22.03.1968
Neðri deild: 80. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er eitt og annað, sem komið hefur fram í ræðum hv. talsmanna minni hl. fjhn., sem hefði verið fróðlegt og freistandi að gera aths. við, en ég skal reyna að lengja ekki þann tíma, sem í þetta fer — enda eru fáir hv. þm. hér viðstaddir — og stofna ekki til langra umr. af þessu tilefni. Ég held, að það sé ljóst, að það var töluvert áberandi munur á málflutningi hv. talsmanna minni hl., því að annar þeirra, hv. 4. þm. Austf., sýndi þó viðleitni til þess að ræða málið eins og það lá fyrir á málefnalegum grundvelli, enda þótt eitt og annað kæmi fram í hans ræðu, sem ég er ósammála; það er allt annað mál. En því miður lét hinn talsmaður minni hl., hv. 5. þm. Austf., undan þeirri freistingu, sem töluvert virðist þjá hv. framsóknarmenn og virðist lengi hafa gert, að vilja ekki horfa á málið, eins og það liggur fyrir, heldur leggja meira upp úr almennu narti um alls konar atriði, finna að öllu, sem fram kemur, án þess að horfast í augu við vandann, sem við er að fást, og leggja sig fram um það eitt að finna allt til foráttu því, sem gert er.

Nú er það eitt út af fyrir sig að finna að þeim till., sem fram koma. Það er ekkert við því að segja. En það verður að ætlast til þess, að hv. þm., sem það gera, sýni einhverja viðleitni í þá átt að benda á, hvað átti að gera annað. Það tjóar auðvitað ekki að segja sem svo, að allt hafi verið í óstjórn og vandræðum, stjórnarstefnan vonlaus og annað þar fram eftir götunum og vegna þess þýði í raun og veru ekki að taka málefnalega á neinu vandamáli eða till. frá ríkisstj., sem fyrir liggja. Þannig er auðvitað ekki hægt að meðhöndla mál. Og þegar þess er gætt, að hv. þm. annað veifið taldi þetta frv. skipta ákaflega litlu máli og hafa ekki í för með sér neina raunverulega efnisbreytingu eða neinn raunhæfan sparnað — en taldi þó ástæðu til þess að finna að flestum einstökum atriðum þess sem ómögulegum - þá finnst manni óneitanlega, að þessar röksemdir, ef röksemdir skyldi kalla, fari að stangast nokkuð á.

Það má auðvitað endalaust um það deila, hvort við hefðum átt að taka þessar lækkanir eða einhverjar aðrar. Um það getum við lengi talað, og það er hægt að rökræða það. En ég held, að það verði með engu móti hægt að komast fram hjá þeirri staðreynd, að okkur vantar þá umræddu fjárhæð, sem hér er talað um — þessar 200 millj. kr. Og þá tjóar auðvitað ekki að hafa á móti öllum þeim sparnaðarleiðum, sem farnar eru, telja þær annað hvort einskis nýtar eða óhafandi af öðrum ástæðum og finna jafnframt að því, að verið sé áð fjármagna með lánum það, sem á vantar. Þetta tjóar ekki, nema því aðeins að menn annaðhvort komi með till. á móti til þess að brúa þetta bil — nýjar sparnaðartill. eða niðurskurðartill. eftir atvikum eða þá telji það eðlilegt, sem einnig má hugsa sér, að mæta þessum vandá með nýjum sköttum. Í þriðja lagi gæti verið æskilegt að fá fram, hvort menn, sem halda svona málstað fram og hafa í frammi svona málflutning, eru e.t.v. þeirrar skoðunar, að það sé algerlega ástæðulaust að afla þess fjár, sem gert er ráð fyrir að afla nú til aðstoðar útgerðinni. Ef það sjónarmið er fyrir hendi, er skiljanlegt, að menn geti fett fingur út í það, sem er gert, og telji ástæðulaust eða til ills að gera það, sem hér er gert ráð fyrir. En mér skildist hv. þm. efnislega vera á móti meginhluta þess, sem í þessu frv. felst. Þetta tjóar auðvitað ekki. Það er ekki hægt að leyfa sér þá afstöðu í miklu vandamáli, eins og hér er tvímælalaust um að ræða, nema því aðeins að menn séu sjálfum sér samkvæmir og annaðhvort komi með till. til sparnaðar á móti eða leggi til, að skattaálögur séu auknar — eða í þriðja lagi játi, að það sé ástæðulaust að vera að afla þessara tekna, vegna þess að ekki þurfi að leggja í þau auknu útgjöld til aðstoðar sjávarútveginum, sem gert er ráð fyrir. Menn geta með engu öðru móti komizt undan þessum vanda, því að það er ekki hægt að láta ábyrgum mönnum — sem ég efast ekkert um, að hv. þm. vilja vera — líðast að halda bara uppi almennu nöldri og gagnrýni á hvern lið í því, sem lagt er til, en benda ekki á nein úrræði.

