18.12.1968
Efri deild: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að fara nokkrum orðum um þetta frv., sem hér liggur fyrir, og mun ég þá fyrst í mjög stuttu máli drepa á nokkur meginatriði í landhelgismálinu, vegna þess að þetta mál og hagnýting landhelginnar er í beinu samhengi við það, sem unnið hefur verið á því sviði að undanförnu. Í því sambandi get ég í stuttu máli gert grein fyrir skoðun minni á því, en að því búnu mun ég ræða sérstaklega nokkur ákvæði þessa frv.

Það mun nú enginn ágreiningur vera um það milli manna, að efnahagslegar undirstöður íslenzks sjálfstæðis eru gróðurmoldin og orkan, sem felst í fallvötnunum, og þó ekki sízt fiskimiðin. Og það hefur verið haldið uppi mikilli sókn í landhelgismálinu vegna þess, að afkoma sjávarútvegsins er svo mjög bundin við það, hversu rúm landhelgin er og hvernig hún er hagnýtt. Af Íslands hálfu hafa verið gerðar kröfur í þessu efni og réttarstaða þjóðarinnar mjög vel skýrð á alþjóðavettvangi. Við segjum: Landgrunnið kringum Ísland er jarðfræðilega og jarðsögulega óaðskiljanlegur hluti af Íslandi sjálfu og þetta fiskauðuga landgrunn viljum við eiga. Við Íslendingar teljum okkur eiga tilkall til þess — sögulegan rétt, þjóðlegan rétt og landfræðilegan, og hér kemur og til sá helgi réttur, sem lífsnauðsyn heillar þjóðar skapar.

Á fyrstu öldum Íslands byggðar var raunar ekki um neina landhelgi að ræða í nútímaskilningi þess orðs. Og þannig var það langt fram eftir öldum, að reglur um landhelgi kringum Ísland fóru eftir því, sem þjóðhöfðingjarnir, sem töldu sig eiga tilkall til yfirráða í Norðurhöfum, settu. En fyrst mun reglan um víðáttu fiskveiðilandhelgi við Ísland hafa verið miðuð við 48 sjómílur, síðan við 36 sjómílur, en árið 1682 er landhelgin bundin við 16 sjómílur, og sú regla var í gildi í 170 ár. En árið 1859 var gerð breyting á dönsku landhelgisgæzlunni við Ísland af hálfu danskra stjórnarvalda, þannig að þá og eftirleiðis er gæzlan aðeins látin taka til fjögurra sjómílna þrátt fyrir mótmæli af hálfu Íslendinga í því efni. En það er ekki óeðlilegt að minnast þess nú, að það eru að verða 100 ár, síðan Alþ. Íslendinga lét landhelgismálið til sín taka. Árið 1869 bar Alþ. fram bænarskrá til konungs út af landhelgismálinu, og þar segir svo, að þingið verði að álíta, að hið eina ráð til að verja landið gegn því tjóni, sem yfir vofi í þessu efni, sé það, að hinum útlendu fiskimönnum verði haldið til að hegða sér eftir lögum þeim, sem gilda um þetta efni. Þannig verði samkv. opnu bréfi frá 13. maí 1682 stranglega bannað að fiska nær landi en 4 danskar mílur, þ. e. 16 sjómílur.

Ég verð að segja, að í orðalagi þessarar bænarskrár og því frumkvæði af hálfu Alþ. að gera hana úr garði felst furðumikil reisn, þegar miðað er við alla aðstöðu þess tíma. Þá hafði Alþ. ekki löggjafarvald, heldur var einungis ráðgefandi samkoma. Þá þurftu Íslendingar að stríða við mikla erfiðleika á atvinnusviðinu m. a. af völdum fjárkláða, sem geisaði víða í landinu, og þá áttu þeir við að búa hjá herraþjóðinni, Dönum, það hugarfar, sem leiddi til setningar stöðulaganna 1871 svo sem alkunnugt er. Þetta þurfa löggjafarnir að hafa í huga jafnt nú sem endranær. En framkvæmd þessa máls varð ekki sú, sem samþykkt Alþ. 1869 fór fram á, heldur varð framhaldið það, eins og kunnugt er, að danska stjórnin gerði fyrir hönd Íslands samning við Breta um víðáttu fiskveiðilandhelginnar árið 1901, og sá samningur átti að gilda til 50 ára.

