06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Hv. 6. landsk. þm. talaði hér af nokkrum hita í sinni ræðu, og það má segja, að það hafi einnig hv. 4. þm. Vestf. gert. Hv. 6. landsk. þm. gerði grein fyrir till., sem hann flytur hér varðandi Faxaflóasvæðið, en það er þess efnis að stytta veiðiheimild þar með botnvörpu um tvo mánuði eða færa tímabilið aftur til 1. ágúst í staðinn fyrir 1. júní.

Ég held, að það liggi alveg augljóslega fyrir, að ef þetta yrði gert, mundi það hafa, a.m.k. að því er ég tel, miklu minni og kannske mjög litla þýðingu fyrir þann bátaflota, sem veiðar stundar á þessu svæði, ef þannig væri að staðið, og þá hlýtur að vakna spurningin um það, hvaða rekstursgrundvöll þessi bátafloti hér frá Reykjavík og höfnum við Faxaflóa, sem þessi mið kæmi til með að sækja, á að hafa á tímabilinu frá því að vetrarvertíð lýkur og fram til 1. ágúst. Ég sé ekki fram á það, og tel mig þekkja það inn á þessi útgerðarmál, að það væri hugsanlegt að gera þennan flota út, hvorki á handfæri, línu eða net á þessu tímabili. Það mundi stefna að því, að það yrði að leggja honum þessa mánuði frá því í byrjun maí og allt fram til 1. ágúst, og segir það sig sjálft, að hann yrði þar með settur úr rekstri allt árið, því að ég hygg, að menn mundu ekki treysta sér til þess að eiga báta, ef þeir hefðu ekki sterkari rekstrargrundvöll heldur en gert er ráð fyrir með till. hv. 6. landsk. þm.

Hv. þm. sagði einnig, að það væri leiðindabragur yfir störfum landhelgisnefndar, og var tekið undir það bæði af hv. 1. þm. Vestf. og 4. þm. Vestf. einnig og okkur borin á brýn mjög mikil ósanngirni og ósamvinnuþýðni í sambandi við afgreiðslu málsins og okkar tillöguflutning. Sem einn úr þessari svokölluðu landhelgisnefnd vil ég að sjálfsögðu ekki um þetta dæma, en mér hefur heyrzt bæði hér í ræðum á Alþ. og reyndar lesið í blöðum, að það sé almennt talið, að n. hafi lagt sig mjög fram um það að starfa að þessu máli á þann hátt, að sem víðtækust lausn mætti nást. Ég hygg, að okkur öllum hafi verið það ljóst í upphafi, þegar við tókum við þessu starfi, að þetta mál mundi aldrei verða leyst þannig, að hvorki við sjálfir mundum verða fyllilega ánægðir eða aðrir, sem hagsmuna hefðu að gæta í sambandi við þetta mál.

Það hefur mjög örlað á því nú hér við þessa 3. umr. hjá þeim þm., sem hafa talað, að ekki hefði verið tekið nóg tillit til óska þm. úr einstökum kjördæmum. Ég tel, að þarna sé um mjög mikinn misskilning að ræða. Ég vil t.d. benda á það, sem hv. 6. landsk. þm. sagði í þessu sambandi, að það hefði ekki verið tekið tillit til óska þm. úr því kjördæmi, en af 17 þm., sem eru í Reykjaneskjördæmi og Reykjavík eru aðeins þrír á þeirri brtt., sem flutt er á þskj. 622. Ég hygg, að það hafi nú verið erfitt fyrir n. að meta það þannig, að það væri almennur vilji þm. í þessum tveimur kjördæmum, sem á bak við þessa till. stæði, þannig að ég hygg, að við verðum ekki bornir sökum í þessu tilfelli, að við höfum ekki tekið tillit til óska þm. úr þessum tveimur kjördæmum. Það má reyndar það sama segja um till. Vestfjarðaþm., sem þeir á sínum tíma sendu landhelgisnefndinni skriflega. Á þeim fundi, sem haldinn var á Ísafirði um þetta mál og n. mætti á, til þess þar eins og annars staðar að reyna að kanna vilja manna í sambandi við þetta mál, þá minnist ég ekki annars heldur en það hafi yfirleitt verið talað um Vestfjarðaveiðisvæðin út af Vestfjörðum, en það hafi hvorki verið minnzt á Breiðafjörðinn eða Húnaflóann. Ég minnist þess ekki, að á þetta hafi verið minnzt af neinum ræðumanna, og voru þarna þó við allir þm. að mig minnir úr þessu kjördæmi.

