14.05.1969
Sameinað þing: 51. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

Almennar stjórnmálaumræður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þið trúið því kannske ekki, en samt er það satt, að ég er farinn að kenna í brjósti um núv. ríkisstj. Þrátt fyrir allar aðvaranir hefur hún fyrirhyggjulaust anað æ lengra út í ófæruna og situr nú föst eins og sauðkind í bjargi, sem hvorki kemst upp né niður. Allt frá hinni fyrstu göngu hafa mistökin fylgt henni eins og skugginn. Flest hefur farið á annan veg en hún ætlaði eða sagði fyrir. Stefna hennar og breytni er svo mótsagnakennd, að til eindæma má telja. Ferill hennar er einna líkastur göngu þess manns, sem tapað hefur áttum í þoku og gengur hvað eftir annað í hring, en nálgast þó æ meir hina lífshættulegu klettabrún. Lítum aðeins á slóðina.

Í upphafi göngu sinnar sagðist viðreisnarstjórnin ætla að taka upp nýja stefnu til að skapa framleiðslustörfum og viðskiptalífi landsmanna traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöll en atvinnuvegirnir hafa átt við að búa undanfarin ár. Ég veit, að í dag á margur erfitt með að trúa því, að þessi orð hafi verið sögð af stjórnarinnar hálfu fyrir 9 árum. En þau eru skjalfest og verða ekki aftur tekin. En hvað er í slóðinni? Fjórar gengisfellingar, framkvæmdar af einni og sömu ríkisstj. Þær segja vissulega sína sögu um það, hversu traustur, varanlegur og heilbrigður grundvöllur atvinnuveganna hefur verið á þessu tímabili. Það þarf í raun og veru ekki fleiri vitna við. Stjórnin sagðist ætla að afnema allt uppbótakerfið. Það væri af hinu illa og hreinasta eitur fyrir heilbrigt efnahagslíf. En hvað skeði? Stjórnin tók upp uppbætur í einu eða öðru formi í stærri stíl en áður þekktist. Í mesta góðærinu gat meira að segja aðalútflutningsatvinnuvegurinn ekki komizt af án aðstoðar . Það segir einnig sína sögu um það, hvernig tókst að styrkja og treysta grundvöll framleiðslunnar og atvinnuveganna.

Þegar núv. stjórn tók við völdum, sagðist hún ætla að létta greiðslubyrði þjóðarinnar gagnvart útlöndum, sem allt væri að sliga, en þegar vinstri stjórnin fór frá, var greiðslubyrðin talin nema um 8% af gjaldeyristekjunum og mundi hækka eitthvað á tveimur næstu árum. Þá voru þessar erlendu skuldir taldar þjóðarvoði. En hvað hefur gerzt? Í tíð núv. stjórnar hafa skuldirnar við útlönd hækkað á hverju einasta ári og námu um s. l. áramót samtals um 12½ milljarði eða um 60 þús. á hvert einasta mannsbarn í landinu. Árlegar afborganir og vextir af þessum erlendu skuldum nema nú nær 1/6 af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. En nú er allt í lagi að stjórnarinnar dómi. Hún heldur meira að segja áfram að taka hvert erlenda lánið á fætur öðru, svo að skuldirnar munu hækka verulega á þessu ári. Hún hagar sér líkt og skuldakóngur á gjaldþrotsbarmi, sem hugsar um það eitt að slá lán, þar sem lán er að fá, alveg án tillits til þess, hvort hann hefur nokkra möguleika til að borga þau eða ekki. Þessi skuldasöfnun er svo ofboðsleg, að hún stofnar efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í hættu. Hún leggur óbærilegar byrðar á ungu kynslóðina, sem á að borga reikninginn. Og þetta var stjórnin, sem ætlaði að lækka erlendu skuldirnar og létta greiðslubyrði þjóðarinnar.

Vísitölutrygging var bönnuð árið 1960, lögboðin 1964, numin úr lögum árið 1967, samningsbundin 1968, en nú, 1969, aftur óalandi og óferjandi. Þetta er vægast sagt skrýtinn skollaleikur, en góður vitnisburður um hringsól villuráfandi manna.