Það er alveg víst, að þessi samningur, sem gilti í hálfa öld, hefur bæði beinlínis og óbeinlínis markað spor í atvinnusögu þessarar þjóðar. Þegar að því kom, að þetta samningstímabil væri á enda, hófst Alþ. handa um að fylgja málinu eftir á þann hátt að stefna markvisst að stækkun fiskveiðilandhelginnar. Fyrsta stóra sporið í því efni er setning l. 1948 um vísindalega verndun fiskimiðanna á landgrunninu og á þeim grundvelli, sem með þeirri löggjöf var lagður, hefur sóknin síðan staðið. Fyrst var reglugerðin sett 1950 um útfærslu fyrir Norðurlandi, næsta skrefið var 1952 með útfærslu í 4 sjómílur og svo lokaskrefið 1958, þegar landhelgin var færð út í 12 sjómílur. Við stefnum að því með þessum aðgerðum að fá lögsögu yfir sem stærstu svæði í kringum strendur Íslands og að geta fjarlægt erlend fiskiskip af þessu hafsvæði, en við tökum jafnframt á okkur þá skyldu og þær skuldbindingar að nota ekki þau veiðarfæri, sem spilla fiskstofninum og tortíma um of ungviði. Ég leyfi mér að fletta upp lögunum, sem sóknin í landhelgismálinu hefur verið grundvölluð á. Og 1. gr. l. um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjútvmrn. skal með reglugerð ákvarða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skuli háðar íslenzkum reglum og eftirliti, enda verði friðun á landgrunninu á engan hátt rýrð frá því, sem verið hefur. Rn. skal einnig ákvarða allar þær reglur, sem nauðsynlegar eru til verndar fiskimiðunum á ofangreindum svæðum. Ráðstafanir þessar skulu gerðar að fengnum till. Fiskifélags Íslands og Atvinnudeildar Háskóla Íslands.

Reglugerðin skal endurskoðuð eftir því, sem vísindalegar rannsóknir gefa tilefni til.“

Það er alveg ótvírætt, sem ég sagði, að við stefnum að því að fá lögsögu yfir sem stærstu hafsvæði kringum Ísland, en tökum um leið á okkur a. m. k. þá siðferðilegu skyldu að hafa gát á því, hvaða veiðarfæri eru notuð og hvernig fiskimiðin eru nytjuð. Það hafa engin lagafyrirmæli, svo að mér sé kunnugt, verið sett um að banna eða takmarka handfæraveiðar eða línuveiðiár, en við skulum gefa því gaum, að það eru í gildi lög um bann gegn veiðum með botnvörpu, og ég ætla, að þau lög séu að stofni til frá 1920, þó að þau hafi verið endurskoðuð síðar og þau lög, sem nú gilda um þetta efni séu frá 1967. En þá vaknar þessi spurning, hvers vegna hafa lög um bann gegn veiðum með botnvörpu verið í gildi í 47 ár eða 48 ár? Var það á sínum tíma að ástæðulausu, að þau lög voru sett, og er það að ófyrirsynju, að þau eru enn í gildi? Ég held, að svo sé ekki. Ég held að sú lagasetning hafi á sínum tíma verið lögfest af ríkri nauðsyn til að hafa gát á því, hvernig fiskimiðin eru hagnýtt. Og ég held, að það sé full ástæða til þess að halda þessum lögum enn í gildi, enda leggur það enginn til að nema þau úr gildi. Nú vil ég leyfa mér að lesa 1. gr. l., með leyfi hæstv. forseta, um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu, sem nú eru í gildi, þ. e. lög nr. 62 frá 18. maí 1967. 1. gr. þeirra hljóðar svo eða 1. mgr. greinarinnar:

„Í fiskveiðilandhelgi Íslands, eins og hún er ákveðin í reglugerð settri samkv. l. nr. 44 5. apríl 1948, skulu bannaðar vera fiskveiðar með botnvörpu og flotvörpu. Rétt er ráðh. að veita íslenzkum skipum undanþágu frá banni þessu, þó utan þeirra marka, sem sett voru í reglugerð nr. 21 19. marz 1952.“ — Ég endurtek: Þó utan þeirra marka, sem sett voru í reglugerð nr. 21 19. marz 1952.

