14.05.1969
Sameinað þing: 51. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Um langt skeið hafa eldhúsumræður frá Alþ. að mestu leyti verið þras um dægurmál, ásakanir og jafnvel brigzl, þar sem staðhæfing hefur staðið gegn staðhæfingu. Eflaust hefur almenningur oft átt erfitt að átta sig á, hvað væri satt og hvað ekki. Einhver hlaut að fara með rangt mál. En hver var það? Oft og einatt hefur niðurstaðan í huga hlustanda orðið sú, að hann hefur kosið að trúa flokksbræðrum sínum, en telja andstæðinga halla réttu máli. Umr. af þessu tagi eru Alþ. ekki til sóma, og þær eru þjóðinni ekki til gagns. Allra sízt geta slíkar umr. orðið Alþ. til sóma og þjóðinni til gagns nú, eins og horfir í íslenzku þjóðlífi. Þau orð, sem ég mæli hér í kvöld fyrir hönd Alþfl., verða því ekki framlag til slíkra umr. Þá stund, sem ég hef til umráða, mun ég nota til þess að ræða við hlustendur um þann mikla vanda, sem þjóðinni er á höndum. Annars vegar þann vanda, sem áföll undanfarinna tveggja ára hafa valdið okkur, og hins vegar viðfangsefnin, sem við munum þurfa að glíma við næstu ár og áratugi. Ég álít það mikilvægara en að stæla við stjórnarandstöðuna um málflutning hennar. Og ég vona, að með þessu móti geri ég þeim, sem á þessar umr. hlýða, meira gagn. Ef mér tækist að bregða nýju ljósi á einhvern þátt þess vanda, sem við er að etja, í huga einhvers samherja eða einhvers andstæðings, þá er tilganginum náð.

Ef við hverfum um 7 áratugi aftur í tímann, til aldamótanna s. l., og virðum fyrir okkur íslenzkt þjóðfélag eins og það var þá, verður fyrir okkur mynd, sem er svo ólík þeirri, sem við okkur blasir í dag, að næstum ótrúlegt hlýtur að teljast. Íslendingar voru þá meðal fátækustu þjóða á Vesturlöndum. Þeir voru ófrjáls þjóð. Þeir áttu næstum engin tæki til þess að hagnýta helztu auðlindir Íslands, fiskimiðin umhverfis landið. Hér var engin verksmiðja, engin höfn, varla nokkur vegur, örfá hús úr steini. Reykjavík var verzlunarþorp, hálfdanskt að talsverðu leyti. Á 7 áratugum hafa Íslendingar eignazt svo að segja allt það, sem við sjáum nú í kringum okkur: framleiðslutækin, orkuverin, skólana, vegina, sjúkrahúsin, íbúðirnar. Á 7 áratugum hafa Íslendingar komið á fót þjóðfélagi með lífskjörum, sem eru svipuð því, sem gerist í ríkjum Vestur-Evrópu. Þeir hafa mótað þjóðfélag sitt samkv. sjónarmiðum, sem kennd eru við velferðarríki. Menntun þjóðarinnar er eins og hún gerist bezt í nálægum ríkjum og menningarlíf er mjög fjölskrúðugt. Mér er til efs, að jafnhröð þróun hafi gerzt í nokkru nálægu landi á jafnskömmum tíma. Ef hér hefði ekki aðeins verið um að ræða örlög 100–200 þús., heldur 100–200 millj., er ég sannfærður um, að þessi þróun hefði verið talin til veraldarsögu, en heimurinn lætur sig litlu varða örlög fámenns hóps manna norður við heimsskaut, þótt hann sé þjóð og búi í sjálfstæðu ríki. Þess vegna hefur það, sem hér hefur gerzt, ekki talizt til veraldarsögu. En merkilegt er það engu að síður.

