13.05.1969
Efri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir um framkvæmdaáætlun ríkisins fyrir 1969, hefur gengið í gegnum hv. Nd. og tók það þá einni breytingu. Tekin var inn heimild til að taka lán í Danmörku til að framkvæma endurbætur á húsi Jóns Sigurðssonar. Þetta var ekki upphaflega í frv. ríkisstj., eins og það var lagt fyrir, en er tekið inn í frv. samkv. ósk forseta Alþingis. Hús þetta er, eins og hv. þdm. er kunnugt, eign Alþingis og sá ég ekki ástæðu til, eins og atvik málsins voru, að hafa á móti því, að þessi lántökuheimild væri tekin inn, þar sem þegar var búið að tryggja þetta lán.

Það hefur árlega undanfarin ár verið lögð fram til viðbótar fjárlögum sérstök framkvæmda- og fjáröflunaráætlun, sem hefur verið í tvennu lagi, annars vegar framkvæmda- og fjáröflunaráætlun fyrir ríkisframkvæmdir til viðbótar því, sem gert er ráð fyrir í fjárl., og hins vegar fjáröflun til fjárfestingarlána atvinnuveganna. Hér er eingöngu um að ræða annan þátt þessara mála, en það er fjáröflun vegna ríkisframkvæmda, sem byggist á því, að samkv. l. um Framkvæmdasjóð Íslands er það hlutverk þess sjóðs að afla fjár til stofnsjóða atvinnuveganna, og það eru því og verða till. þeirrar sjóðsstjórnar, sem er þingkjörin, sem koma til með að verða afgerandi um það, hvernig þeirri fjáröflun verður hagað og skiptingu þess fjár, og kemur ekki til kasta Alþ. sérstaklega að leggja blessun sína yfir þá skiptingu.

Framkvæmdaáætlunin nú er töluvert umfangsminni en á s.l. ári, þannig að gert er ráð fyrir framkvæmdum, sem nema 225 millj. kr. í staðinn fyrir 330 millj. á s.l. ári, en þá rann hluti af erlendu framkvæmdaláni til framkvæmdaáætlunarinnar og gerði þannig mögulegt að hafa upphæðina þetta hærri. Ég legg á það ríka áherzlu, sérstaklega vegna brtt., sem fram komu við þetta frv. í hv. Ed., að það hefur alltaf verið meginregla með þessa áætlun, að hún er ekki óskalisti, heldur er hún ákvörðun, þ.e.a.s. það er gert ráð fyrir því, að það sé hægt að afla þess fjár, sem lagt er til að afla með áætluninni, en ekki lántökuheimildir veittar að segja má út í loftið, og jafnframt er gert ráð fyrir því, að framkvæmdir þær verði unnar, sem tekið er fram í áætluninni, að stefnt sé að að hrinda í framkvæmd.

