25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

21. mál, fjallskil o.fl.

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft þetta mál til athugunar nú um nokkurt skeið, haft um það nokkra fundi og farið, að ég hygg, nokkuð gaumgæfilega yfir það, og þrátt fyrir það, að það hefur fengið margfalda endurskoðun síðan það var upphaflega samið fyrir mörgum árum, þá hefur það verið endurskoðað og athugað á Búnaðarþingi og í sérstakri n., sem Búnaðarþing skipaði til þeirra hluta. Nd. Alþ. hefur líka fjallað um þetta frv. og afgr. það frá sér með nokkrum breyt. Þrátt fyrir alla þá endurskoðun, sem á því hefur verið gerð, hefur landbn. þessarar hv. deildar komið sér saman um að leggja til, að við frv. verði gerðar tilteknar breyt., sem eru á sérstöku þingskjali, nr. 545.

Ég tel ekki ástæðu til að ræða almennt um frv. í heild, en vil aðeins koma inn á og skýra þær brtt., sem landbn. hefur lagt til að gerðar yrðu á frv.

Fyrsta brtt. er við 13. gr., og er lagt til, að ný málsgr. bætist framan við 13. gr., svo hljóðandi: „Í fjallskilasamþykkt má setja ákvæði um, að ekki megi reka fé til afréttar á vori fyrr en sveitarstjórn leyfir.“ Þetta ber að skilja á þann hátt, að víða er svo háttað, að það virðist vera þörf á því, að sveitarstjórn hafi um það ákvörðunarrétt, hvenær megi reka fé í afréttina, sérstaklega vegna þess að þar sem þeir eru girtir frá heimalöndum, þá getur verið mjög bagalegt að reka féð til afréttar fyrr en viðgerð á girðingu hefur farið fram, og víða hafa heimalönd orðið fyrir allmiklum ágangi af afréttarfé, þegar þessa hefur ekki verið gætt. Einnig má segja, að þó lönd séu ógirt og rekið sé til afréttar kannske fyrr en gróður er nægilega vel á veg kominn til þess að féð uni í afrétt, þá verða heimalöndin líka fyrir ágangi af afréttarfénaði. Fyrir þá sök höfum við lagt til, að þessari málsgr. yrði bætt framan við 13. gr.

Önnur brtt., sem við leggjum til, að gerð verði, er við 15. gr. Ég sé ástæðu til að skýra þá brtt. nokkuð. 15. gr. fjallar um það, ef tveir hreppar eða fleiri hafa myndað með sér upprekstrarfélag eða fjallskiladeild og það kynni að koma upp áhugi fyrir því hjá einum hreppi af fleirum, sem samvinnu hafa haft, að kljúfa sig frá fjallskiladeildinni og fá úrskiptari afrétt. 15. gr., eins og frá henni var gengið í hv. Nd., gerir ráð fyrir því, að sá hreppur, sem hefur áhuga fyrir slíku, geti með einhliða ákvörðun klofið sig frá fjallskiladeildinni. Við teljum, að þetta megi ekki svo vera, því að þó að þær aðstæður geti verið fyrir hendi, að þetta sé mjög réttlætanlegt og sjálfsagt, þá er í öðrum tilfellum víða þannig háttað málum, að þetta yrði til kostnaðarauka fyrir nálægar sveitir. Sá hreppur, sem klyfi sig frá fjallskiladeild, gæti m.a. krafizt girðingar milli afrétta eftir skiptin. Hann getur líka eftir þeim ákvæðum, sem eru í 15. gr., fengið betri hluta afréttar heldur en vænta mætti, að hann fengi, ef eftir mati væri farið. Því teljum við rétt að breyta orðalagi 15. gr. að þessu leyti, að fyrir orðin „og skal hún“ — þ.e. sýslunefnd — „þá breyta fjallskilasamþykkt að því er þetta varðar og ákveða hreppnum skilarétt“ komi: „og getur hún“ — þ.e. sýslunefnd — „þá breytt fjallskilasamþykkt að því er þetta varðar og ákveðið hreppnum skilarétt.“ Sem sagt, breytingin er í því fólgin, að við viljum láta það koma undir mat sýslunefndarinnar, hvort þessi skipting sé eðlileg, en þetta eina sveitarfélag geti ekki með einhliða samþykkt heima fyrir klofið sig frá, hvernig sem aðrir líta á þetta mál, sem í félagi við það voru. Þetta ákvæði telur landbn., að sé allmikilvægt, og því er þessi brtt. flutt.

Þá er í þriðja lagi brtt. við 17. gr., þann kafla, sem fjallar um ítölu. Sá kafli er tekinn upp eftir ítölulögunum að verulegu leyti, enda er um leið og sá kafli tekur gildi gert ráð fyrir, að ítölulögin falli úr gildi. Með samanburði við ítölulögin og nánari athugun varð landbn. sammála um að taka upp sama orðalag og er í ítölulögunum á niðurlagi 17. gr. Eins og frv. liggur fyrir d., er niðurlag gr. svo:

„Nú er fellt við atkvgr. að krefjast ítölu, og má þá taka málið upp síðar.“

Í ítölulögunum er, má segja, svipað orðalag, en þó ekki eins. Í ítölulögunum er svo mælt fyrir: „og má þá taka málið upp aftur að þrem árum liðnum.“ Þetta ákvæði hefur ugglaust verið sett til þess, að ekki væri efnt til atkvgr. í sveitum um þetta mál óhæfilega oft, og þykir okkur rétt að reisa við þessu nokkrar skorður, en teljum eðlilegt, að þarna megi líða tvö ár á milli, að það mætti t.d. tvisvar á einu kjörtímabili hreppsnefndar taka upp mál sem þetta og leggjum því til, að niðurlag greinarinnar orðist svo: „og má þá taka málið upp aftur að tveimur árum liðnum.“

Þá höfum við gert till. í fjórða lagi um breytingu á 32. gr. En 32. gr. fjallar um ágangsfénað, þar sem heimilt er að taka í vörzlu og setja inn búpening, sem veldur átroðningi, og er greinin þannig í frv., eins og það liggur fyrir: „Sé búpeningur settur inn, skal þess gætt, að hann sé ekki í svelti. Ef innsettur fénaður ferst eða verður fyrir slysi, greiðir sá, er inn setur, eiganda bætur, ef handvömm er um að kenna.“ Landbn. telur, að þetta sé að sjálfsögðu allharkaleg aðgerð, að taka inn búfénað, og við teljum, að það sé rétt, að sá, sem tekur sér það vald, þó að það sé heimilt að lögum, eigi að gjalda bætur fyrir, ef að skaða verður, og leggjum til, að niður falli orðin „ef handvömm er um að kenna.“

Í fimmta lagi gerum við till. um breyt. við 66. gr., en það má segja, að það sé nánast orðalagsbreyting. Orðalagið er þannig: „Geri markavörður ekki aths. við markið, skal hann þegar senda það til sveitarstjórna í nálægum sveitarfélögum innan sýslu og utan.“ Við teljum nú eðlilegra, að send sé tilkynning um mark heldur en að senda markið sjálft, því að það mun vera dálitlum erfiðleikum bundið að gera það. Það er sem sagt aðeins orðalagsbreyting, sem ekki breytir neinu um ákvæði gr., hún er aðeins færð til réttara og eðlilegra máls.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara fleiri orðum um þetta frv. Eins og ég gat um áður, höfum við farið allvendilega gegnum frv. Þetta er allmikill bálkur, og við mælum með því eindregið, að frv. verði samþykkt með þeim breytingum, sem tilteknar eru hér á þskj. 545.