19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

1. mál, fjárlög 1968

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég held, að flestir muni vera sammála um það, að megineinkenni þessarar fjárlagaafgreiðslu nú eins og svo oft áður undanfarin ár sé það, hvað rekstrarliðirnir fara síhækkandi, en framkvæmdaliðirnir og ýmis stuðningur við félags- og menningarlega starfsemi fer minnkandi hlutfallslega. Hér gerist það tvennt, að ríkisbáknið stækkar og þenst út og svo hitt, sem mestu veldur, að hér hefur verið rekin skefjalaus verðbólgupólitík, sem á þessu ári hefur leitt til viðurkenndrar gengisfellingar. Ég er sammála hæstv. fjmrh., sem oft hefur látið svo ummælt, að það sé hin almenna þróun í efnahagslífinu, sem valdi mestu um hinar öru hækkanir á fjárl. Þetta er auðvitað rétt. Það er stefna hæstv. ríkisstj. og afleiðing þeirrar stefnu, sem gerir það að verkum, að reksturinn tekur sífellt meira til sín, en framkvæmdaféð rýrnar. Ör og langvarandi verðbólga er langversti skaðvaldur í efnahagslífi þjóðarinnar og ræður allri þróun í þeim efnum. Verðbólgan veldur sírýrnandi verðgildi krónunnar. Það verður alltaf minna og minna, sem hægt er að kaupa fyrir krónuna, og minna, sem hægt er að framkvæma fyrir hverja krónu.

Allt heilbrigt fjármálalíf bíður hnekki af slíkri þróun og e.t.v. koma afleiðingar verðbólgustefnunnar hvergi skýrar í ljós en einmitt í ríkisbúskapnum. Fjárlög ríkisins hækka um hundruð milljóna og jafnvel milljarða króna frá ári til árs, án þess að ríkissjóður virðist miklu færari um en áður að stuðla að félagslegum framkvæmdum og sameiginlegri uppbyggingu þjóðarinnar. Fyrir áhrif frá félagslega hugsandi mönnum, og ekki sízt frá framsóknarmönnum, hefur sú stefna hlotið viðurkenningu, að ríkið standi að margs konar framkvæmdum í þjóðfélaginu, framkvæmdum, sem einstaklingum og jafnvel sveitarfélögum einum sér er ómögulegt að leysa án íhlutunar ríkissjóðs eða annars allsherjar fjárhagsstuðnings. Með þessu móti hefur landið verið búið að vegum, höfnum og öðrum samgöngubótum, og skólabyggingar hafa risið víða um land o.s.frv. Þörfin fyrir slíkar framkvæmdir fer sívaxandi og lög gera beinlínis ráð fyrir því, að ríkið styðji slíka uppbyggingu. Miðað við það, að þjóðartekjur vaxa yfirleitt jafnt og þétt og þjóðarauðurinn er ekkert sambærilegur við það, sem var fyrir 15–20 árum, ætti að öllu eðlilegu að vera hægt að halda í horfinu og fullnægja þörfinni með sæmilegum hætti, jafnvel þótt þessi þörf fari vaxandi. En því er ekki að heilsa. Stefnan eða þróunin í efnahagsmálunum er með þeim hætti, að félagslegu framkvæmdirnar verði afskiptar. Þær verða útundan í ríkari mæli með hverju ári, sem líður. Ríkissjóður á alltaf erfiðara og erfiðara með að rísa undir lögbundnum kostnaðarhluta sínum af nauðsynlegum framkvæmdum í landinu, þrátt fyrir vaxandi álögur á þjóðina, þrátt fyrir vaxandi ríkissjóðstekjur og hækkandi fjárlög. Það er efnahagsþróunin, sem þessu veldur. Það er verðbólgustefnan, sem er að brjóta niður fjárhagsgetu ríkissjóðs, brjóta niður það sérstaka kerfi uppbyggingar, sem ráðið hefur í landinu um margra áratuga skeið.

