29.04.1969
Neðri deild: 83. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég er þakklátur hv. fjhn. fyrir hve vel hún hefur brugðizt við að taka ríkisreikninginn til meðferðar, enda þótt hann kæmi hér því miður nokkuð seint fram á Alþ., þar eð endurskoðun og svörum við aths. gat ekki lokið fyrr. Ég sé ástæðu til þess að víkja örlítið að aths. hv. 1. þm. Norðurl. v., frsm. minni hl., ekki til þess beinlínis að fetta fingur út í neitt af því, sem hann sagði, heldur til þess miklu fremur að skýra það og gera mönnum ljóst, að málið er nokkuð annars eðlis en minni hl. n. virðist álíta.

Ég skal þá fyrst byrja á síðustu aths. hans, sem till. minni hl. byggist á, að ríkisreikningnum verði frestað, en rökin eru þau, að ekki sé enn lokið endurskoðun hjá allmörgum embættum. Mér er ekki kunnugt um, að það hafi nokkru sinni verið svo, að hinni umboðslegu endurskoðun hafi verið lokið hjá öllum embættum, þegar ríkisreikningur hefur verið til meðferðar hér í Alþ., og hygg ekki, að það skipti meginmáli, því að ef eitthvað kemur fram athugavert hjá þessum embættum, þá að sjálfsögðu kemur það til kasta yfirskoðunarmanna við meðferð næsta reiknings. Þetta dettur ekki milli þils og veggjar, ef svo má segja, heldur liggur það þá til athugunar, þegar þar að kemur. Ríkisendurskoðandi vekur athygli á því í svörum sínum við aths. yfirskoðunarmanna varðandi óendurskoðuð embætti, að vitanlega væri hægt að hraða þessari endurskoðun meir með því að fjölga starfsmönnum ríkisendurskoðunarinnar, og hann hefur lagt áherzlu á það að fá meira af þjálfuðu starfsliði, helzt lærða endurskoðendur, í stærri stíl en nú er um að ræða. Það kann vel að vera, að þetta sé nokkuð mikil íhaldssemi hjá fjmrn. að hafa ekki látið í té alla þá starfskrafta, sem þar er beðið um, og er það þá í þessu tilfelli mín sök að hafa ekki gert það. Við höfum hins vegar rætt þetta mál við ríkisendurskoðanda, eins og hann víkur að, og það er í sérstakri athugun núna, hvort hægt er annaðhvort að fastráða eða þá að ráða um stundarsakir nokkra menn til þess að hraða þessari endurskoðun, og að sjálfsögðu er skylt að taka það til athugunar, því að ekki má verða dráttur á því, að endurskoðun verði, a.m.k. má ekki seinka frá ári til árs endurskoðuninni. Ég hygg, að það sé ótvírætt, að að svo miklu leyti sem hér hefur á breyting orðið frá fyrri árum, séu það færri embætti, sem eru nú óendurskoðuð en áður, og það hefur verið gerð mjög rækileg athugun á mörgum embættum ríkisins, sem ríkisendurskoðunin hér víkur að, m.a. mörgum fógetaembættum. Við höfum sérstaklega lagt okkur eftir því, og snertir það nokkuð fyrri aths. hv. 1. þm. Norðurl. v., að leggja áherzlu á bættar innheimtur hjá innheimtumönnum ríkisins víða úti um land, koma í veg fyrir það, að þar söfnuðust skuldir og einkanlega að koma í lag tollinnheimtu, sem því miður var ekki alls staðar með þeim hætti, sem skyldi. Um þetta segir ríkisendurskoðandi sjálfur í sínu svari: Endurskoðun á tekjum hjá innheimtumönnum ríkissjóðs er því mun betur komið nú en undanfarin ár. Hann segir enn fremur: „Um tollendurskoðunina er það að segja, að með sameiginlegu átaki hennar og fjmrn. hefur innheimta aðflutningsgjalda færzt í fastari skorður og eftirstöðvar hafa minnkað mjög.“ Þetta hvort tveggja tel ég vera mjög jákvætt, og það verður stefnt markvisst áfram í sömu átt. Það verður reynt að koma í veg fyrir það, sem því miður hefur sums staðar viljað koma fyrir, að það safnist fyrir vangreiddar tollskuldir, sem ekki á að eiga sér stað. Söluskattur hefur ekki alls staðar verið greiddur með sama hraða og verður á því nokkur mismunun, t.d. miðað hér við þéttbýli eins og Reykjavík, þar sem lokað er miskunnarlaust fyrir fyrirtæki, ef þau ekki borga á réttum gjalddögum, og mín skoðun er sú. að það sé ekki neinu fyrirtæki til góðs að láta slíkar skuldir safnast fyrir. Það verður því haldið áfram á þessari braut, sem ríkisendurskoðandi hér víkur að og leitazt við að bæta úr starfsmannahaldi ríkisendurskoðunar, svo sem frekast eru tök á. En ég get hins vegar ekki fallizt á, ekki sízt miðað við það, sem ég áðan sagði, að endurskoðuninni hefur þó þokað fram meira undanfarin ár, að það sé sérstök ástæða nú til þess að fresta afgreiðslu þessa ríkisreiknings.