Ég verð að játa, að töluvert aðra sögu er að segja um hv. 4. þm. Austf. Hann hafði ýmislegt út á þetta mál að setja, en í meginefnum held ég, að ekki sé of í lagt, að hann hafi talið, að stefnt væri í rétta átt, þó að hann telji, að það hefði kannske mátt gera eitthvað af þessu fyrr. Það er önnur saga, og getum við lengi um það rætt. En að því leyti, sem hann taldi sig ekki geta fallizt á þær till., sem felast í þessu frv., sýndi hann þó ákveðna viðleitni í þá átt að benda á aðra útgjaldaliði fjárl., sem hann teldi, að ætti að fella niður. Þannig að segja má, að hann hafi brúað það bil, sem myndaðist, ef till. hans um að fella út lækkunartill. í frv., yrðu samþykktar. Það er svo annað mál, eins og hann líka réttilega sagði, að auðvitað má endalaust um það deila, hvað sé framkvæmanlegt að gera í þessu efni og mismunandi sjónarmið, sem þar komi til greina.

Það er eitt atriði, sem ég vildi sérstaklega víkja að og kom fram hjá báðum þessum hv. þm. Það var í sambandi við Fiskveiðasjóð. Hv. 4. þm. Austf. taldi, að yrði framlag til Fiskveiðasjóðs og Aflatryggingasjóðs afnumið, væri í rauninni um lögbrot að ræða. Ég get ekki fallizt á það. Það er að vísu rétt, að í Aflatryggingasjóði er gert ráð fyrir ákveðnu framlagi, en það er ekki um neitt slíkt að ræða varðandi Fiskveiðasjóð; framlag til Fiskveiðasjóðs hefur jafnan verið ákveðið af fjárlagagjafanum hverju sinni. Það, sem efnislega skiptir máli í þessu sambandi og nauðsynlegt er, að hv. þm. geri sér grein fyrir, er að framlagið til Fiskveiðasjóðs var alltaf dregið frá, þegar verið var að ræða um aðstoðina við sjávarútveginn eftir áramótin, þanni að það fer eftir atvikum, hvaða tölu við nefnum. Ég kaus að nefna töluna að meðtöldu fiskveiðasjóðsframlaginu, en fella það síðan burtu í þessum sparnaðartill., vegna þess að það þurfti með einhverjum hætti að fella það út úr fjárl. Það hefur ekki verið komið aftan að neinum í sambandi við Fiskveiðasjóð, því að framlagið var reiknað með í því dæmi, þegar var verið að ræða um aðstoðina við sjávarútveginn eftir áramótin, og alltaf gengið út frá því, að það framlag félli þá niður. Um Aflatryggingasjóð er það að segja, að það er hárrétt, að dálítið er erfitt að segja nákvæmlega til um fjárþörf hans, en miðað við þær áætlanir, sem fyrir lágu, töldum við gerlegt að framkvæma þessa lækkun a.m.k. á þessu ári, hvað sem síðar verður; það kemur allt til endurskoðunar. En hins vegar er tekið fram, að ekki sé ætlunin með þessu að skerða starfsgrundvöll Aflatryggingasjóðs, en auðvitað kann vel að vera, að það þurfi — fyrr en við höldum — að taka það mál til endurskoðunar. Það skal ég ekki fullyrða um, en að sinni höfum við talið, að auðið væri að koma við þessari lækkun.