Þegar það svo kemur til, að þeir senda landhelgisnefndinni álit sitt bréflega, þm. þessa kjördæmis, þá var vissulega tekið tillit til óska þeirra. N. hafði ætlað sér og verið orðin um það sammála um þessi tvö hólf, sem Vestfjarðaþm. bentu á, að þeir vildu leggja til eða fallast á, hvort orðið sem menn vilja hafa, að yrðu opnuð fyrir togveiðum út af Vestfjörðum, þar hafði n. einnig ætlazt til, að togarar fengju veiðiheimildir til togveiða á þeim tíma, sem gert var ráð fyrir, að þessi hólf yrðu opin. Vegna tilmæla þm. Vestf. var fallíð frá því og þarna aðeins reiknað með, að bátar af vissri stærð fengju að veiða, ef togararnir yrðu settir út, þannig að ég held, að miðað við allar aðstæður hafi einnig verið tekið að ég vil segja nær því fullt tillit til óska þm., þó að þeir síðar meir eftir Vestfjarðafundinn hafi komið með ábendingar um, að þeir óskuðu eftir, að öðru vísi yrði hagað veiðisvæðum á Húnaflóa og á Breiðafirði. Og ég verð nú að segja um kröfu hv. þm. Vestf. um lokun í Breiðafirði, að mér finnst hún ekki sanngjörn. Það er rétt, að þetta er veiðisvæði þeirra á vetrarvertíð. Það liggur alveg ljóst fyrir, að Vestfjarðabátar, sérstaklega af Suðurfjörðunum, sækja þangað inn og sækja þangað verulegan hluta af sínum afla, en yfir annan tíma ársins, yfir sumarið og haustið, sem er gert ráð fyrir að veiða þarna, þá hygg ég, að þetta svæði sé mjög lítið stundað af bátum frá Vestfjörðum, heldur af bátum frá Snæfellsnesi og kannske öðrum skipum, þannig að ég tel, að þeir geri þarna kröfur, sem gangi of langt um lokun á veiðisvæði, sem ekki getur talizt að neinu leyti skerða þeirra aðstöðu, Vestfirðinga, til veiða á þeim tíma, sem gert er ráð fyrir, að togveiðar verði þarna stundaðar. Og eins og ég sagði hér með Húnaflóann, að það er sá flói eða það svæði, sem langsamlega er minnst gengið inn á. Það voru hugmyndir og það voru tilmæli og kröfur um það annars staðar frá að opna þarna verulegt hólf inn í Húnaflóann, sérstaklega fyrir smærri báta, en vegna ábendinga bæði frá þm. úr Norðurl. v. og einnig Vestfjörðum var fallið frá því, en línan dregin þetta innar heldur en grunnlínan er í gildi nú, sem till. n. hljóðar upp á. En ef dregið er strik frá Skagatá og þvert yfir Húnaflóa að Vestfjörðum, þá kemur það í ljós, að það er hvergi komið nálægt því að veita neinar veiðiheimildir inni í Húnaflóa. Ég veit náttúrlega ekki, hvað hv. þm. af Vestfjörðum og Norðurl. v. telja Húnaflóann ná langt út. En ef dregið er þvert strik yfir flóann frá yztu mörkum á Skagafirði, Skagatá, og þvert yfir, þá ná þeir hvergi nálægt því inn að þeim mörkum eða inn í sjálfan Húnaflóann, svoleiðis að það verður ekki með neinni sanngirni sagt, að það hafi verið gengið gegn vilja þeirra manna, sem vilja vernda og telja, að þurfi að vernda sjálfan Húnaflóa fyrir togveiðum.

Það kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv., Pétri Sigurðssyni, að hann taldi, að lítið hefði verið mætt óskum togaraeigenda eða togaraútgerðarmanna og þeim tilmælum, sem þeir hefðu sett fram. Ég skal viðurkenna, að í þessum efnum varð n. auðvitað að gera upp við sig, hve langt hún eða í hve ríkum mæli hún taldi sér fært að verða við þeim tilmælum, sem fram komu, en óskir togaramanna voru hreinar að því leyti, að þeir óskuðu eftir að fá að veiða með sínum skipum á sömu svæðum og minnstu bátum yrði einnig leyft að veiða. Ég hygg, að allir hafi gert sér þegar í upphafi ljóst, að þetta kom ekki til greina. En vissulega hafa togararnir fengið rýmkaðar veiðiheimildir. Það er ósanngjarnt að mínum dómi að segja annað heldur en það hafi verið gert. Þeir hafa fengið rýmkaðar veiðiheimildir við Kolbeinsey, sem þeir bentu sjálfir á, að væri nokkurs virði fyrir þá. Þeir hafa einnig fengið rýmkaðar veiðiheimildir við Hvalbak, sem eru einnig taldar nokkurs virði fyrir þá. Þeir hafa fengið verulega rýmkaðar veiðiheimildir við Eldey og það svæði, sem þeir einnig töldu mikils virði fyrir sig, og þeir hafa fengið veiðiheimild út af Faxaflóa, þannig að það er ekki hægt að segja það með nokkurri sanngirni, að þeirra tilmælum hafi ekki í neinu verið mætt, þó að n. hafi ekki treyst sér til að leggja það til, að þeir fengju sama rétt og hinir smærri bátar og miðlungsstórir bátar.