Stöðvun verðbólgu var efst á loforðalista viðreisnar. Á það var lögð svo mikil áherzla, að sagt var, að allt annað væri unnið fyrir gýg, ef ekki tækist að stöðva verðbólguna. Efndirnar þekkja allir. Dýrtíðin hefur magnazt ár frá ári og meira en nokkru sinni fyrr. Sum árin hefur dýrtíðarvöxturinn verið tvöfaldur eða jafnvel þrefaldur á við það, sem hann hefur verið í helztu viðskiptalöndum okkar. Hvernig átti útflutningsframleiðslan að þrífast við þvílík skilyrði? Hér hafa auðvitað stundum verið að verki óviðráðanleg öfl. En ýmsar aðgerðir hins opinbera hafa einnig bæði beint og óbeint ýtt undir verðbólguna, ekki aðeins gengisfellingarnar fjórar, heldur sívaxandi skattaálögur í einni eða annarri mynd, vaxtahækkanir og óhagstæð lánakjör og síðast en ekki sízt stjórnleysi í fjármálum og framkvæmdum, sem allt hefur spennt úr skorðum. Sannleikurinn er sá, að stjórnarliðar hafa síður en svo veitt verðbólgunni viðnám, heldur hafa þeir stöðugt verið á flótta undan dýrtíðarflóðinu. Það er ekki að undra, þótt þeir vilji nú strika yfir stóru orðin um stöðvun verðbólgu og kysu helzt að fela þau í rökkri gleymskunnar.

Eitt var það, að viðreisnarstjórnin sagðist ekki ætla að hafa nein afskipti af kaupgjaldsmálum og vinnudeilum. Ekki hefur hún staðið við það. Þvert á móti hefur hún oft gripið inn í vinnudeilur, stundum þegar verst gegndi og alloft hefur hún í því sambandi gripið til gerðardóma og valdboða, síðast í vetur í sjómannaverkfallinu, en sú vinnudeila átti einmitt rætur að rekja til lagasetningar, sem ríkisstj. barði í gegn þrátt fyrir öll varnaðarorð innan þings og utan. Í yfirstandandi kjaradeilu er það áreiðanlega ekki ofsagt, að afstaða ríkisstj. hafi torveldað samninga. Hvað ætlar hún að gera til lausnar þeirrar deilu? Ætlar hún kannske að leysa hana með brbl., þegar þingið hefur verið sent heim? Það er auðvitað óverjandi með öllu að láta þingið fara frá þessari deilu óleystri. Það nær ekki nokkurri átt, að það skilji við kjaramálin í þeim hnút, sem þau eru í.

Stjórnin ætlaði einu sinni að lækka skatta, en það fór öðruvísi en ætlað var. Framkvæmdin hefur orðið sú, sem allir þekkja, að nýjum sköttum hefur verið bætt við á hverju einasta ári, sum árin mörgum. Nú síðast er það benzínskatturinn.

Stjórnin okkar ætlaði einu sinni að vernda verðgildi krónunnar. Efndirnar eru þær, að í skjóli og af völdum viðreisnarstefnunnar hafa innstæður manna og sjóðir blátt áfram visnað og orðið að nær engu. Það þarf t. d. ekki að fjölyrða um áhrif fjögurra gengisfellinga á hag og hugarfar sparifjáreigenda. Þau liggja í augum uppi. En svo sjaldan er minnzt á meðferðina á þessum mönnum, að ástæða er til að bæta við nokkrum orðum um það atriði. Sparifé þeirra hefur æ ofan í æ verið rýrt, með einu pennastriki. Þeir hafa verið að safna þessu fé í ákveðnu skyni, t. d. til elliáranna, til að eignast þak yfir höfuðið, til að kosta skólagöngu barna sinna, til undirbúnings sjálfstæðum atvinnurekstri o. s. frv. Söfnunin hefur byggzt á sparsemi og sjálfsafneitun. Svo vakna þeir upp við það einn daginn, að sparifjáreign þeirra hefur með opinberri ráðstöfun verið rýrð um þriðjung eða kannske helming, að allt þeirra erfiði hefur verið til einskis, að þeir eru ekki nær settu marki en áður. En hinir, sem festu fé sitt í eignum, föstum eða lausum, í stað þess að leggja það í banka, eru mun betur á vegi staddir. Það má nærri geta, hver áhrif þetta hefur á hugsunarhátt og viðhorf þessara manna. Þeir telja sig illa svikna og það með réttu. Reynslunni ríkari hætta þeir auðvitað sparnaði og sparifjársöfnun og gerast þátttakendur í fjárfestingar- og eyðslukapphlaupinu. Sannleikurinn er sá, að gengisfelling er eins og refsing á þá ráðdeildarsömu og því tíðari sem gengisfellingar eru, þeim mun hættulegri eru þær. Traust efnahagslíf er útilokað, þar sem tíðar gengisfellingar eiga sér stað.

