17.12.1968
Neðri deild: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Sjútvn. hv. d. hefur haft mál þetta til meðferðar og skilar sameiginlegu nál. og sameiginlegum brtt. með þeim fyrirvörum, sem þar koma fram. Veigamestu breytingarnar, sem n. leggur til, að gerðar verði á frv., eru þessar:

Fyrir Norðurlandi ganga brtt. n. skemmra en ráð var fyrir gert í frv. í að opna fyrir botnvörpuveiðum, þannig að nú er miðað við 4 mílur frá þeim grunnlínupunktum, sem ákveðnir voru 1958, en í frv. var gert ráð fyrir þeim grunnlínupunktum, sem í gildi voru fyrir 1. sept. 1958. Þá leggur n. til í sambandi við veiðisvæði fyrir Norðurlandi, að tekin verði upp í frv. yfirlýsing hæstv. sjútvmrh. við 1. umr. málsins, en ákvæði þetta hljóðar svo:

„Þó skal við útgáfu veiðileyfa verða tekið tillit til nauðsynlegrar friðunar fyrir botnvörpu á svæðinu frá Rauðanúp vestur að Gjögurtá.“

Það er rétt að vekja enn einu sinni athygli á því, að það svæði, sem lagt er til að opnað verði fyrir Suðurlandi, er ekki miðað við grunnlínur, heldur við þrjár sjómílur frá strandlengju landsins. Frá þessu almenna ákvæði leggur þó n. til að sú breyting sé gerð, að ráðh. sé heimilað að veita frekari heimildir til botnvörpuveiða innan þriggja mílnanna á mjög takmörkuðu svæði, sem nýtt hefur verið að mestu af litlum bátum úr Grindavík og reyndar fleiri útgerðarstöðum á Suðurnesjum. Þessi brtt. okkar er fram komin vegna eindreginna tilmæla og óska útgerðarmanna og skipstjórnarmanna úr Grindavík og einnig frá forstöðumönnum fiskvinnslustöðva á Suðurnesjum. N. bárust skrifleg tilmæli frá þessum aðilum, sem ég vil leyfa mér að lesa ásamt meðmælum hreppsnefndar Grindavíkurhrepps, með leyfi forseta. Segir í þessum tilmælum n. útvegsmanna og sjómanna, að þeir óski eftir að koma á framfæri við sjútvn. Nd. Alþ. eftirfarandi till. um hagnýtingu fiskveiðilandhelginnar á svæðinu frá Reykjanesvita að vestan að Selvogsvita að austan. Þeir telja síðan upp þessi þrjú litlu svæði, sem þeir óska eftir, að þeir fái til afnota fyrir sig, og þau eru auðkennd í tilmælum þeirra í gráðum og mínútum, eins og vera ber, en bera annars nafnið Grindavíkurleið, Hælisvík og Strandabergskriki. Í bréfinu segir svo áfram:

„Að gefnu tilefni viljum við taka skýrt fram, að á umræddu svæði milli Reykjaness og Selvogsvita eru engir aðrir staðir, þar sem hægt er að veiða með fiskitrolli með nokkrum teljandi árangri sérstaklega vegna þess, hve botninn er þar slæmur — þ. e. hraunbotn. Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt, að á þessum tilteknu stöðum veiðist að langmestu leyti fullvaxinn fiskur. Auk þess er rétt að geta þess, að um árekstra við báta með önnur veiðarfæri hefur ekki verið að ræða, svo að teljandi sé.“

Í bréfi hreppsnefndar Grindavíkurhrepps er skýrt fyrst frá því, að útvegsmenn og skipstjórar í Grindavík, sem kosnir hafi verið til þess að gera till. til landhelgisnefndarinnar á hagnýtingu fiskveiðilandhelginnar, hafi sent till. sínar til hreppsnefndarinnar og þær séu á þá leið, sem ég var að enda við að skýra, að vísu með einni viðbót, en hún er um lítið svæði í Reykjanesröst, sem þeir þó sleppa í tilmælum sínum til þingsins. Þeir hafa aðeins farið fram á þrjú tilnefnd svæði. Síðan segir í bréfi hreppsnefndar, með leyfi forseta:

