16.05.1969
Sameinað þing: 52. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Magnús Kjartansson lagði í ræðu sinni í fyrrakvöld áherzlu á nauðsyn þess, að almenningur fylgdist með stjórnmálum og taldi síðan mörg dæmi, hvað væri stjórnmál. Víst er það rétt, að stjórnmálin varða flesta þætti í lífi fólks og lýðræðisskipulagið byggist á því, að hinn almenni borgari sé virkur hluttakandi í stjórnmálastarfseminni, og það er raunar óhjákvæmilegt til þess að geta metið flokka og frambjóðendur við almennar kosningar. En þótt lýðræði sé það stjórnarfar, sem flest okkar vilja búa við, hefur það eins og öll mannanna verk bæði sína kosti og ókosti. Meginkosturinn er sá, að einstaklingurinn getur án ótta við fangelsanir og ofsóknir látið í ljós skoðanir sínar á valdhöfunum og valið í leynilegum kosningum þá til forystu, sem hann treystir bezt, alveg andstætt því stjórnkerfi, sem Magnús Kjartansson og hans skoðanabræður dýrka og vilja vafalaust láta þjóð sína njóta, fengju þeir ráðið. Aðalókostur lýðræðisskipulagsins er aftur á móti sá, að þar sem það er ríkt í eðli okkar allra að vilja heldur heyra loforð um aukin þægindi en boðskap um að þrengja að okkur og sætta okkur við lakari kosti, hættir stjórnmálamönnum til þess að segja það, er þeir telja falla kjósandanum betur í geð og sé líklegra til fylgisauka.

Í lýðræðisþjóðfélagi hvílir því þung ábyrgð á herðum þeirra manna, sem til forystu veljast, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, og aldrei er sú ábyrgð meiri en þegar erfiðleikar steðja að þjóð þeirra og miklu varðar fyrir framtíð hennar, að hún fái að vita hið sanna um hag sinn og allir leggi sig fram um að lýsa rétt málsatvikum og reyna af einlægni að benda á úrræði til lausnar vandanum. Það er ekki hægt að ætlast til, að menn verði endilega sammála um leiðir, en þjóðin á kröfu til þess, að stjórnmálamenn hennar láti á alvarlegum tímum af kjósendaveiðum og segi henni satt og rétt frá stöðu hennar og framtíðarhorfum.

Íslenzka þjóðin lifir nú slíka örlagatíma. Hún hefur orðið fyrir meiri áföllum á skömmum tíma en vitað er um hjá nokkurri þjóð við svipuð lífsskilyrði. Til þess að forðast stöðvun atvinnuveganna höfum við orðið að fella gjaldmiðil okkar tvisvar með árs millibili. Vitanlega eru slíkar ráðstafanir og samsvarandi kjaraskerðingar ekki vinsælar. Allir hugsandi menn viðurkenna með sjálfum sér a. m. k., að grípa varð til róttækra aðgerða, og veruleg kjaraskerðing er í bili óumflýjanleg. En hvernig hafa forystumenn stjórnarandstöðunnar staðizt þessa lýðræðislegu prófraun? Þessar útvarpsumr. eru síðasta dæmið um viðbrögð þeirra. Lausnin á öllum vandanum er í þeirra munni sú, að ríkisstj. fari frá og nýir menn með nýjar aðferðir taki við völdum, eins og einn varaþm. Framsfl. orðaði það í fyrrakvöld, eftir að hafa flutt svo fjarstæðukenndar lýsingar um aðbúnað ríkisstj. að bændastéttinni, að furðu gegnir um mann, sem á að gegna ráðunautsstörfum fyrir bændur. Auðvitað hefði ýmislegt mátt betur fara þann áratug, sem núverandi stjórnarflokkar hafa farið með völdin í landinu. En að ríkisstj. hafi bókstaflega ekkert gert, nema grafa undan atvinnuvegum þjóðarinnar og þannig gera hana ófæra um að mæta núverandi erfiðleikum eins og formaður Alþb. sagði í fyrrakvöld, er naumast sæmandi fyrir stjórnmálaleiðtoga að bera á borð fyrir skyni borið fólk. Það er ómótmælanleg staðreynd, að á þessu tímabili hefur þjóðin eignazt í margvíslegum framleiðslutækjum og húsakosti og húsbúnaði fyrir fólkið í landinu margfalt meira en á nokkru öðru tímabili sögu sinnar. Þótt á velmegunartímum sé ómögulegt að forða því, að mörg krónan fari til spillis, er það staðreynd, að af peningaflóði undanfarinna ára höfum við Íslendingar notað hlutfallslega stærri hluta til kaupa á varanlegum verðmætum en flestar aðrar þjóðir.