Hér mun ég enga tilraun gera til þess að skýra, hvernig þetta gat gerzt. Á þær staðreyndir vil ég þó minna, að í upphafi aldarinnar gerðist svo að segja samtímis það þrennt, að æðsta framkvæmdavaldið í málefnum þjóðarinnar fluttist inn í landið, er fyrsti ráðherrann var gerður ábyrgur gagnvart Alþingi, að landið fékk eigið peningakerfi, þegar fyrsti seðlabankinn, Íslandsbanki, var stofnaður, og að togaraútgerð var hafin á Íslandi. Þjóðin vélvæddist á ótrúlega skömmum tíma. Í því sambandi má það ekki gleymast, að þótt Íslendingar væru fátækir um aldamótin, voru þeir ekki ómenntaðir. Þótt bændurnir og fiskimennirnir hefðu lítið til hnífs og skeiðar, voru þeir bæði vel að sér og vel greindir. Þeir löguðu sig þess vegna að nýjum atvinnuháttum með ótrúlegum hraða og gerðu með því móti öra atvinnubyltingu mögulega, örari atvinnubyltingu en saga annarra þjóða kann frá að greina.

Enginn vafi getur leikið á því, að þær efnahagsframfarir, sem hér hafa orðið á þessari öld, eiga fyrst og fremst rót sína að rekja til þess, að Íslendingum hefur tekizt að ná miklum afköstum við hagnýtingu auðugra fiskimiða sinna umhverfis landið, bæði með mikilli tækni við veiðarnar sjálfar, en ekki síður með mikilli verkkunnáttu á því sviði, og með fullkomnum vinnslustöðvum í landi. Framleiðni íslenzks sjávarútvegs hefur verið miklu meiri en nokkurrar annarrar atvinnugreinar, sem hér hefur verið stunduð, og eflaust meiri en sjávarútvegs nokkurs annars lands. Ef við eigum að skilja sögu okkar, ef við eigum að átta okkur á vandamálum okkar í dag og ráða við viðfangsefni framtíðarinnar, verðum við að gera okkur þess skýra grein, að núverandi lífskjör okkar eigum við fyrst og fremst því að þakka, að sjávarútvegur þjóðarinnar hefur dregið meiri björg í bú, það sem af er þessari öld, en nokkur önnur atvinnugrein landsmanna og sjávarútvegur nokkurrar nálægrar þjóðar. Auðvitað hafa ýmsa aðrar greinar atvinnulífsins reynzt arðbærar og þó einkum ýmsar greinar iðnaðar sem og orkuframleiðsla. Og sömuleiðis hefur verzlunin, eftir að hún fluttist á innlendar hendur, ásamt siglingum á legi og í lofti reynzt þjóðinni hagstæð. En hér eins og í öðrum iðnaðarþjóðfélögum hefur landbúnaður ekki reynzt þess megnugur að veita fólki svipuð lífskjör og aðrar atvinnugreinar án þess, að sérstakar ráðstafanir kæmu til þrátt fyrir stórfelldar framfarir. Hefur þjóðfélagið því hér eins og í nálægum iðnaðarlöndum orðið að styrkja landbúnaðinn með ýmsum hætti.

En þótt þróunin í sjávarútveginum hafi verið þjóðinni mjög hagstæð, þegar á heildina er litið og öldina alla, þá hefur hún verið mjög skrykkjótt, eins og við er að búast um atvinnuveg, sem er annars vegar háður náttúruaðstæðum, þ. e. a. s. fiskgöngum og veðurfari, og framleiðir hins vegar matvæli. Þá hafa orðið mikil áraskipti á afkomu hans, miklar sveiflur á skerfi hans til þjóðarbúsins. Þetta höfum við Íslendingar fengið að reyna öldina alla. Einna skýrust hefur þó reynslan af þessu orðið nú á þessum áratug.

Á árunum 1960–1966 meira en tvöfaldaðist sjávaraflinn, en minnkaði aftur niður í sama magn og áður á árunum 1967 og 1968. Gjaldeyristekjur þjóðarinnar jukust um 66% á árunum 1963–1966, en minnkuðu svo að segja jafnmikið aftur á árunum 1967 og 1968. Það, sem áunnizt hafði í 4 miklum góðærum, tapaðist allt aftur í tveimur harðærum. Í góðærinu fór saman aukinn afli og hækkað verð. Í harðærinu fór aftur saman aflaminnkun og lækkað verð. Fyrr á öldinni vó stundum verðhækkun á móti aflabresti og aukinn afli á móti verðlækkun. Á þessum áratug hefur tilviljunin hagað málum svo, að sveiflur í afla og verði fylgdust að, bæði upp á við og niður á við. Þetta hefur gert vandann enn torleystari en ella. Hagnaði góðæranna var ráðstafað til kjarabóta almennings, til aukinnar fjárfestingar og myndunar gjaldeyrisvarasjóðs. Í harðærinu, sem við búum enn við, en erum vonandi að komast út úr, hafa lífskjör rýrnað, fjárfesting hefur minnkað og gjaldeyrisvarasjóðurinn hefur verið notaður. Aðalráðstafanirnar, sem gripið hefur verið til vegna harðærisins, eru tvær gengislækkanir. Nálægar þjóðir, sem þurft hafa að glíma við sams konar erfiðleika, enda þótt þeir hafi hvergi nærri verið eins stórfelldir og hér á landi, svo sem Finnar og Bretar, hafa gripið til sams konar ráðstafana.

