12.03.1968
Neðri deild: 74. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

45. mál, alþjóðasamþykkt um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að staðfesta fyrir Íslands hönd alþjóðasamþykkt um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna, sem gerð var í Brüssel 10. okt. 1957, var lagt fram í þessari hv. d. á síðasta þingi, en varð þá ekki útrætt. Að þessu sinni hefur þetta sama frv. verið lagt fram í hv. Ed. og hlotið afgreiðslu þar. Sjútvn. þessarar hv. d. taldi rétt að taka upp þráðinn, þar sem frá var horfið við athugun málsins í fyrra, en þá hafði verið fengin allýtarleg umsögn um málið frá Íslenzkri endurtryggingu, sem mælti eindregið með því, að Ísland gerðist aðili að umræddri alþjóðasamþykkt um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna. Einnig hafði farið fram nokkur athugun á þýðingu á alþjóðasamþykktinni, sem fylgir á fskj. með frv., og kom í ljós, að þar þurfti að gera mjög verulegar leiðréttingar. Eftir að málið kom á ný til sjútvn. þessarar d., var unnið að því að fá nýja þýðingu á alþjóðasamþykktinni, og hygg ég, að það hafi nú þannig til tekizt, að vel megi við una. Er það önnur breytingin, sem n. leggur til, að gerð verði í sambandi við þetta þskj., að það komi í fskj. nýr íslenzkur texti á þýðingunni á alþjóðasamþykktinni. Einnig kom í ljós, að í frv. vantaði íslenzkan texta með fyrirvara þeim, sem gerður er af Íslands hálfu um þessa samþykkt. Leggur n. til, að sá fyrirvari verði þannig í íslenzkri þýðingu, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. Íslands áskilur sér rétt til:

1. að setja í lög landsins sérstök ákvæði, er kveði á um það, með hverjum hætti reglunni um takmarkaða ábyrgð verði beitt, að því er tekur til minni skipa en 300 rúmlesta;

2. að láta alþjóðasamþykkt þessa öðlast gildi annaðhvort á þann hátt að veita henni lagagildi eða með því að taka ákvæði hennar upp í lög landsins í því formi, sem samrýmist slíkum lögum.“

Þetta síðasta atriði er mjög mikilvægt, vegna þess að hér er ákveðið að fara þá leið að taka ákvæði alþjóðasamþykktarinnar upp í lög landsins, þannig að hún verður ekki af sjálfu sér að lögum, þó að við staðfestum hana. Ákvæði alþjóðasamþykktarinnar fá því aðeins lagagildi hér á landi samkv. þessu, að þau séu felld inn í íslenzk siglingalög. Þetta er lagt til, að jafnframt verði gert með frv. til l. um breytingu á siglingalögum, sem einnig liggur nú fyrir hv. d.

Um fyrra atriðið í fyrirvaranum, þ.e. með hverjum hætti reglunni um takmarkaða ábyrgð verði beitt, að því er tekur til minni skipa en 300 rúmlesta, mun ég ræða, þegar kemur að því að fjalla um frv. til l. um breyt. á siglingalögunum. Eins og nú hagar samkv. þeim siglingalögum, sem í gildi eru, er ábyrgð útgerðarmanna takmörkuð við tvöfalt andvirði skips og farms að viðbættum 10%. Þessa upphæð getur oft verið erfitt að ákvarða, sérstaklega ef um gömul skip er að ræða og af ýmsum fleiri ástæðum. Ákvæði Brüssel-samþykktarinnar aftur á móti, sem nú er lagt til, að Ísland gerist aðili að, eru um þetta atriði skýr og ótvíræð, því að þar er ábyrgðin miðuð við ákveðnar upphæðir á hverja rúmlest í skipinu.

Þessi breyting mundi þýða það, að gagnvart erlendum aðilum, sem kynnu að eiga kröfur á hendur íslenzkum skipaeigendum, mundi hámarksábyrgðin lækka til muna. Ef tekið er dæmi af 500 lesta skipi, að verðmæti 20 millj. kr., er hámarksábyrgðin samkv. þeim reglum, sem nú gilda, 20 millj. kr. margfaldað með 2,2 eða 44 milljónir kr. Eftir Brüssel-samþykktinni mundi hámarksábyrgð vegna sama skips vera 500 margfaldað með 3100 frönkum — en þar er átt við þá franka, sem við er miðað í samþykktinni og kallaðir eru Poincaré-frankar — margfaldað enn með 3,78, en það er gengið á þeim franka í ísl. kr. núna eða 5 millj. 890 þús. kr. — eða rétt innan við 6 millj. kr. í staðinn fyrir 44 millj. kr. Það er alveg augljóst af þessu, að þetta getur haft mjög mikla þýðingu fyrir íslenzka hagsmuni, þegar þannig er komið, að íslenzk skip ferðast víða um heimsins höf og geta þess vegna oft lent í árekstrum eða valdið tjóni utan umráðasvæðis okkar, enda mun vera a.m.k. eitt nýlegt dæmi þess, að íslenzkt skip þurfti að greiða fleiri tugi millj. kr. í bætur, af því að við vorum ekki aðilar að Brüssel-samþykktinni.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að fjölyrða meira um alþjóðasamþykktina. Efnislega koma breytingarnar fram, eins og ég gat um, í frv. til l. um breyt. á siglingal., og mun ég síðar víkja að þeim — a.m.k. að því er snertir þær brtt., sem sjútvn. flytur við það frv. Sjútvn. ræddi þetta mál oftar en einu sinni við dr. jur. Þórð Eyjólfsson, sem samdi frv. til l. um breyt. á siglingal., og fékk hjá honum ýmsar greinargóðar upplýsingar og skýringar. Leggur n. einróma til, að frv. um staðfestingu á alþjóðasamþykktinni um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna verði samþ. með þeim breytingum, sem n. stendur öll að og ég hef nú lauslega gert grein fyrir.