21.11.1967
Neðri deild: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

46. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi voru gerðar talsverðar breytingar á l. um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu og verðmiðlun og verðlagningu á landbúnaðarvörum. Ég tel ekki ástæðu til að ræða þessar breytingar. Þær munu yfirleitt vera taldar til bóta, og hef ég ekki orðið var við ágreining um það. Í því sambandi vil ég þó geta þess, að nú er beinum orðum sagt, að rannsaka skuli vinnu á meðalbúi, grundvallarbúi, eins og það mun vera orðað, bæði bóndans og skylduliðs hans og hjúa. Þetta er eitt meginatriðið, til þess að hægt sé að finna sem réttlátastan grundvöll til að byggja á og úrskurða vöruverðið hverju sinni.

Það hefur lengi verið um deilt, hver vinna væri raunverulega á meðalbúi. Bændur hafa talið, að hún væri vanreiknuð. Sumir neytendur hafa álitið, að hún hlyti að vera ofreiknuð. Þess vegna er það mjög áriðandi að finna þarna sem allra réttlátastan og útreiknaðan grundvöll til að miða vöruverðið við.

Þess er einnig að geta, að á síðasta ári voru gerð lög um búreikningaskrifstofu landbúnaðarins og eitt með öðru, sem henni er ætlað að gera, er það að gera mælingar á þeirri vinnu, sem fer til þess að framfleyta meðalbúi árlega. Áður var að vísu til búreikningaskrifstofa á vegum Búnaðarfélagsins, en vinnubrögð þessarar skrifstofu eru með allt öðrum hætti. Þessi skrifstofa hafði á síðasta hausti ekki starfað nema aðeins 1/2 ár og þess vegna er ekki hægt að byggja á hennar niðurstöðum við útreikning á vöruverði haustið 1967. En í þeim l., sem ég nefndi, þ.e.a.s. breytingunni á framleiðsluráðsl. í fyrra, var gert ráð fyrir því, að haustið 1966 yrði síðasta haust, sem búvöruverð yrði ákveðið til eins árs. Nú er gert ráð fyrir að ákveða það til tveggja ára í senn.

Í þeim l., sem ég nefndi, segir beinum orðum: „Þó gildir verðlagsgrundvöllur, sem ákveðinn verður haustið 1966, aðeins eitt ár.“

Hér í þessu frv. er lagt til, að þessu verði breytt, og fyrir 1966 komi 1967, vegna þess að haustið 1967 er ekki hægt að styðjast neitt verulega við rannsóknir búreikningaskrifstofunnar, sem að allra manna áliti er mjög mikilsvert til að finna hið raunverulega verð. Ég tel mjög mikilsvert, að þau gögn, sem við er miðað, bæði þetta og annað, þegar verð landbúnaðarvara er ákveðið, séu sem allra réttust. Gildandi lög ætlast til þess, að bóndinn fái fyrir vinnu sína sams konar verð eins og verkamaður, iðnverkamaður og sjómaður að því undanskildu þó, að ekki skuli miða við ákvæðisvinnu verkamanna og iðnaðarmanna né heldur aflahlut sjómanna. Ég ætla, að enginn telji óréttlátt, að bóndinn fái fyrir sína ársvinnu eigi minni laun heldur en verkamaðurinn eða menn í þessum viðmiðunarstéttum og er í sjálfu sér ekki ágreiningur um það. Þess vegna er það, eins og ég sagði áðan, ákaflega mikilsvert að finna hinn raunverulega og rétta grundvöll undir landbúnaðarverðið, og þeir, sem skipa landbn. Nd., urðu sammála um það að leggja til, að þessi breyting á framleiðsluráðsl. verði samþ. með það fyrir augum, að hér eftir verði naumast deilt um það, hver vinnuhlutur bóndans sé eða vinnuframlag bóndans sé á meðalbúi. Leggur n. því til samróma, að frv. þetta verði samþykkt.