16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég ætlaði að mæla fyrir brtt. á þskj. 735, sem ég flyt ásamt hv. 5. þm. Austf. Vilhjálmi Hjálmarssyni, en till. er flutt hér í samráði við aðra alþm. af Austurlandi. Í till. er lagt til, að tekin verði upp ein viðbótarheimild í frv., um það, að ríkisstj. fái einnig heimild til þess að taka hliðstætt lán vegna Austurlandsáætlunar, eins og hún fær í þessu frv., eða gert ráð fyrir að hún fái með þessum lögum vegna Norðurlandsáætlunar. Og síðan leggjum við til, að fyrirsögn frv. breytist til samræmis við þessa efnisbreytingu.

Ég tók eftir því, að hæstv. fjmrh. vék nokkuð að þessari till. okkar í þeirri ræðu, sem hann var að ljúka við að flytja hér, og taldi sig ekki geta mælt með till., þar sem ekkert lægi ákveðið fyrir um Austurlandsáætlun, annað en það að rætt hefði verið um það af stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs, að rétt mundi vera að fara að vinna að samgöngumálakafla Austurlandsáætlunar. Mér þykir þessi afstaða hæstv. fjmrh. vera æði einkennileg. Hér er aðeins um það að ræða, að ríkisstj. fái heimild frá Alþ. til þess að mega taka lán vegna Austurlandsáætlunar. Till. er ekki um það, að lán skuli tekið, heldur er hér um heimild að ræða, sem mundi að sjálfsögðu fela í sér vissa viðurkenningu á því, að það sé einnig ætlunin að vinna að framkvæmd Austurlandsáætlunar, eins og gert hefur verið varðandi Vestfirði og nú stendur yfir fyrir Norðurland.

Eins og hæstv. ráðh. minntist hér á þá hafa Austfirðingar þegar hafizt handa um undirbúning í þessum efnum og m.a. ráðið til sín starfsmann, sem vinnur að þessum undirbúningi og hefur tekið upp talsverða vinnu varðandi þessi mál í fullu samráði og samstarfi við Efnahagsstofnunina. Ég tel því kominn tíma til þess, að tekin sé ákvörðun a.m.k. á óbeinan hátt hér á Alþ. um það, að ætlazt sé til, að unnið verði að Austurlandsáætlun, þótt síðar kunni að verða, á hliðstæðum grundvelli eins og áformað er að gera fyrir aðra landshluta.

Ég held líka, að þær umr., sem hér hafa farið fram um Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun að þessu sinni, þær beri það alveg ljóslega með sér, að það sé þörf á því að taka upp breytt vinnubrögð varðandi þessi mál, frá því sem verið hefur. Vinnubrögðin hafa verið þau, t.d. nú viðvíkjandi Norðurlandsáætlun, að fyrst er leitað eftir láni erlendis til framkvæmda á Norðurlandsáætlun og lánið er tekið og það er búið að taka lánið og það er þegar farið að ráðstafa þessu fé, a.m.k. í brb.- lán, en síðan er komið fram með till. á Alþ. og leitað eftir heimild Alþ. til þess að mega taka lán í þessu skyni. Þetta eru vitanlega algjörlega óhæf vinnubrögð, að standa þannig að málum, það væri miklu nær að fara þannig að, eins og við leggjum til á till. okkar, að ríkisstj. fái fyrst heimild til lántöku í tilteknu skyni og síðan verði unnið á eðlilegan hátt að undirbúningi málsins. áður en kemur til beinnar lántöku. En það er ekki nóg með það, að vinnubrögðin hafa verið svona varðandi heimildir og lántökur og jafnvel ráðstöfun á þessu lánsfé, heldur er greinilegt, að hæstv. fjmrh. virðist leggja þá merkingu í áætlanir af þessari gerð, að hann telur, að Efnahagsstofnunin eða einhver slíkur aðili eigi hér að hafa fullnaðarvald um það, hvað inn í áætlunina á að koma. Og ef einstakir þm. koma fram með uppástungur um það, hvað þeir teldu, að ætti að vera í áætluninni þá eru þeir afgreiddir á þann hátt, að það sé alls ekki tímabært að taka slíkar till. fyrir, vegna þess að það sé engan veginn víst, að um þetta efni verði fjallað í áætluninni, rétt eins og alþm. og sjálft Alþ. hafi hér engan tillögurétt um. Út af fyrir sig var hægt að vinna að þessum málum þannig að fela Efnahagsstofnuninni að vinna að gerð slíkrar framkvæmdaáætlunar, sem þessar byggðaáætlanir eru. Og Efnahagsstofnunin gat fullunnið það verk og lagt síðan fram sínar till. og grg. um áætlunina. En auðvitað verður með einum eða öðrum hætti að koma fram hér á Alþ. hvernig þessar áætlanir eiga að vera. Eiga þær að samþykkjast á Alþ. og síðan að framkvæma samkv. því, eða vill Alþ. gera ákvörðun um það að fela einhverjum stofnunum það vald að mega ákveða um þessar áætlanir.

