27.11.1967
Efri deild: 23. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

46. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta var flutt í Nd. og var afgreitt shlj. þaðan. Það er flutt í samráði við fulltrúa bænda og fulltrúa neytenda í Sexmannanefnd og eftir beiðni formanns yfirnefndar, sem nú stjórnar verðlagsmálum landbúnaðarins. Eins og sjá má, fer frv. fram á það, að nú megi að þessu sinni verðleggja búvörur til eins árs, en í framleiðsluráðsl. er gert ráð fyrir, að verðlagningin fari fram til tveggja ára. Í framleiðsluráðsl. er gert ráð fyrir því, að fyrir liggi vinnumælingar og búreikningar, sem byggja megi verðákvörðunina á. Þar sem lög um framleiðsluráð landbúnaðarins í því formi, sem þau nú eru, eru aðeins rúmlega eins árs og þar sem búreikningaskrifstofan í því formi, sem hún er, hefur aðeins starfað í tæpt ár og búreikningar frá henni í því formi, sem búreikningarnir eru, liggja aðeins fyrir fyrir hálft árið 1967 og vinnumælingar eru ekki fyrir hendi nema í sumum greinum landbúnaðarins, þá þykir skorta þær undirstöður, sem þurfa að vera, til þess að verðlagningin geti átt sér stað til tveggja ára. Og þess vegna er þetta frv. flutt.

Það er svo yfirnefndarinnar, hvort hún notar þær vinnumælingar, sem fyrir eru, eða styðst við þá búreikninga, sem fyrir eru að einhverju leyti, áður en hún kveður upp úrskurðinn. Það er mál, sem ég veit ekki um. En þar sem þetta frv. er flutt í samráði við viðkomandi aðila, var hv. Nd. samþykk því, að þetta færi fram, og nú hefur formaður yfirdómsins óskað eftir því, að lagasetningunni væri flýtt, kom að máli við mig fyrir helgina og spurði, hvort það gæti orðið að l. á morgun. Ég lofaði að gera mitt til þess, að það mætti verða. Til þess að það gæti orðið, þyrfti þá frv. að fara til 2. umr. og n. í dag, og n. að afgreiða það frá sér í dag, og þá þyrfti að halda tvo fundi um málið á morgun. Það er vitanlega á valdi þessarar hv. d., hvort hún vill flýta málinu svo, til þess að það megi verða.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um málið að svo stöddu, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.