Tilgangur gengisbreytinganna hefur verið tvíþættur. Annars vegar hefur verið þar um að ræða aðferð til þess að draga úr notkun erlendrar vöru og þjónustu og mæta þannig lækkun tekna af útflutningi. Hins vegar hefur verið um að ræða aðferð til þess að hleypa nýju fjöri í útflutningsframleiðsluna og auka útflutningstekjur. Óhætt er að segja um gengisbreytingarnar, að þær hafi í aðalatriðum náð tilgangi sínum. Innflutningur hefur orðið mun minni en ella hefði orðið og útflutningur hefur aukizt. Áhrif síðari gengisbreytingarinnar og góðrar vertíðar, sem reynzt hefur unnt að hagnýta hennar vegna, hafa enn fremur orðið til þess að draga mjög úr atvinnuleysinu, sem minnkun þjóðarframleiðslunnar hafði valdið. Sú verðlagshækkun, sem orðið hefur vegna gengisbreytinganna, hefur hins vegar valdið kjaraskerðingu hjá þjóðinni. En hjá henni var að sjálfsögðu ógerningur að komast. Aflabresturinn og verðfallið jafngiltu kjaraskerðingu. Spurningin var um það eitt, í hvaða mynd þjóðin ætti að taka hana á sig. Gengisbreytingarnar voru aðferð til þess að hún tæki hana á sig með minnkaðri notkun erlendrar vöru og erlendrar þjónustu, en ekki innlendrar vöru og þjónustu. Þetta var tvímælalaust skynsamlegt. Nú er um að gera að vinnudeilurnar, sem yfir standa, verði ekki leystar á þann hátt, að jákvæðum árangri gengisbreytinganna sé stefnt í hættu. Það á að vera unnt að bæta kjör láglaunafólks frá því, sem verið hefur. En Íslendingar eru áreiðanlega svo þroskaðir, að þeir geri sér grein fyrir því, að reyni allir að fá jafnmikla kauphækkun, verður það til þess, að í reynd fær enginn neitt.

En það er ekki nóg að hafa gert þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið gegn afleiðingum áfallanna og leysa vinnudeilurnar með ábyrgum hætti. Ef okkur tekst þetta eins og allir góðviljaðir menn hljóta að vona, þá höfum við að vísu komizt klakklaust yfir þá boða, sem á þjóðarskútunni hafa brotnað undanfarin tvö ár, en á næstu árum og áratugum bíður þjóðarinnar mikill vandi. Meginþættir hans eru tveir.