Á þetta almenna og augljósa atriði vil ég benda sérstaklega við þessa fjárlagaafgreiðslu. Það verður að breyta um grundvallarstefnu í efnahagsmálum og móta ný viðhorf gagnvart verðbólgunni, gagnvart gildi peninganna, ef nokkur von á að vera um, að úr rætist um málefni ríkissjóðs, einkum það atriði, að hann geti með góðu móti risið undir skyldum sínum gagnvart félags- og menningarlegri uppbyggingu í landinu. Verði verðbólgu- og gengisfellingarstefnunni haldið áfram, er engin von til þess, að úr rætist. Þá mun sækja í sama farið og verið hefur undanfarin ár, að rekstrarútgjöldin og eyðslan fari vaxandi, þenjist út með rýrnandi peningagildi, en framkvæmdaféð fer minnkandi. Stuðningurinn við varanlega uppbyggingu verður þá alltaf minni og minni.

Þó að ég sé meðflm. að allmörgum brtt. minni hl. fjvn., mun ég ekki gera þær að sérstöku umræðuefni, þar sem það hefur þegar verið gert af öðrum. Allar þessar till. miða að því að fá aukið fé til félags- og menningarlegrar uppbyggingar, sem brýnust þörf er fyrir og ríkinu er ýmist skylt að lögum að styrkja með framlögum eða því ber að veita stuðning samkv. eðli málsins. Þó að útgjaldatill. okkar nemi allháum upphæðum fljótt á litið, fer því fjarri, að þær séu háar samanborið við hina ríku þörf, sem er orsök tillögugerðarinnar. Á móti þeirri hækkun útgjalda, sem við leggjum til, að verði samþ., kemur till. okkar um hækkun á tekjuáætlun ríkissjóðs, enda dylst varla nokkrum manni, að ríkíssjóðstekjur séu lágt áætlaðar af hálfu hæstv. ríkisstj., og er það augljóslega stefna hennar að geta skilað mjög háum tekjuafgangi í árslok 1968. Við í minni hl. höfum ekki samúð með þeirri stefnu hæstv. ríkisstj. og teljum rétt að áætla ríkissjóðstekjurnar hærri en hv. stjórnarsinnar gera og við það eru okkar útgjaldatill. miðaðar.

Auk þeirra till., sem ég flyt ásamt öðrum minni hl. mönnum í fjvn., stend ég að flutningi nokkurra till., sem snerta málefni kjördæmis míns eða einstakra staða innan þess. Ég mun ekki gera þær allar að umræðuefni, þar eð aðrir munu gera það sérstaklega. En ég vil minna á þrjár till., sem þeir flytja með mér, hv. 1. þm., hv. 4. þm. og hv. 5. þm. Norðurl, e., og sú fyrsta till., sem ég vildi minnast á, snertir fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og er á þskj. nr. 195, VII. brtt. þar nr. 2. En fyrirhugað er að ráðast í allmikla stækkun á fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, þannig að það rúmi þrjár sjúkradeildir og rannsóknardeild auk heilsuverndarstöðvar fyrir Akureyrarbæ. Þessi fyrirhugaða stækkun sjúkrahússins er ætlað að muni kosta 100 millj. kr. Þetta mál hefur lengi verið á umræðustigi og er enn á undirbúningsstigi. Fjárskortur hefur m.a. hamlað því, að stjórn fjórðungssjúkrahússins gæti kostað allar nauðsynlegar teikningar af byggingu þessari, en slíkar teikningar og ámóta undirbúningur mun kosta nokkrar milljónir króna. En eins og sakir standa er því mjög örðugt um vik fyrir sjúkrahússtjórnina að fá teikningarnar afgreiddar, hvað þá annað, sem varðar fyrstu framkvæmdir í sambandi við nýjan áfanga í sjúkrahúsbyggingunni. Það er því vissulega mjög óheppilegt, ef lengri dráttur þarf að verða á undirbúningi þessa máls, sem er þegar orðinn alllangur. Núverandi húsakynni fjórðungssjúkrahússins eru orðin mjög ófullnægjandi og allt of þröng. Það er þörf fyrir vel búið deildaskipt sjúkrahús á Akureyri, og heilsuverndarstöð er þar aðkallandi mál, enda er núverandi hús heilsuverndarstöðvarinnar vægast sagt lélegt. Við leggjum til, að á heimildargr. fjárlaganna komi ákvæði, þar sem ríkissjóði verði heimilt að ábyrgjast 1 millj. kr. lán til þess að kosta nauðsynlegustu undirbúningsframkvæmdir. Meiri hl. fjvn. hefur tekið upp í till. sínar ákvæði um 150 þús. kr. framlag í þessu skyni, og er það gott út af fyrir sig, en ekki fullnægjandi. Ég tel, að þessu gagnlega málefni væri mikill styrkur í því, ef till. okkar um ríkisábyrgð yrði samþykkt.

