19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

1. mál, fjárlög 1968

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Að brtt. VIII á þskj. 199 eru flm. ásamt mér Vilhjálmur Hjálmarsson, Ásgeir Bjarnason og Páll Þorsteinsson.

Till. er við 6. gr. frv., XXX. Nýir liðir:

1. Að greiða úr ríkissjóði þá verðhækkun á kjarnfóðri, sem orðið hefur eða verða kann á tímabilinu 24. nóv. til 1. júní 1968 vegna gengisbreytingarinnar.

2. Að greiða það, sem á vantar, að bændur fái verðlagsgrundvallarverð fyrir útflutta ull og gærur af framleiðslu ársins 1966.

3. Að taka að sér fyrir hönd ríkissjóðs greiðslu á þeim hluta stofnlána ræktunarsambanda og vinnslustöðva landbúnaðarins, sem svarar til þeirrar hækkunar lánanna í ísl. kr., sem gengisbreytingin hefur í för með sér.

Við umr. um frv. um ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breytingu á gengi íslenzku krónunnar ræddi ég nokkuð um yfirdóminn, niðurstöðu hans og rökstuðninginn fyrir honum. Ég sýndi fram á það, að í þessari dómsniðurstöðu fælist það, að bændur ættu að fá nú, eins og í fyrra, svipaða fjárhæð eins og fólst í þeim hliðarráðstöfunum, sem þá var samið um. Þetta er byggt á því, að hefðu þessar hliðarráðstafanir ekki komið til, hefði verðið á búvörum bænda verið ákveðið það hærra að krónutölu, sem þessum hliðarráðstöfunum nam, enda upplýst, að um þetta verð hefði ekki verið samið í fyrra, án þeirra. Um það þarf ekki að deila, að þessar hliðarráðstafanir voru hluti af tekjum bænda síðastliðið ár. Meginrök meiri hl. yfirdóms fyrir þessum úrskurði eru þau, að samið hafi verið um þetta verð í fyrra, og þar sem fulltrúar bænda og neytenda hafi ekki komið sér saman um verðið nú, skuli það sama gilda næsta ár og þá var samið um, að lítilfjörlegum frávikum undanskildum eða sem nemur til hækkunar um 0,23% á öllum verðlagsgrundvellinum. Það er aðeins einn liður, sem verkar þarna á, því það kom í ljós, að rentur á stofnlánum í Búnaðarbankanum hefðu hækkað um 1,1%. Þetta var niðurstaðan, þó að fyrir því lægju sannanir, að afurðir hefðu minakað á árinu á báðum aðalbúgreinum, þó aðallega sauðfé, rekstrarkostnaður búanna hefði stóraukizt og úrtök viðmiðunarstéttanna sýndu, að vinnuliðurinn ætti að hækka a.m.k. um 22%, og miklu meira ef tilfærð hefði verið vinna grundvallarbúsins eins og búreikningar og vinnumælingar sýndu, að þessir liðir væru. Ekkert af þessu tók meiri hl. yfirdóms til greina, þrátt fyrir fyrirmæli l. Og eins og áður segir, var úrskurðurinn þannig, að það sama skyldi nú gilda, sem samið var um í fyrra, og af því leiðir, að bændur eiga nú að fá eftir öðrum leiðum en í gegnum sjálft verðlagið svipaða fjárupphæð og fulltrúar bænda sömdu um í fyrrahaust við ríkisstj., en vegna þessara samninga var það réttlætt, að verðið á búvöru hækkaði þá ekki nema um 10,8%.

Það hefur alltaf verið regla í sambandi við verðlagningu fram að þessu, að verð á ull og gærum væri miðað við heimsmarkaðsverð á vörunum á hverjum tíma. Hefði verðlagningin verið gerð, eins og lög mæla fyrir, í septembermánuði — þá var heimsmarkaðsverð á gærum rétt undir 20 kr. kílóið og á ullinni 8,33 kr., — hefði verið farið eftir þessari reglu, hefði kindakjötið átt að hækka sem þessu nam. Þessi tilfærsla hefði numið í heild ekki minni upphæð en 40 millj. Nú segir í niðurstöðu grg. meirihl. yfirdóms, að verð á ull og gærum hafi verið ákveðið eftir að gengisfellingin var gerð og með fullu tilliti til áhrifa, sem af gengisfellingunni leiðir. Til þess enn þá að undirstrika það betur, að þetta hafi verið gert, leyfi ég mér að lesa hér svolítið úr niðurstöðu grg. oddamanns yfirdómsins, með leyfi forseta.