Þetta frv. nú er með öðrum hætti en undanfarin ár að því leyti til, að nú er tekið inn í frv. sjálft, hvernig fénu skuli ráðstafað. Það hefur ekki áður verið gert, heldur birt sem fskj. með frv., en ég hygg, að það sé meira í samræmi við óskir hv. þm., að skipting fjárins sjálfs sé tekin inn í frv. Úr því að nú þegar lágu fyrir ákvarðanir um það eða till., hvernig æskilegast væri að skipta þessu fé, þá er lagt til, að það verði gert í frv. sjálfu. Það hefur stundum verið einnig fundið að því, að þetta frv. væri seint á ferðinni hér á hinu háa Alþ. Ég hygg, að það verði ekki með sama rétti borin fram kvörtun um það nú vegna þess, að drög að framkvæmdaáætlun voru látin nú í fyrsta sinn fylgja fjárlagafrv. fyrir árið 1969. Það eru að vísu nokkrar breytingar, sem hafa orðið á áætluninni frá því fskj., en þær breytingar eru tiltölulega smávægilegar. Þar var á það bent, um leið og taldar voru upp margvíslegar framkvæmdir, sem óumflýjanlegt var að afla fjár til, að lánsfjáröflun væri mjög takmörkuð, og það yrði að fara mjög hægt í það að ganga á hinn innlenda lánamarkað og þrengja hag atvinnuveganna að þessu leyti og takmarka ráðstöfunarfé bankanna, og þess vegna væri ekki um annað að ræða en taka inn í fjárlög ýmsa útgjaldaliði, sem bent var þar á, að nauðsynlegt væri að sinna, en ekki var þá til fé til ráðstöfunar fyrir. Sumt af þessum framkvæmdaliðum var tekið inn í fjárlagafrv., og eru þeir því úr sögunni í sambandi við þetta mál, eins og það liggur fyrir hér, en hins vegar eru þeir liðir eftir, sem talið var auðið að fjármagna eftir þeim leiðum, sem þá var vikið að, að færar mundu verða til þess að fjármagna framkvæmdirnar. Þær leiðir voru tvær, annars vegar útgáfa spariskírteina á sama hátt og gert hefur verið um nokkurra ára bil og hins vegar að taka svokallað PL-480 lán, sem er vörukaupalán í Bandaríkjunum og Íslendingar hafa átt kost á um nokkurra ára bil og hagnýtt sér og líkur til þess, að það lán fáist einnig á þessu ári. Þessar tvær leiðir var talið fært að fara, en hins vegar hef ég ekki treyst mér til að leggja til, að gengið verði lengra eftir þeirri braut að afla fjár með sölu spariskírteina en hér er gert ráð fyrir, vegna hinna almennu þrenginga á peningamarkaði. Það er gert ráð fyrir hér að afla sömu fjárhæðar í nýjum spariskírteinalánum og gert var á s.l. ári, þannig að ekki verði þrengt að bönkunum hvað þetta snertir. Þá er einnig gert ráð fyrir að endurnýja, sem nemur 80 millj., innleyst spariskírteini. Þetta hefur verið þannig undanfarin ár, og það tekur að sjálfsögðu ekki ráðstöfunarfé frá bönkunum á þann hátt, því að hér er eingöngu um það að ræða að þeir, sem spariskírteini eiga þegar, endurnýi þau og kaupi ný skírteini. PL-480 lánið er áætlað að geti orðið á þessu ári um 70 millj. kr. Þetta eru sem sagt þær tvær leiðir, sem gert er ráð fyrir að fara til að fjármagna framkvæmdir þær, sem hér er um að ræða.

Þá munu menn vafalaust spyrja, hvernig þær framkvæmdir séu valdar, sem ákveðið er að leggja til að veitt verði fé til samkv. þessu frv. Það er í stuttu máli sagt þannig, að það hefur verið leitazt við að takmarka þær fjárveitingar við framkvæmdir, sem að mati Efnahagsstofnunarinnar og fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar hefur verið óumflýjanlegt að afla fjár til. Það er annaðhvort um það að ræða, að það þurfi beinlínis að afla fjár til skuldagreiðslna eða þá skuldbindinga, sem ríkið hefur þegar tekið á sig, eða í þriðja lagi til framkvæmda, sem óumflýjanlegt er vegna þjóðfélagshagsmuna að afla fjár til. Er þar fyrst og fremst um að ræða orkurannsóknir, bæði á jarðhita og raforku.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara langt út í það að útskýra einstaka liði í frv. varðandi þær fjárveitingar, sem þar er gert ráð fyrir til einstakra liða, það er mjög rækilega gert í 7. gr. frv. og þarflaust að vera að lesa það upp aftur.

Ég hygg, að allir hv. þm. séu sammála um, að það beri brýna nauðsyn til að ýta áleiðis, svo sem kostur er á, rannsóknum í sambandi við saltvinnslu hér á Reykjanesi. Jarðboranir þarf að framkvæma í Námaskarði, bæði vegna orkuversins þar, sem framleiðir í senn jarðgufu til Kísiliðjunnar, sem nú er áformað að stækka um helming, og til orkuvers þess, sem þar hefur verið sett í tilraunaskyni á vegum Laxárvirkjunar og þarf meiri orku en þegar er séð fyrir. Þá er einnig ljóst, að það er nauðsynlegt að halda áfram rannsóknum á efra Þjórsársvæðinu vegna þess að áformað er að hraða framkvæmdum við álbræðsluna.

Um Rafmagnsveitu ríkisins skal ég ekki orðlengja. Það er stórkostlegt fjárhagsvandamál, sem er nú unnið að af sérstakri n. til að sjá, hvernig á að leysa það yfir höfuð, vandinn þar er miklu meiri en þær framkvæmdir, sem hér er um að ræða. Hagur þess fyrirtækis er hinn bágbornasti, og vantar geysistórar fjárhæðir til þess, að náð verði saman endum varðandi rekstur þess fyrirtækis, og því nauðsynlegt að taka það til heildarendurskoðunar.