Ég ætla ekki að nefna fleiri dæmi um það, hvernig viðreisnarstefnan hefur hvað eftir annað gengið úr skaftinu. Ég ætla, að þessi dæmi nægi til að sýna stefnuleysi, kollsteypur og uppgjöf okkar villuráfandi og ráðþrota ríkisstj. Frá upphafi hefur ráð hennar allt verið reikult og valt. Það, sem var boðorð í gær, er bannfært á morgun. Löggjöf, sem sett var fyrir kosningar, er frestað í framkvæmd, þegar kosningar eru afstaðnar. Sparnaði var lofað, en eyðsla aukin. Því bera 7 milljarða fjárlögin gleggsta vitnið. Þannig mætti lengi telja. Hvernig er hægt að ætlast til þess, að jafnrækilega viðsnúnir menn og okkar veizluglöðu ráðherrar séu færir til forystu, þegar á móti blæs? Vissulega eru þeir gæfir menn og gegnir á sinni réttu hillu í lífinu og sjálfsagt hafa þeir viljað gera betur. En þeir hafa færzt of mikið í fang. Þar um tala staðreyndirnar sínu máli.

Þær staðreyndir skilja flestir, jafnt stjórnarliðar sem aðrir, þó að þá skorti hreinskilni til að flytja ráðherrum þær bersöglisvísur, sem þyrfti. En ráðh. loka augunum fyrir þessum staðreyndum. Þeir sjá ekki annað en stjórnarstólana, sem þeir unna um aðra hluti fram. Þar sitja þeir líkt á sig komnir í almenningsaugum og keisarinn í nýju fötunum sínum í alkunnu ævintýri. Þess vegna eru þeir ekki síður brjóstumkennanlegir en ámælisverðir að mínum dómi. Og það er sízt að undra, þótt sumir ráðh. hafi verið dálítið skapstyggir og taugaóstyrkir að undanförnu. Þeir eiga sannarlega bágt.

Flestir munu játa, að um þessar mundir horfir þunglega á flestum sviðum. Alvarlegast er ástandið í efnahags- og atvinnumálum. Atvinnuvegirnir, jafnt landbúnaður, sjávarútvegur og iðnaður, eiga í vök að verjast, þjakaðir af skuldasöfnun, rekstrarfjárskorti og hallarekstri undangenginna ára. Þrátt fyrir gífurlega gengisfellingu, góða vertíð og nokkuð batnandi markaðshorfur er ástandið þannig, að atvinnurekendur segjast ekki geta greitt kaupgjald í samræmi við kjarasamninga, sem þeir gerðu í marzmánuði 1968. Hér varð í vetur meira atvinnuleysi en þekkzt hefur um áratugi, og enn er því miður talsvert atvinnuleysi. Hundruð framhaldsskólanemenda horfa fram á atvinnuleysi á þessu sumri. Flutningur fólks úr landi segir einnig sína sögu um ástandið og framtíðarhorfurnar. Aðgerðir stjórnvalda, knúðar fram af stéttasamtökum, svo sem stofnun atvinnumálanefndar og fyrirheit um fjárútvegun, hafa einkennzt meira af sýndarmennsku en raunhæfum framkvæmdum, enda allt of seint hafizt handa, þrátt fyrir margítrekaðar áskoranir, bæði utan þings og innan. Eitt er víst, að aðgerðirnar urðu litlar á liðnum vetri. Þar var þorskurinn óneitanlega drýgri til bjargar en ríkisstj. Hann hefur vissulega bjargað miklu, því að vegna ágætrar vertíðar eru horfur sem betur fer bjartari en ella.

