fyrir síhækkandi fjárlög er ekki rúm fyrir eðlilega þátttöku ríkisins í uppbyggingu í landinu. Með áframhaldi þeirrar stefnu mun það og sýna sig sem fyrr, að hversu mikið sem tekjur ríkissjóðs vaxa, eykst tekjuþörfin vegna útþenslu ríkiskerfisins. Því aðeins getur meira olnbogarúm komið fyrir þátttöku ríkissjóðs í uppbyggingu í landinu og heilbrigða efnahagsstefnu, að breytt verði um stjórnarstefnu frá því, sem áður hefur verið.