Þessi vinnubrögð, sem nú eru viðhöfð, eru gjörsamlega forkastanleg. Þegar svona er staðið að málum þá kemur það t.d. upp, eins og nú hefur gerzt, að vegna þess að einhverjum aðila dettur það til hugar eða þykir það hagkvæmt að teygja t.d. Norðurlandsáætlun austur í Vopnafjörð vegna þess, að einhverjir góðir menn eru þar að vinna að tilteknum verkum, sem þeir hafa tekið að sér í akkorði og það þarf einhvern veginn að leysa þeirra mál, þá snara menn sér til og ákveða það, að hafnargerð á Vopnafirði skuli teljast undir Norðurlandsáætlun. Og slíkt sem þetta á svo að standa, hvað sem um það yrði sagt, t.d. af hv. alþm. Auðvitað eru öll vinnubrögð af þessu tagi gjörsamlega forkastanleg. Jú, það er rétt, þeir á Vopnafirði og við þm. á Austurl. getum út af fyrir sig verið ánægðir yfir því, að vegna þess að svona eða á annan veg stendur á fyrir þessum eða hinum manni þá fæst þó hafnargerð í okkar kjördæmi, sem annars hefur ekki fengizt. En hvað um það, það verður vitanlega að ganga frá því hér á Alþ. hverjir það eru, sem raunverulega eiga að leggja síðustu hönd á gerð slíkra framkvæmdaáætlana sem þessara. Það getur ekki verið neitt einkamál ríkisstj., eða einstakra ráðh. og heldur ekkert einkamál Efnahagsstofnunarinnar, að ákveða það, hvað í slíkri áætlun á að vera. Þessir aðilar geta gert till. um málið, þeirra áætlunargerð getur verið lögð fyrir Alþ. og Alþ. getur gert þar breyt. á, ef það óskar að gera hana, eða þá, að Alþ. gengur fyrirfram þannig frá málum, að fela ákveðnum stofnunum, ja, t.d. eins og Atvinnubótasjóði og öðrum slíkum, fullnaðarvald til þess að gera slíka áætlun og standa að framkvæmd hennar. En þetta, að standa svona að málum, að embættismannastofnun geti ein ráðið því, hvað í áætlun er sett og síðan sé sagt raunverulega við alþm.: Um þetta hafið þið engan tillögurétt, og ef þið flytjið um það till., að inn í áætlunina skuli tekið þetta eða hitt, þá er ekki víst, að það passi við það, sem embættismennirnir hafa hugsað sér.

Á þennan hátt er ómögulegt að afgreiða þessi mál.

