29.04.1969
Neðri deild: 83. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það er fátt um ráðh. hér í dag, svo að ég verð að víkja máli mínu til hv. frsm. n., hv. 3. þm. Sunnl., vegna þeirra upplýsinga, sem mig langar til að fá. Í 7. gr. þessa frv. er talið upp til hvaða framkvæmda lánin eigi að fara, sem hér er ætlað að taka. Þetta er allgreinileg sundurliðun og ekkert út á hana að setja, nema hvað ég óska eftir frekari grg. um þann lið, sem heitir Rafmagnsveitur ríkisins. Það eru 42 millj. kr. En í grg. er gerð grein fyrir því, að af þessari upphæð eigi 19.2 millj. að fara til sveitarafvæðingar. Nú er það efni míns máls að fara fram á það við hv. frsm. n., að hann afli upplýsinga hjá hæstv. ríkisstj. um það, hvernig þessum 19.2 millj. verði varið. Ég vona, að þetta eigi að fara að einhverju eða öllu leyti til nýrra framkvæmda, en ekki til greiðslu einhverra skulda eða þess háttar. Ég vona það, en ég veit reyndar ekkert um það. En sé það svo, að þetta eigi að fara til nýrra framkvæmda, þá finnst mér ekki úr vegi, að þm. fái að vita það, þegar komið er nú að maíbyrjun, hvað eigi að framkvæma fyrir þessa upphæð á yfirstandandi sumri. Tilefni mitt til þess að óska eftir þessum upplýsingum er þó alveg sérstaklega það, að fyrir tveimur árum, að ég ætla, var það samþ. í raforkuráði að leggja rafmagnslínu um einn hrepp í mínu kjördæmi, Bæjarhrepp í Hrútafirði. Vegalengdin á milli bæja þarna fullnægir algerlega þeim skilyrðum, sem sett eru í reglum um rafveitur, þ.e.a.s. það er um 11/2 km að meðaltali vegalengdin á milli bæja. Þessi sveit hefði því átt fyrir nokkru síðan að vera búin að fá sína raflögn, en hún er ekki komin enn.

Þrátt fyrir það, að gefið hafi verið í skyn og samþ. í raforkuráði, að á næstu tveimur árum, þ.e.a.s. á árunum 1968 og 1969, skyldi þessi lína lögð, er mér nú tjáð, að það sé ætlunin að gera ekkert af þessu í sumar, í hæsta lagi að koma fyrir einhverjum staurum við byrjun eða enda þessarar línu og þykir mér heldur bágborin útkoman á þessu máli, ef svo er. Ég tala nú ekki um annað byggðarlag í mínu kjördæmi, Barðastrandarhrepp, sem er allfjölmennur hreppur, þar sem líka er vegalengd að meðaltali milli bæja innan þeirra marka, sem fylgt er, þegar frá er tekin sjálf heiðin, sem auðvitað á alls ekki að reikna með, milli Patreksfjarðar og Barðastrandar. Þar bólar heldur ekki á neinum undirbúningi eða ráðagerðum um að leggja þangað nokkurn tíma rafmagn. Þannig er nú ástatt þarna. Þarna eru þó 28 bæir í röð og ekki lengra en þetta að meðaltali milli bæja. Ég endurtek þessa ósk mína til hv. frsm. n., að hann afli sér þessara upplýsinga, fyrst enginn ráðh. er nú við til þess að svara, en ég geri ekki ráð fyrir og geri enga kröfu til þess, að hann svari þessu í dag, því að það er ekki við því að búast, að hann hafi þetta í höndunum núna, heldur að hann afli þessara upplýsinga fyrir 3. umr., hvernig eigi að verja þessum 19.2 millj. kr., sem þarna er gert ráð fyrir til sveitarafmagnsveitna. Ég held, að það sé alls ekki til of mikils mælzt, þó að þm. fái nú einhverja vitneskju um þessar framkvæmdir, þegar komið er sumar.