Báðir hafa hv. þm. haldið uppi verulegri gagnrýni á till. í frv. um breytta skipun og breytta yfirstjórn fræðslumála. Það er vitanlega rétt, að eðlilegast er að endurskoða fræðslulöggjöfina í sambandi við þessa skipulagsbreytingu. Ástæðan til þess, að þetta er tekið í frv. nú, er fyrst og fremst sú, að það tekur töluverðan tíma að vinna að undirbúningi þessa máls. Alþ. þarf að marka stefnuna í þessu máli, þ.e. hvort það sé sátt við það, að þetta verði gert. Menn gera sér alveg grein fyrir því, að það þarf að framkvæma breytingar og endurskoðun á ýmsum lögum, sem í gildi eru, um fræðslumál, svo að hægt sé að vinna þetta betur og segja til um, hvernig þetta endanlega skal hljóða. En það, sem er ætlazt til nú, og í rauninni liggur á, er, að Alþ. marki stefnuna í því, hvort menn geti fallizt á að sameina fræðslumálaskrifstofuna og undirdeildir hennar menntmrn. Ég er ákveðið þeirrar skoðunar, að þetta sé rétt meginstefna og það megi gera ráð fyrir, að þarna sparist töluvert, því að öll þau bréfaskipti, sem eiga sér stað milli fræðslumálaskrifstofu og menntmrn., eru sannast sagna þess eðlis, að þau eru ástæðulaus, en verða að vera, eins og skipulagið er nú, og á þessu verður ekki nein efnisbreyting. Vitanlega hefur fræðslumálastjóri heyrt undir ráðuneytisstjórann í menntmrn.; það fer ekkert á milli mála. Fræðslumálaskrifstofan er ekki sérstök stjórnardeild, þó að það kunni að vera svo sem hv. 4. þm. Austf. sagði, að ýmsar till. hans gangi beint til ráðh., þá fara þær alltaf um hendur ráðuneytisstjórans, eins og till. annarra slíkra embættismanna. Það má á sama hátt segja um vegamálastjóra, að hann geri margar till. til ráðh. — og einnig aðrir yfirmenn framkvæmdastofnana ríkisins, en formlega heyra þeir auðvitað undir rn. og ráðuneytisstjórann, þannig að á því er engin breyting.

Það hefur verið allmikið talað hér um hækkun ríkisútgjalda, og ég skal ekki fara út í þá sálma. Það yrði allt of langt mál. Bent hefur verið á, að þau hafa hækkað mikið á liðnum árum, og vissulega er það rétt. Ég hef áður vakið athygli á því, að til þess að gera sér grein fyrir, hvort þar er um óeðlilega hækkun að ræða, verða menn að skoða þá þróun, sem hefur orðið í peningamálum og fjármálum í þjóðfélaginu á hverjum tíma — bæði aukningu þjóðartekna og hækkun á verðlagi og kaupgjaldi. Allt þetta verður að skoðast, og ætli menn að gera sér grein fyrir því, hvort orðið hafi óeðlileg aukning í ríkiskerfinu, verður í rauninni að skoða þetta eftir þessum hlutföllum og gera sér grein fyrir, hvort ríkið tekur nú hlutfallslega meira af borgurunum miðað við þjóðartekjur heldur en áður hefur verið. Það gefur auga leið — þó að við tölum um sparnað og viljum auðvitað gjarna koma honum við — að það er svo í öllum vaxandi þjóðfélögum, að útgjöldin hljóta að vaxa, vegna þess að þörf er fyrir aukna þjónustu. Sannleikurinn er sá, að eftir því, sem velmegun eykst í hverju þjóðfélagi, vaxa kröfurnar, sem fólkið gerir um fullkomnari þjónustu. Þetta hefur komið í ljós á mörgum sviðum.