En með reglugerðinni, sem sett var 1952, var stigið það skref að loka fjörðum og flóum fyrir botnvörpuveiðum og færa fiskveiðitakmörkin út í 4 sjómílur frá grunnlínupunktum. Það, sem er sérstaklega eftirtektarvert við þetta frv. og ég vildi leyfa mér með þessum orðum að leggja sérstaka áherzlu á, þannig að það fari ekki fram hjá neinum hv. dm„ að með þessu frv. er lagt til, að á vissu svæði við strönd landsins séu togveiðar leyfðar inn að þrem sjómílum frá strandlengju. Það er fyrir innan þau mörk, sem l. sjálf, sem þetta frv. er breyting á, ákveða, að ekki megi leyfa togveiðar. Þetta er grundvallaratriði l. sjálfra, að þó skulu ekki leyfðar togveiðar fyrir innan mörkin, sem sett voru með reglugerðinni 1952. En þetta frv. er bráðabirgðaákvæði, þar sem aðalefni þess er ákvæði til bráðabirgða við þessi gildandi lög og með þessum ákvæðum til bráðabirgða á að ganga í berhögg við grundvallaratriði í sjálfri löggjöfinni, sem í gildi er um 4 sjómílur á vissu svæði við strönd landsins. Þetta tel ég mjög eftirtektarvert og þess eðlis, að það megi ekki fara fram hjá hv. þdm., sem greiða atkv. um þetta mál. hvað hér er í efni.

Nú segi ég svipað eins og sá, sem síðast talaði hér, hv. 11. þm. Reykv., að ég hef alltaf haft beyg af því, að þessi ágengni manna og tilhneiging til þess að opna ný og ný svæði fyrir togveiðum nær og nær ströndinni sé vægt til orða tekið mjög varhugaverð. Og ég tel, að ýmislegt hafi komið fram nú á síðari tímum, sem rennir stoðum undir þessa skoðun. Ég minnist þess, að á árinu 1966, að mig minnir, var það gert heyrinkunnugt á ráðstefnu fiskifræðinga, sem haldin var, að mig minnir, í Bretlandi, að aukin togveiði erlendra veiðiskipa á svæðinu hér austan við landið utan 12 mílna landhelginnar mundi hafa stórkostleg áhrif á það að skerða fiskstofninn. Þar væri sópað upp í botnvörpur fiski, sem ekki væri fullvaxinn, og mundi þetta hafa hin alvarlegustu áhrif á aðstöðu okkar Íslendinga til veiða innan landhelginnar. Það er mín skoðun, að allt, sem við gerum í þá stefnu að opna fleiri og fleiri svæði fyrir togveiðum, veiki hinn siðferðilega rétt okkar til þess að berjast á erlendum vettvangi fyrir aukinni friðun og það dragi úr áhrifum okkar, ef við förum gálauslega að innan okkar eigin landhelgi í þessum efnum. Skoðun mín almennt í þessu máli er því nú eins og jafnan áður byggð á þeim sjónarmiðum, að okkur beri að sýna fyllstu varfærni í því að leyfa togveiðar nálægt ströndinni og með því séum við að styrkja sóknaraðstöðu okkar og siðferðilegan rétt til frekari útfærslu landhelginnar til þess að ná yfirráðum yfir landgrunninu eins og stefnt er að með l. frá 1948. Þess vegna vil ég nú sem jafnan áður hafa þá afstöðu til þessa máls, að það sé miðað við að hafa fulla gát á því að leyfa togveiðar.

Í þessu frv. er miðað við stærð skipa allt að 200 brúttórúmlestum. Það má vel vera, að það sé talsverður munur á því, hvort um togara sé að ræða eða 200 smálesta skip gagnvart fiskimiðunum, en mér virðist þó, að í því efni sé ekki um eðlismun að ræða.

Nú er mér það vel ljóst, að þetta frv. hefur átt nokkurn aðdraganda og á þann hátt, að þrátt fyrir þau lagaákvæði, sem ég hef vitnað til hafa togveiðar vélbáta farið mjög í vöxt við strendur landsins á undanförnum árum, og nú er málið komið í það horf, að það er vandasamt. En ég vil benda á það, að þetta mál er ekki nýtt af nálinni þannig, að það hafi þá ekki verið full ástæða til að taka það fastari tökum miklu fyrr en gert hefur verið. Og það er svo, að við þm. Framsfl. höfum fyrir löngu eða alllöngu komið auga á það, að hér er um vandasamt mál að ræða og að nauðsyn beri til að setja um það almennar, fastar reglur. Á þinginu 1966 fluttu sjö þm. Framsfl. till. til þál. um undirbúning heildarlöggjafar um hagnýtingu fiskimiðanna umhverfis landið. Jón Skaftason var 1. flm. og hafði orð fyrir þeim um þetta mál. og sú till. var um það, að Alþ. ályktaði að kjósa níu manna n. til þess að undirbúa setningu heildarlöggjafar um hagnýtingu fiskimiðanna umhverfis landið. Skulu 5 nm. kosnir hlutbundinni kosningu í sameinuðu Alþ., en Hafrannsóknastofnunin tilnefna tvo nm., Landssamband ísl. útvegsmanna 1 nm. og heildarsamtök sjómanna 1 nm. Þetta lögðum við framsóknarmenn til á þinginu 1966, en þá fékk þetta mál ekki undirtektir af hálfu meiri hl. þingsins. Hefði þá þessi till. verið samþ. og hafizt handa um svipað nefndarstarf eins og nú er unnið að, hefði þetta mál aldrei orðið jafnvandasamt eins og það er nú orðið.

