29.04.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

97. mál, brunavarnir og brunamál

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta mál til athugunar. Það var sent til þessarar hv. deildar frá Ed. og hefur hlotið þar afgreiðslu með nokkrum breyt. frá því sem það var upphaflega lagt fram. Frv. sama efnis var lagt fram á síðasta þingi hér í Nd., og hafði heilbr.- og félmn. þessarar d. það þá einnig til athugunar. N. skoðaði málið allítarlega, fékk á sinn fund þá aðila, sem staðið höfðu að samningu þess, og aflaði sér annarra upplýsinga í sambandi við málið. Það kom nokkuð til umr. þá, hvort ekki mundi heppilegra og eðlilegra að einhver stofnun á vegum ríkisins, og þá Öryggiseftirlitið, tæki þessi mál undir sína starfsemi og yrði falin framkvæmd þess. Um þetta voru nokkuð skiptar skoðanir, menn ekki á eitt sáttir um það, en málið sem sagt hlaut ekki endanlega afgreiðslu í n. á síðasta þingi og þar af leiðandi að sjálfsögðu ekki frekari fyrirgreiðslu í deildum þingsins. Ég hygg, að enn hafi nokkuð verið um það rætt, hvort það gæti ekki talizt eins heppilegt, að öryggiseftirlitinu væri falin framkvæmd laganna en samkomulag mun hafa orðið um það í Ed., eða það mun hafa verið talið heppilegra af þeirri n., sem fjallaði um málið í Ed., að þarna yrði um sérstaka stofnun að ræða. Það má segja, að mjög væri æskilegt, ef hjá því mætti komast án þess að valda truflun á framkvæmd mála að stofna fleiri ríkisstofnanir, eða eftirlitsstofnanir, eins og hér er gert ráð fyrir, en í þessu tilfelli mun það þó vera talið heppilegra, og Ed. gerði þá breyt. á 2. gr. frv., þar sem er aðeins gert ráð fyrir Brunamálastofnun, að þar hefur verið samþ. að breyta þessari grein frv. þannig, að þessi stofnun skuli hafa 5 manna yfirstjórn, sem skipuð sé eftir þartilgreindum reglum, eða að ráðh. skipi án tilnefningar einn mann í stjórnina, sem þá verði jafnframt formaður, en að Samband ísl. sveitarfélaga tilnefni einn mann, Reykjavíkurborg einn mann og tveir verði tilnefndir eftir ábendingu frá Sambandi ísl. tryggingafélaga.

Ég ræddi þessi atriði við forstjóra Brunabótafélagsins, sem fram að þessu hefur mest haft með það brunavarnaeftirlit að gera, sem starfandi hefur verið og starfandi er enn, og hann lagði á það mjög ríka áherzlu, að þarna yrði um stjórn þessara mála að ræða á þann veg, sem nú er gert ráð fyrir í 2. gr. frv., eftir að það hefur hlotið afgreiðslu í Ed. Hann taldi, að það mundi verða ríkast til árangurs, ef svo væri skipað málum, að sá aðili hefði þarna framkvæmdarvald, þ.e. væntanlegur brunamálastjóri, ef hann hefði yfir sér stjórn, sem tilnefnd væri af þeim aðilum, sem þarna hafa mestra hagsmuna að gæta, en það eru þeir aðilar, sem tilgreindir eru í frv., Samband ísl. sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og tryggingafélögin.