Ég hefði haft mikla löngun til þess að fjalla hér nokkuð um ræðu, sem flutt var við 1. umr. þessa máls af hv. 3. þm. Vesturl., þar sem hann fór með ýmsar tölulegar upplýsingar, sem áttu að sanna óhæfilega útþenslu í ríkiskerfinu, en þar sem hann er hér ekki viðstaddur, mun ég ekki fara út í þá sálma. Þær tölur voru út af fyrir sig ekki rangar, en þessar tölur líta út á mismunandi hátt eftir því, á hvaða forsendum þær eru byggðar. Hann sleppti mjög veigamiklum atriðum, sem þurfti að taka til greina í þessu sambandi og gera það að verkum, að þessar hækkanir eru miklum mun minni heldur en hann vildi vera láta. Þótt ég fari ekki út í þá sálma nú, kemst ég þó ekki hjá —- til þess að koma í veg fyrir, að það valdi misskilningi — að leiðrétta eitt atriði, sem kom fram í ræðu þessa hv. þm. Það var um niðurfellingu á framlagi til hægri umferðar á þessu ári. Í hans ræðu koma fram sá misskilningur, að hann taldi, að ætlunin væri að taka þessar 18 millj. kr. í ríkissjóð, þannig að hér væri verið að leggja á bílaeigendur gjöld til ríkisins, en hins vegar væri ætlunin með þessu frv. að taka lán til að standa undir þessum gjöldum og láta síðan gjöldin af bílunum standa undir láninu. Þetta er mikill misskilningur. Það eina, sem gerist, er það, að tekið er út úr fjárl. framlag, sem ætlunin var, að ríkissjóður yrði að leggja fram á þessu ári, en átti raunverulega að endurgreiðast ríkissjóði með þessum skatti á bílana, vegna þess að skatturinn á bílana dreifist á fleiri ár, en hins vegar er aðalkostnaðurinn við framkvæmdina einmitt á þessu ári. Ég tel nauðsynlegt, að það komi fram, að ekki er ætlunin að taka svo mikið sem eina kr. í ríkissjóð í sambandi við þessa till. í því frv., sem fyrir liggur. Heldur er ætlunin, að í stað þess, að ríkissjóður láni þetta í bili, verði það tekið að láni með öðrum hætti. Þetta tel ég ákaflega eðlilegt, úr því að ríkið hefur ekki, eins og sakir standa, efni á að leggja fram þetta fé til aðstoðar.

Varðandi það sjónarmið, að hér sé ríkisstj. að fallast á rök, sem fram hefðu komið á liðnum árum um sparnað af hálfu stjórnarandstæðinga, skal ég ekki fara langt út í þá sálma. Þau rök hafa öll verið almenns eðlis og yfirleitt aldrei hent á neinar ákveðnar till. í því efni nema till., sem nema sáralitlum fjárhæðum, og sannast sagna vitum við það allir, að þetta tal um auðvelda leið til þess að fella niður ríkisútgjöld er auðvitað meira og minna út í loftið. Það er hægt að koma við margvíslegu aðhaldi og sjálfsagt að gera það í öllum greinum. En við sjáum það bara á þessu frv., sem má segja, að sé ekki sérstaklega stórt í sniðum, að menn reka augun í flesta hluti og telja, að þetta hefði ekki átt að gera. Og ég er ósköp hræddur um — þó að við settum saman frv. með allt öðrum liðum úr fjárl. að nákvæmlega sama gagnrýnin kæmi fram. Af hverju gerðuð þið þetta? Þetta má ómögulega fella niður. Það er hægt að fella eitthvað annað niður. Ég tel, að þetta sé gott, þá erum við yfirleitt ekki með í fjárl. útgjaldaliði, sem hægt er að segja, að séu slíkur óþarfi, að hægt sé að fella þá niður, án þess að það komi við nokkurn.