Kjaramálin eru kapítuli fyrir sig, bæði sjómannaverkfallið í vetur og refjar ríkisstj. gagnvart opinberum starfsmönnum og synjun á vísitölugreiðslum í samræmi við fyrri samninga og þar af leiðandi vinnustöðvanir og verkbönn. Um það ætla ég ekki að fjölyrða. Ég minni aðeins á, að gengið var sagt fellt til að bæta stöðu atvinnuvega. Vertíð var ágæt og afurðaverð fer hækkandi. Samt segjast atvinnurekendur ekki geta greitt kaup samkv. samningum, sem þeir gerðu í marzmánuði í fyrra. Á sama tíma er öllum launþegum ætlað að taka á sig bótalaust svimandi hækkun lífsnauðsynja. Þessar þversagnir eru sannkölluð langavitleysa.

Ég tel, að stjórnarstefnan í atvinnumálum hafi á margan hátt verið misheppnuð. Þar hefur handahófið ráðið allt of miklu. Skort hefur stjórn á því, að þær framkvæmdir í atvinnumálum, sem þjóðinni var mest þörf á, sætu fyrir um fjármagn og vinnuafl. Þar hefur stjórnin sýnt fyrirhyggjuleysi og hefur ekki haft nauðsynlega forystu um uppbyggingu atvinnuveganna. Þar um er togaraútgerðin gleggsta dæmið. Í tíð núverandi stjórnar hefur togaraflotinn minnkað um helming. Togarar, sem enn eru í rekstri, eru gamlir og úreltir. Það er ekki til neinn nýtízkutogari. Þannig hefur verið búið að afkastamestu framleiðslutækjum þjóðarinnar. En á sama tíma hafa grannþjóðir okkar og keppinautar endurnýjað og byggt upp togaraflota sinn. Alla forystu um tilraunir í sjávarútvegi og markaðsöflun hefur því miður skort. Í öllu peningaflóðinu bjuggu undirstöðuatvinnuvegirnir við lánsfjárskort og óhæfilegan fjármagnskostnað. Verðbólgan hefur lamað þá og torveldað alla uppbyggingu. Innlend iðnfyrirtæki hafa þurft að keppa við óheftan innflutning erlendra iðnaðarvara og hafa oft ekki staðizt þá samkeppni, sem ekki er heldur von, þegar tillit er tekið til aðbúnaðar þeirra og vaxandi verðbólgu, sem vart hefur átt sinn líka í nálægum löndum. Þess vegna hefur tilfinnanlegur samdráttur átt sér stað í ýmsum iðnaði. Í iðnaðinum hefur heldur ekki varið mörkuð nein heildarstefna, þar hefur skort forystu af hálfu ríkisvaldsins.