„Loks er að geta þess, að ákvörðuninni um verðlag á ull og gærum var einnig af hálfu Sexmannanefndar skotið til yfirnefndar og um þessi atriði fékk yfirnefndin gögn um söluhorfur, og eftir að gengisbreytingin var komin, kannaði hún einnig fáanleg gögn til þess að geta gert sér grein fyrir því, hver gengishagnaðurinn yrði á ull og gærum, og hvert yrði sennilegt útborgunarverð þeirra.

Voru yfirn. og flutt þau skilaboð frá ríkisstj., að athugað hefði verið að gengishagnaðurinn á landbúnaðarvörum mundi renna til landbúnaðarins, fyrst og fremst til verðuppbótar á ull og gærum af framleiðslu verðlagsársins 1967–1968. Verð á nefndum framleiðsluvörum var ákveðið með tilliti til þessara atriða“.

Þarna kemur fram, svo ekki verður um deilt, að hæstv. ríkisstj. er búin, samkvæmt áður greindum skilaboðum, að ráðstafa öllum gengishagnaði landbúnaðarvara, ekki í þágu bændanna, eins og hæstv. landbrh. var búinn að lýsa yfir, að gert yrði, og lögin um gengisráðstafanirnar mæla fyrir um, heldur til þess að borga kjöt niður til neytenda. Gengishagnaðurinn er áætlaður um 40 millj. kr., og er það svipuð tala eins og kostar að borga kjötið niður, miðað við þær upplýsingar, sem liggja fyrir. En samkv. 4. gr. laga nr. 69 1967 skal verja gengishagnaði til atvinnuvega, sem eiga viðkomandi afurðaandvirði. Af þessu leiðir, að við eigum einnig þarna fullan rétt til þess að gera kröfu um allan þennan gengishagnað, án tillits til niðurgreiðslu ríkisstj. á kjöti, það er hennar mál. Þessi tvö atriði ættu að nema a.m.k. 100 millj., og þá er rétt að athuga það, hvernig á að ráðstafa þessum fjármunum, og það er það, sem við leggjum til í þessum till., sem hér liggja frammi. Það er í fyrsta lagi að borga niður kjarnfóðrið. Eins og allir vita, sem þekkja inn á þessi mál, er það ekki nema um helmingurinn af því kjarnfóðri, sem bændur nota nú, sem er viðurkennt í verðlagsgrundvallarverðinu. Það er ekki okkar meining, eins og sumir hafa skotið að mér, að við ætlum að fá þetta tvisvar borgað, heldur það, að þeirri verðlagningu, sem nú er verið að gera í sambandi við áhrif gengisfellingarinnar, verði sleppt, eða að horfið verði að því ráði, sem við teljum sjálfsagt, að borga kjarnfóðrið niður.

Eins og allir vita, var s.l. sumar ákaflega erfitt, og heilir landshlutar fengu mikið minna heyfóður heldur en venja er til. Þetta gildir sérstaklega um Norð-Austurland, en þó mun það vera yfirleitt þannig um allt land. Í sambandi við athuganir um, hvernig hægt væri að koma búpeningi bænda áfram í vetur, þá var stjórnskipuð nefnd, sem fékk málið til athugunar, og bæði blöð og þessi nefnd ráðlögðu bændunum að setja á kjarnfóður. Þetta var gert, og eftir að þessi gengisfelling hefur verið gerð, fullyrði ég, að það er stór hópur bændanna, a.m.k. á Norð-Austurlandi, sem horfir upp á greiðsluvandræði nema eitthvað sérstakt komi til. Ég geri ráð fyrir því, að það verði bent á það hér á eftir, að það hafi verið hlaupið undir bagga með þeim, sem verst voru settir, með lánum og styrkjum til þess að flytja fóður í sín héruð, en ég verð að benda á, að það mun nægja mjög skammt eftir þá verðlagningu, sem nú hefur farið fram, og eftir þá dýrtíðaröldu, sem nú er að rísa. Í sambandi við 2. lið þá vita það sjálfsagt allir þm., að það vantar töluvert mikið á það, að bændur fái það verð, sem verðlagsgrundvöllurinn kveður á um fyrir framleiðsluárið 1966–1967. Það mun vanta um 34–35 millj. kr. til þess að þeir nái þessu verði. Ég tel, að við séum ekki að biðja um neitt nema það, sem við eigum kröfu á í þessu sambandi. Í sambandi við 3. lið þá ætla ég — sem sýnishorn af því ástandi, sem er að skapast í sambandi við gengisbreytinguna fyrir ýmis félagasamtök bændanna, að leyfa mér að lesa hér upp bréf, sem mér barst frá ráðunaut Búnaðarsambands Eyjafjarðar, Ævari Hjartarsyni, um hvernig ástatt er um sambandið og þá starfsemi sem þeir reka þar.

