19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

1. mál, fjárlög 1968

Frsm. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. út af því, sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan í sambandi við tillöguflutning okkar í minni hl. fjvn. Í fyrsta lagi vil ég benda á það, að fjárl. hafa meira en fjórfaldazt á 8 árum. Það hefur þó engin till. verið samþ. frá okkur í minni hl. hér á hv. Alþ. á þessu tímabili, svo að nemi nema þá einhverjum tugum þús. Á þessu fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, gerum við nú tillögur um að mega ráðstafa 1–2%. Það þykir ofrausn. Í því sambandi vil ég benda á það, að af þessum 130 millj., sem við í minni hl. leggjum til, eru 32 millj. til vegamála, sem er ekki nema leiðrétting á samkomulagi því, sem gert var 1963 og ég hef oft vitnað til. Það er því ekki nein ofrausn, þó að tæpur helmingur þm. fengi að ráðstafa 2% af fjárl. Í sambandi við tekjuáætlunina vil ég segja það, að vel getur farið svo um stjórn hæstv. ríkisstj. á efnahagsmálum þjóðarinnar á árinu 1968, að þar gangi allt úr skorðum, svo að tekjurnar skili sér ekki. Hitt er reynsla okkar af tekjuáætlun hæstv. ríkisstj. og Efnahagsstofnunarinnar, að þær hafa ekki reynzt þannig, að verulega sé hægt á þeim að byggja. Og ég minnist þess, að þegar hæstv. fjmrh. talaði við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1966, viðhafði hann sömu orðin um hæpna tekjuáætlun, en fékk nærri 900 millj. kr. fram yfir þá áætlun. Þess vegna verðum við að taka þessa áætlun með hæfilegri varúð og gerum heldur ekki mikla tilraun til að hafa áhrif á ráðstöfun á ríkistekjunum, þó að þessar till. okkar séu fram bornar, og ég vil taka undir það með hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefssyni, að það er okkar stefna, að hv. Alþ. ráðstafi ríkistekjunum, en ekki hæstv. ríkisstj. Þess vegna viljum við gera tilraun til þess í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, að það sé Alþ., sem ráðstafi ríkistekjunum, en ekki hæstv. ríkisstj., eins og hæstv. fjmrh. vék að.

Að lokum vil ég segja það, að það er ekki fyrir áhrif frá okkur í stjórnarandstöðunni, sem lánsfé bankanna hefur verið dregið undir ríkisyfirráðin, eins og gert hefur verið á viðreisnarárunum og stefnt mun vera að á þessu næsta fjárlagaári, þó að till. okkar um heimildir hæstv. ríkisstj. verði felld.