Það er einnig ýmislegt annað í stjórnarfarinu, sem gagnrýna má. Í skjóli hins langa valdatíma núverandi stjórnarflokka hefur ýmiss konar óþarfur gróður þrifizt. Þenslan í stjórnarkerfinu hefur verið úr hófi fram. Þar hefur ýmiss konar óþrifnaður liðizt. Þar þyrfti víða að gera hreint. Hér gildir gamla reglan, að eftir höfðinu dansa limirnir. Það er sitthvað aðfinnsluvert á æðstu stöðum, bæði að því er varðar starfsháttu og meðferð á fjármunum. Ég hef t. d. gagnrýnt þann ósið, sem hér tíðkast, að ráðh. sitji í ýmsum stjórnarnefndum, sjóðsstjórnum og úthlutunarnefndum, sem þeir eiga svo að hafa yfirumsjón með. Augljóst er, hve óheppilegt það er, að ætla þeim að vera dómendur um eigin gerðir. Í mörgum þessara stjórna eru þeir meira að segja formenn. Ég gæti nefnt þessar n. og ráðh. þá, er þar sitja. Það ætla ég þó ekki að gera að þessu sinni, enda býst ég við, að flestir eigi auðvelt með að finna dæmin. Ég hygg, að slíkir starfshættir tíðkist ekki annars staðar, að minnsta kosti ekki í nálægum löndum. Þessum leiðinlegu og varhugaverðu starfsháttum þarf að breyta. En þó að margt megi gagnrýna, og það með réttu, eru það þó efnahags- og atvinnumálin, sem yfirskyggja allt annað. Þau mál eru sú undirstaða, sem framfarir í þjóðfélaginu á öðrum sviðum verða að byggjast á. Sé sú undirstaða veik, er ekki góðs að vænta á öðrum vettvangi. Þess vegna er ekki óeðlilegt, að mönnum verði tíðrætt um ástand efnahags- og atvinnumálanna, og þess vegna mun ég fyrst og fremst fjalla um þau.

Ástæðurnar til erfiðleika í efnahags- og atvinnumálum eru efalaust margar og margvíslegar. Að sjálfsögðu er lækkun útflutningsteknanna veigamikill þáttur. Ég held samt, að veigamesta undirrót vandans sé röng stjórnarstefna eða réttara sagt stjórnleysi. Það hefur ekki verið höfð nægileg stjórn á þeim málefnum, sem ríkisvaldið þarf að hafa tök á. Við getum ekki samið okkur að háttum háþróaðra iðnaðarþjóða. Það er sjálfsagt að hafa svo mikið frjálsræði sem við höfum efni á, en frelsi án takmarkana er stjórnleysi, það er engum til góðs, nema kannske þeim sterkasta í þann og þann svipinn. Frelsisglamrið hefur óneitanlega slegið ryki í augu þjóðarinnar, en ætli hún sé ekki að átta sig á hinu rétta samhengi hlutanna. Það held ég. Menn sjá nú fyrir sér afleiðingar óstjórnarinnar. Samdrátt og stöðvun í atvinnurekstri, atvinnuleysi, fjárskort til framkvæmda, getuleysi til atvinnuuppbyggingar og gegndarlausa skuldasöfnun. Stjórnarherrar segjast bara blása á þessar staðreyndir, en þær haggast bara ekki hætishót við allan þeirra blástur, það þarf meiri blásara, meira en núverandi ráðamenn til að dreifa skýjaþykkni erfiðleikanna.

