28.03.1968
Efri deild: 76. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Frsm. meiri hl. Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft mál það, sem hér liggur fyrir, til meðferðar, en eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur hún ekki náð samstöðu um afstöðu til þess. Við fjórir nm., sem stöndum að meirihlutaálitinu á þskj. 441, mælum með því, að það verði samþykkt. Tveir þeirra nm., sem að meirihlutaálitinu standa, hafa þó skrifað undir það með fyrirvara, og skil ég afstöðu þeirra á þann hátt, að þeir séu samþ. frv. að meginefni til, en áskilji sér rétt til aths. við einstaka liði þess og eftir atvikum til þess að flytja eða fylgja brtt. við frv. Tveir nm. hafa hins vegar skilað séráliti, og einn nm. var fjarstaddur afgreiðslu málsins vegna veikinda.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða einstaka liði þessa frv., en vísa í því efni til grg. fyrir því og framsöguræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins. Á frv. þetta ber að líta sem lið í þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið á þessum vetri af hálfu hæstv. ríkisstj. til þess að mæta þeim mikla vanda, sem að hefur steðjað í efnahagsmálum þjóðarinnar, og er því í sjálfu sér ekki óeðlilegt, að þau beri á góma almennt við meðferð þessa máls, en ég mun þó ekki lengja um um málið með því að ræða þessa almennu hlið þessara mála að öðru leyti en því að gera hér nokkrar aths. við ræðu hv. 11. þm. Reykv. við 1. umr. málsins. Þó að ræða hv. þm. væri að meginefni hófleg og málefnaleg voru ýmis atriði í henni, sem mér finnst, að ekki megi vera óleiðrétt, en harma það að öðru leyti, að hv. þm. er ekki viðstaddur á þessum fundi enn þá, en við því er ekki neitt að gera. En ég tek það fram, að þær aths., sem ég hér mun gera við ræðu þessa hv. þm. við 1. umr. málsins, eru algerlega á mína eigin ábyrgð, þannig að aðrir þeirra nm., sem að meirihlutaálitinu standa, bera þar ekki ábyrgð á.

Hv. þm. hélt sig við sama heygarðshornið og hv. stjórnarandstæðingar hafa svo oft gert, síðan þing kom saman eftir nýárið, þegar hann talaði um hina skökku útreikninga, sem gerðir hefðu verið, er ákvörðun var tekin um nýja gengisskráningu í nóv. s.l. Þó að ég fjallaði að vísu ekki um þau mál á sínum tíma, er það mín skoðun, að fullyrðingin um slíka reikningsskekkju sé úr lausu lofti gripin. Ekkert liggur fyrir um það, að þeir útreikningar hefðu ekki að fullu staðizt að óbreyttum þeim forsendum, sem eðlilegt var að byggja á á þeim tíma, sem gengisskráningin var ákveðin. En hins vegar breyttust þessar forsendur, eins og kunnugt er, síðar í óhag, bæði að því er snerti afurðaverð og afkomu frystihúsanna, þannig að gengislækkunin náði skemmra til lausnar vandamálum útflutningsatvinnuveganna en menn höfðu gert sér vonir um, þegar hún var ákveðin, og hefur sú saga raunar svo oft verið nánar rakin í umr. hér á hv. Alþ., að ég tel óþarft að gera það einu sinni enn.

Það er nú einu sinni svo, að í efnahagsmálum eru ekki til nein töfraúrræði, sem leyst geti allan vanda í eitt skipti fyrir öll og á hverju sem gengur, enda hafa slík úrræði aldrei verið boðuð af neinum í sambandi við þær efnahagsráðstafanir sem gerðar hafa verið í vetur. Og ég dreg líka mjög í efa jafnvel þótt kunnugt hefði verið um hina óhagstæðu þróun í afurðasölumálum og hina óhagstæðu afkomu frystihúsanna á þeim tíma, þegar gengisskráningin var ákvörðuð — að hún hefði, jafnvel þótt slík vitneskja hefði þá legið fyrir, verið ákveðin önnur en raun varð á. Öllum er nú í fersku minni, til hverra átaka þær verðhækkanir, sem gengislækkunin olli hafa leitt á vinnumarkaðinum, og hvað hefði þá orðið, ef hún hefði orðið enn þá meiri. Minni gengislækkun hefði hins vegar gert óhjákvæmilegar stórfelldar, nýjar skattaálögur til greiðslu meiri uppbóta á útflutningsafurðir, og tel ég ólíklegt, að vandinn í efnahagsmálunum hefði orðið minni, ef til slíks hefði komið, en hann nú er.

