23.11.1967
Neðri deild: 21. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

46. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil nú bara þakka hæstv. landbrh. fyrir þessar bænir, sem hann var að bera fram fyrir mér. En ég ætla aðeins að benda honum á tvennt. Hann spurði eftir því, hvers vegna þetta frv. hefði verið flutt. Ég vissi ekki betur en hæstv. landbrh. flytti það sjálfur, og þess vegna ætti hann ekki að koma með þá spurningu til mín. Ég færði rök að því áðan og vil undirstrika það, að 3/4 hlutar, ég tók það fram, 3/4 hlutar af vinnunni hefðu verið fullkomlega vinnumældir. Eftir væri þessi 1/4 hluti og ég býst við, að hæstv. landbrh. viti það eins vel og ég, að það er ákaflega erfitt að vinnumæla heyskap. Það fer eftir tíðarfari og ýmsu öðru, og ég get tekið undir þau orð, sem Björn Pálsson sagði áðan, að það verður erfitt að vinnumæla heyskap, þannig að það sé ekki hægt að vefengja hann. Ég hef trú á því, að það sé alltaf hægt að vefengja þessa hluti. En hins vegar fannst mér einkennilegt af Birni Pálssyni, hv. 5. þm. Norðurl. v., þegar hann var að tala um, að hlutur bændanna væri ekki verri en annarra stétta. Hann styðst þar áreiðanlega ekki við hagskýrslur. Það má vel vera, að hann búi svona góðu búi á Löngumýri og hafi svona góðar tekjur, en hagskýrslur sýna annað, og eftir hverju á að fara, ef ekki þeim? Ég vil mótmæla því alveg.