Við framsóknarmenn höfum án afláts gagnrýnt stjórnarstefnuna í þessum efnum og varað við afleiðingum hennar. Við höfum krafizt stefnubreytingar, við höfum bent á nýjar leiðir og ný úrræði. Ekkert er því meira öfugmæli en það að telja okkur samábyrga fyrir því, hvernig komið er, að setja alla stjórnmálaflokkana á sama bekk. Við framsóknarmenn höfum verið í stjórnarandstöðu s. l. 10 ár. Við eigum engan hlut að þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið. Stefna okkar í efnahags- og atvinnumálum hefur ekki enn verið reynd í framkvæmd, okkar úrræði eru enn óreynd. Stefnu okkar höfum við nánar skýrt og útfært með flutningi þingmála, ekki sízt á þessu þingi. Við höfum t. d. markað stefnu okkar í atvinnu-, uppbyggingar-, fjárfestingar-, innflutnings- og gjaldeyrismálum í frv. okkar um atvinnumálastofnun o. fl. Þar er lagt til, að atvinnumálastofnun, sem skipuð skal fulltrúum atvinnulífsins, verði falin heildarstjórn þessara höfuðþátta efnahagslífsins. Hún á fyrst og fremst að hafa forystu um eflingu atvinnulífsins. Hún skal semja áætlanir um framtíðarþróun atvinnuveganna, marka stefnu í atvinnumálum og hafa forgöngu um gerð framkvæmdaáætlana. En hún á ekki að láta sitja við áætlanir, henni ber einnig að beita sér fyrir atvinnuöryggi í öllum byggðarlögum landsins. Áætlanir og framkvæmdir eiga þannig að haldast í hendur. Raunhæfar framkvæmdaáætlanir verða ekki gerðar nema stjórn sé jafnframt höfð á fjárfestingu. Fjárráðin eru takmörkuð, og það er ekki hægt að gera allt í einu. Það verður að veita þjóðhagslega nauðsynlegum framkvæmdum forgang. Atvinnuuppbygging og fjárfestingarstjórn eru því samtvinnaðar. Það er staðreynd, að framkvæmdir hafa ekki verið nægilega skipulagðar á ýmsum sviðum á undanförnum árum, þess vegna hefur sitt hvað verið framkvæmt, sem að skaðlausu hefði mátt bíða, en á hinn bóginn hefur skort fjármagn og stundum einnig vinnuafl til framkvæmda, sem bráðnauðsynlegar voru fyrir þjóðarheildina. Hið algera stjórnleysi í fjárfestingarmálum hefur leitt til vaxandi verðbólgu og versnandi samkeppnisaðstöðu útflutningsatvinnuveganna. Þessu þarf að breyta, það þarf að taka upp heildarstjórn á fjárfestingu, en slík stjórn á vitaskuld aðeins að ná til meiri háttar framkvæmda, því að í þessu efni má ekki fara út í neinar ofstjórnaröfgar. Á þessum sjónarmiðum er byggt í nefndu frv. Samkvæmt frv. okkar er atvinnumálastofnuninni einnig falin heildarstjórn innflutnings- og gjaldeyrismála. Sú stjórn á fyrst og fremst að vera fólgin í setningu almennra reglna. Það er ekki ætlun okkar, að tekið sé upp almennt leyfakerfi í þeirri mynd, sem áður tíðkaðist. Allt tal í þessu sambandi um höft er því út í hött. Aðeins er lagt til, að höfð sé nauðsynleg stjórn á þessum málum. Reynsla undanfarinna ára sýnir, að við höfum ekki ráð á algjöru handahófi í þessum efnum. En ég trúi því, að hér sé unnt að fara skynsamlegan meðalveg á milli ofstjórnar annars vegar og algjörs skipulagsleysis hins vegar. Við verðum að hafa þá stjórn á þessum málum, að við getum hagað gjaldeyrisnotkun og innflutningi í samræmi við gjaldeyrisöflun og þarfir framleiðslunnar og atvinnulífsins.

Af öðrum till. okkar á Alþ. vil ég nefna þessar: Að tilteknum fyrirtækjum sé veittur greiðslufrestur; að lausaskuldum atvinnuveganna sé breytt í föst lán og skuldaskil framkvæmd í vissum tilvikum. Að tollar af framleiðslutækjum, hráefnum og rekstrarvörum séu lækkaðir eða felldir niður. Að vextir af stofnfé og rekstrarlánum atvinnuveganna séu lækkaðir og söluskattur á lífsnauðsynjum verði lækkaður eða felldur niður. Þá höfum við og flutt sérstaka till. um eflingu iðnaðarins. Þar er m. a. lagt til, að mörkuð sé heildarstefna í málefnum iðnaðarins. Að sérstök lánafyrirgreiðsla sé veitt þeim iðnfyrirtækjum, sem keppa við erlend fyrirtæki, sem bjóða greiðslufresti, og komið á fót sérstöku útflutningslánakerfi. Að rekstrarlán til iðnaðar verði veitt með hliðstæðum hætti og til annarra atvinnugreina. Að felldur verði niður innflutningur iðnaðarvara á þeim sviðum, þar sem vörur til sömu notkunar eru framleiddar hér á landi með atvinnulega hagkvæmum árangri, og íslenzk fyrirtæki látin framkvæma þau verk, sem þau eru fær um að annast, þannig að talizt geti þjóðhagslega hagkvæmt. Að tryggt sé, að smíði fiskiskipa og flutningaskipa verði haldið áfram og aukin í landinu, og jafnframt verði hafin smíði fiskiskipa á vegum ríkisins með það fyrir augum að efla og endurnýja þann fiskiskipastól, sem einkum aflar hráefnis fyrir hraðfrystihúsin. Fleiri mál mætti tína til, en tíminn leyfir það ekki.