Ef við viljum viðhafa sparnað, verðum við hins vegar að gera okkur grein fyrir því, að við verðum að vera reiðubúnir til að skera niður einhverja þjónustu. Þó að fjmrh., hvort sem það er ég eða annar, hafi sagt á venjulegum tímum, þegar ekkert sérstakt þrengir að, að erfitt sé að koma við sparnaði, þá stafar það af því, að viðhorfin eru öðruvísi. Og það er eins og annar hv. frsm. minni hl. sagði hér áðan, að þessi vildi halda þessum útgjöldum og annar hinum og erfitt væri að ná saman endum í þessu; það er nákvæmlega það rétta. Þegar menn standa andspænis þeim vanda, sem við er að glíma og allir viðurkenna, horfa menn hins vegar á málin frá öðrum sjónarhóli og gera sér grein fyrir því, að það verður að leggja á sig að skera niður ýmis útgjöld, sem annars væru nytsamleg undir venjulegum kringumstæðum. Og þetta er nákvæmlega það, sem hefur gerzt og er að gerast. Það er alveg ljóst, að við verðum í vaxandi mæli, eins og ég sagði í minni framsöguræðu um þetta mál, að horfast í augu við, að við verðum að halda áfram á þessari braut og það í enn stærri stíl.

Um till. hv. 1. minni hl. fjhn. hef ég ekkert að segja annað en það, að ég tel, að þær komi ekki til álita. Einn liðurinn fjallar um það, að fé það, sem gengur til Landnámsins, skuli notað með allt öðrum hætti. Það er mál út af fyrir sig — sem vel getur verið, að þurfi að hugsa um í sambandi við frambúðarskipun landbúnaðarmála og fjárveitinga til þeirra á næstu árum — hvort féð á að notast til þess eða hins. Ég er alveg sammála hv. 5. þm. Austf. og það gladdi mig raunar að heyra það, að hann sem forustumaður í bændasamtökunum taldi það ekki óeðlilegt að nema nú staðar í stofnun nýbýla. Hins vegar höfum við því miður ekki tök á því, eins og sakir standa, þegar við erum einmitt að leita úrræða til að spara, að ákveða það í þessu frv., að eigi ýmis þau atriði, sem hann taldi hér, eins og fræðslumálin og annað slíkt, ekki heima í frv., þá held ég, að síður eigi hér heima 4. brtt. þeirra um að ákveða nýjar fjárveitingar eða nýja ráðstöfun þessa fjár. Við erum að ræða um möguleika til þess að spara, en ekki um að verja fé til annarra þarfa, þó að ég skuli taka undir, að það, sem í þeirri till. felst, er allt gott og nytsamlegt. Það er önnur saga.

Varðandi till. hv. 4. þm. Austf. get ég vel undir það tekið, að vel sé hugsanlegt, að það sé hægt að spara 4 millj. kr. á lögreglustjórn á Keflavíkurflugvelli í stað 2 millj. kr. En það hefur litla þýðingu að samþykkja slíka till. nú, þegar við sjáum í bili ekki möguleika til að spara með henni. En ég tel alveg sjálfsagt að taka það til nánari athugunar, hvort unnt er að ganga lengra á þessari braut, og það verður tvímælalaust gert, enda þótt það þjóni ekki neinum tilgangi að vera að samþykkja nú auknar lækkunartill., sem við sjáum ekki fram á, að muni skila sér í sparnaði á þessu ári. Það er þá til athugunar framvegis, ef svo má segja.

Hvað utanríkisþjónustunni viðvíkur, get ég persónulega alveg sagt það sama; ég álít, að það geti vel komið til álita að spara meira á utanríkisþjónustunni. En varðandi bæði þá till. og þá næstu, þar sem beinlínis er gengið út frá því að ganga úr Atlantshafsbandalaginu eða fella niður allt framlag til þess og jafnframt að leggja niður sendiráð Íslands hjá NATO, erum við komnir yfir á annan vettvang. Þar er ekki lengur aðeins um að ræða fjárhagslegt atriði, heldur afstöðuna til NATO og utanríkisstefnu Íslendinga, þannig að ég hygg, að hv. þm. geti ekki undrazt það, þó að margir séu ekki reiðubúnir til þess að samþykkja þessa till., þótt þeir vilji aukinn sparnað, ef ekki felst um leið í því ákvörðun um að breyta utanríkisstefnu okkar. Það getum við ekki tekið ákvörðun um í sambandi við þetta frv.