Að skýringin á erfiðleikum okkar nú sé óskynsamleg fjárfesting á þessum árum, er fjarri sanni. Það hljómar vafalaust fallega í eyrum sumra að heyra hneykslazt á bankabyggingum og verzlunarhöllum, en sú fjárfesting nam aðeins 5% heildarfjárfestingarinnar, og eru þó hótel talin með. Svona fullyrðingar eru álíka sæmandi stjórnmálamönnum og frásagnirnar um tertubotnana, sem eiga að hafa komið utanríkisviðskiptum okkar úr jafnvægi. Væri það raunverulega lausn á vandamálum þjóðarinnar nú, að nýir menn með nýjar aðferðir tækju við stjórnartaumum, væri það auðvitað skylda núverandi ríkisstj. að víkja og afhenda þessum nýju bjargráðamönnum völdin í landinu. En áður en það gerist, hlýtur þjóðin að krefja þessi nýju leiðtogaefni sagna um úrræði þeirra til að leysa vandann, sem í munni þeirra á alls ekki að vera svo stór, ef rétt er á haldið.

Í þrennum kosningum hafa stjórnarandstöðuflokkarnir, og þá fyrst og fremst Framsókn, boðið þjóðinni óséð hnífakaup. En þeim hefur alltaf verið hafnað, enda sjaldan gróðavegur. Hver er boðskapurinn nú, sem þjóðin á að falla fyrir? Formaður Framsfl. sagði með nokkrum þunga í fyrrakvöld, að hann ætlaði ekki að lofa neinu, sem ekki væri hægt að standa við. Þessi sami höfuðtalsmaður stjórnarandstöðunnar og væntanlega foringi nýju mannanna með nýju aðferðirnar, sem eiga að taka við, sagði í viðtali við blað sitt, 19. febr. s. l., að full verðtrygging launa væri óhjákvæmileg. Þegar blaðamaðurinn spurði hann að því, hvort hann ætti aðeins við lægstu launaflokkana, sagði formaður Framsfl.: Nei, ég tel það neyðarúrræði.

Í sama blaði Framsfl. var frá því sagt í haust, meðan viðræður um samvinnu stjórnmálaflokkanna stóðu yfir, að flytja þyrfti a. m. k. 1400 millj. kr. til útgerðarinnar, ef hún ætti ekki að stöðvast. Aldrei þessu vant fór Tíminn hér með rétt mál. Þessa staðreynd hafa líka sjómannasamtökin viðurkennt í samningum sínum eftir áramótin, og flestir verkalýðsforingjanna viðurkenna í núverandi samningum, að atvinnuvegirnir geta aðeins bætt kjör þeirra lægst launuðu. En hinir pólitísku foringjar Framsfl. telja það aðeins meinbægni í vondri ríkisstj. að láta ekki í senn atvinnuvegina hafa 1400 millj. og bæta öllum alla kjaraskerðingu, sem af því leiðir. Það væri ekki amalegt að fá slíka snillinga til að stjórna landinu.

Framsóknarmenn segjast hafa með flutningi margra frv. á Alþingi í vetur sýnt, hvernig þeir vilja leysa vandann. Aðalbjargráðið er að setja upp nýja nefnd, Atvinnumálastofnun ríkisins, sem á að vera þeirrar náttúru að geta úrskurðað nákvæmlega, hvað borgararnir skuli aðhafast á hverjum tíma, og ákveða, hvernig gjaldeyri þjóðarinnar skuli varið. En þó er um leið sagt, að þetta sé ekki nýtt haftakerfi. Hver lætur sér til hugar koma, að ný n., sem enga sérþekkingu hefur á þróun efnahagskerfisins og á að skammta, en þó ekki skammta, af því að það er óvinsælt hjá almenningi, leysi vanda okkar nú?