Þá vil ég minna á till., sem einnig er á þskj. 195 VII. brtt., 1. liðurinn, sem varðar lögreglustöðina á Akureyri. Þar flytjum við þessir sömu menn einnig brtt. við heimildargr. fjárlagafrv. þess efnis, að ríkið ábyrgist lán allt að 1200 þús. kr., til þess að hægt verði að flytja starfsemi lögreglunnar á Akureyri í hið nýja húsnæði, sem henni er ætlað og lengi hefur verið í smíðum. Hér er ekki farið fram á það, að ríkið leggi fram allt þetta fé, enda verða framlög ríkisins til lögreglustöðvarinnar endanlega að vera í samræmi við það, sem ber að vera og lög og samningar gera ráð fyrir. Hitt vil ég benda á, að aðstaða lögreglunnar á Akureyri er slík, að við hana verður alls ekki unað stundinni lengur, því að hún er satt að segja alger forsmán. Þar er hvorki aðstaða til venjulegrar lögregluafgreiðslu né fangageymslu. Þrengslin eru slík, að lögregluþjónarnir komast vart fyrir og allt er að kalla unnið í einu fremur litlu herbergi, en yfirlögregluþjónninn, sem sinnir m.a. flestum undirbúningsrannsóknum í lögreglumálum, hefur dálitla skonsu fyrir sig, en hún er svo lítil, að fremur mætti kalla skáp en herbergi. Mun það sannast mála, að gamla lögreglustöðin á Akureyri vekur hreinan viðbjóð allra, sem þarna koma, enda svo komið, að lögreglumennirnir, sem þarna starfa, telja sér misboðið með því að ætla þeim slíka starfsaðstöðu öllu lengur. Nýtt lögreglustöðvar- og fangelsishús hefur verið í smíðum undanfarin ár og nú er búið að byggja fyrir um 7 milljónir króna. Áætlað er, að það muni kosta um 1200 þús. kr. að gera lögreglustöðina sjálfa nothæfa, þannig að lögreglan gæti flutt í húsið, en brýn nauðsyn, að það megi gerast á árinu 1968. En til þess vantar fé, annaðhvort bein framlög frá ríki og bæ, sem hljóta að koma að lokum, eða lán, sem hægt væri að útvega til styttri tíma, svo að hægt sé að hrinda framkvæmdinni áfram. Væri það hinn mesti styrkur, ef fyrir lægi ábyrgðarheimild ríkissjóðs að því er þetta varðar.