„Hreppsnefndin hefur á fundi sínum í kvöld gert einróma samþykkt í málinu svohljóðandi: Hreppsnefnd Grindavíkurhrepps hefur jafnan átalið framkvæmd landhelgismálsins á undanförnum árum og talið það háskalegt öllu réttarfari í landinu að láta það viðgangast lítt átalið, að lögin væru freklega brotin með togveiðum í landhelginni. Er það út af fyrir sig fagnaðarefni, að nú skuli vera starfandi stjórnskipuð nefnd til að finna viðunandi lausn á þeim vanda, sem er og verið hefur, og gera till. um skynsamlega hagnýtingu fiskveiðilögsögunnar. Hér í Grindavík eru um 15–20 bátar, sem stunda togveiðar, og einkum eru það minni bátarnir, sem byggja alla sína afkomu á togveiðum. Eftir að sakaruppgjöf vegna landhelgisbrota var veitt í sambandi við 50 ára fullveldisafmæli þjóðarinnar, telja menn, að sú hefð, sem álitið var, að hefði skapazt, væri úr sögunni og því ekki unnt að hefja togveiðar með sama hætti og áður. Það verður ekki vefengt, hverja þýðingu togveiðar þessara báta hafa fyrir allt atvinnulíf í þorpinu — einkum utan vetrarvertíðar í sambandi við hráefnisöflun fyrir frystihúsin. Eins er það staðreynd, að meginþorri þessara báta mundi ekki geta stundað togveiðar með nokkrum árangri utan við þriggja mílna mörkin í Grindavíkursjó. Því veldur fyrst og fremst smæð bátanna og erfiður botn. Það verður því að teljast eðlilegt, að þessir menn leiti eftir því að fá tryggingu fyrir því, sem kalla má lífshagsmuni þeirra og eru enda nátengdir atvinnulífi alls almennings í þorpi eins og Grindavík, sem byggir alla sína afkomu á sjávarútvegi. Hreppsnefndin mælir því eindregið með því við hv. Alþ., að með breyttri lagasetningu um hagnýtingu fiskveiðilögsögunnar verði fram bornar óskir virtar með því að leyfa togveiðar innan þriggja mílna markanna á þeim svæðum, sem skynsamleg rök mæla með því, að það sé gert til hagsmuna fyrir alþjóð.“

Þetta var úr bréfi hreppsnefndarinnar. Auk þess bárust til nefndarinnar fjölmargar undirskriftir skipstjórnarmanna í Grindavík, sem skora á þingið að verða við þessum óskum Grindvíkinga. Enn fremur hafa borizt vottorð frá tveim frystihúsum á Suðurnesjum, sem m. a. geta um það, að þeir bátar, sem landað hafi hjá þeim og stundað veiðar frá Reykjanesi og austur með suðurströndinni, hafi eingöngu verið með stóran og góðan fisk. Þeir segja, að ýsa hafi varla sézt í aflanum, eftir að júnímánuður byrjaði, en þorskur hafi aflazt nokkuð fram eftir júlí. Þá mátti heita, að hann hyrfi, þar til nú aftur í haust, að þeir hafa komið með nokkurn afla af þorski, sem einmitt reyndist mjög vel til vinnslu í neytendaumbúðir fyrir Bandaríkjamarkað, eins og þeir taka fram. En þessi vottorð frá þessum frystihúsum eru mjög lík — efnislega þau sömu.

Eftir að við í n. höfðum skoðað þetta mál og kynnt okkur mjög vel, hvað fólst í þessum tilmælum þeirra Suðurnesjamanna, gátum við ekki annað en fallizt á, að þetta væri réttlætismál fyrir þá, að við yrðum við óskum þeirra. Staðreyndin er sú, að fyrir báta af þessari stærð á þessu svæði er eiginlega útilokað að stunda togveiðar nema á þessum litlu — þrem litlu — takmörkuðu svæðum. Að vísu eru til fleiri svæði, en það er ekki farið fram á, að þeir fái þessi botnvörpuveiðileyfi á öðrum svæðum, og samanlagt mundi ég gizka á, að þessi svæði séu ekki stærri en meðaljörð í sveit. Við höfum hins vegar af hagkvæmnisástæðum — og haft þá einnig í huga þá, sem eiga að gæta þessara svæða, þar á ég við Landhelgisgæzluna — afmarkað svæði eftir lengdarbaugum, sem liggja í austur- og vesturjaðri þessara svæða, sem þeir óskuðu eftir, að opnuð yrðu. Og í brtt. n. segir einmitt í sambandi við þessa breytingu, sem við leggjum til, að verði gerð á frv., að ráðh. sé heimilt að veita frekari heimildir til botnvörpuveiða á svæðinu, sem takmarkast að austan af lengdarbaug 21° og 57 mín. vesturlengdar og að vestan að lengdarbaug 22° og 32 mín. vesturlengdar.

