20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Í hádegisútvarpi var lesin frétt eða tilkynning frá gjaldeyrisbönkunum þess efnis, að gjaldeyrisviðskipti væru felld niður um sinn og þangað til öðru vísi yrði ákveðið. Ég vildi leyfa mér að mælast til þess, að hæstv. ríkisstj. og þá sérstaklega hæstv. bankamálaráðh. gæfi þingheimi nánari skýringu á þessari ákvörðun. Fólk spyr, hvað hér sé að gerast. Fólk spyr, hvort það megi á næstunni vænta viðbótargengisfellingar. Er jörðin að skríða undan fótum okkar? Ég skal á þessu stigi engan dóm leggja á þessa ákvörðun. Ég kemst hins vegar ekki hjá því að vekja athygli á því furðulega ósamræmi á milli þess, sem nú er gert, og þess, sem var að gerast hér á hv. Alþ. á mánudaginn í fyrri viku. Þá var verið að afgreiða hér mál um ráðstafanir vegna gengisbreytingar. Þá var gjaldeyrisbönkunum lokað einn dag. Það var talin höfuðnauðsyn á, að þetta mál yrði afgreitt þá samdægurs, vegna þess að manni skildist, að traust landsins út á við væri í hættu, ef ekki væri hægt að opna gjaldeyrisbankana á réttri stundu næsta dag. Og til mín komu þá bæði hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh. og lögðu á það þunga áherzlu, að þetta mál næði fram að ganga, svo að bankarnir gætu hafið gjaldeyrisviðskipti næsta dag. Og jafnvel bankastjórar höfðu samband við mann út af þessum tíðindum og lögðu áherzlu á það, að hægt væri að opna bankana. Manni skildist þá, að einhver ósköp mundu ske, ef ekki væri hægt að opna gjaldeyrisbankana þegar á venjulegum tíma á þriðjudag. Og svo mikil áherzla var á þetta lögð, að okkur þm. Ed. var haldið á næturfundi fram undir kl. 5.

Nú er gjaldeyrisviðskiptum lokað, ekki einn dag, ekki um neinn ákveðinn tíma, heldur þangað til öðru vísi kann að verða ákveðið. Ég tel víst, að þeir, sem þessa ákvörðun hafa tekið, hafi í höndum miklu fyllri upplýsingar um þetta efni heldur en þær, sem heyra mátti í útvarpi, og ég tel æskilegt, að þær upplýsingar komi hér fram, þannig að þingheimur geti frekar áttað sig á þeim tíðindum, sem hér kunna að vera í vændum, og þjóðin öll.

Það hefur verið kunnugt, að það hefur leikið orðrómur á því, að frankinn mundi vera í hættu. Nú er mér ekki kunnugt um það, að Ísland hafi haft ýkja mikil viðskipti við Frakkland, og veit þess vegna ekki, hvort ástæða mundi vera til að hætta gjaldeyrisviðskiptum á Íslandi, þó að gengisbreyting kynni að vera í vændum á frankanum. En hitt má vel vera, að gengisbreyting á frankanum, ef til kæmi, dragi meiri slóða á eftir sér. Og þá er rétt, að það sé hér upplýst, ef kostur er. Eitt er víst, að þeir vísu menn, sem peninga- og gjaldeyrismálum ráða hér á landi, hafa sjálfsagt ekki hrapað að ákvörðun sem þessari, og eitthvað hlýtur á bak við að búa, og það vænti ég, að hæstv. viðskmrh. upplýsi hér á eftir.