Að lokum vil ég fara nokkrum orðum um till., sem við flytjum, þessir sömu þm., sem ég hef áður greint frá, um það, að Sambandi norðlenzkra kvenna verði veittar 50 þús. kr. til starfsemi sinnar. Stjórn sambandsins hefur alloft áður borið fram óskir um það að fá sérstakan starfsstyrk sér til handa, en ekki hefur Alþ. enn séð sér fært að verða við þeirri beiðni. Enn hefur stjórn sambandsins ítrekað beiðni sína við fjvn., en hún hefur ekki orðið við því að taka sérstaka fjárveitingu upp í till. sínar, en vísað til þess, að Samband norðlenzkra kvenna njóti styrks frá Kvenfélagasambandi Íslands, sem ríkið leggur fé. Þessi styrkur Kvenfélagasambandsins til Sambands norðlenzkra kvenna er 10 þús. kr. á ári, en það er algerlega ófullnægjandi, miðað við þau verkefni, sem Samband norðlenzkra kvenna hyggst vinna að, en fær ekki að unnið eins og vilji stendur til. Um Samband norðlenzkra kvenna er það að segja, að það er elzta kvenfélagasamband á landinu, stofnað árið 1914 og nær yfir allan Norðlendingafjórðung og Strandasýslu. Alls eru í sambandinu 8 sýslu- og kaupstaðasambönd kvenfélaga, en félagskonur eru samtals 2236 í 65 einstökum félögum. Tekjur sambandsins voru s.l. ár 26 þús. kr. Styrkur frá Kvenfélagasambandi Íslands var 10 þús. kr., ágóði af happdrætti 3000 kr. og önnur fjársöfnun var 13 þús. kr. Stjórn sambandsins telur það starfsemi sinni fjötur um fót að vera svo mjög háð vilja og ákvörðun Kvenfélagasambands Íslands um fjárstyrk, enda hefur Kvenfélagasambandið ærna starfsemi sjálft og á erfitt með að styrkja fjórðungssamböndin að nokkru ráði. T.d. var það umrætt í fyrra, að styrkir til undirsambandanna yrðu hækkaðir, en þegar til átti að taka treystist Kvenfélagasamband Íslands ekki til þess, enda færist það sjálft mikið í fang, m.a. mun það hafa tekið að sér að greiða allstóran hluta af kostnaði við Hallveigarstaði í Reykjavík. Ég held því, að það væri mjög æskilegt að skilja hér meira á milli Kvenfélagasambands Íslands og Sambands norðlenzkra kvenna og e.t.v. fleiri fjórðungssambanda. Samband norðlenzkra kvenna á langa og merka sögu að baki. Það er mun eldra en önnur kvenfélagasambönd í landinu, þ. á m. eldra en Kvenfélagasamband Íslands, sem stofnað var 1930. Samband norðlenzkra kvenna naut beins ríkisstyrks, að mér er sagt, á árabilinu 1914–1930 eða þar til Kvenfélagasambandið var stofnað, en á þeim árum var starfsemi sambandsins hin blómlegasta. Voru m.a. ýmsir ráðunautar, sem ferðuðust um á vegum sambandsins og leiðbeindu konum um hannyrðir, húshald og garðyrkju. Versnandi fjárhagsstaða hefur m.a. orðið þess valdandi, að þessi starfsemi og önnur slík hefur orðið að falla niður. Samband norðlenzkra kvenna hefur nú ráðgert að beita sér fyrir aukinni starfsemi á eigin vegum. Er þar efst á blaði áhugi þess á að koma upp garðyrkjuskóla norðanlands fyrir utanhússræktun og einnig að koma upp leiðbeiningastöð á Akureyri fyrir húsmæður. Slík stöð er rekin í Reykjavík og það er æskilegt, að annarri stöð verði komið upp á Akureyri. Hlutverk slíkrar stöðvar er eð veita hlutlausar upplýsingar um vörukaup til heimila og vera húsmæðrum til aðstoðar, þegar þær ráðast í meiri háttar kaup á heimilistækjum o.s.frv. Ég held, að það væri verðugt af Alþ. að styrkja Samband norðlenzkra kvenna í þeirri viðleitni sinni að auka sem mest starfsemi sína og þjónustu í þágu heimilanna.