Hv. 11. þm. Reykv. taldi, að till. þær sem í frv. felast, væru að verulegu leyti fremur sýndartill. en raunverulegar sparnaðarráðstafanir, sumpart vegna þess að lántökur væru látnar koma í stað tekjuöflunar og loks væri í sumum tilvikum aðeins um breytingar áætlunarupphæðar að ræða. Það hefur nú í rauninni engin tilraun verið gerð til þess að draga fjöður yfir það, að þetta á við um ýmsa liði till., en ég sé ekkert óeðlilegt við það, að slíkar leiðir séu að einhverju leyti farnar, eins og aðstæður eru nú, til þess að koma jafnvægi á í ríkisbúskapnum.

Hvað fyrsta atriðið snertir, þ.e. að sparnaðartill. geti ekki komið að fullu til framkvæmda á þessu ári, má á það benda, að það er ekkert aðalatriði að tryggja hallalausan ríkisbúskap á hverju einstöku ári, enda tæpast unnt vegna þeirra sveiflna, sem þjóðarbúskapur okkar er undirorpinn. En hins vegar verður að gera þá kröfu til gætilegrar fjármálastjórnar, að komið sé í veg fyrir varanleg áhrif þenslu og verðbólgu á hallann á ríkisbúskapnum.

Hvað annað atriðið, lántökurnar, snertir, finnst mér það fullkomlega verjandi undir þeim kringumstæðum, sem nú eru, að taka að einhverju leyti lán til framkvæmda, sem að öðru leyti eru þess eðlis, að fjáröflun til þeirra með þeim hætti megi teljast eðlileg; útgjöld vegna hægri umferðar eru einmitt dæmi um það. Hér er um að ræða útgjöld í eitt skipti fyrir öll vegna umbóta í umferðarmálum, og má telja eðlilegt að dreifa þeim á fleiri ár í stað þess að greiða þau að fullu með rekstrartekjum eins árs, þegar ríkissjóður á líka við sérstaka örðugleika að etja eins og nú er.

Hvað snertir þriðja atriðið, sem hv. þm. nefndi, þ.e. að breytt sé áætlunarupphæðum, er það auðvitað rétt, að raunhæfur sparnaður getur slíkt ekki talizt út af fyrir sig, en að því leyti sem ný athugun á einstökum útgjaldaliðum fjárl. hefur leitt til þess, að fært hefur þótt að lækka þá liði eitthvað, má líta á það sem ráðstöfun tekjuafgangs, sem ella hefði orðið, og getur slíkt ekki talizt óeðlilegt, enda er hér raunar ekki um stóra liði að ræða miðað við heildarfjárhæð þessa frv.

Hv. þm. varaði við þeim sparnaði í skóla- og menntamálum, sem fyrirhugaður er, og benti á þýðingu menntunar og sérhæfingar fyrir efnahagslegar framfarir. Um þetta er ég honum í rauninni algjörlega sammála, að þáttur menntunarinnar í aukningu framleiðsluafkasta verður vart ofmetinn. En í því sambandi ber þó að hafa það hugfast, að sé rætt um mikilvægi menntunarinnar í þessu sambandi, er það, sem máli skiptir, hvers konar menntun áherzla er lögð á, fremur en hitt, hverju heildarútgjöldin til menntamála nema. Hv. þm. minntist réttilega á hin miklu framleiðsluafköst í Bandaríkjunum í þessu sambandi og á þann þátt, sem sérhæfing og menntun er talin eiga í þeim. Nú er ég ekki viss um, að Bandaríkin leggi í meiri kostnað við skólamál að tiltölu en t.d. ýmsar þjóðir Vestur-Evrópu, en þeir leggja megináherzlu á þá menntun, sem mesta þýðingu hefur fyrir framleiðsluafköstin, svo sem tækni, vissar greinar raunvísinda, skipulagningu o.fl. Hin svonefndu húmanísku fræði, sem lengst af hafa verið uppistaðan í okkar skólakerfi, hafa í þessu sambandi miklu minni þýðingu, þó að ég vilji sízt halda því fram, að slík menntun hafi ekki gildi í sjálfu sér.