Það er rétt, að við þurfum að nota sem skynsamlegast takmarkaða fjármuni okkar, og það þarf að koma á margvíslegum umbótum við stofnun og rekstur fyrirtækja. En það á að vera í höndum stofnsjóða atvinnuveganna og viðskiptabankanna að fylgjast með uppbyggingu fyrirtækja og sjá um, að fé sé ekki til þeirra veitt, nema um þjóðnýt fyrirtæki sé að ræða, rekstrargrundvöllur sé til staðar og markaður fyrir framleiðsluvörur og þau kroppi ekki augun hvert úr öðru. Ef atvinnurekstur þjóðarinnar á að komast úr kútnum og nægilega mörg ný fyrirtæki að rísa, verður að fást viðurkenning á þeirri frumforsendu heilbrigðs atvinnulífs, að fyrirtækin verða að geta skilað arði, og það þarf að kveða niður þá hættulegu kenningu, sem stjórnarandstæðingar hafa stöðugt klifað á, að allan vanda fyrirtækja megi leysa með auknu lánsfé. Einmitt erfiðleikar atvinnuveganna nú hafa glöggt leitt í ljós, að það er ekki lánsfjárskortur, heldur hallarekstur, sem þjáir atvinnuvegina. Það er hvorki nýtt eftirlitsráð né haftakerfi, sem leysir vanda okkar í dag, heldur jákvætt viðhorf til atvinnuveganna og viðurkenning á þeim viðskiptalögmálum, sem gilda í heiminum í dag.

Vitanlega þurfum við skipulagningu. En ekki skipulagningu pólitískra ráða og nefnda, heldur skipulagningu atvinnurekendanna sjálfra með aðstoð rannsóknarstofnana, rekstrarsérfræðinga og bankastofnana. Því miður lifa stjórnarandstæðingar í fortíðinni og vilja beita hagstjórnaraðferðum, sem allar þróaðar þjóðir hafa hafnað. Svo sem hv. þm. Eysteinn Jónsson glöggt sannaði í ræðu sinni áðan, hafa hinir pólitísku foringjar Framsfl. ekki enn vanizt af alúreltum haftakerfishugsunarhætti vinstristjórnaráranna, þótt ýmsir forystumenn samvinnufélaganna, sem vegna atvinnurekstrar síns, ekki sízt á sviði iðnaðar, hafi áttað sig á því, að við lifum í heimi frjálsra viðskipta og framtíðarvelferð okkar er því háð, að við skiljum þróunina og tileinkum okkur hana.

Það á vafalaust að kitla eyru iðnrekenda og iðnverkafólks að boða bann á innflutningi alls þess, sem hægt er að framleiða í landinu. Í bili gæti slíkt framferði aukið atvinnu, en hlyti að leiða til rýrnandi lífskjara og koma í veg fyrir nauðsynlega eflingu og skipulagningu iðnaðarins. Enda mun þorri iðnrekenda andvígur þessari stefnu, heldur óska þeir einmitt eftir aðstöðu til þess að geta keppt á frjálsum markaði og framleitt vörur til útflutnings.

Stjórnarandstæðingar tala um verðbólguna sem meginbölvald í þjóðfélaginu, og auðvitað á ríkisstj. að hafa skipulagt hana. Verðbólgan er alvarleg meinsemd í mörgum þjóðfélögum og hefur valdið okkur Íslendingum miklum erfiðleikum, en efnahagsþróun undanfarinna ára hefur gert sérstaklega erfitt að fást við þann vanda hérlendis. Orsökin er hið stórfellda misræmi í greiðslugetu atvinnugreinanna. Hin miklu uppgrip og háa verðlag síldarafurða gerði síldarútgerðinni kleift að rísa undir kaupgjaldi allt til ársins 1967, sem öðrum atvinnugreinum var um megn að greiða, en sem starfsfólk við þær heimtaði. Það hlaut því að leiða til stórhækkandi verðlags innanlands, bæði á búvörum, iðnaðarvörum og margvíslegri þjónustu. Að ríkisstj. hafi stuðlað að verðbólguþróun, er barnaleg fjarstæða, því að auðvitað vill engin ríkisstj. verðbólgu.

