12.02.1968
Efri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

121. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti: Þó að það væri nú ýmislegt, sem fram kom í framsöguræðu hv. 11. þm. Reykv., sem í sjálfu sér gæfi tilefni til aths., mun ég ekki lengja umræður hér með því að fara út í það, enda mun sjálfsagt hin almenna hlið efnahagsmálanna koma til umr. hér í hv. d. síðar. En ástæðan til að ég stend hér upp er eingöngu sú, að ég vildi gefa nokkru frekari upplýsingar um 1. brtt. fjhn. heldur en ég gerði í framsöguræðu minni. Nú er það að vísu þannig, að hv. 11. þm. Reykv. hefur þegar að verulegu leyti tekið af mér ómakið í því efni. Ég er sammála öllu, sem hann sagði um það atriði, og get vísað til þess. En ég tel þó rétt, fyrst þetta hefur verið rætt sérstaklega og á meðan nánari upplýsingar liggja ekki fyrir, að upplýsa það, að eins og nú er, er 40–50% tollur á umbúðum um kaffi, sem kaffibrennslurnar hér nota. Hins vegar er kaffi tollfrjálst, óháð því, hvort það er flutt inn án umbúða eða í umbúðum, þannig að ef þetta væri óbreytt, mundi vera um það að ræða, að kaffibrennslurnar hefðu heinlínis neikvæða tollvernd, en það þótti okkur ekki sanngjarnt.

Nú hefði auðvitað verið hægt að fara þá leið að fella alveg niður tolla af þessum umbúðum, en það hefði orðið miklu stærra mál, og ég skal ekki segja, hvort það hefði verið hægt af tolltæknilegum ástæðum, því að vera má, að þetta efni sé notað í ýmislegt annað. Eftir því, sem okkur var tjáð í fjhn., þegar þetta mál var rætt þar með sérfræðingum, hefur innflutningur á kaffi í smásöluumbúðum verið tiltölulega lítill,

þannig að á vísitölu á kaffiverð ætti þetta ekki að hafa teljandi þýðingu, en það er auðvitað veruleg hætta á því, einmitt vegna gengislækkunarinnar og hins háa tolls, að þessi innflutningur hefði aukizt eða mundi aukast, ef þetta væri óbreytt, og það töldum við óeðlilegt með tilliti til innlendu kaffibrennslanna.