Hv. þm. vitnaði í lok ræðu sinnar í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, sem liggur hér á borðum okkar þm., þar sem talið er, að neyzlan á mann sé meiri hér á landi en í nokkru öðru aðildarríki stofnunarinnar að Bandaríkjunum undanskildum. Taldi hv. þm. mál til þess komið að fara að stjórna, eins og hann orðaði það, og draga úr þeirri óhóflegu eyðslu, sem verið hefði hér að undanförnu. Hér kem ég að því, sem ég tel í rauninni það athyglisverðasta, sem fram kom í ræðu hv. þm. — því að mér finnst að því leyti ástæða til þess að fagna þeim viðhorfum, sem fram koma í þessum ummælum — að það hefur einmitt verið kjarni þess boðskapar, sem hæstv. ríkisstj. hefur flutt þjóðinni undanfarna mánuði, að vegna þeirra áfalla, sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir, sé óhjákvæmilegt að minnka neyzluna eða m.ö.o. að skerða kjörin, sem auðvitað er það sama. Hins vegar hefur það ef til vill verið skyssa hjá hæstv. ríkisstj. að fara ekki í smiðju til hv. þm. til þess að orða þetta á þann veg, að sem bezt láti í eyrum, því að kjaraskerðing er ekki fallegt orð, en að minnka þurfi neyzlu eða eyðslu á erfiðleikatímum, lætur vafalaust miklu betur í eyrum flestra; auðvitað er þetta það sama, en aðeins orðað á mismunandi hátt. Og menn taki eftir því, að hér er um að ræða önnur viðhorf hjá hv. þm., þegar hann talar um nauðsyn kjaraskerðingar — að vísu orðað öðruvísi — heldur en þau viðhorf, sem hans flokkur virðist hafa haft að undanförnu til þessara mála, því að því hefur einmitt verið neitað, að þeir erfiðleikar, sem nú væri við að etja, gerðu nauðsynlega kjaraskerðingu af nokkru tagi. Því hefur jafnvel verið haldið fram og verið aðalatriði í málflutningi flokksins, að það hafi verið ósvinna á sínum tíma, þegar lög um verðtryggingu launa voru afnumin fyrir s.l. áramót. Þau hefðu átt að standa óbreytt, svo að þannig hefði átt að lögbinda það, að kjör allra launþega, sem eru meginþorri þjóðarinnar, mættu ekki rýrna. Og nú er það þannig samkv. l., eins og kunnugt er, að kjör fjölmennustu atvinnurekendastéttar landsins — bændanna — eru tengd kjörum verkalýðsins.

Í þessu sambandi má minna á það, að í rauninni væru efnahagsmálin ákaflega auðveld úrlausnar, ef það væri hægt, þegar þjóðarbúskapurinn verður fyrir verulegum áföllum, að lögfesta bara, að kjörin skuli alls ekki rýrna, en ég hygg, að hv. framsóknarmönnum sé það í rauninni jafnljóst og okkur hinum, að svo auðleyst eru vandamálin ekki og að slík lagafyrirmæli væru ekki líkleg til að ná tilgangi sínum, ef raunhæfan grundvöll fyrir slíku vantaði. Slíkt mundi annaðhvort leiða til óstöðvandi verðbólguþróunar eða atvinnuleysis og sennilega til hvors tveggja.

Nú hygg ég, að hv. þm muni sízt af öllu neita því, að ekki hafi hitt og þetta verið gert undanfarna mánuði til þess að minnka neyzluna eða skerða kjörin, hvort orðalagið, sem menn nú vilja velja. Gengið hefur verið lækkað, sem hlýtur að draga úr innflutningi neyzluvarnings, ferðalögum til útlanda og annarri gjaldeyrisnotkun. Áfengi og tóbak hefur verið hækkað, og dregið hefur verið úr niðurgreiðslum o.s.frv., en allt þetta hlýtur að draga verulega úr neyzlu auk þess, sem keðjuverkandi samdráttur í tekjum vegna minni eftirspurnar eftir vinnuafli dregur auðvitað líka úr neyzlunni. Um hitt má auðvitað alltaf deila, hvort kjaraskerðingin komi réttlátlega niður. Ekki tel ég þó vafa á því, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, bitna meira á efnafólki en hinum efnaminni, þó að hjá hinu verði auðvitað ekki komizt, að ráðstafanir af því tagi, sem hér er um að ræða, hljóti einnig að bitna á efnaminna fólki. Þó að flestir séu sammála um það út af fyrir sig, að byrðarnar eigi fremur að leggja á breiðu bökin, eins og það er orðað, þegar þjóðarbúið verður fyrir áföllum, þá er það nú einu sinni svo, að breiðu bökin eru svo miklu færri en þau mjóu, að sé þungi byrðanna verulegur, þá verður ekki hjá því komizt að leggja hann að einhverju leyti á mjóu bökin líka. Neyzla efnafólks er heldur ekki svo frábrugðin neyzlu hinna efnaminni, að allar ráðstafanir til þess að draga úr neyzlunni hljóti ekki að einhverju leyti að bitna á báðum. Annars ber, eins og ég sagði, að fagna þessari viðurkenningu hv. varaform. Framsfl. á því, að kjaraskerðing sé óhjákvæmileg, þó að ég hafi, eins og ég áður sagði, hingað til ekki orðið var við aðra afstöðu þeirra framsóknarmanna til þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið til þess að draga úr neyzlu og gjaldeyrisnotkun, en þá, að slíkar ráðstafanir væru með öllu óþarfar og ástæðulausar.