Ríkisstj. hefur æ ofan í æ leitazt við að ná samstarfi við verkalýðshreyfinguna um hægfara kaupbreytingar og sér í lagi reynt að stuðla að raunhæfum kjarabótum þeirra lægst launuðu. Það er mikið öfugmæli, að núverandi stjórn hafi átt í stöðugum ófriði við verkalýðshreyfinguna, því að vafasamt er, að nokkur ríkisstj. hafi lagt sig eins fram um að ná einlægu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og bera sáttarorð milli hennar og vinnuveitenda. Ríkisstj. hefur með margvíslegum aðgerðum í peningamálum, svo sem með bindingu sparifjár og vaxtahækkun til að auka sparnað, reynt að sporna gegn verðbólgu og hlotið fyrir óblíð viðbrögð og fordæmingu stjórnarandstöðunnar, síðast nú hjá bankastjóranum, sem var að ljúka máli sínu og áreiðanlega veit betur en orð hans bentu til.

Þá er það eitt ákæruatriði á ríkisstj., að hún hafi látið togaraflotann grotna niður og ekki heldur hirt um að endurnýja minni bátana. Hér kemur fram enn einn misskilningur á eðli vandamála okkar. Við höfum á síðasta áratug sannarlega ekki látið fiskiskipaflota okkar grotna niður, heldur endurnýjað hann að verulegu leyti með stórum og glæsilegum skipum á fáum árum. Það er hins vegar rétt, að ríkisstj. hefur ekki fyrirskipað gerð þessara skipa, heldur hafa útgerðarmenn ráðið henni sjálfir. Og þeir hafa ákveðið gerð skipanna eftir þeim veiðum, er þeir töldu þá arðbærastar og voru það tvímælalaust. Átti að banna útgerðarmönnum að kaupa þessi skip og skipa þeim að láta smíða minni báta eða togara? Það hefur engum verið synjað um fyrirgreiðslu til þess að kaupa hvorki togara né minni báta, en allir vita, að togaraútgerðin hefur verið rekin með stórhalla og því skiljanlegt áhugaleysi togaraútgerðarmanna að ráðast í ný skipakaup af því tagi, meðan betri starfsgrundvöllur var ekki fyrir hendi, og hefur þó togaraútgerðin verið styrkt mjög umfram aðra útgerð hin síðari ár. Vonandi tekst að finna gerð togara, sem reynist arðbær í rekstri, en það atriði er afgerandi að vonum um eflingu þessarar tegundar fiskiskipa. Hin stóru síldarskip voru forsenda hinna miklu síldveiða og hafa fært okkur geysilega björg í bú, og flest þeirra henta til togveiða. Þá liggja margir stjórninni á hálsi fyrir að hafa leyft of margar síldarverksmiðjur. Hver var á móti þeim, þegar þær voru reistar? Eða voru kannske Lúðvík Jósefsson og Eysteinn Jónsson á móti hinum mörgu verksmiðjum á Austurlandi? Komi síldin aftur, sem við verðum að vona, munu líka áreiðanlega allir gleðjast yfir því, að þær skuli vera til.

Báðir formenn stjórnarandstöðunnar töluðu hér í fyrrakvöld um dæmalaust sukk og óreiðu í ríkisfjármálum, og sérfræðingur Framsóknar í ríkisfjármálum, hv. þm. Halldór E. Sigurðsson, helgaði meginhluta ræðu sinnar því viðfangsefni að sanna fjármálaóstjórnina. Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram, að ég hafi unnið stór afrek sem fjmrh., en maður þreytist óneitanlega á að heyra stöðugt klifað á óstjórn og fjármálasukki, án þess að nokkur tilraun sé gerð til þess að færa rök fyrir slíkum fullyrðingum. Hvar eru sparnaðartill. þessara manna, og hvenær hafa þeir snúizt gegn nýjum ríkisútgjöldum? Ár eftir ár hafa þeir verið inntir eftir till. sínum til lækkunar ríkisútgjalda, en svarið hefur jafnan verið það, að þeir hefðu ekki aðstöðu til að gera slíkar till. við afgreiðslu fjárl. vegna skamms tíma. Þeir hafa hins vegar haft nægan tíma til þess að semja till. um ný útgjöld, sem stundum hafa numið hundruðum millj. Og nú síðast í ræðu sinni skýrði Halldór E. Sigurðsson frá því sem einu höfuðbjargráði Framsóknar í efnahagsmálum að fella niður söluskatt af ýmsum nauðsynjavörum, sem hefði rýrt ríkistekjur um 250 millj. kr. Og enn fremur bætti hann við, að fjarstætt væri, að Vegasjóður fengi ekki allar tekjur af umferðinni, sem mundi enn rýra tekjur ríkissjóðs um 200–300 millj. Samtímis átaldi þessi ræðumaður hversu framlög ríkissjóðs til verklegra framkvæmda hefðu minnkað hlutfallslega. Framlög þessi hafa raunar vaxið síðustu árin miklu meira en verðhækkunum nemur. En ekki hefði enn meiri hækkun þeirra minnkað vanda ríkissjóðs.