Hinn fyrri er sá, að þótt sjávarútvegur verði án efa um langa framtíð aðalatvinnuvegur Íslendinga og sá atvinnuvegur, sem gefur þjóðarbúinu mest í aðra hönd, þá getum við samt ekki vænzt þess, að sjávarútvegurinn geti á næstu árum og áratugum staðið undir jafnörum framförum og jafnmikilli kjarabót og hann hefur gert, það sem af er öldinni. Þetta á ekki rót sína að rekja til þess, að hætta sé á því, að sjávarafli minnki eða stöðvun verði í tækniframförum í sjávarútvegi. Þetta á í fyrsta lagi rót sína að rekja til þess, að sjávarútvegurinn byggist á hagnýtingu takmarkaðra náttúruauðlinda. Með skynsamlegum ráðstöfunum getum við að vísu drýgt okkur þessar auðlindir og nýtt þær æ betur. En við getum ekki aukið þær beinlínis til samræmis við vöxt þjóðarinnar og óskir hennar um batnandi lífskjör. Í öðru lagi á þetta rót sína að rekja til þess, að sjávarútvegur þeirra þjóða í Austur-Evrópu og öðrum heimshlutum, sem skemmra eru á veg komnar á þróunarbraut á þessu sviði en við, fer nú ört vaxandi. Jafnframt hafa iðnaðarþjóðirnar mætt harðnandi samkeppni á fiskmörkuðum með sívaxandi styrkveitingum til þessarar atvinnugreinar, sem hjá þeim er aukaatvinnugrein. Sívaxandi afköst iðnaðarins gera það kleift að styrkja sjávarútveginn. Þessar þjóðir hafa eins og við styrkt landbúnað sinn. Nú eru þær teknar að styrkja sjávarútveg sinn með hliðstæðum hætti. Það getum við ekki gert, enda er sjávarútvegur aðalatvinnuvegur Íslendinga og mikil afköst hans gera okkur kleift að veita öðrum atvinnugreinum nauðsynlega aðstoð. En íslenzkur sjávarútvegur verður nú í vaxandi mæli að keppa á heimsmarkaði, annars vegar við vaxandi framleiðslu þjóða, sem eru á eftir okkur og iðnaðarþjóðunum á þróunarbrautinni, en hins vegar við afurðir sjávarútvegs iðnaðarþjóða, sem styrkja sjávarútveg sinn í vaxandi mæli. Hætta er á, að þannig verði þetta á næstu árum og áratugum. Þetta eru ný viðhorf og þetta eru skýringarnar á því, að við getum ekki búizt við því, að sjávarútvegur geti á næstu árum og áratugum orðið jafntraust undirstaða framfara og kjarabóta og hann hefur verið á undanförnum áratugum.

Síðari þáttur vandans, sem ég gat um, að biði okkar á næstu árum og áratugum, er fólginn í því, að við þurfum nú og á næstu árum að sjá miklu fleira nýju fólki á vinnumarkaðinum fyrir arðbærri atvinnu. Fyrir 10 árum fjölgaði fólki á vinnumarkaðinum árlega um 1000 manns. Nú fjölgar því árlega um 1800 manns eða 80% hærri tölu. Það verður eitt meginviðfangsefni næstu ára og áratuga að búa þessu fólki góð atvinnuskilyrði, atvinnuskilyrði, sem bæta kjör og efnahag þjóðarinnar ekki minna en þau hafa batnað á undanförnum áratugum og helzt meira. En í hvaða atvinnugreinum á að fá þessu unga fólki atvinnu? Kjarni þess, sem ég var að segja áðan, var sá, að við getum ekki búizt við því, að sjávarútvegur hafi framvegis arðbær verkefni handa öllu þessu fólki. Í landbúnaði getur það ekki fengið hagkvæm verk að vinna. Allar framsæknar iðnaðarþjóðir stefna að því að fækka fólki við landbúnaðarstörf án þess, að framleiðslan minnki. Það verður einnig að vera stefnan hér. Í viðskiptum, við samgöngur og þjónustustörf verður eflaust þörf fyrir aukinn mannafla á næstu árum og áratugum eins og í öllum þjóðfélögum, þar sem lífskjör fara batnandi. En hvorki væri unnt né hagkvæmt að hagnýta allt hið nýja vinnuafl á þessum sviðum. Enn einn vettvangur er eftir: iðnaður. Iðnaðarframleiðsla getur eflaust aukizt talsvert með batnandi efnahag. En útilokað er þó, að iðnaðarframleiðsla fyrir innanlandsmarkað geti tekið við öllu nýja vinnuaflinu. Að auki er þörf á nýrri framleiðslu til gjaldeyrisöflunar, útflutningsiðnaði, er geti veitt hinu nýja vinnuafli arðbæra atvinnu og stuðlað jafnframt að því ásamt sjávarútveginum, að gjaldeyrisöflun haldi áfram að aukast.