Ég held, að allir nm. hafi gert sér fulla grein fyrir nauðsyn þess, að togaraútgerð yrði hægt að reka hér á landi. Það hefur legið alveg ljóst fyrir, að við höfum allir talið, að það væri á því nauðsyn og sjálfsagt að stuðla að því, eftir því sem við treystum okkur til þess að hafa áhrif á það með till. okkar, og töldum okkur vissulega hafa gengið nokkuð til móts við þá. Ég ætla ekki að fara að þrátta um fyrri aðstöðu togara nú. Sett hefur verið fram bæði í ræðu og riti, að þeir hafi misst svo og svo margar fermílur, 9000 fermílur, við útfærsluna 1958, og ætla ég ekki að vefengja þá tölu, en ég hygg, að öllum, sem til þessara mála þekkja, sé ljóst, að aðeins lítill hluti af þessum fermílufjölda, sem nefndur hefur verið, var raunverulega veiðisvæði. Megnið af þessu voru svæði, sem togararnir stunduðu aldrei veiðar á.

Um þá till., sem hv. 10. þm. Reykv. hefur flutt hér, um að togararnir fengju sömu heimildir og bátar gegn því að landa fiskinum til vinnslu innanlands, þá hygg ég, að það verði ákaflega erfitt í framkvæmd, bæði fyrir togarana og bátana og þá, sem ættu að framkvæma l.. að koma slíku heim. Togararnir hafa gert það, sem eðlilegt er, og þeim er það síður en svo láandi, að ef þeir sjá, að markaðshorfur batna og þeim sé hagur í því að sigla með aflann, þá hljóti þeir að gera það. Þeir vita alveg, að þeir eru í erfiðri aðstöðu með sinn rekstur, og hljóta að reyna að fá sem mest verðmæti fyrir sinn afla. þó að þeir sigli með hann á erlendan vettvang, þannig að ég hygg, að það yrði ákaflega erfitt að fara að binda þá við það fyrirfram í veiðitúr að segja: „nú fiska ég fyrir innanlandsmarkað, en hef ekki heimild til þess að sigla með aflann á erlendan markað,“ jafnvel þó að það lægi í lok veiðiferðarinnar ljóst fyrir, að þeir gætu fengið mikið meira verð fyrir hann með því móti heldur en að landa honum innanlands.