Tvö dæmi benti ræðumaður á til samdráttar útgjalda. Annað var að átelja 149 þús. kr. greiðslur til stjórnarnm. við Skipaútgerð ríkisins, sem settir voru þar við hlið forstjóra á árinu 1967, þegar halli útgerðarinnar var kominn fram úr öllu hófi. Fengu menn þessir í byrjun hálf forstjóralaun, enda lögðu þeir fram geysimikla vinnu, en launin höfðu verið lækkuð, þegar yfirskoðunarmenn gerðu athugasemd sína. Hv. þm. láðist hins vegar að geta þess, að þrátt fyrir hækkandi verðlag tókst með endurskipulagningu Skipaútgerðarinnar að lækka halla hennar um 10 millj. kr., svo að ég tel menn þessa fyllilega hafa unnið fyrir kaupi sínu.

Hin ábending hv. þm. til sparnaðar var að sameina útgerðarstjórn ríkisskipa, sem ég skýrði frá í fjárlagaræðu minni s. l. haust, að ákveðið væri að gera, tveimur mánuðum áður en hv. stjórnarandstæðingar bentu á þetta í nál. Þá taldi sami hv. þm. og einnig Lúðvík Jósefsson með enn stærri orðum, að ekki hefðu enn verið settar fastar reglur um greiðslu bifreiðastyrkja og um bifreiðaafnot ríkisstarfsmanna, og lét Lúðvík Jósefsson af hógværð sinni sig ekki muna um að segja, að hér væri um milljónatuga útgjöld að ræða.

Hversu auðvelt er að spara í ríkiskerfinu, sýndi sig bezt í fyrra, er ég lagði til að lækka ríkisútgjöld um 140 millj. kr. Þá fundu stjórnarandstæðingar þeim till. flest til foráttu. Síðan hagsýslustofnun fjmrn. var sett á stofn hefur ný aðstaða skapazt til aðhalds í ríkiskerfinu og margar ráðstafanir verið gerðar til sparnaðar og aukinnar hagkvæmni í ríkisrekstrinum. Mér komu raunar ummæli hv. þm. Halldórs E. Sigurðssonar og tónninn í ræðu hans töluvert á óvart. Því að fyrir ári var sett á laggirnar að frumkvæði mínu sérstök undirn. fjmrn., skipuð fulltrúum allra flokka, þ. á m. Halldóri E. Sigurðssyni, er koma skyldi með í samráði við hagsýslustjóra ábendingar um sparnað í ríkiskerfinu. Í þeirri n. hefur allt verið með friði og spekt og hið ágætasta samstarf og auðvitað komið glöggt í ljós, að allt tal um gegndarlaust sukk í ríkiskerfinu er að meginefni til pólitískur frasi. Víða má auðvitað hagræða og endurskipuleggja, og um það eru engar deilur milli n. og rn., en stórsparnaður án skerðingar þjónustu ríkisins við borgarana er ekki gerlegur. Mér komu sérstaklega á óvart aðfinnslurnar um, að ekki skyldu vera tilbúnar reglur um ríkisbíla, ekki aðeins vegna þess að ekki hefur tekizt að fastmóta slíkar reglur í áratugi, — ég get vafalaust verið ánægður með, að til þess er ætlazt af mér, sem fyrirrennurum mínum hefur ekki tekizt, — heldur fyrst og fremst vegna þess, að um það bil hálft ár mun vera liðið síðan ég sendi drög að slíkum reglum til umsagnar n. þeirrar, sem Halldór E. Sigurðsson á sæti í.