Þá er í þessum brtt. n. komið á móti óskum sjómanna, útvegsmanna og reyndar kannske sérstaklega þeirra, sem töluðu máli hornfirzkra og austfirzkra sjómanna. Hvað viðvíkur netasvæðum þeirra, sem eru nokkuð hefðbundin fyrir vestan Stokksnes, leggur n. til, að togveiðar verði ekki heimilaðar á svæðinu frá Stokksnesi að Skaftárósum á tímabilinu frá 1. marz til 30. apríl.

Ein brtt. var lögð fram við frv. hér við 1. umr. á þskj. 177 um frekari takmarkanir á öllu svæðinu, sem opnað verður. Hún er tekin upp í brtt. n. og er á þessa leið: „Leyfi til togveiða má að öðru leyti takmarka hverju sinni við tíma og svæði, m. a. til þess að forða frá árekstrum á veiðisvæðum við báta með önnur veiðarfæri, svo sem línu og net… .“ Og að sjálfsögðu þarf ekki að taka það fram, að eftir sem áður er heimilt fyrir ráðh. að friða ákveðið svæði til nota eingöngu fyrir línu og/eða net, eins og raunar hefur verið framkvæmt á undanförnum vertíðum hér suðvestanlands.

Við 1. umr. málsins hér í hv. d. kom sá ótti fram eins og reyndar oft áður, er mál þetta hefur veríð til umr. hér á Alþ., að slíkar aðgerðir í landhelgismálum okkar, sem lagðar eru til með þessu frv., gætu skaðað málstað okkar á erlendum vettvangi sérstaklega hjá þeim þjóðum, er við eigum eftir að kljást við um frekari friðunaraðgerðir utan 12 mílna markanna. Eins og fram kemur í nál. sjútvn., kom á fund n. dr. Gunnar Schram og gaf nefndarmönnum ýmsar fróðlegar upplýsingar. Hann taldi t. d. enga mótsögn í þessu frv. og í samþykkt þeirrar till. í nefnd hjá Sameinuðu þjóðunum, sem íslenzku fulltrúarnir beittu sér fyrir. Frv.-flutningur sem þessi er ekki nema eðlilegt framhald þeirrar áherzlu, sem fulltrúar okkar á erlendum vettvangi hafa alltaf lagt á nýtingu landhelginnar og verndun fiskstofna, þótt á fyrstu stigum þessa máls hafi aðaláherzlan verið lögð á verndarsjónarmiðið. Í viðræðum sínum við n. tók dr. Gunnar skýrt fram, að veiðarnar yrði að stunda undir vísindalegu eftirliti og um mjög tímabundnar og takmarkaðar heimildir væri að ræða.

Það má vera, að einhverjir hv. alþm. beri ugg í brjósti vegna þeirrar brtt. n., að mjög takmarkað svæði, sem ekki er samtals stærra, eins og ég tók fram áðan, en meðaljörð í sveit, verði opnað fyrir togveiðum innan þriggja mílnanna svonefndu. Nú vil ég taka það skýrt fram, að þrjár mílurnar eru ekkert viðmiðunarmark fyrir fiskgöngur eða friðunaraðgerðir. Sést það bezt á þessari aðstöðu á þrem áðurnefndum veiðisvæðum Grindvíkinga, þar sem göngufiskur fer um, en segja má, að þar séu engar eða þá mjög litlar uppeldisstöðvar. Hins vegar gætum við sagt, að við gætum á öðrum stöðum þurft að friða flóa og firði og kannske út fyrir þá og væru þriggja mílna mörkin — og hvað þá miklu fleiri mílur — alls ekki nægileg undir þeim kringumstæðum. Og ég þori hér um bil að fullyrða líka, að þorskurinn þekkir ekkert til þessarar línu, sem á sínum tíma réðst — að því er ég held eða eftir því sem mér hefur verið frá skýrt — af því, hvað langdrægar fallbyssur þeirra tíma voru. En í þessu sambandi er rétt að geta þess, að höfuðandstæðingar okkar gegn frekari friðunaraðgerðum utan 12 mílna markanna — sem við margir a. m. k. teljum enn vera höfuðandstæðinga okkar, en það eru Bretar og Þjóðverjar — telja síður en svo sjálfir, að þessi lína sé nein heilög lína. Á vissum stöðum í Bretlandi er ekki aðeins leyft að veiða með dregnum botnveiðarfærum inn að þremur mílunum, heldur innan þeirra líka. Hv. þm. Þorsteinn Gíslason, sem nú á sæti í Ed. hv. Alþ., hefur skýrt mér frá því, að hann hafi nú í sumar og reyndar áður margoft séð fjölda togveiðibáta að veiðum sem næst fjöruborði við strendur Vestur-Þýzkalands. Og ég minnist þess frá minni sjómannstíð að hafa séð þetta einnig.