„Bygging SNE fyrir verkstæði og skrifstofur ráðunauta kostaði fullgerð um 4,1 millj. kr., þar af er lán frá stofnlánadeild Búnaðarbankans 1 millj. 560 þús. kr. Afborganir og vextir voru um 148 þús., en verða nú 197 þús. Þessi hækkun er fjárhag BSE nógu erfið, þó að ekki komi annað til. Annað lán frá stofnlánadeildinni vegna skurðgröfukaupa nemur 420 þús. kr., og einnig fengum við erl. lán, franskt, að upphæð 600 þús. kr. Vél þessa gerðum við út í sumar og miðuðum rekstur hennar við það gengi, sem þá var eftir verðstöðvun. Við höfum þegar selt vinnu vélarinnar með ákveðnu verði og höfum því enga möguleika til þess að mæta þeim hækkunum, sem gengisfellingin hefur í för með sér.

Ræktunarsambönd og búnaðarsambönd eru ekki rekin með það fyrir augum, að um gróða sé að ræða, heldur miklu fremur sem þjónustufyrirtæki, þó þannig, að þau geti staðið undir öllum venjulegum rekstri. Það er því ljóst, að ekki er um nema tvennt að velja, að hætta öllum rekstri hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar eða reyna að fá aukið rekstrarfé eða bein fjárframlög til starfseminnar. Eftir því sem ég þekki til, þá munu svipaðir örðugleikar vera fyrir hendi hjá fleiri búnaðarsamböndum, því miður. Af erl. láninu tók bankinn 75 þús. kr. sem geymslufé, þangað til lánið er að fullu greitt. Lánsupphæðin, sem til okkar kom, er því þeirri upphæð lægri. Eins og hv. alþm. er kunnugt eftir þann dóm, sem landbúnaðurinn hefur fengið um sína verðlagningu, er nú ekki glæsilegt fyrir sveitirnar, ef þarf að stórhækka vinnu, t.d. bæði jarðýtna og skurðgrafanna, því að það hlýtur öllum að vera ljóst, að þessi hækkun hlýtur að koma og getur hvergi komið nema á bændastéttina í landinu.“

Ég ætla nú ekki að ræða þetta mikið frekar. (Gripið fram í.) Ekki alveg, en ég geri ráð fyrir því, að það fari ekki fram yfir þá upphæð, sem ég nefndi áðan, eða ég tel, að við gerum kröfu til, þ.e.a.s. gengishagnaðinn, sem hæstv. ríkisstj. er búin að mínu viti að ráðstafa í niðurgreiðslu á kjöti og þær hliðarráðstafanir, sem gerðar voru í fyrra. Ég geri ráð fyrir, að það muni vera líkt með þessa þrjá liði.

Þá er ég hér flm. að V. brtt. á þskj. 202, ásamt Birni Jónssyni, Ingvari Gíslasyni og Gísla Guðmundssyni. Brtt. er við 6. gr., XXXIX. Nýr liður: Að greiða kostnað, allt að 10 millj. kr., við búfjárskipti vegna hringskyrfis, ef ákveðin verða á árinu 1968.

Ég ræddi þetta mál við hæstv. fjmrh. seint í dag, en þá var þessi till. komin í prentun, og fyrst henni var hér útbýtt, þá mun ég ræða hana, en hann taldi, — og það er bezt, að það komi fram — að það væri heimild fyrir þessu í sambandi við búfjársjúkdómanefnd eða þau lög, sem um hana fjalla, að greiða kostnað, ef ákveðin yrðu búfjárskipti vegna þessarar veiki, en eins og öllum er kunnugt, þá barst hún hingað til lands í fyrrahaust eða 1966 að Grund í Eyjafirði með dönskum fjósamanni, og hefur hún hlotið þetta nafn, hringskyrfi.