Hitt var mér ekki með öllu ljóst, hvað hv. þm. var að fara, þegar hann talaði um, að þeirri kjaraskerðingu, sem hann viðurkenndi, að nauðsynleg væri, þyrfti að stjórna, eins og hann orðaði það. Það hafa þegar, eins og ég benti á, verið gerðar allvíðtækar ráðstafanir til þess að draga úr innflutningi og annarri gjaldeyrisnotkun. Er ekki vafi á því, að áhrifa þessara aðgerða á innflutning hlýtur að fara að gæta mjög á síðari hluta þessa árs og jafnvel fyrr.

Vera má þó, að frekari ráðstafana í þessu efni kunni að verða þörf, áður en yfir lýkur. En eigi ekki að hverfa frá þeirri stefnu í viðskiptamálum, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt frá því, að hún kom til valda fyrir rúmum átta árum, þá verða slíkar hömlur að vera almenns eðlis, en ekki í þeirri mynd, að horfið verði á ný að leyfa úthlutuninni, sem var aðalhagstjórnartækið, ef svo mætti segja, fyrir valdatíð núv. hæstv. ríkisstj., þannig að hafi hv. þm. haft það í huga, er hann talaði um nauðsyn meiri stjórnar, þá vona ég a.m.k., að hæstv. ríkisstj. megi áfram bera gæfu til þess að grípa ekki til þeirra úrræða á hverju, sem gengur. En ástæðurnar til þess, að ég tel slíkar ráðstafanir ekki til bjargráða þrátt fyrir þá örðugleika, sem nú er við að etja, eru þrenns konar:

Í fyrsta lagi er ólíklegt, að þær nái þeim tilgangi að skapa nokkurt jafnvægi í gjaldeyrisviðskiptum eins og viðhorfin eru nú. Greiðar og auknar samgöngur við útlönd mundu gera það miklu auðveldara að fara í kringum innflutningshöft og aðrar beinar hömlur á gjaldeyrisviðskiptum en var t.d. á haftaárunum fyrir stríð og fyrst eftir stríðið.

Í öðru lagi má telja víst, að í kjölfar þess, að slíkar hömlur yrðu teknar upp, mundi þegar í stað sigla umfangsmikill svartur gjaldeyrismarkaður með þeim álitshnekki fyrir landið og þeirri spillingu, er af honum leiddi. Annað atriði er það, að langvarandi reynsla af leyfaúthlutunarfyrirkomulaginu um nær 30 ára skeið eða nær óslitið á tímabilinu frá 1930–1960 var ekki með þeim hætti, að slíkt sé hvatning til þess að taka slíkt fyrirkomulag upp að nýju. Úthlutunarnefndirnar voru að jafnaði skipaðar fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka, sem með völdin fóru. Mátti telja það eðlilegt, því að nefndirnar voru, eins og ég sagði, aðaltækið, sem beitt var á þessum tíma til þess að stjórna efnahagsmálunum. Þessir fulltrúar stjórnmálaflokkanna litu svo á, að það væri meginhlutverk sitt að berjast fyrir sem mestum leyfaveitingum til handa fyrirtækjum og einstaklingum, sem studdu þeirra flokk. Nefndirnar voru því óneitanlega búkollur fyrir okkar flokka, því að menn gátu ekki vænzt þess, að neinn berðist fyrir umsóknum þeirra, hvort heldur var fyrir innflutningsleyfi, ferðagjaldeyrisleyfi, leyfi til þess að kaupa bíl eða jeppa eða fjárfestingarleyfi til þess að byggja íbúðarhús eða jafnvel fjós, nema greidd hefðu verið refjalaust gjöld til flokkssjóða og áskriftagjöld til blaða flokksins, og munum við, sem sæti eigum hér á hv. Alþ. að vísu vera sammála um, að þetta hafi verið kostur þessa skipulags.

