07.05.1969
Efri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Hér er ekki ástæða til langra ræðuhalda. Því hefur verið lýst yfir, síðast hér áðan af hæstv. dómsmrh., að engu mætti breyta, sómi Alþ. lægi við, að þetta frv. næði nú fram að ganga og það væru ekki líkur til þess, að það næði fram að ganga, nema því aðeins að menn létu það eiga sig að gera á því nokkrar breytingar. Ég skal nú alveg leiða það hjá mér að ræða sóma Alþ. í þessu sambandi. Það er sjálfsagt sízt ástæða til þess að draga úr honum, en mér finnst, að sómi hv. Ed. liggi þó fyrst og fremst í því að reyna að athuga málið sjálf og framkvæma sjálfstæða athugun á þeim frv., sem henni eru fengin, en ekki fara eftir skipunum utan úr bæ um það, hvernig málabúnaður sé hér. En allt um það, þá er sjálfsagt þýðingarlítið að halda hér langa ræðu, og það mun ég heldur ekki gera. Ég vil þó áður en málið fer til n. aðeins koma fram nokkrum aths. frá mér persónulega, því að flokkarnir hafa ekki tekið afstöðu til þessa máls, eins og afgreiðslan í Nd. sýndi ljóslega, og hef ég síður en svo neitt við það að athuga. En ég ætla að gera hér eingöngu grein fyrir persónulegri afstöðu til frv., sem hér er til umr.

Ég þarf raunar ekki að flytja langt mál til að gera grein fyrir þessari afstöðu. Ég er þeirrar skoðunar, að það geti komið til mála að leyfa eitthvað auknar togveiðar innan fiskveiðilandhelginnar og láta þannig undan þeirri miklu ásókn, sem er í það frá sjómönnum og útgerðarmönnum hringinn í kringum landið að fá að veiða nær landi heldur en nú er leyft. En ég álít, að það sé allt of langt gengið með því frv., sem hér liggur fyrir, og þó alveg sérstaklega hér suðvestanlands. Ég óttast það, að þessi mikla aukning á togveiðum innan landhelginnar, sem ráðgerð er, geti brátt leitt til þess, að ástandið verði litlu betra heldur en það var fyrir útfærslu landhelginnar 1952 og 1958. Ég viðurkenni það að vísu, að það er auðvitað mikill munur hér á, þar sem það verða nú eingöngu Íslendingar, sem stunda þessar veiðar, en engu að síður tel ég, að hættan fyrir fiskistofnana, sem er aðalatriðið í mínum augum í þessu sambandi, verði litlu minni, það geri ekki allan mun, hvort það eru íslenzk skip og íslenzk veiðarfæri, sem veiða fiskinn á þessum slóðum, eða hvort það eru erlend skip og erlend veiðarfæri, þegar hugsað er um varðveizlu fiskistofnanna. Ég er hræddur um það, að þessar togveiðar svona nærri landi séu hættulegar. Það er að vísu bent á það af hálfu talsmanna þessa frv. og landhelgismálanefndar, að möskvarnir hafi verið stækkaðir og þess vegna sleppi meira af ungviði heldur en áður. En hvort tveggja er, að ýmsir sjómenn hafa talið, að þessi munur sé ekki mjög stórvægilegur, og svo eins hitt, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að mjög veltur mikið á því, að eftirlit Landhelgisgæzlunnar með þessum málum öllum verði sem fullkomnast, og ég leyfi mér að hafa efasemdir um það, að Landhelgisgæzlan gæti fremur gætt laga og réttar, þó að þetta frv. yrði að l., heldur en eða a.m.k. ekki mjög miklu betur heldur en henni tókst miðað við þær takmarkanir, sem í gildi voru. Þá er því haldið fram, að samþykkt þessa frv. fylgi ekki mikil áhætta, vegna þess að það sé lagt til, að l. gildi ekki nema til ársloka 1971. Þá megi breyta til, ef ástæður þykja svo vaxnar. Það má vel vera, að þetta sé nokkur trygging fyrir því, að l. verði endurskoðuð, en ég hygg þó, að reynslan sýni, að auðveldara sé að veita fleiri undanþágur heldur en fella þær aftur úr gildi, og ég er ekki bjartsýnn á það, að hv. landhelgisnefnd takist að sætta menn á það, að þeir missi þau réttindi, sem þeim samkv. þessum l. eru veitt, jafnvel þó að menn á síðara stigi kæmust að því, að óheppilegar heimildir væri þarna um að tefla. Annars kemur það sjálfsagt vel til greina, eins og hv. 3. þm. Vestf. stakk upp á, að stytta þetta reynslutímabil.