Varðandi þær 200 millj. kr., sem hv. 1. þm. Norðurl. v. vék hér að, að væru í kassa eða nánast í vasa innheimtumanna ríkissjóðs um áramót, þá er það vissulega ljót saga, ef svo væri, og engum ætti að vera það meira kappsmál en fjmrh., að slíkt ekki kæmi til, því að ekki veitir af að fá í kassann um áramótin. Sannleikurinn er líka sá, að allan desembermánuð er ríkisféhirðir, ríkisbókhaldið og allir þeirra starfsmenn önnum kafnir við það að herða á innheimtum hjá öllum innheimtumönnum ríkisins, gera upp öll bráðabirgðalán og sjá til þess, að sem mest komi þá í ríkiskassann, enda er reyndin sú, að síðustu mánuði ársins koma venjulega inn hundruð millj. allt fram á gamlársdag, og á gamlársdegi, þótt það sé stuttur dagur, getur það leikið á 200–300 millj. eða jafnvel meiru, sem kemur inn þann dag.

Það kann að virðast einkennilegt, að þessar 200 millj. liggi því í vasa innheimtumanna úti um land, enda er þessu ekki svona farið. Því er alls ekki svona farið, að þessar 200 millj. liggi um áramót í kassa hjá þessum innheimtumönnum ríkissjóðs. Það er hér allt annað, sem kemur til greina. Það er þrennt, sem er fyrst og fremst orsök þessarar tölulegu niðurstöðu, sem lítur óneitanlega ekki fallega út á pappír. Í fyrsta lagi má geta þess, að allir innheimtumenn ríkissjóðs hafa með höndum margvíslegar útgreiðslur frá sínu embætti til ýmiss konar framlaga, sem ríkið á að borga sinn hluta af í hinum ýmsu héruðum. Það er kostnaður vegna löggæzlu, dómsmálakostnaður alls konar og ýmsar greiðslur, sem ríkið á að borga hluta af og sýslumönnum er ætlað að inna af hendi. Í þessu tilfelli, t.d. árið 1967, þá höfum við áætlað, að þeir fjármunir hafi numið um 35 millj. kr., sem í rauninni var engin ástæða til þess að sendar væru ríkisféhirði vegna þess, að þær átti að greiða. En endanleg skilagrein hafði ekki verið gerð fyrir þessum upphæðum 31. desember, heldur hlaut það að dragast fram yfir áramótin, þegar þessir hlutir voru endanlega gerðir upp í ríkisbókhaldinu. Það er því í rauninni ekki hægt að saka embættismennina, þó að þeir hafi haldið eftir þessum fjárhæðum.

Í annan stað er þess að geta, sem hv. þm. virtist eiga nokkuð erfitt með að skilja, að síðasta dag ársins innheimtast allverulegar fjárhæðir, sem ómögulegt er að koma til ríkisfjárhirzlunnar í tæka tíð, þannig að þær verði bókaðar þar inn sem tekjur 31. desember. Ég nefni aðeins sem dæmi, að t.d. hér í Reykjavík voru um síðustu áramót 6–7 millj. kr., sem innheimtust síðdegis 31. desember og ómögulegt var að koma inn í bankareikninga ríkisfjárhirzlunnar eftir þann tíma. Það var ekki tæknilega mögulegt. Ríkisféhirðir hefur að sjálfsögðu ekki hlaupareikninga út um allt land. Þeir reikningar eru á vegum embættanna, en ekki ríkisfjárhirzlunnar. Það skiptir þess vegna ekki öllu meginmáli, úr því að þeir peningar liggja þar og eru ekki komnir á viðskiptareikning ríkissjóðs í Seðlabankanum, sem skiptir meginmáli, hvort hann liggur á nafni viðkomandi sýslumanns eða væri að forminu til á nafni ríkisféhirðis.