Viðvíkjandi löggæzlunni er ég líka ákaflega hræddur um — þó að ég efnislega geti fallizt á, að sjálfsagt sé að athuga, hvort hægt sé að spara meira — að það reynist jafnvel erfitt að spara þær 6,8 millj. kr., sem við ætlum okkur að spara nú. Bent hefur verið á það, að löggæzluþörf er víða mikil og á þessu ári er sérstaklega hætt við, að hún verði mikil vegna breytingarinnar til hægri umferðar, þannig að ég álít, að það sé algerlega óraunhæft að láta sér koma til hugar, að hægt sé að ganga lengra í þeirri lækkun. Hins vegar gegnir þar sama máli og um áðurnefnd atriði í þessu frv., að ég tel alveg sjálfsagt, að tekið sé til athugunar á þessu ári, hvort hægt sé að ganga lengra á þessari braut, þó að menn séu ekki reiðubúnir til þess að taka þegar jákvæða afstöðu til þessarar upphæðar, því að það tjóar auðvitað ekki að vera að setja inn í frv. alveg óraunhæfar tölur; það býst ég heldur ekki við, að vaki fyrir hv. þm.

Um ríkisbifreiðarnar má segja, að 1–2 millj. kr. ráði ekki úrslitum. En það þótti ekki rétt að ganga lengra en svo, að hægt væri að koma þessu við með eðlilegu aðhaldi, án þess að það þyrfti að valda með því vandkvæðum á næsta ári eða árum.

Varðandi f-lið till. hv. þm. um að lækka almennt rekstrarkostnað ríkisins og ríkisstofnana um 50 millj. kr., verð ég að segja, að það er út af fyrir sig þakkarvert traust að fá þá yfirlýsingu, að heimild fáist frá þinginu til þess að gera slíkar lækkanir án þess að tilgreina nokkra ákveðna liði. Sennilega má gera ráð fyrir því, að fengi fjmrh. hreint umboð til þess upp á eigin spýtur að strika út það, sem hann vildi, væri hægt að ná 50 millj. kr., en að bæta því við, að þetta sé auðvelt að gera án þess að draga nokkuð úr þjónustu við borgarana — ég trúi því ekki, að jafnreyndur maður og hv. þm. láti sér slíkt til hugar koma, því að það vil ég fullyrða, að sé ekki hægt. Þó að þetta sé ekki nema svo og svo lítill hluti af heildarútgjöldum ríkisins, er þetta allveruleg prósenta af rekstrarkostnaði ríkisins í þrengri merkingu, verulega há prósenta. Ég verð því að játa fúslega, þó að það kannske þyki ekki stórmannlegt af minni hendi, að ég treysti mér ekki til á þessu ári að framkvæma slíkan sparnað, þannig að öruggt verði, að hægt sé að fella niður lækkanir í frv. í trausti þess, að auðið sé að koma við sparnaði sem þessum.

Á undanförnum vikum er búið að athuga alla fjárlagaliði, og þar er ekki hægt að finna í bili úrræði til þess að ganga lengra í sparnaðarátt, nema með því að ráðast annaðhvort á framkvæmdaliði eða draga verulega úr ýmiss konar þjónustu við borgarana. Þetta er alveg ljóst. Út í það höfum við ekki viljað fara á þessu stigi, en ég tek það fram, miðað við þær horfur, sem eru nú, má alveg gera ráð fyrir því, að við verðum að halda áfram á þessari braut, og þá eru vissulega vel þegnar allar góðar till. í því efni fyrir undirbúning næstu fjárl.