Það var ætlan sumra, að hægt væri að hindra útbreiðslu þessarar veiki og voru reyndar hafnar lækningar með miklum tilkostnaði, en eins og hv. alþm. er kunnugt, þá er þessi sjúkdómur það hvimleiður, að fólk getur tekið hann og borið, eins og ég sagði áðan. Tóku nokkuð margir í Eyjafirði þessa veiki, einkum fyrst, eitthvað um 20 manns, og hún er mjög leiðinleg og tekur töluverðan tíma að lækna hana. T.d. sýktist annar dýralæknirinn okkar, eða sá, sem hefur reynt að lækna þessa veiki. Veikin barst bæði í Grundarplássið og eins í Höfðahverfi á tvo bæi, Grund og Grýtubakka. Það hefur verið reynt að girða af þessi svæði, en um þessar ráðstafanir er margt hægt að segja og flestir, sem til þekkja, hafa gagnrýnt alla þessa framkvæmd mikið, en ég ætla nú ekki að fara að flytja langt mál hér um þetta. Í haust varð það svo að ráði, að öllu sauðfé á þessum bæjum og hrossum var slátrað og í fyrravetur var slátrað kálfum og kvígum, sem Snæbjörn á Grund átti, það var fyrsti niðurskurðurinn. Mörgum þótti þessi ráðstöfun dálítið undarleg, vegna þess að það höfðu ekki verið nema 2 kindur, sem höfðu tekið veikina og e.t.v. 1–2 bross, en svo var byrjað á því að skera niður þær skepnur, sem voru heilbrigðar, en sjúku skepnurnar látnar lifa. Dýralæknir mun hafa skýrt þetta þannig, að það væri miklu erfiðara að fylgjast með hrossum og sauðfé, þau færu víða, og það var skýringin á þessari ráðstöfun. Nú er þannig komið, að út fyrir þessa girðingu hefur veikin borizt. Ég fékk það staðfest hjá yfirdýralækni í gær eða fyrradag, að hún er komin að Möðrufelli, og veit enginn um, hvort hún á nú eftir að koma upp á fleiri bæjum þar í kring. Mér finnst því full ástæða til þess að það liggi a.m.k. ljóst fyrir á hinu háa Alþingi, hvort heimild er til þess í fjárlögum eða lögum að fara út í niðurskurð og kosta hann af ríkinu. Þess vegna komum við fram með þessa till. Sumir hafa gert mjög lítið úr þessum veikindum, en sem eitt dæmi vil ég segja ykkur frá því, að sláturhússtjórinn hjá KEA taldi, að ekki mundi verða hægt að fá fólk til að slátra þessum sjúku gripum, a.m.k. yrði ákaflega erfitt að fá nokkurn til þess. Á þessu sést, hvað það gæti verið alvarlegt, ef sjúkdómurinn breiddist út um landið.

Hv. 2. þm. Vesturl. sagði í sinni framsöguræðu áðan eitthvað á þá leið — það átti að vera einhver afsökun fyrir því, hvað litlar fjárhæðir eru veittar til hinna ýmsu skóla úti á landsbyggðinni — að það hefði ekki legið fyrir nein greiðslutrygging frá hlutaðeigandi sveitarfélagi. Ég hef nú verið að reyna að fá fjárveitingu til nokkurra skóla í mínu kjördæmi, og ég veit, að a.m.k. frá sumum af þessum skólum er alveg full greiðslutrygging fyrir hendi, þannig að slíku er ekki hægt að bera við. Það liggur líka fyrir, t.d. með Þelamerkurskólann, að þeir ætla þar að hefja framkvæmdir, þrátt fyrir litla fjárveitingu, eða aðeins 250 þús. kr., svo framarlega sem þeir fá leyfi til þess að byggja. Og þessir menn gera það ekki að gamni sínu. Þeir gera það vegna þess, að það er ekki hægt að koma unglingum neins staðar í skóla. Þó að hæstv. menntmrh. segði það hér á þingi um daginn, að næg skólavist væri fyrir þessa unglinga, þá er það nú þannig á Akureyri a.m.k., eftir því sem skólastjóri hefur sagt mér og ýmsir foreldrar, að það er orðið alveg gersamlega ómögulegt að koma unglingum inn í Gagnfræðaskólann á Akureyri vegna rúmleysis. Þannig er nú málið, og það er ekki einungis í Hörgárdal, það er einnig í Eyjafirði og sjálfsagt víðar á landinu. Ég vil því alveg mótmæla þessari afsökun. Það er náttúrlega ekki allt hægt að gera, það er annað mál, og það eru ekki fjármunir til alls. En að halda því fram, að það sé fyrir það, að hrepparnir eða hlutaðeigandi aðilar úti í dreifbýlinu hafi ekki tilbúið sitt fjármagn, það er í þessum tilfellum a.m.k. ekki réttmætt.

Að endingu vil ég spyrja hæstv. fjmrh. að því vegna þess, að ég er mikið um það spurður þessa dagana í sambandi við strandferðaskipabyggingu, hvort það sé nokkuð ráðið, hverjir fái að byggja þessi skip. Mér er sagt af þeim, sem hlut eiga að máli þar norður á Akureyri, að þeir muni vera þeir lægstu hér á landi í sínu tilboði, og þar vantar verkefni. Það er mikill áhugi fyrir þessu máli og má segja það, að skipaiðnaðurinn á Akureyri standi og falli með því, hvort þetta fæst nú. Ég óska eftir því, ef eitthvað hefur gerzt í þessu máli, að fá svar við því hér, ef það er hægt. Ég hvet mjög til þess, jafnvel þó það verði eitthvað dýrara að láta byggja hér innanlands, að gera það heldur en að semja við önnur fyrirtæki, nema þá, að munurinn sé það mikill, að talið sé réttlætanlegt.