Ég tók eftir því, þegar hv. 5. landsk. hélt framsöguræðu sína fyrir þessu máli, þá taldi hann, að reynslutímabilið gæti ekki verið styttra. Það yrði að vera tvær vertíðir. Þessu er ég ekki vel kunnugur, en óneitanlega væri það líklegra til þess að takast mætti að breyta til, ef reynslutímabilið væri hægt að hafa styttra. Ég legg nú ekki á þessu stigi og að óathuguðu máli neinn dóm á það, hvort það sé hægt, en hugmyndin finnst mér athyglisverð og veit, að hv. sjútvn. athugar það. En þá kemur að því atriði í grg., sem ég er mest ósammála, og það er það, að ekki eigi að skaða sókn okkar í landhelgismálunum á erlendum vettvangi, þó að við aukum togveiðarnar innan landhelginnar. Öll okkar sókn í landhelgismálinu hefur byggzt á því, að við vildum auka vernd fiskistofnanna. L. frá 1948, sem við höfðum byggt útfærslurnar á, bæði 1952 og 1958, eru þannig nefnd „Lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins.“ Og ég er mjög hræddur um það, eins og ég hef áður lýst hér yfir, að það mundi mjög torvelda aðstöðu okkar til áframhaldandi sóknar í landhelgismálinu, ef það kæmi í ljós, sem koma mundi í ljós, ef þetta frv. verður samþ., sem það sjálfsagt verður, að við leyfðum svo miklar togveiðar innan landhelginnar, að gengið væri of nærri fiskistofninum. En það óttast ég, að við séum að gera með þessu frv., og það er kannske ein helzta ástæðan fyrir því, að ég er mótfallinn frv. Mér finnst, eins og hér kom fram áðan hjá hv. síðasta ræðumanni, að það sé alltaf verið að færa sig nær og nær, menn sjái ekkert annað til bjargar heldur en að fiska hér upp við landsteina, gleymi því, að við þurfum að sækja á fjarlægari mið, og meira að segja er svo langt gengið í þessu, að talsmenn togaranna eru farnir að bera fram brtt. við þessi frv. um það, að einnig togararnir, skip upp í 700 lestir eða hvað það nú er, eigi að fiska hér upp að fjögurra mílna landhelginni. Það finnst mér algerlega fráleitar till. Ég tel, að það sé eðlileg verkaskipting, ef svo mætti segja, milli báta og stærri skipa, togaranna, að bátarnir fiski á þeim miðum, sem þeir geta fiskað á, það er þeim miðum, sem næst liggja, en við höfum togarana til þess að sækja lengra út. Og ég álít, að það yrði nú miklu meira gagn að því fyrir íslenzkan sjávarútveg, ef litið er á hann í heild, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að afla Íslendingum stórvirkari veiðitækja, sem gætu fiskað á fjarlægari miðum, en við létum uppeldisstöðvarnar eiga sig og mundum varðveita þær til þess að leggja til þann fisk, sem skipin okkar gætu svo veitt lengra frá landinu.