Þess vegna vil ég að lokum aðeins segja það, að því miður horfir alls ekki vel um afkomu ríkissjóðs á þessu ári — og í rauninni eins og sakir standa nú mun verr heldur en gert var ráð fyrir, þegar fjárl. voru afgreidd, vegna þess að þær áætlanir, sem þá var byggt á, tekjuáætlanir fjárl., hafa reynzt vera gerðar af óeðlilega mikilli bjartsýni. Það var miðað við hærra verð á okkar afurðum heldur en allar horfur eru á, að verði á þessu ári, nema einhverjar breytingar verði seinni hluta ársins, og það er þess vegna því miður mikil hætta á því, að þær tekjur skili sér ekki, sem gert var ráð fyrir í fjárl., og við getum þar af leiðandi síðar á þessu ári staðið andspænis miklu vandamáli. Við skulum ekki á þessu stigi vera að spá neinu um það, en ég vil aðeins hafa sagt þetta hér, til þess að hv. þm. verði það ljóst, að það er engan veginn öruggt, að ekki þurfi síðar á þessu ári að gera einhverjar frekari ráðstafanir út af tekjuhorfum ríkissjóðs.

Auk þess er rétt að taka það fram, að lausn verkfallanna nú getur beinlínis haft í för með sér og hlýtur að hafa í för með sér verulega útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð. Eins og mönnum er kunnugt, hafa opinberir starfsmenn lagt fram kröfur um launabætur. Ég skal ekkert á þessu stigi segja um það, hvað út úr því dæmi kemur, en miðað við það, að þeir fengju sambærilegar bætur og launþegar fengu núna í kjarasamningum stéttarfélaganna, nemur það töluvert háum fjárhæðum, sem leggjast á ríkið sem aukakostnaður á þessu ári og hvergi er séð fyrir. Og þannig getur auðvitað ýmislegt komið til greina, sem gerir það að verkum, að líta þurfi frekar á þetta mál síðar á árinu. Og þegar stöðugt er verið að gagnrýna ríkisstj. fyrir það, að hún hafi ekki séð fyrir alla hluti miðað við þær margvíslegu breytingar, sem gerzt hafa á síðustu mánuðum, held ég, að allir þeir, sem skoða það mál af nokkurri alvöru og raunsæi, hljóti að sjá, að það var ekki á nokkurs manns færi að sjá fyrir flest af því, sem í þessu efni hefur gerzt.

Svo að ég víki að því, sem hv. 5. þm. Austf. sagði hér áðan í lok sinnar ræðu um það, hvað hefði verið sagt um stjórnarandstæðinga, ef þeir hefðu í sínum kenningum bent á það fyrir nokkrum mánuðum, hvað mundi gerast, þá vil ég aðeins segja, að ég held, að kasta megi þeim bolta til baka og spyrja, hvað hefði verið sagt um okkur í stjórnarliðinu, ef við í haust hefðum farið að flytja þann svartsýnisboðskap, sem hefði reynzt vera raunhæfur nú miðað við allt, sem hefur verið að gerast. Ég er hræddur um, að við hefðum ekki fengið mildari kveðjur frá hv. stjórnarandstæðingum fyrir það, að við værum að flytja einhvern boðskap um hrun. Sannleikurinn er því miður sá, að íslenzka þjóðin hefur gengið síðustu mánuði í gegnum mjög alvarlega þróun, og því miður eru ekki horfur á, að mikil breyting til bóta verði á því næstu mánuði, nema síður sé. Slíkum vanda verður auðvitað að mæta á hverjum tíma, eins og hann blasir við.

Ég álít það enga hneisu fyrir einn né neinn, hvort sem það er ríkisstj. eða aðrir, að með stuttu millibili þurfi að gera nýjar og nýjar ráðstafanir eftir því, sem atvikin sýna okkur, að sé nauðsynlegt. Það mætti gagnrýna ríkisstj. með réttu, ef hún gerði ekki þær ráðstafanir, sem þarf að gera, en ekki fyrir það, þó að hún geri margar ráðstafanir og jafnvel oft á sama árinu, ef aðstæðurnar gera það óumflýjanlegt.