Ríkisbúskapurinn hefur nú verið rekinn með verulegum halla í tvö ár, og getur slíkt ekki gengið lengur. Orsök þess, að ekki hefur af mér verið gerð krafa um meiri skattheimtu, er einfaldlega sú, að í von um batnandi tíma var talið rétt að taka á sig nokkra áhættu um afkomu ríkissjóðs fremur en að framkvæma aukna kjaraskerðingu, miðað við allar aðstæður. Margir spyrja einnig: Hvað ætlar ríkið að spara, þegar fórna er krafizt af almenningi? Spurningin er skiljanleg, en svarið ætti einnig að vera skiljanlegt. Meginþorri ríkisútgjalda er tengdur margvíslegri þjónustu við borgarana, þannig að verulegur niðurskurður ríkisútgjalda hlyti að leiða til minni þjónustu við þá og þá í mörgum tilfellum til enn frekari kjaraskerðingar. Mjög oft er líka dregið úr kjaraskerðingu með nýjum ríkisútgjöldum í einhverju formi. Sparnaðurinn mundi þá helzt verða á sviðum, sem veita atvinnu, þannig að samdráttur hjá ríkinu á atvinnuleysistímum mundi auka á vandann. Hitt er ljóst, að á erfiðleikatímum verður að sporna með öllum mætti gegn útþenslu ríkiskerfisins, og það fullyrði ég, að gert hefur verið eftir föngum síðustu árin.

Hv. þm., Lúðvík Jósefsson, ræddi nokkuð kísilgúrverksmiðjuna og taldi hana vera dæmi um misheppnaða fjárfestingu og misheppnaða samvinnu við útlendinga. Ég hef ekki tíma til að ræða það mál, en ég staðhæfi, að þrátt fyrir byrjunarörðugleika, sem allir gerðu ráð fyrir, að einhverjir yrðu í sambandi við framleiðslu, sem hvergi í heiminum er þekkt við þessar aðstæður, er engin ástæða til annars en gleðjast yfir þeim framkvæmdum. Framleiðsluörðugleikarnir hafa verið yfirunnir, varan er sambærileg við það bezta á heimsmarkaðinum og salan er tryggð. Það er rangt, að byggingarkostnaður fyrri áfanga verksmiðjunnar hafi farið fram úr áætlun, þótt krónulega sé hann verulega hærri á nútíma gengi, sem skiptir ekki máli, þegar öll framleiðslan er seld erlendis. Og viðbótarstækkun er mjög hagkvæm, kostar um 200 millj. kr., en eykur framleiðsluverðmæti um 120 millj. kr. á ári.

Stjórnarandstæðingar tala nú mikið um, að raunverulega sé þjóðin gjaldþrota vegna óhæfilegra skulda erlendis, og bera af stolti saman núv. stjórn og fyrirmyndarstjórnina á vinstristjórnarárunum. Eðli skuldabyrðarinnar nú og þá er allt annað. Þá voru lausaskuldir um allt og fullkomin vantrú á efnahagskerfi þjóðarinnar. Meginhluti skuldanna nú eru langtímalán, og Ísland nýtur þess trausts hjá alþjóðastofnunum, sem viðurkenna, að við eigum við erfiðleika að stríða, sem eru okkur óviðráðanlegir, að aðstaða okkar að mæta greiðsluerfiðleikum nú er allt önnur. Það er rétt, að greiðslubyrðin er nú rúm 15% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, sem er allt of mikil greiðslubyrði til lengdar, en varð 11% 1961 vegna afleiðinga skuldasöfnunar vinstristjórnaráranna og var þá talin óhæfileg. Greiðslubyrðin nú hefur ekki aukizt hlutfallslega vegna erlendra lántaka síðustu árin, heldur vegna hins geysilega samdráttar í gjaldeyristekjum, sem hefur nær tvöfaldað greiðslubyrðina. Án þessara áfalla væri hún á engan hátt varhugaverð, því að rúmlega öll skuldaaukning áranna 1963–1968 er vegna nýrra gjaldeyrisskapandi framkvæmda. Fyrst og fremst vegna Landsvirkjunar, Straumsvíkurhafnar og flugvélakaupa, sem allt skapar nýjar gjaldeyristekjur, og er því algerlega villandi að tala um þær skuldir sem kvaðir á fyrri gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Til viðbótar eru svo verulegar lántökur vegna nýrra fiskiskipa. Þýzka lánið nú er miklu hæpnara, en réttlætist eingöngu af hinni brýnu nauðsyn þess að afla fjár til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og leysa ýmsar brýnar þarfir, enda enginn ágreiningur um þá lántöku á Alþingi. Frekari lántökur tel ég ekki koma til greina, nema um nýja gjaldeyrisöflun sé að ræða.