Það er mjög rækilega skýrt í grg. með frv., af hverju það sé flutt nú. Ég held — og er ég þá að lýsa minni persónulegu skoðun, en tala ekki fyrir n. í heild — að það sé a. m. k. mitt mat og því hafi ég gerzt meðflm. að frv., að það sé alveg sama, hve vel landhelgisnefnd hefði unnið nú á næstunni — þá á ég við janúarmánuð — hún hefði aldrei getað lagt fram frv. hér á Alþ. með heildarlausn á þeim vandamálum, sem við eigum við að glíma í sambandi við nýtingu landhelginnar fyrr en í fyrsta lagi viku til tvær vikur af febrúar, sem hefði þýtt það, að við hefðum ekki getað, ef okkur hefði auðnazt sú gæfa, samþykkt það frv. fyrr en í fyrsta lagi í lok febrúar. Þetta kemur m. a. til af því, að n. hefur sjálf mótað mjög ítarleg vinnubrögð og vill hafa samband við sem flesta, sem einmitt er gott, þegar unnið er væntanlega að endanlegri lausn eða a. m. k. að lausn, sem duga ætti næstu ár. Á hinn bóginn hefur rækilega verið skýrt frá því ástandi, sem skapazt hefur hjá umræddum bátaflota, sem þessar togveiðar hefur stundað á undanförnum misserum og jafnvel árum.

Ég held, að það sé ekki hægt að gagnrýna hæstv. dómsmrh. fyrir þá sakaruppgjöf, sem hann veitti þeim aðilum, sem brotlegir höfðu gerzt, og heldur ekki fyrir það að fyrirskipa, að refsiákvæðum laganna yrði framfylgt héðan í frá, og byggi ég þessa skoðun mína fyrst og fremst á skoðunum fróðra manna um það, að þær lögleysur, sem hafa verið hafðar í frammi af okkur sjálfum innan okkar eigin fiskveiðilögsögu, hafa að vísu skaðað okkur kannske meira en nokkuð annað á erlendum vettvangi. Við vitum hins vegar um þörf þessara báta og bátastærðar og þá ekki síður þörf sjávarplássanna — þaðan, sem þessir bátar eru gerðir út — fyrir það ágæta hráefni, sem þeir koma með að landi og hafa komið með og koma væntanlega með áfram. Það hafa að venju komið nokkur mótmæli gegn frv. Þau hafa komið m. a. frá hreppsnefnd Skagastrandar og — að mig minnir frá Hólmavík og Drangsnesi einnig. Persónulega hefði ég vonazt eftir því, að mótmæli gegn slíku frv. kæmu síðast frá þessum stöðum, þegar haft er í huga, að þarna eru á þessum stöðum fiskvinnslustöðvar, sem nú hafa verið árum saman hráefnislitlar eða -lausar, en hefði kannske mátt hugsa sér, að slík lausn sem þessi mundi koma á móti þörfum þeirra í því efni. Hins vegar, eins og ég tók fram í byrjun ræðu minnar, er komið til móts við óskir Norðlendinganna með því að færa mörkin utar en gert var ráð fyrir í frv., en það er sem sé till. n.

Ég vil taka það fram, að ég sjálfur — þótt ég vilji eiga þátt í því, að þessi lausn verði ráðin hér nú — hefði viljað, að málið hefði verið afgreitt í heild, og barðist fyrir því á sínum tíma, að svo væri gert. Ég hef líka verið með þær sérskoðanir í sambandi við botnvörpuna, að það skipti ekki höfuðmáli, hvort skipið væri 50, 100, 200, 300, 400 eða 500 tonn, en meginatriðið væri það, að þessi skip skiluðu þeim afla, sem þau fengju, til vinnslu í okkar hráefnissnauðu fiskvinnslustöðvar, og á ég þar að sjálfsögðu við hina stærri, gömlu togara, sem á sínum tíma m. a. voru byggðir til þess að sækja á hluta af þessum miðum, sem nú eru innan 12 mílna markanna. Ég mun hins vegar ekki í sambandi við þetta mál hreyfa hagsmunum þeirra hér vegna þess, eins og margtekið hefur verið fram, að hér er um bráðabirgðalausn að ræða, sem aðeins á að gilda næstu vetrarvertíð og sem væntanlega hefur það þá líka óbeint í för með sér, að við sýnum þann manndóm hér á Alþ., að við göngum frá þessu vandamáli, en látum ekki þjóðina horfa upp á okkar eigið dáðleysi, því að vissulega er ekki um annað að ræða, þegar ekki fæst afgreiðsla á máli sem þessu. Það er sem sé till. sjútvn. d., að frv. verði samþykkt með þeim breytingum, sem koma fram á þskj. 191.