16.05.1969
Efri deild: 97. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

188. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Þetta mál er hingað komið aftur vegna breytingar, sem á því var gerð í hv. Nd. Sú breyting er í 2. kafla 17. gr. 1. mgr. Þar segir: „Áhafnadeild aflatryggingasjóðs skal greiða útvegsmönnum hluta af fæðiskostnaði lögskráningarskyldra sjómanna á fiskibátum,“ og síðan kemur viðbótin: „og hlutaráðinna landmanna á línubátum, sem lögskráð er á.“ Og síðan heldur áfram eins og frv. var áður: „sem hér segir“. Þessi viðbót í Nd. mun gerð með tilliti til þess, að þeir, sem að samningunum um kjör sjómanna á fiskiskipum stóðu, virðast bera það allir sem einn, að ætlunin hafi verið, að ákvæði samkomulagsins skyldu ná til hlutaráðinna landmanna á línubátum, sem lögskráð er á, eins og nú segir í frv. Hitt er jafnótvírætt, að þessi orð komust ekki inn í samningstextann, eins og hann lá fyrir þessari deild áður, og ekki var á þetta bent, fyrr en málið var komið til meðferðar í hv. Nd. Nú er náttúrlega enginn vafi á því, að í samningum eins og þessum er auðvelt að svara því til, að bókstafurinn blífur. En hitt er annað mál, hvort menn vilja sýna sanngirni, og það virðist mér hafa verið stefna hv. Nd. í þessu máli, og það er einnig álit meiri hl. sjútvn. í þessari hv. deild, sem hefur rætt málið á fundi. Þess vegna vil ég í nafni meiri hl. mælast til þess við Ed., að hún samþ. frv. með þeim breytingum, sem á því urðu í Nd.