Ég tel þvert á móti, að það sem réttast væri að gera nú varðandi Austurlandsáætlunina, af því að þar stendur maður þó frammi fyrir verkefninu óleystu, það sé að viðurkenna með samþykkt till. eins og okkar till. er, að ríkisstj. fái heimild til lántöku í þessu skyni. Það er ekki ætlazt til að lánið sé tekið, fyrr en frá áætluninni hefur verið gengið. En síðan sé unnið á eðlilegan hátt að því að gera áætlunina, og svo ætti, að mínum dómi, að leggja drög að áætluninni fyrir Alþ., sem á að fjalla um áætlunina. Og þá fái þm. rétt til þess að koma fram með sínar aths., ef þeir vilja. Það er auðvitað alveg ljóst, að á þann hátt, sem að þessum málum hefur verið staðið af hæstv. ríkisstj. þá er ekki hægt að koma hér við neinum eðlilegum vinnubrögðum. Það þarf að gera hér á breyt. Ég tók eftir því t.d., að hæstv. fjmrh. sagði: „Rafvæðingarmál verða í Norðurlandsáætlun.“ Ja, ég segi hins vegar, hvaðan kemur hæstv. ráðh. vald til að segja það, að þetta skuli vera. Það er ekki búið að ákveða neitt hér á Alþ., hvernig hún verður endanlega. Rafvæðingarmálin verða tekin upp í drög að Norðurlandsáætlun, það veit hæstv. ráðh. um. En hvort áætlunin verður endanlega afgreidd þannig eða ekki, um það á Alþ. að segja og í rauninni enginn annar. Það eru í mesta máta óeðlileg vinnubrögð að hugsa sér það, að tekin séu erlend lán, sem nema hundruðum millj. kr. og þessum lánum sé síðan ráðstafað til ýmiss konar framkvæmda, eins og vegagerðar, hafnargerðar, rafvæðingar eða annars þess háttar, án þess að alþm. fái tillögurétt um það, hvernig þessu fé verði varið. Það er búið að gera nógu mikið rangt í þessum efnum varðandi Vestfjarðaáætlunina. Þar á ég við, hvernig að þeim málum var staðið, ég er ekki að leggja neinn dóm út af fyrir sig á þau verk, sem þar voru unnin. En formið var rangt og því miður sýnist mér, að formið á Norðurlandsáætlun ætli einnig að verða rangt. Og vegna þessa m.a. er það, sem við þm. Austurl. leggjum á það áherzlu, að nú verði unnið rétt að þessu varðandi Austurlandsáætlun, hér verði gerð óbein samþykkt um það, að það sé ætlunin að fara í Austurlandsáætlun, ríkisstj. fái heimild til lántöku. Á þann hátt a.m.k. teljum við okkur á Austurlandi hafa meiri rétt til þess að vinna að undirbúningi málsins og kosta þar nokkru til. En með því er á engan hátt lagt til, að ríkisstj. fari í það að taka lán fyrr en áætlunin hafi verið gerð.

Ég held því, að hæstv. fjmrh. mætti endurskoða þessa afstöðu sína, sem kom fram hér áðan til þessarar till. og taka við þessari heimild. Hún getur ekkert illt gert. en hún felur að vísu í sér vissa viðurkenningu á því, að það sé ætlunin að vinna að gerð Austurlandsáætlunar, en þá viðurkenningu eigum við rétt á því að fá. Og á þennan hátt væri einnig lagður grundvöllur að því að standa að þessum málum á eðlilegri hátt en nú hefur verið gert. Nú, ég skal svo ekki, af því að ég veit, að tíminn er mjög naumur hér á Alþ., nú eins og komið er, orðlengja frekar um þetta. Við, sem stöndum að till. á þskj. 735, ég og hv. 5. þm. Austf., erum út af fyrir sig samþykkir þessu frv., en leggjum áherzlu á það, að okkar till. verði samþykkt þar til viðbótar og ríkisstj. fái þá heimild. sem þar er fjallað um, varðandi Austurlandsáætlun.