13.05.1969
Neðri deild: 94. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

63. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Jón Skaftason:

Herra forseti. Mér þykir rétt, þar sem ekki liggur fyrir í hv. d. nál. okkar, hv. 5. þm. Norðurl. v. um afstöðu okkar til þessa frv., að skýra frá því, hver hún var í hv. sjútvn., en þar lýstum við þeirri afstöðu þannig og létum bóka, að við legðum til, að frv. þessu yrði frestað nú á þessu þingi og það yrði athugað frekar og tekið til meðferðar í þingbyrjun næsta haust. Ég skal ekki lengja umr. með því að telja upp þau rök, sem mæla með þeirri afstöðu. Þau hafa að nokkru verið rakin hér af hv. síðasta ræðumanni, en í framhaldi af þessu vil ég aðeins lýsa því yfir sem minni skoðun, að ég er í meginatriðum mjög hlynntur því, að komið verði á fót verðjöfnunarsjóði fyrir sjávarútveginn, og tel raunar, að mjög æskilegt hefði verið, að slík sjóðsstofnun hefði verið ákveðin fyrir mörgum árum. Slíkt hefði vafalaust leitt af sér ýmislegt gott. Um afstöðuna til frv. nú og þeirrar rökst. dagskrár, sem hér hefur verið lýst, vil ég aðeins segja það, að ég mun fylgja rökstuddu dagskránni, þegar hún kemur til atkv. hér í deildinni.