En það, sem er meginkjarni málsins og meginskýringin á þessu öllu saman er það, að sýslumönnum er það mikið kappsmál að hafa ekki allt of miklar eftirstöðvar um áramót, og þess vegna hafa þeir freistazt til þess, þó að það í rauninni sé ekki heimilt og samkv. nýjum l. um ríkisbókhald alls ekki heimilt, að halda opnum reikningum fram yfir áramót með þeim árangri, að þeir hafa iðulega í janúar og jafnvel fram í febrúar tekið á móti mjög verulegum fjárhæðum, sem þeir svo í reikningsskilum sínum telja vera innkomnar 31. desember, þegar þeir senda grg. sínar, sem þeir eiga að senda í janúar eða í síðasta lagi í byrjun febrúar og gengið er mjög hart eftir, að sé gert, en því miður, og það skal ég taka undir, hafa ekki allir sýslumenn sent skil það snemma. Til þess að þetta valdi nú ekki misskilningi, að hér séu 200 millj., sem sýslumenn fái að hafa í vasa sínum fram eftir öllu ári, þá vil ég geta þess varðandi þetta ár, sem hér er sérstaklega nefnt, að í janúarmánuði 1968 voru innborgaðar af þessu fé 45 millj., í febrúarmánuði 65 millj. og í marzmánuði 48 millj., en þá voru komnar inn skilagreinar yfirleitt frá öllum embættunum, þannig að eftir það eru aðeins smávægilegar upphæðir, sem borgast inn. Það er því þessa þrjá fyrstu mánuði ársins, sem í rauninni allar þessar eftirstöðvar greiðast inn, og endanlega er gert upp það, sem sýslumennirnir sjálfir eiga að greiða af þeim kostnaði, sem ég gat um áðan, að félli í þeirra hlut að leggja út fé fyrir, og þeir sjá því ekki ástæðu að senda fyrst peningana suður til Reykjavíkur og innheimta þá aftur til þess að borga hluta af löggæzlukostnaði og annað, sem þeir eiga að greiða.

Þetta eru skýringarnar, þannig að hér mundi ég ekki vilja segja, að væri um óreiðu að ræða eða eitthvert óskaplegt mál, en ég vildi, að satt væri, að sýslumennirnir hefðu þessar 200 millj. í kassa og gætu látið okkur hafa þetta. En því miður er þetta ekki svona. Það er þarna freistazt til þessa, því að ef þeir ekki notuðu janúarmánuð líka, mundi þetta færast inn sem vangreiddir skattar í þeirra umdæmum, og það er kannske mannlegt, að þeir reyni í byrjun ársins að innheimta sem mest, til þess að koma því inn á liðið ár, og það koma þá fram sem skil frá þeirra hendi. Þetta er skýringin á því, sem hér er að gerast. Ég er ekki með þessu að afsaka þetta á nokkurn hátt, heldur aðeins að skýra staðreyndir, og ég legg á það áherzlu, að við reynum með öllu móti að sjá til þess, að fyrir 31. desember sé greitt allt það inn, sem mögulega er auðið að fá inn af ríkissjóðstekjum. Það er af ósköp eðlilegum ástæðum og hlýtur að vera metnaðarmál rn. og ekki hvað sízt fjmrh., að það sé ekki óeðlilega hár yfirdráttur í Seðlabankanum á þessu tímabili. Það er lögð á það núna alveg sérstök áherzla og hefur verið frá síðustu áramótum að reyna að breyta þessu. Því miður hefur það ekki tekizt enn sem skyldi að fá sýslumenn til þess að gera þetta upp og senda skilagreinir nógu snemma. Það skal tekið fram, að þeir senda mánaðarlega skilagreinir, það er annað mál. En þessi lokaskilagrein ársins hefur viljað teygjast nokkuð á langinn vegna þess, að þeir hafi verið að hreinsa til með þessum hætti, sem ég gat um. En hin nýju l. um ríkisbókhald gera ráð fyrir því, að það sé lokað um áramót og sýslumenn eiga einnig að gera það. Því miður, eins og ég segi, er því ennþá þannig farið með nokkur embætti, sem ég sé ekki ástæðu til þess að vera að tilgreina hér. Hér er þó mjög misjafnlega pottur brotinn, sum embætti gera mjög snemma skil, önnur seint. En það verður lögð áherzla á það í samráði við dómsmrn., sem ég hef rætt um þetta mál við, að reka á eftir því með fullri hörku, að sýslumenn geri sem skjótust skil, m.a. til þess að útkoma ársins geti legið fyrir sem allra fyrst. Ég hefði viljað vera búinn að gera hv. Alþ. nú þegar grein fyrir afkomu ársins 1968, en það hefur ekki verið hægt vegna þess, að enn eru nokkrir sýslumenn, sem betur fer mjög fáir, sem eiga eftir að gera endanleg skil, þannig að hægt sé að fá lokatölu. Þetta, herra forseti, vildi ég að kæmi fram við þessar umr. til þess að útskýra hvernig efnislega stendur á því, að þessar tölur eru hér svo háar sem raun ber vitni um, og ég vonast til að mér hafi tekizt að útskýra fyrir hv. þm., hvað hér er um að vera.