Framhald þessa máls varð þó það, að s. l. vor var horfið að því ráði að skipa mþn. til þess að starfa að þessu máli, og hefur hv. l1. þm. Reykv., Einar Ágústsson, gert þann þátt málsins hér að sérstöku umræðuefni, en ég hef enga tilhneigingu til þess að draga hér þessar umr. um skör fram og skal því ekki fara að endurtaka það, sem hann sagði um það efni. Ég get þó ekki látið hjá líða að minna á það, að svo hefur til tekizt um skipan þessarar n., að það er mjög skammt, síðan hún gat tekið þetta mál þeim tökum, sem henni ber að gera, og sá tími, sem hún hefur haft til starfa, er ákaflega skammur. En á meðan mþn. er að starfa, er þessu frv. komið á framfæri hér á hv. Alþ., og það stendur sjálfsagt að einhverju leyti í sambandi við þá ákvörðun hæstv. dómsmrh. að gefa upp sakir fullveldisdaginn 1. des. þeim, sem höfðu gerzt brotlegir við 1. vegna fiskveiða með botnvörpu í landhelgi. En sú framkvæmd hefur að undanförnu farið þannig úr hendi, að ekki verður betur séð en það hafi fremur ýtt undir togveiðar innan fiskveiðilandhelginnar — ýtt undir lögbrot fremur en dregið úr þeim. Og það er vitanlega, hvernig sem á málið er litið, stórkostlega ámælisvert.

Nú hefur það komið greinilega fram, að þetta mál er flutt ekki sízt eða jafnvel aðallega með hagsmuni Vestmannaeyja fyrir augum. Ég veit það vel og viðurkenni fúslega, að Vestmannaeyjar eru sá staður, sem hefur lagt þjóðarbúinu mjög mikil verðmæti í hendur á undanförnum árum, og að útgerð þar hefur lengst af verið með blóma og stunduð af mikilli atorku og myndarskap. Mér er vel kunnugt um það, að fólk úr mínu byggðarlagi hefur árum saman sótt atvinnu til Vestmannaeyja, enda hafa ýmsir menn þaðan verið eftirsóttir í skiprúm á flota Vestmannaeyja, svo að það hefur ekki staðið á því, að þeir fengju þar atvinnu. En allt fram undir síðustu ár hefur þessi útgerð verið stunduð með línu fram eftir vetrinum og síðan með netum. Eins og ég sagði áður, hefur nú hin síðustu ár mjög sótt í það horf, að ýtt væri undir togveiðar og þá farið ógætilega og mjög nálægt landi sums staðar við þær veiðar. Með þessu frv. er stefnt að því að auka heimildir til þess að leyfa togveiðar á vissum svæðum, þannig að bátar geti stundað þær veiðar án þess að brjóta ákvæði gildandi laga um það efni.

En þá hlýt ég að koma að því, sem ég benti á fyrr í þessari ræðu, að þessum heimildum er mjög misskipt eftir því, hvort um Norðurland er að ræða eða Suðurland. Heimildin úti fyrir Norðurlandi er miðuð við, að togveiðar verði heimilaðar á svæði, sem er utan við 4 sjómílur frá grunnlínupunktum, og þetta ákvæði er því í samræmi við 1. gr. gildandi laga um bann við veiðum með botnvörpu og flotvörpu. En þegar kemur að svæðinu fyrir Suðurlandi, er önnur regla tekin upp. Þá er ekki miðað við grunnlínupunkta, heldur strandlengju. Þá er ekki miðað við 4 sjómílur — ekki einu sinni frá strandlengju, heldur þrjár sjómílur, og brýtur það í bága, eins og ég sagði áðan, við grundvallarreglu gildandi laga. Og þessu til viðbótar hefur sú breyting verið gerð á frv. í Nd., að á vissu svæði á þó að vera heimilt að veita frekari heimildir til botnvörpuveiða og það svæði á að takmarkast að austan af lengdarbaug 21° og 57 mín. vesturlengdar og að vestan af lengdarbaug 22° 32 mín. vesturlengdar. Mér hefur virzt svona í fljótu bragði þetta svæði vera út af Reykjanesi eða hér út af suðurströndinni vestanverðri. En það á að leggja það á vald reglugerðargjafans, þ. e. ráðh., hvort á því svæði verða leyfðar togveiðar alveg inn að landsteinum eða ekki.