Ég býst ekki við, án þess að ég sé kunnugur fjárreiðum nokkurs stjórnmálaflokks, hvorki míns eigin né annarra, að þær standi yfirleitt með þeim blóma hjá neinum flokki, að menn telji vanþörf á aðhaldi fyrir stuðningsmenn flokksins, til þess að menn greiði sín gjöld til flokkanna og styrki þá á annan hátt, og vissulega voru úthlutunarnefndirnar mikið aðhald í þessum efnum. Það er kannske engin tilviljun, að farið er að tala um blaðadauðann og aðra örðugleika á því að halda gangandi stjórnmálablöðum og jafnvel stjórnmálaflokkum af fjárhagsástæðum, eftir að innflutningsverzlunin og gjaldeyrisverzlunin var gefin frjáls. Nú skyldi maður sízt af öllu ætla það, að minni búsorgir eins og það hefur verið orðað, eða auknar þjóðartekjur, geri menn ófúsari til þess að greiða sín framlög til hugsjónabaráttunnar. Nei, ætli þetta eigi ekki rót sína að rekja til þess, að það aðhald, sem úthlutunarnefndirnar áður sköpuðu í þessu sambandi, er nú ekki fyrir hendi.

Þó að við allir teljum þetta sjálfsagt kosti á skipulaginu, má ekki loka augunum fyrir því, að það hafði líka sína ranghverfu. Hún var sú, að öllum skynsamlegum efnahagslegum sjónarmiðum var í rauninni varpað fyrir borð með þessu fyrirkomulagi. Ekkert tillit var tekið til þess, hvort innflutningsfyrirtækin gerðu hagstæð innkaup fyrir þjóðarbúið, þegar leyfunum var úthlutað, en frelsi í innflutningsverzluninni tryggir einmitt svo sem slíkt yfirleitt verður tryggt, að það verða sjálfkrafa þeir, sem flytja inn ódýrastar vörur, sem að innflutningsverzluninni sitja. Fyrir land, sem er svo mjög háð utanríkisviðskiptum sem Ísland, hlýtur slíkt að vera mikils virði.

En í þriðja lagi er það í rauninni skilyrði fyrir því, að þjóð sé hlutgengur aðili að efnahagssamstarfi þjóða í milli, að ekki sé beitt beinum gjaldeyrishömlum, og leiðir slíkt raunar af því, að slík samvinna þjónar að jafnaði þeim megintilgangi að tryggja sem frjálsust viðskipti þjóða á milli. Nýlega var samþ. í einu hljóði hér á hv. Alþ. heimild til handa hæstv. ríkisstj., til þess að Ísland gerist aðili að GATT, en GATT-samningarnir takmarka einmitt mjög heimild aðildarríkjanna til þess að beita innflutningshöftum, og að því leyti sem slíkt er heimilað, þá er gert ráð fyrir framkvæmd þeirra með mjög ólíkum hætti og þeim, sem ávallt var á hafður, er höftum var beitt hér á landi.

En sæmilegt jafnvægi í ríkisbúskapnum er skilyrði þess, að jafnvægi geti einnig ríkt í þjóðarbúskapnum í heild. Og þó að sá sparnaður, sem ráðgerður er með þessu frv., sé auðvitað ekki stór hluti ríkisútgjaldanna í heild, þá hygg ég samt, að þrátt fyrir ágreining, sem vafalaust er fyrir hendi, um einstaka liði frv., sé varla ágreiningur um það hér í hv. d., að hér sé um að ræða spor í rétta átt. Því ber engan veginn að neita, að með samþykkt frv. er skert ýmiss konar þjónusta hins opinbera við borgarana, sem æskilegt væri að geta veitt og enginn ágreiningur væri sennilega um, að bæri að veita, ef betur áraði. En jafnframt ber á það að líta — þar sem allir virðast nú sammála um, að þjóðin verði að herða ólina, þannig að neyzlu einstaklinganna verði að minnka — að Alþ. ber, að mínu áliti, siðferðileg skylda til þess að sýna nokkurn lit á því að draga einnig úr neyzlu hins opinbera eða samneyzlunni, sem sumir nefna svo, þó að um hitt megi auðvitað deila, hvort nóg sé að gert í því efni með samþykkt þessa frv.