19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru nú aðeins örfáar aths. um þetta frv., sem er hér til umr., sem ég vildi koma á framfæri, áður en til atkv. verður gengið. Það hefur glögglega komið í ljós í þeim umr., sem hér hafa átt sér stað um málið, og á því nál., sem sjútvn. hefur látið frá sér fara á þskj. 21 l, hversu þessi bráðabirgðalausn er illa undirbúin, verð ég að segja, og henni flaustrað af, þar sem fjórir af sjö nm. í sjútvn. hv., sem vilja þó standa að samþykkt frv., skrifa undir það með fyrirvara. Og fleiri af þeim mönnum, sem lýsa sig fylgjandi stefnunni, sem frv. markar, hafa séð sig tilneydda til þess að bera fram brtt.

Þetta finnst mér renna stoðum undir það, sem ég minntist á hér í gær, að það hafi verið misráðið að grípa fram fyrir hendurnar á þeirri n., sem seint og um síðir hafði verið sett á laggirnar til þess að undirbúa þetta mál og hafði komið sér niður á skynsamleg og heppileg vinnubrögð. En yfir því þýðir ekki meira að fárast, og skal ég heldur ekki gera það, en ég vil segja í framhaldi af því, sem hér kom fram hjá hv. frsm. sjútvn„ að ég er honum ósammála um það enn eins og ég var í gær, að þessi bráðabirgðaákvæði hjálpi landhelgisnefndinni á nokkurn hátt til þess að komast að heppilegri og réttlátri niðurstöðu. Ég er sömu skoðunar og ég var um það efni hér í gær, að búið er að skapa tiltekinn rétt á tilteknum svæðum og muni það gera þessari n. mjög erfitt fyrir um það að breyta því, þó að hún við sína athugun kæmist að þeirri niðurstöðu, að breytinga þar væri þörf. Svo ég held, að það sé alveg öðru nær. Mér finnst heldur ekki hér um svo ákaflega langan tíma að ræða, sem málið mundi tefjast, þó að n. fengi að starfa, þar sem upplýst er, að n. treysti sér til að leggja niðurstöður sínar fyrir þingið strax og það kemur saman á ný í byrjun febrúar. Hér hlýtur fyrst og fremst að vera um sumaratvinnu að ræða, enda er lögð áherzla á það í grg. með upphaflegu till., að veigamesta röksemdin sé sú staðreynd, að á aðalveiðisvæðunum bæði fyrir Suður- og Norðurlandi verði bátar ekki gerðir út yfir sumartímann með neinum árangri nema á botnvörpuveiðar. Nú er óralangt til sumarsins, þegar landhelgisnefndin hefur talið sér fært að skila sínu áliti, og nú er þetta ár nærri liðið, og það er þess vegna um mjög skamma stund hér að ræða.

Og það sýnir enn fremur að mínum dómi, hversu frv. er ófullkomið, að þeir, sem tala hér fyrir því, verða að gera sérstaka fyrirvara um tiltekin svæði. Það hefur t. d. borizt símskeyti frá Grímsey, og það er svo alvarlegs eðlis fyrir þetta mál. að það verður að taka það sérstaklega fram og leggja ríkt á við ráðh„ að það verði nú tekið tillit til þess, þegar farið verður að ákveða svæðin, að Grímseyingar verði ekki afskiptir í þessu máli. Og þannig er þetta, að því er mér finnst, að mér finnst þetta vera fljótráðið. Nú er upplýst hér af mönnum í sjútvn., að það hefur ekki unnizt tími til þess að kalla til þá sérfræðinga, sem þó eiga að hafa þessi mál með höndum, eftir að frv. verður að l. Hefði það ekki verið viðkunnanlegra fyrir hv. alþm., sem ætla sér að samþykkja þessa breyt., að vita það, hvað sérfræðingarnir lögðu til? Þeir kannske vita það eftir öðrum leiðum, en sjútvn. sem slík hefur ekki fengið upplýsingar um það, eftir því sem hér hefur komið fram.

Ég var að mörgu leyti mjög ánægður með þá ræðu, sem hv. 2. þm. Vesturl. flutti hér. Hann flutti mjög sterk rök fyrir því, að við yrðum að fara varlega í landhelgismálinu og við yrðum að leggja mjög ríka áherzlu á þær friðunaraðgerðir, sem eru, voru og verða áreiðanlega forsenda þess, að okkur takist á erlendum vettvangi að fá þá útfærslu landhelginnar, sem við allir stefnum að og vonumst eftir. Ég er t. d. mjög ánægður með það, að hann skyldi leggja svo ríka áherzlu á það, að Faxaflói yrði friðaður, þó að það komi þessu máli ekki beint við, þá er sú góða vísa aldrei of oft kveðin. Það má gjarnan leggja á það áherzlu hér. Hins vegar er ég ekki eins hrifinn af þeim kafla ræðu hans, sem fjallaði um þau föstu tök, sem hv. dómsmrh. hefði á þessum málum. Þau föstu tök sýnist mér vera þannig, að af því, að lögbrotin voru orðin það mörg og mikil að ekki var hægt að halda uppi löggæzlu, sé horfið að því ráði að heimila glæpinn. Og ég vil nú fastlega vonast til þess, að hv. dómsmrh. láti þessi föstu tök sín ekki ná til fleiri sviða þjóðlífsins. Þrátt fyrir fangelsisskort og dýra löggæzlu held ég samt, að það verði að halda uppi lögum og rétti með tiltækum ráðum.

Hv. 6. þm. Sunnl. vildi gera breyt. á þessu frv. Hann taldi það raska þeirri hagkvæmni, sem lýsti sér í því, að skipin væru gerð út sem næst miðunum, ef aðeins væru opnuð hólf sums staðar, en annars staðar ekki. Þetta er náttúrlega ein röksemdin fyrir því, sem hér hefur verið haldið fram bæði af mér og öðrum, þ. e. að þessi mál þurfi að skoðast í heild. Og hann bendir réttilega á það að það geti orðið stórkostleg örtröð í þessum hólfum eftir að veiðar hafa verið heimilaðar á sumum svæðum innan landhelginnar, en ekki á öðrum. Það má vera, að hv. flm. og stuðningsmenn þessa frv. vilji fallast á till. hans um það, að aðeins þeir bátar, sem gerðir eru út á tilteknum svæðum, fái að veiða í þessum hólfum, ég skal ekki segja um það. En það hygg ég þó, að hafi ýmsar miður góðar afleiðingar í för með sér.

Mér finnst hins vegar brtt. hv. 2. þm. Vesturl. vera til bóta. Yfirleitt finnst mér þær till. eða brtt. við þetta frv., sem hníga að frekari takmörkunum, vera til bóta, og sú till., sem hann flytur hér, er þannig, að hún dregur úr þeim heimildafans, sem samkv. þessu frv. er fenginn hv. sjútvmrh. til að moða úr, þegar þar að kemur. Ég mun fylgja henni, en að öðru leyti vil ég nota þetta tækifæri og lýsa því yfir, að ég er ennþá ákveðnari í því eftir að hafa hlýtt á þá, sem mest hafa fyrir þessu máli talað hér í hv. d., að vera andvígur frv. og greiði atkv. á móti.