09.05.1969
Efri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

239. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Með l. nr. 21 frá 1968 var sú breyt. gerð á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, að húsnæðismálastjórn var heimilað, á meðan á byggingartíma stæði, að veita lán til byggingarmeistara og byggingarfyrirtækja, er byggja íbúðir, sem fyrirhugað er að selja fullgerðar til einstaklinga, sem fullnægja útlánareglum húsnæðismálastjórnar, en lán þessi skulu síðar skiptast milli væntanlegra íbúðakaupenda. Í þessu frv. felst breyt. á þessum l., sem sett voru 1968, og breyt. er einvörðungu sú að bæta inn í þetta ákvæði byggingarsamvinnufélögum, þannig að þessi sérstaka lánaheimild sé ekki eingöngu veitt byggingarmeisturum og byggingarfyrirtækjum, heldur einnig byggingarsamvinnufélögum. Ég hygg, að þegar þessi breyt. var gerð, þá hafi það verið skilningur manna, að undir hugtakið byggingarfyrirtæki gæti byggingarsamvinnufélag fallið, en það kann að vera, að einhver fyrirstaða hafi orðið á að skilja þetta svo af hálfu húsnæðismálastjórnar og veðdeildar Landsbankans, og er þá sjálfsagt að bæta úr því og taka af allan vafa um það og bæta því byggingarsamvinnufélögum hér inn, eins og lagt er til í þessu frv. Þessu frv. var vísað til heilbr.- og félmn., og athugaði n. þetta mál og mælir einróma með því, að þetta frv. verði samþ., eins og fram kemur í nál. á þskj. 672.