Um það, sem hv. 4. þm. Vestf. sagði um netaveiðarnar, að hann vildi nú ekki samþykkja, að togveiðar væru þess valdandi, að fiskur hefði nú í bili horfið, því miður, mikið úr Breiðafirði miðað við það, sem áður var, heldur mundi þetta vera netaveiðunum að kenna, þá skal ég viðurkenna, að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að netaveiði gæti verið fiskistofnunum hættuleg. Ég flutti tvisvar sinnum till. um það hér fyrst og fremst, er ég sat á þingi, að ákveðin veiðisvæði á svæðinu milli Vestmannaeyja og Reykjaness yrðu alfriðuð fyrir öllum veiðum yfir hrygningartíma þorsksins. Fiskifræðingar töldu þá, að þetta væri ástæðulaust. að við mundum ekki. hvorki með netum né öðrum veiðarfærum, geta orðið þess valdandi, að miðin raunverulega gengju til þurrðar. Það væru þar allt aðrar ástæður, sem væru ráðandi. Þar réði mestu um, hvernig færi um klak fiskjarins á hrygningartímanum. Að sjálfsögðu er ég sem leikmaður ekki dómbær um þetta atriði og hef sætt mig við niðurstöður fiskifræðinga, og ég verð nú að segja það, — ég skal viðurkenna það nú — að það virðist vera, að þeir hafi þarna nokkuð til síns máls, því að nú kemur það í ljós t.d. í vetur og ég vil segja einnig nokkuð á s.l. vertíð, að fiskgengd virðist vera mun meiri á þessu svæði milli Reykjaness og Vestmannaeyja heldur en á öðrum miðum, þar sem netaveiðar hafa verið stundaðar í mun skemmri tíma. Netaveiðar hafa verið stundaðar frá Vestmannaeyjum í meira en hálfa öld, í nær 60 ár, og þegar það liggur nú ljóst fyrir á árinu 1969 eftir alla þá veiði, sem þar er búin að vera, að þá skuli fiskur sækja þar þó meira á miðin heldur en þó annars staðar, þá verður maður að sjálfsögðu að —kannske að hverfa frá því, sem maður hefur áður haldið, að þessar veiðar væru þess eingöngu valdandi, að fiskur minnkaði á veiðisvæðunum. Ég þarf ekkert að vera að benda á það, að á þessu svæði er netafjöldi árlega mun meiri heldur en hann nokkurn tíma hefur komið til með að vera á Breiðafirði á sínum tíma, þegar hv. 4. þm. Vestf. benti á, að ofveiði hefði átt sér stað með þeim afleiðingum, að fiskur hefði síðar ekki komið þar í neinum mæli miðað við það sem áður var, þannig að ég hygg nú, að þetta sé flókið mál og ekki nema fyrir þá menn, sem hafa á því beina sérkunnáttu, að dæma um það. Þó að við, sem fylgjumst með þessum málum, teljum okkur hafa öðlazt nokkra reynslu í þeim efnum og hlustað á sjómenn og þeirra álit, þá sýnist mér þetta mál vera þess eðlis, að það sé ákaflega vont að dæma um það, af hverju fiskur er minni á þessu ári og á þessu veiðisvæði eða öðru, hvort það er af ofveiði, af notkun einstakra veiðarfæra eða af því að klak kann að farast í stærri stíl þetta árið heldur en hitt, eins og fiskifræðingar halda fram.

En ég vil segja það að lokum um þetta mál í heild, að hvað sem einstaka þm., sem telja, að allt sé að farast hér á landi, ef leyfðar verða auknar togveiðiheimildir innan fiskveiðilögsögunnar, segja, þá hygg ég, að það eigi eftir að sýna sig, að sú n., sem að þessum málum hefur starfað nú að undanförnu, lagt fram sínar ákveðnu till. til úrlausnar í þessum málum, henni hafi tekizt að fara þarna nokkuð bil beggja. Við stóðum frammi fyrir mjög ákveðnum óskum um miklu róttækari aðgerðir heldur en koma fram í áliti n. Við stóðum einnig frammi fyrir mönnum, sem hvöttu okkur mjög til þess að gera engar tilslakanir í þessum efnum. Við reyndum eftir beztu getu að fara bil beggja og yfirvega málið í rólegheitum án nokkurra æsinga og urðum að lokum sammála um ákveðnar till., sem hér hafa verið lagðar fram, þó að ég fullyrði, að hver einasti okkar, sem ég nefndi, hafi horfið kannske í veigamiklum atriðum frá þeim sjónarmiðum, sem hann í upphafi hélt þar fram og hver um sig vonaði að fá framgengt. Ég veit, að ég gerði þetta, og ég hygg, að aðrir nm. geti sagt þá sömu sögu, að okkur tókst að ná samstöðu með því hver fyrir sig að gefa eftir, og hvað sem um þær till., sem við setjum fram verður sagt, hefur verið tekið verulegt tillit til allra eðlilegra og sanngjarnra óska, sem einstaka þm. úr hinum ýmsu kjördæmum hafa sett fram, þó að við í öllum tilfellum höfum ekki getað orðið við öllum óskum, sem ég tel ekki óeðlilegt, því að hefðum við sagt bara við hvern þingmannahóp úr hverju kjördæmi: „segið þið til, hvað þið viljið láta gera,“ þá var engin ástæða til fyrir okkur að vera að eyða neinni vinnu í þetta, það var bara að taka saman óskir manna úr hverju kjördæmi, setja það í tillöguform og leggja það inn í þingið. En við kusum að hafa á þessu annan hátt, að kynna okkur málið og vega og meta þau sjónarmið, sem fram komu, og reyna að gera okkur grein fyrir málinu í heild, og ég endurtek það, sem ég sagði hér í gær, að niðurröðun veiðisvæðanna, eins og þau koma fram í till. n., var gerð að mjög yfirveguðu máli, og málið í heild hangir allt saman saman, þannig að ef það verður farið í stórvægilegum atriðum að breyta till., þá eru þær ekki að mínum dómi nálægt því að vera þess virði, sem ég tel þær þó vera, eins og þær koma fram í því frv., sem hér liggur fyrir.