Þá langar mig til þess að víkja örlítið að því frv., sem hv. Ed. samþykkti með yfirgnæfandi meiri hl. atkv. nú ekki alls fyrir löngu, um bann gegn dragnótaveiði á tilteknu svæði, sem nánar er tiltekið hér í Faxaflóa. Eins og allir hv. þdm. muna, var frv. um breyt. á l. um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti, flutt af hv. 2. þm. Vesturl., Jóni Árnasyni o.fl., til meðferðar hér í d. Og hv. sjútvn. klofnaði að vísu um þetta mál, en hún klofnaði í mjög ójafna hluta, því að í meiri hl., sem mælti með samþykkt frv., voru 6 af 7 nm., aðeins einn nm., hv. 5. landsk. þm., formaður landhelgisnefndar, var á móti frv. fyrst og fremst, eftir því sem kemur fram af hans nál., vegna þess, að öll lagaákvæði um dragnótaveiðina þyrftu endurskoðunar við. Nú er það svo, að samkv. 3. gr. þess frv., sem hér um ræðir, frv. um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu, eiga ákvæði 2. gr. að taka einnig til dragnótaveiða, og í þeim till. undir staflið E í 2. gr. eru tiltekin svæði opnuð fyrir veiðum með botnvörpu og flotvörpu og þá þar með fyrir dragnót. Ég fæ ekki séð, hvernig þeir menn, sem stóðu að samþykkt frv. um takmarkað leyfi til dragnótaveiða, þar sem ákveðið var að loka Faxaflóa alveg fyrir þessum veiðum, geta nú samþykkt þetta ákvæði. Það held ég, að sé algerlega fráleitt viðfangsefni að reyna að leysa, ef nokkurt samræmi á að vera í afstöðu manna til þessara mála á annað borð. Og ég segi það fyrir mitt leyti, að ég mun annaðhvort sjálfur þá eða í samvinnu við aðra freista þess að koma fram brtt. hér við 2. umr. á þessu ákvæði, því að þetta getur ekki með nokkru móti farið saman. Það má vel vera, að það sé rétt hjá hv. 5. landsk. þm., og það er raunar undirstrikað af meiri hl. sjútvn. Nd., að það sé ástæða til þess að hraða endurskoðun l. um dragnótaveiðar innan fiskveiðilandhelginnar og von sé á frv. um nauðsynlegar breytingar á þeirri löggjöf, að það verði lagt fyrir næsta þing. En ég get ómögulega fallizt á það, að þess vegna þurfi þeir, sem vilja loka Faxaflóa fyrir dragnótaveiðum, að falla frá þeirri afstöðu sinni þangað til næsta haust. Það má alveg eins að mínum dómi loka þessum veiðisvæðum þá þangað til önnur skipan verður upp tekin.

Það hefur margsinnis verið á það bent hér í hv. Ed. og er ástæðulaust þess vegna að endurtaka, að Faxaflói er eitt allra þýðingarmesta uppeldissvæði við strendur Íslands. Það kemur til af því m.a., að flóinn liggur næst aðalhrygningarstöðvunum við suðurströnd landsins, og þangað leitar ungviðið skjóls, og þar eru öll ákjósanlegustu skilyrði til ræktar og þroska. Þess vegna er það svo, að ég legg mjög ríka áherzlu á það, að friðun Faxaflóa verði ekki stefnt í hættu með þeim ráðstöfunum, sem hér er verið að gera. Ég geri hana að umtalsefni vegna þess, að ég er málum hér kunnugastur. Ég viðurkenni það alveg hreinskilnislega, að ég hef ekki mikla þekkingu á fiskveiðum eða fiskveiðisvæðum alls staðar umhverfis landið og verð að trúa því, sem aðrir segja um það, en vegna þess m.a., að ég hef á hverju ári nú um nokkurt skeið orðið að taka afstöðu til dragnótaveiða í Faxaflóa sem meðlimur borgarstjórnar Reykjavíkur, þá hef ég gert mér far um að reyna að kynna mér það mál, og ég hef myndað mér á því alveg bjargfasta skoðun, sem sagt þá, að því meiri friðun, sem hér í Faxaflóa verður viðhöfð, þeim mun betra fyrir fiskveiðar landsmanna í heild. Ég skal svo ekki eyða meiri tíma nú við 1. umr., en vildi aðeins koma þessum örfáu aths. á framfæri, áður en lengra er haldið.