Að lokum bendi ég á þá staðreynd, að þegar talað er nú um 12.5 milljarða greiðslubyrði, er hún fyrir þjóðarbúið engin skuldahækkun frá því að vera rúmir 6 milljarðar á árinu 1967, því að gengisbreytingarnar hafa auðvitað ekkert hækkað skuldirnar fyrir þjóðarbúið í heild, þótt einstakir skuldarar verði fyrir áföllum.

Herra forseti. Núverandi stjórnarstefna er ekkert launungarmál. Hún er í meginefnum hin sama stefna frjálsræðis og alhliða uppbyggingar með hagnýtingu allra náttúruauðlinda, samvinnu við frjálsar þjóðir og alhliða eflingu atvinnulífs með innlendu og erlendu fjármagni og verið hefur undanfarin 10 ár. Við bendum þjóðinni hiklaust á þá erfiðleika, sem við er að glíma, og drögum enga dul á, að hún verði að taka á sig kjaraskerðingu tímabundið, en sá tími verði því skemmri sem nauðsynlegum aðgerðum nú verði mætt af meiri skilningi. Við leggjum áherzlu á, að afkoma atvinnuveganna er undirstaða lífskjaranna og aðeins með eflingu þeirra, aukinni hagkvæmni í rekstri þeirra og meiri fjölbreytni þeirra, örvun framtaks og hugvits einstaklinganna takist okkur að yfirstíga erfiðleika okkar á tiltölulega skömmum tíma.

Við teljum, að nýtt haftakerfi væri stórt og hættulegt spor aftur á bak, mundi auka kjaraskerðinguna, en ekki draga úr henni og mundi rýra aðstöðu okkar til framleiðslu varnings, sem samkeppnisfær væri á erlendum mörkuðum.

Þjóðin á svo mikið í húfi nú, að hún má ekki láta þá menn villa sér sýn, sem reyna að halda að henni villukenningum um, að hér væri allt í lagi, ef aðeins nýir menn með nýjar aðferðir tækju um stjórnvölinn. Þetta skiptir engu máli fyrir okkur, sem nú sitjum í ráðherrastóli, því að ef aðeins væri um persónulegar tilfinningar okkar að ræða eða metnað, er sjálfsagt, að við víkjum, enda eru það áreiðanlega ekki við, sem horfum mest á stjórnarstólana svo sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson talaði um í fyrrakvöld.

Það, sem máli skiptir, er framtíðarheill þjóðarinnar. Á miklum erfiðleikatímum getur engin stjórn vænzt fagnaðarópa frá fólkinu, og á slíkum tímum er alltaf tiltölulega auðvelt fyrir lýðskrumara að fá klapp. En enginn kemst hjá að íhuga, hvað tekur við, ef þeirri forystu er hafnað, er menn á hverjum tíma hafa. Stjórnarandstaðan hefur tvímælalaust fallið á því prófi, sem lýðræðisskipulagið leggur fyrir stjórnmálamenn sína á örlagastundu. Spurningin er aðeins sú, hversu mikil gifta þjóðarinnar er, því að þegar allt kemur til alls, er það sú stóra kvöð, sem lýðræðið leggur þjóðfélagsborgurunum á herðar, að taka sjálfir lokaákvörðun um stjórnmálaforystu sína. — Góða nótt.