16.05.1969
Efri deild: 97. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

215. mál, sala landspildna úr landi Vífilstaða

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá barst þetta frv. landbn. í dag, en hún hefur lítils háttar fjallað um það og kynnt sér viðhorf stjórnar ríkisspítalanna um þetta málefni. Þetta land, sem hér er um að ræða að selja Garðahreppi, er úr landi Vífilsstaða og heyrir því undir stjórn ríkisspítalanna. Stjórn spítalanna hefur tjáð sig samþykka því, að þessi sala færi fram, og hefur því meiri hluti landbn. orðið sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég vil taka það fram, að til eins af nm., Karls Guðjónssonar, hefur ekki náðst.