Eins og frv. var úr garði gert, þegar það var flutt inn í þingið, var gert ráð fyrir því, að á öllu hafsvæðinu frá Garðsskaga og austur að Stokksnesi yrðu leyfðar togveiðar inn að þrem mílum frá ströndinni, en ekki frá grunnlínupunktum. Nú er það sýnilegt, að með þessu er ekki stefnt að því að leysa þetta vandamál í heild fyrir landið allt. Vel hefði það getað leitt til þess, að bátar héðan úr útgerðarstöðum frá Faxaflóa hefðu flykkzt á þetta svæði og þrengt mjög að bátaflota Vestmannaeyja — t. d. á þessu svæði, sem opnað var — af því, að það er ekki höfð heildarsýn yfir vandamálið allt samkv. þessu frv. En að öðru leyti stefndi frv. beinlínis að því að auka svigrúm — við skulum segja — Vestmannaeyjabáta austur á bóginn, en þá um leið að kreppa að veiðisvæði Hornafjarðar og Austfjarða, því að aðalveiðisvæði Hornafjarðar er vestur með ströndinni allt vestur í Meðallandsbugt, sem kallað er, eða vestur fyrir Ingólfshöfða. Og það er svo um útgerðarstöðvarnar á Austfjörðum — a. m. k. með ströndinni allt norður að Neskaupstað, að bátafloti þeirra, hinir stærri bátar, hafa ekki nothæf mið til þorskveiða á vetrarvertíðinni úti fyrir fjörðunum, en sækja vestur með ströndinni á sömu mið og Hornafjarðarbátarnir allt vestur fyrir Ingólfshöfða, flytja síðan fiskinn þessa leið austur á sínar heimahafnir og halda með því uppi atvinnu á þessum stöðum. Með því að opna þetta þannig, eins og lagt var til í frv., var greinilega að því stefnt að kreppa að útgerðarstöðum á þessu svæði.

Nú vil ég taka fram, að að þessu leyti hefur frv. tekið miklum breytingum í hv. Nd., og út af fyrir sig tel ég, að frv. sé stórum betra eftir þær breytingar en það var áður. Samt sem áður tel ég, að í þessu felist enn of rúmar heimildir, og legg ég þá enn áherzlu á þetta, að taka á upp þriggja mílna reglu frá ströndinni og einnig þessa heimild um að opna á svæðinu milli 21. og 22. lengdarbaugs eitthvað meira en að þremur mílum — jafnvel alveg upp í landsteina. Og í þriðja lagi er enn nokkuð óákveðið orðalag á þeirri setningu í frv., sem kveður svo á, að leyfi til togveiða má að öðru leyti takmarka hverju sinni við tíma og svæði, m. a. til þess að forða frá árekstrum á veiðisvæðum við báta með önnur veiðarfæri svo sem línu og net. Ég viðurkenni, að hugsunin, sem að baki þessu liggur, er í sjálfu sér góð. Þetta er þó ákaflega ónákvæmt orðalag, og fyrir þá, sem eru yfirleitt andstæðir auknum heimildum, er ekki mikil trygging fengin með þessu orðalagi. Og ég tek einnig undir það, sem hv. l 1. þm. Reykv. sagði, að ég held, að það sé nú allmikill vandi lagður á herðar hæstv. sjútvmrh. með að setja reglur samkv. þessari lagagrein.

Niðurstaða mín verður sú — ég skal fara að ljúka máli mínu — að ég hefði talið rétt og sjálfsagt að bíða eftir starfi nefndarinnar, sem er að vinna að málinu í heild, og leggja ekki kapp á að knýja þetta mál fram til úrlausnar nú, heldur leggja kapp á það, að nefndin starfi nú í þinghléinu um og eftir áramótin og það yrði þá hægt á grundvelli þeirra till., sem hún gerir, að setja heildarreglur um þetta mál. þegar þingið kemur saman aftur í febrúar. Ég er þeirrar skoðunar, alveg eins og kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv„ að færi svo, að till. n. gengju skemmra en lagt er til í þessu frv., verði miklum mun erfiðara að breyta til aftur, þ. e. taka af þau réttindi, sem veitt eru með þessu, eftir að einu sinni er búið að veita þau samkv. sérstökum lögum. Og í þriðja lagi tel ég, eins og ég hef þegar gert grein fyrir, ýmis ákvæði þessarar frvgr. vera þannig, að það sé mikið svigrúm til að setja allvíðtækar reglur í þessu efni, og ég mun því ekki sjá mér það fært að styðja þetta frv., en mun greiða atkv. gegn því.