Um framkvæmdirnar á Keldnaholti er það að segja, að það er gert ráð fyrir að Rannsóknastofnun iðnaðarins fái þar inni, en mikið nauðsynjamál er orðið fyrir Háskólann að losa það húsnæði, sem iðnaðardeildin hefur haft þar til afnota undanfarin ár, því að mjög þrengir að Háskólanum.

Það hefur verið venja að taka nokkurt fé að láni til landshafna í framkvæmdaáætlun, og er svo gert enn, og er þar fyrst og fremst um að ræða aðgerðir við Þorlákshöfn.

Hafnarfjarðarvegur í Kópavogi er skuldbinding gagnvart Kópavogskaupstað. Það eru ekki ríkisútgjöld, heldur er ætlunin, að það greiðist af þéttbýlisfé Kópavogs, þegar þar að kemur, en loforð er um það að útvega lán til þess að þoka þeim framkvæmdum áfram.

Þá er eitt mesta vandamálið í öllu þessu fjáröflunarmáli, en það er Keflavíkurvegurinn. Það er sérstök fjárveiting í vegáætlun til hans, tæpar 7 millj. kr., og þar að auki er vegarskatturinn, sem er á þeim vegi, en engu að síður eru horfur á því, miðað við þær gengisbreytingar, sem orðið hafa, að seint verði greiddar þessar skuldir, nema einhverjar sérstakar ráðstafanir verði gerðar til þess að auka það fé, sem til ráðstöfunar verður til þessara skuldagreiðslna. Það gerir ekki betur, eins og er, en að standa undir vöxtum af þessu láni.

Það er talið nauðsynlegt að hraða framkvæmdum við Menntaskólann við Hamrahlíð. Það þarf meira menntaskólarými heldur en gert var ráð fyrir í áætlun, sem lá fyrir, þegar fjárlagafrv. var samþ., og því talið nauðsynlegt að auka húsrými menntaskólanna í Reykjavík til að fullnægja þörfinni hér miðað við sýnilega fjölgun nemenda.

Lögreglustöð í Reykjavík er með sömu fjárveitingu og var á s.l. ári og mun þó ekki nægja til að ljúka þeirri byggingu.

Nýr liður er hér, sem er rannsókn á perlusteinsvinnslu, en það er nokkuð svipað og með 1. liðinn því að þar er um að ræða að rannsaka verðmæt jarðefni með það í huga, hvort unnt sé að skapa ný útflutningsverðmæti, og hygg ég, að ekki geti orðið ágreiningur um það hjá hv. þd., að það sé rétt stefna.

Það er auðvitað margt, sem hefði verið æskilegt að vinna að, en það gefur auga leið, að það verður að fara mjög varlega í lántökur. Bæði er það rétt, sem oft hefur verið bent á af hv. þm., að það sé mjög vafasamt að fjármagna með lántökum ríkisframkvæmdir, sem eru áframhaldandi viðfangsefni, þó að það geti verið rétt til þess að ljúka. framkvæmd, sem er tiltekið átak, sem er þá úr sögunni. En ekki síður er nauðsynlegt nú að fara varlega í lántökur vegna þess hve þröngt er um fjármagn á hinum innlenda peningamarkaði, og á það hefur margoft verið lögð áherzla, bæði af mér og mörgum hv. þm., og þá ekki síður stjórnarandstæðingum, að það væri mjög varhugavert að fara að taka erlend lán til almennra framkvæmda í landinu, þannig að ég er algjörlega sammála því, að það megi ekki gera, eins og sakir standa nú. Þó að hér sé talað um PL-480 lán, sem er erlend lántaka að vissu leyti, þá er það alveg sérstaks eðlis vegna þess, að það er, eins og ég sagði, vörukaupalán, það eru kaup á vörum, sem undir öllum kringumstæðum þarf að kaupa til landsins, matvörur og fóðurvörur, og mundi ekki þurfa að greiðast með erlendum gjaldeyri, en við fáum hins vegar, í stað þess að þetta sé greitt með venjulegum hætti, þetta fé til ráðstöfunar í vissan árafjölda, eins og hv. þm. er kunnugt, og er því raunverulega ekki um ráðstöfun á erlendu lánsfé að ræða í venjulegum skilningi.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.