Helztu verkefni þessarar nýju stofnunar, sem fyrirhuguð er, koma fram í 3. gr. Eru þau tilgreind í 8 liðum, og hafði heilbr.- og félmn. þessarar d. lítið við þau að athuga nema síðari málsgr. c-liðar, sem hljóðar svo í frv.: „Óheimilt er að afgreiða slíka uppdrætti í byggingarnefndum eða hefja framkvæmdir, nema Brunamálastofnun hafi áður samþ. uppdrættina.“ Þarna er átt við það, sem talið er fram í b-lið, það er, að Brunavarnaeftirlit hafi með hendi eftirlit með meiri háttar atvinnufyrirtækjum, verksmiðjum, birgðastöðvum fyrir olíu og benzín, verkstæðum, skólum, samkomuhúsum, hótelum o.s.frv., eins og segir í gr. N. taldi ekki ástæðu til þess að skylda byggingaryfirvöld á hverjum stað og sveitarstjórnir til að senda þær umsóknir, sem þangað kynnu að berast um framkvæmdir, sem tilgreindar eru í b-lið. Það mundi vera nægjanlegt aðhald og eftirlit, ef c-liður stæði óbreyttur, en þar segir, að m.a. sé verkefni Brunamálastofnunar að yfirfara uppdrætti af nýbyggingum, viðbótum og meiri háttar breytingum á mannvirkjum töldum í b-lið. Með vísun til þess, að gert er ráð fyrir því í frv., að brunamálastjórn veiti eftirleiðis umsögn um þá slökkviliðsstjóra, sem ráðnir kunna að vera á hinum ýmsu stöðum, að þá verði reiknað með, að það náið samband verði milli þeirra aðila, sem með þessi mál fara í hinum ýmsu sveitarfélögum, og Brunamálastofnunar ríkisins, að l. ættu að þessu leyti að ná tilgangi sínum, þó þessi málsl. 3. gr. væri felldur niður, og hefur n. í áliti sínu gert till. um það. Skv. 27. gr. frv. er ráðgert, að tryggingafélögin standi undir meginhluta af kostnaði við framkvæmd þeirra l., sem hér liggja fyrir, þ.e. Brunamálastofnunarinnar væntanlegu, en þar segir í 27. gr. a-lið: „Öll tryggingafélög og aðrir, sem tryggingar annast, skulu greiða Brunamálastofnuninni 1.25% af brúttóiðgjaldatekjum vegna brunatrygginga á fasteignum og lausafé.“ Það er talið, að 1.25% af brúttóiðgjaldatekjum tryggingafélaganna á þessum liðum muni nema 2—21/2 millj. kr. á ári miðað við tryggingaiðgjöld eins og þau eru nú, og ætti það að fara langt með að dekka eða mæta þeim kostnaði, sem af framkvæmd l. kann að verða. Þá er í 27. gr. þó einnig gert ráð fyrir, að Brunamálastofnunin láti semja gjaldskrá og fái hana staðfesta af rn. Í gjaldskrá þessari skal kveðið á um skoðunargjöld og önnur gjöld, er Brunamálastofnunin tekur fyrir veitta þjónustu. Það kemur fram í grg. frv., eins og segir á bls. 11 í athugasemdum með frv., að ekki er til þess ætlazt, að þarna verði um fast gjald af öllum brunatryggðum eignum að ræða, heldur að Brunamálastofnun taki samkv. gjaldskrá greiðslu fyrir þá þjónustu, sem hún kann að veita í hverju einstöku tilfelli. En orðrétt segir í grg., með leyfi forseta:

„Þótt væntanleg Brunamálastofnun verði að sjálfsögðu að veita meginhluta af þjónustu sinni endurgjaldslaust, þá mun hún einnig þurfa að taka að sér verkefni, sem eðlilegt er að taka greiðslu fyrir.“

Hversu hár þessi tekjuliður kann að verða, er ekki gott að áætla á þessu stigi, en n. skilur það svo, og ég vil láta það koma alveg skýrt fram, að það sé ekki ætlazt til þess, að þarna komi fram nýr skattur á allar húseignir, heldur verði sú gjaldskrá, sem sett kann að verða, miðuð við það, að þar verði um að ræða greiðslur fyrir veitta sérstaka þjónustu af hendi Brunamálastofnunarinnar. Ég hygg, að allir séu sammála um, að mjög sé nauðsynlegt og aðkallandi að herða það eftirlit, sem með brunavörnum er hér á landi. Það hefur á undanförnum árum orðið óvenju mikið brunatjón hér á landi miðað við nágrannalönd okkar, og kemur fram í grg. frv., að þau brunatjón hafi numið á árunum 1962–1966 samtals 340 millj. kr. eða 68 millj. kr. að jafnaði á ári. Þetta er mjög há upphæð, og samkv. því, sem fram kemur í grg. frv., þá er hér um að ræða þrefalda upphæð miðað við það, sem gerist í nágrannalöndum okkar miðað við íbúatölu, en hér á landi nemur brunatjón 350 kr. á hvern íbúa að meðaltali. Það verður því að teljast, eins og ég sagði, mjög eðlilegt og beinlínis nauðsynlegt að herða eftirlit með þessum málum, koma þar á fastari skipan heldur en verið hefur, og vissulega miðar frv. í þá átt, þó að eins og ég sagði í upphafi, að það megi kannske eða geti verið á því skiptar skoðanir, hvort ástæða sé til af þessum orsökum að stofna til nýs embættis eða fela það öðrum aðila, sem talið er, að gæti annazt það, en það hefur verið lögð áherzla á það, eins og ég einnig tók fram, af þeim aðilum, sem þessi mál snerta mest, að sú skipan verði höfð á þessum málum, sem frv. nú gerir ráð fyrir, eins og það kemur frá hv. Ed. Heilbr.- og félmn. þessarar deildar hefur afgr. málið frá sér og er sammála um að leggja til, að það verði samþ. með þeirri breyt., sem fram kemur í nál., sem hér hefur verið lagt fram.