19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég held, að öllum hv. alþm. sé ljóst, að með þessu frv., sem hér er til umr., er Alþ. að taka afstöðu til afgreiðslu á einu af mestu vandamálunum, sem snúa að framkvæmd fiskveiðanna hér við land. Ég held einnig, að allri þjóðinni sé það ljóst, að mál þessi, þ. e. ólöglegar togveiðar íslenzkra fiskiskipa innan fiskveiðilandhelginnar, voru komin í það óefni, að slíkt var að öllu leyti óviðunandi til frambúðar. Það var því fyllilega tímabært, þegar hæstv. dómsmrh. ákvað að taka þessi mál föstum tökum svo sem gert hefur verið nú að undanförnu.

Ég tel að okkur beri skylda til að fara okkur hægt í þeim efnum, þ. e. í því að opna landhelgina fyrir lítið takmarkaðar togveiðar. Og á vissum svæðum, tel ég, að ekki komi til greina, að botnvörpuveiðar verði leyfðar. Í því sambandi nefni ég t. d. Faxaflóann. Það er löngu vitað, að mikill hluti af íslenzka þorskstofninum leitar sér skjóls í Faxaflóanum, þegar eftir að klak fisksins hefur átt sér stað á hinum miklu klakstöðvum hérna við suðurströndina, á Selvogsbanka og víðar. Faxaflóinn er því í orðsins fyllstu merkingu ekkert annað en klakstöð, og sjá allir, hve nauðsynlegt er að takmarka alla veiði og notkun veiðarfæra í fullu samræmi við það. Sem betur fer, hafa flm. þessa frv. ekki talið sér fært að leggja til að botnvörpuveiðar verði leyfðar í Faxaflóa, og vona ég, að sú skoðun verði enn ráðandi, þegar þessi mál hafa hlotið meiri athugun og endurskoðun hjá þeirri n. sem hefur málið nú til meðferðar.

Það hefur lengst af verið eitt beittasta vopnið, sem Íslendingar hafa átt í baráttu sinni fyrir útfærslu landhelginnar og verndun fiskimiðanna á grunnmiðum umhverfis landið, að nauðsynlegt væri að koma í veg fyrir ofveiði og rányrkju á grunnmiðunum og þá sérstaklega með þeim veiðarfærum, sem vitað er að valda mestri skaðsemi varðandi ungfiskinn. Í því sambandi er rétt að minnast þess, hvað fiskifræðingarnir sögðu og héldu fram þegar á fyrstu árunum, er farið var að berjast fyrir útvíkkun landhelginnar hér við land. Það voru erlendir fiskifræðingar, sem tóku þátt í þeim rannsóknum, sem áttu sér stað hér í Faxaflóa, þegar barátta okkar hófst fyrir aukinni friðun og stækkun landhelginnar. Niðurstaða þeirra rannsókna, sem þá áttu sér stað, fól það í sér, að við höfðum sterk rök fyrir því, að réttmætt væri að færa landhelgina út. Og sterkustu rökin, sem Íslendingar höfðu í þeim efnum, voru einmitt upplýsingar fiskifræðinganna, sem héldu því fram, að það hefði komið í ljós við þá rannsókn, sem þá átti sér stað, að einmitt innan takmarka landhelgislínunnar var gnægð fiskjar — sérstaklega þó af uppvaxandi ungviði, en utan hennar var þá ekkert annað en ördeyða. Þetta var það, sem fiskifræðingarnir sögðu á þeim tíma. Við vitum það, að Englendingar, Fransmenn og aðrar þjóðir, sem héldu uppi togveiðum á botnvörpuskipum hér við land og stunduðu það í áratugaraðir, gengu náttúrlega hart að þessum fiskstofni hér á okkar fiskimiðum. Og þessar upplýsingar, sem lágu fyrir samkvæmt skýrslum fiskifræðinganna bæði íslenzkra og erlendra á þeim tímum, sem landhelgin var færð út og sérstök veiðisvæði friðuð, komu okkur einmitt að haldi í þeirri baráttu.