Nú vita allir, að í markaðsmálum heimsins hefur myndun viðskiptasamtaka af ýmsu tagi skipt æ meira máli á undanförnum árum. Um 40% utanríkisviðskipta okkar Íslendinga eru við lönd, sem bundizt hafa viðskiptasamtökum, Fríverzlunarsamtökunum eða EFTA. Þessi lönd hafa afnumið tolla og höft í innbyrðis viðskiptum sínum með iðnaðarvörur, en þeir, sem selja vilja iðnaðarvörur til þessara landa, verða að greiða toll. Ef nýr útflutningsiðnaður á að geta komizt á fót á Íslandi, verður hann að geta selt afurðir sínar tollfrjálst á stórum mörkuðum, annars gæti hann ekki orðið samkeppnisfær. Þessi staðreynd gerir hugsanlega aðild okkar að Fríverzlunarsamtökunum að því framtíðarmáli, sem hún er í raun og veru. Við viljum jafnframt losna við ýmsa tolla og hömlur á útflutningi íslenzkra sjávarafurða til landa Fríverzlunarsamtakanna, en við mundum ekki losna við tolla og hömlur á öllum okkar útflutningi og við yrðum smám saman að lækka verndartolla okkar. Kjarni alls þessa máls er samt, að ef við tryggjum okkur ekki tollfrjálsan aðgang að einhverjum stórum markaði, þá getum við engar vonir gert okkur um að geta komið á fót útflutningsiðnaði í landinu. Nýr útflutningsiðnaður er hins vegar helzta og haldbezta ráðið til þess að sjá hinu sívaxandi vinnuafli fyrir arðbærri atvinnu. Þetta er að mínu viti viðfangsefni næstu ára og áratuga í hnotskurn. Menn geta pexað eins mikið og þeim sýnist um það, sem hefur verið gert, sem hefur verið að gerast á undanförnum árum, hvort þessi eða hin ráðstöfunin hafi verið rétt eða röng, hver beri ábyrgð á þessu eða hinu. En þeir, sem ekki hafa hugleitt þann vanda, sem bíður, þeir sem tala ekki um hann og hafa enga hugmynd um, hvernig honum eigi að mæta, þeir hafa í raun og veru ekki áttað sig á kjarna íslenzkra efnahagsmála og stjórnmála næstu ár og áratugi.

Alþfl. hefur nú starfað í meira en hálfa öld. Enginn sanngjarn maður mun bera á móti því, að spor hans sjáist víða í íslenzku þjóðfélagi og yfirleitt til góðs. En Alþfl. hefur aldrei numið staðar í fortíðinni og mun aldrei gera. Hann hefur ávallt viljað helga krafta sína samtíð og framtíð jöfnum höndum. Hann áttar sig á, að tímarnir eru alltaf að breytast, að ný vandamál krefjast nýrra úrræða. Hann hefur aldrei orðið kreddubundinn, aldrei látið bókstafstrú og kennisetningar móta viðhorf sitt, heldur skynsamlegt mat á viðfangsefnum. Þetta hefur valdið því, að kreddutrúarmenn í efnahagsmálum og stjórnmálum hafa oft á tíðum talið Alþfl. bregðast gömlum hugsjónum. Hið sama hafa frjálslyndir og framfarasinnaðir jafnaðarmannaflokkar í nágrannalöndunum fengið að heyra. Alþfl. mun ávallt halda fast við þá hugsjón sína að styðja þá, sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu, að efla réttlæti, treysta lýðræði, bæta menntun, en hann er ekki þeirrar skoðunar, að leiðin að þessu marki sé hin sama nú og fyrir aldarfjórðungi, né heldur að hún muni verða hin sama eftir aldarfjórðung. Hann mun hverju sinni fylgja þeirri leið, sem hann telur líklegasta til árangurs og vinna með þeim flokki eða flokkum, sem hann telur sig geta náð beztum árangri með.

Alþfl. vill heyja baráttu sína með rökum. Hann mun ekki láta nein hróp hræða sig af þeirri braut, sem hann álítur rétta. Hann óskar samstarfs við þá og liðveizlu þeirra, sem leysa vilja vandamál samtíðarinnar af ábyrgðartilfinningu og hugsa um viðfangsefni framtíðarinnar af skynsemi. Ég held, að þeir séu margir í öllum stjórnmálaflokkum og utan stjórnmálaflokkanna, sem eru búnir að fá nóg af upphrópunum og æsingum, af ábyrgðarleysi og kröfum til annarra en sjálfra sín. Þetta er fólkið, sem Alþfl. setur traust sitt á. Þetta er fólkið, sem hann talar til. Það er fólkið, sem hann óskar samvinnu við. — Þökk þeim, sem hlýddu.