Allar þessar till. hafa það markmið að bæta stöðu atvinnuveganna og stuðla að atvinnuöryggi, en það er einmitt megininntak stefnu okkar, að íslenzkum atvinnuvegum verði tryggður rekstrargrundvöllur með gerbreyttri stefnu á sviði fjármála. Jafnframt þarf að vinna markvisst að því að gera framleiðsluvörurnar fjölbreyttari og verðmætari með fullvinnslu þeirra og aukinni vöruvöndun. Enn fremur þarf að leggja aukna áherzlu á markaðsöflun og sölumennsku. Ég held, að þetta séu ein þýðingarmestu verkefnin í náinni framtíð og reyndar miklu mikilvægari en sumt af því, sem hærra ber í stjórnmálaumr. Ég held, að það sé orðið tímabært að taka allt sölufyrirkomulag útflutningsframleiðslunnar til rækilegrar endurskoðunar.

Af öðrum þeim aðgerðum í fjármálum, sem við teljum nauðsynlegar og leggjum áherzlu á, vil ég aðeins nefna þessar: Að tekjuöflun ríkisins sé endurskoðuð í því skyni, að hún komi niður á réttlátari hátt, og að óbeinir skattar leggist meira á óþarfa eyðslu en nú á sér stað. Að erlendar lántökur takmarkist við arðvænlegar framkvæmdir í þeim skilningi, að þær standi undir sér gjaldeyrislega séð, annaðhvort með gjaldeyrisöflun eða tilsvarandi sparnaði í innflutningi. Að áherzla sé lögð á sparnað, ekki aðeins hjá ríkinu og opinberum stofnunum, heldur einnig hjá einstaklingum og fyrirtækjum.

Framkvæmd þeirrar stefnu, sem nú hefur lítillega verið lýst, mundi bæta stöðu atvinnuveganna, treysta grundvöll atvinnulífsins og tryggja atvinnuöryggi. Jafnframt ættu lífskjör smám saman að geta farið batnandi. En þetta getur ekki gerzt í einu vetfangi. Það kostar mikið átak, sem ekki verður gert, án þess að neinn finni fyrir. Eigi að koma þjóðarskútunni aftur á réttan kjöl, verða menn að leggja hart að sér. Úr því sem komið er, verða erfiðleikarnir ekki yfirstignir án fyrirhyggju, sjálfsafneitunar og styrkrar stjórnar. Á það vil ég leggja áherzlu. Ég kæri mig ekki um að reyna að blekkja neinn til fylgis á fölskum forsendum eða með loforðum, sem ekki er hægt að standa við. Ég vil því ekki lofa neinum gulli eða grænum skógum. Ég undirstrika, að menn verða að vinna vorverkin áður en uppskeru má vænta. En verði stefna Framsóknarfl. tekin upp, verður siglt í rétta átt, og þá mun fljótlega fara að birta til í efnahagslífi og atvinnumálum þjóðarinnar. Þess vegna er það höfuðnauðsyn að sameina um hana öll þau öfl, sem álíta, að stefna núverandi stjórnar sé röng og hafi misheppnazt og muni leiða til enn meiri ófarnaðar, ef áfram er haldið. Þeir menn, sem þannig líta á og í höfuðatriðum geta fallizt á þessa stefnu, þurfa að taka höndum saman. Smásmuguleg sjónarmið mega ekki standa því í vegi. Kjörorð þeirra manna á að vera samstarf, en ekki sundrung. Sundrung í þeirra röðum má ekki verða lífakkeri stjórnarflokkanna. — Góða nótt.