Ég mun hins vegar ekki mæla því gegn — það dettur mér ekki í hug — að Íslendingar eigi að hagnýta á sem beztan hátt þau auðæfi, sem í hafinu búa og eru með úrfærslu fiskveiðilandhelginnar orðin óskoruð eign okkar Íslendinga. Það tek ég undir, og það ber okkur skylda til að gera. En þið skulið líka hafa það hugfast, að Íslendingar stefna enn þá að stærri og meiri áfanga í landhelgismálinu. Það hefur verið um það rætt, að næsta markið, sem við stefnum að í þeim efnum, sé að friða allt landgrunnið og þá vitanlega ekki til annars en til hagnýtingar fyrir þjóðina. Og hvernig okkur verður ágengt í þeim áfanga — það skulum við hafa hugfast — mun byggjast ekki sízt á því, hvernig við förum með þann feng, sem við höfum aflað okkur, þ. e. fiskveiðilögsöguna. Hvernig við hagnýtum fiskveiðar á þeim svæðum, sem við höfum gert kröfur til að verði friðuð — og þá ekki aðeins til þess, að íslenzka þjóðin geti hagnýtt fiskimiðin, þó að það séu náttúrlega sterk rök fyrir málinu, heldur einnig til þess að vernda fiskstofninn og til þess, að nauðsynleg efling fiskstofnanna geti átt sér stað umhverfis landið, svo mikið sem íslenzka þjóðin á undir því, að stofnarnir aukist og eflist, en gangi ekki til þurrðar, eins og því miður á sér stað nú við land okkar og við þekkjum ríkast í sambandi við síldveiðarnar. Og það er ekki aðeins síldveiðar fyrir Norður- og Austurlandi, heldur og rányrkjan, sem átti sér stað við síldveiðarnar hér við Suðvesturland, sem ætti að vera okkur hollt dæmi um það, að það ber að fara varlega í þeim efnum að beita ekki skaðlegum veiðarfærum of mikið við veiði á ungfiski.

Þá er eitt, sem ég vildi víkja sérstaklega að í sambandi við þetta mál og ég tel, að skipti miklu máli um afgreiðslu þess. Það er sú málsgrein í bráðabirgðaákvæðinu, sem hér er til umr., þar sem reynt er að hafa þann fyrirvara á, að á einstökum svæðum eigi sér ekki stað árekstrar milli veiðitækja, hvort sem menn eru með línuveiði, netaveiði eða botnvörpu. Hér getur verið um geysilega stórt hagsmunamál að ræða, og mér finnst, eins og þetta er orðað í frv. sem hér liggur fyrir, að allt of laust sé tekið á í þeim efnum, og ég mun því leyfa mér að bera fram skriflega brtt. við það ákvæði við þessa umr. og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þeirri brtt., sem ég vil leyfa mér að lýsa. En það er brtt. við þetta frv. og felur það í sér, að í stað orðanna: „Leyfi til togveiða má að öðru leyti takmarka hverju sinni við tíma og svæði...“ o. s. frv., eins og þar

stendur, komi: „Leyfi til togveiða skal að öðru leyti takmarka hverju sinni við tíma og svæði.“ Ég vil kveða hér alveg ákveðið að í þessum efnum. Ég vil ekki, að það standi, að það megi gera þetta, heldur vil ég, að það standi, að það skuli gera þetta. Því að við vitum það, að innan þessara takmarka, sem nú er verið að friða, eru veiðisvæði, sem hafa á undanförnum vertíðum verið friðuð sérstaklega fyrir línu, og það er út af Reykjanesinu, út af Garðsskaganum, og verði það ekki ákveðið gert, þá hafa þessir bátar, sem hafa hagnýtt þessi svæði bæði frá Keflavík og Sandgerði, ekkert lögverndað svæði til að hafa veiðarfæri sín á. Og ég tel að hér sé um svo mikið hagsmunamál að ræða, að við svo búið megi ekki standa, þ. e. að svo vægt orðalag, sem í þessu felst, verði látið standa í sambandi við afgreiðslu málsins.

Ég vil ekki tefja afgreiðslu þessa máls með því að flytja hér langa ræðu, enda er ég ekki vanur því í sambandi við afgreiðslu mála. En ég vil aðeins að lokum minna á það, að það hefur kostað Íslendinga mikla vinnu að ná stórum áföngum í landhelgismálinu, en það hefur tekizt undir traustri forustu. Það er í þessum efnum, eins og svo oft, að þó að það kosti mikla fyrirhöfn og baráttu að afla fjár, þá er hitt ekki minni vandi að fara vel með þau verðmæti, sem aflað hefur verið, og sóa þeim ekki á gáleysislegan hátt, sem mér virðist því miður, að sé hér verið að gera með þeim ráðstöfunum, sem munu ná fram að ganga, ef þetta frv. verður samþ. Og ég vil sérstaklega leggja áherzlu á það, þó að þessi brtt., sem ég ber hér fram með frv. sé ekki margorð og í henni felist aðeins breyting á einu orði, þá tel ég hana skipta miklu máli um það, hvort ég fylgi þessu frv. eða ekki við endanlega afgreiðslu í deildinni.